6.18.2015

Opinberunarbókin

Það bjargast ekki neitt ...

Textinn
Samanburður
Kynning

Biblían hefst á sköpun heimsins og lýkur á heimsendi. En ekki hvað? Opinberunarbókin greinir frá stórfenglegri skoðunarferð sem engill á vegum Guðs og Krists bjóða höfundi hennar í um fortíð, nútíð og þá nánustu framtíð sem markar endalok tímans og endursköpun heimsins eftir dóminn þar sem mannkynið verður flokkað í hina blessuðu og þá bölvuðu. Reyndar er stundum látið að því liggja að þessi flokkun sé fyrirfram ákveðin, en við skulum ekki hengja okkur í þá þrætubók alla, látum Votta Jehóva um það. Hér er margt að skoða og dást að.

Þetta er frábær texti. Vissulega mjög „biblískur“ en talsvert betri en mjög margt annað í bókinni góðu, sem ekki er nú öll sérlega rishá, verður að segjast. En þessi er flott. Líka upphafskaflinn sem efnislega greinir sig ekki nema í smáatriðum frá öðrum „eftirkriststextum“. Hér er trúarstálinu stappað í sjö asíska söfnuði og þeim gefin loforð. Eins og bréfritarar undangenginna kafla hafa keppst við að gera. Bara ekki eins vel.

Forvitni vekja tvö smáatriði – aðallega af því að á þeim finn ég ekki skýringar.

Annarsvegar aðvaranir vegna „Nikólíta“ sem bréfritari hatar og virðast herja á trúaða í Efesus og Pergamos. Ekki er vitað með vissu hvað þessi villutrúarsöfnuður vann sér til óhelgi, en síðari tíma spekingar töldu/giskuðu m.a. á sifjaspell og stóðlífi, en líka á torskilda trúvillu sem kallast „antinómíanismi“ og tengist afstöðu til róta siðlegrar breytni og mikilvægis hennar fyrir frelsun/réttlætingu. Og virðist í fljótu bragði vera nokkuð meinstrím ef hortft er með mínum leikmannsaugum. En postularnir eru reyndar svo margsaga um það mál að ég nenni ekki að opna þá þrætubók.

Hinsvegar þessar skrítnu samstofna setningar í orðsendingunum til Smyrnu og Fíladelfíu:


Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim sem segja sjálfa sig vera Gyðinga en eru það ekki, heldur samkunda Satans (2. 9)

og

Ég skal láta lygarana af samkundu Satans, sem segjast vera Gyðingar en eru það ekki,  koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig. (3. 9)

Í fyrsta lagi: Gyðingar? Þetta eru skilaboð til kristinna söfnuða í Litlu-Asíu, sem fæstir eru sennilega af gyðinglegum uppruna, heldur „sóknarbörn“ Páls úr heiðingjasamfélögunum. Og fólk sem þykist vera Gyðingar – „gervigyðingar“? Hvað skyldi það nú vera fyrir nokkuð? Allavega eitthvað ógurlega slæmt. „Samkunda Satans“, no less.

Reyndar þykir mér hin gyðinglega nálægð í bréfum þeirra sem ekki eru Páll vera mun meiri en ég hefði fyrirfram búist við. Skilin þarna á milli óskýrari, mótsagnarkenndari en þó um fram allt teygjanlegri en ég hafði talið eftir hinn afdráttarlitla andsemitisma guðspjallanna. En vissulega er svolítið eins og þeir textar séu fornkirkjufeðrunum ekki gjörkunnir, eins og ég hef áður minnst á..

Nóg um það.

Þó þessi upphafskafli sé flottur þá er það fyrst þegar sýnirnar byrja sem Jóhannes fer á flug. Við verðum samt að byrja á að skoða hver opinberar hverjum hvað. Hér er ættartala upplifunarinnar:



Opinberun Jesú Krists sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum, sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá. Sæll er sá er les þessi spádómsorð, og sælir eru þeir sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað því að tíminn er í nánd. (1. 1–3)

Sæll er sá sem hendir reiður á til hvers persónufornafnið „hann“ vísar í hvert sinn í þessum texta og hver sýnir hverjum hvað og á hvers vegum. Hvað þá hversvegna. En það skiptir samt minnstu máli. Myndin er að byrja.

Og sú er mögnuð. Og hefur orðið efni í ótal aðrar af öllu tagi og í öllum formum. Og, það verður að segjast, sækir óspart í Jesaja, Esekíel og Daníel í skrímslasmíð sinni.

Allskonar aðöðruleyti sæmilega útlítandi verur sitja uppi með sjö augu og/eða höfuð. Og/eða höfuðskraut. Allt í þágu tölspekinnar.

Ah, tölspekin.

Í lestri Opinberunarbókarinnar opinberast ekki síst þörf okkar fyrir merkingu. Tölur hafa merkingu, sjö og tólf sérstaklega, og margfeldi þeirra. Og svo erum við viss um að við séum ekki bara að skapa merkingu með lestri og túlkun, heldur sé hin dulda merking í alvörunni þarna, sett þar af höfundinum og/eða þeim sem sýndi honum sýnirnar.

Ég nenni ekki svona táknakjaftæði. Mér finnst alveg sniðugt að ef maður gefur bókstöfum tölugildi (væntanlega á grísku, eða þá hebresku) þá sé grískt nafn Nerós, „Neron Caesar“ samasem 666. En mér finnst líka sniðugt að 666 er fjarlægðin milli Vopnafjaðar og Borgarness, og Reykjahlíðar og Ísafjarðar. Í kílómetrum. Guð veit hvaða fjarlægðir eru 666 mílur. Eða þingmannaleiðir. Eða desilítrar. Eða hvað Judas Priest syngur afturábak. Og ég meina “Guð veit” alveg bókstaflega.

Mér finnst þetta ekki sérlega skemmtilegur samkvæmisleikur. Aðallega get ég ekki litið á þetta sem annað en samkvæmisleik.

Það leikur enginn vafi á því að Opinberunarbókin er dulsaga, en ekki bara spennanndi ævintýri með skrímslum og svoleiðis. Og það er vonlaust annað en að trúa því að „söguþráðurinn“ sé svona glórulaus, endurtekningarsamur og höktandi af því að allt sem sagt er frá stendur fyrir eitthvað sem þegar hefur gerst – misrökvís atburðarás sem þarf að fylgja svona nokkurnvegin með tilheyrandi kenjum. Ef við skiljum þetta ekki þannig er framvindan bara of skrítin, og ekki samboðin jafn flinkum sögumanni og Jóhannes hefur augljóslega verið.

Og þegar klárlega er horft fram í tímann – eftir að Satan, Gog og Magog hefja sína lokaorrustu við hin góðu öfl – verður framvindan alveg rökvís, skýr og vel fram sett.

En bætir hún einhverju við? Er ekki löngu ljóst í guðspjöllum og bréfum, Gamlatestamenntisspádómunum þess vegna, að Messías mun snúa aftur – fólki kynslóðanna verður skipt í hina verðugu og óverðugu og dæmt eftir því? Hefur nokkur málsmetandi umboðsmaður Guðs legið á þeim fréttum að svona verður þetta? Þeim mun skrítnara að það þurfi að pakka öllu inn í svona mikið dulmál, þar sem menn giftast borgum sem kannski eru konur og öðrum verður eytt af því að þær eru of graðar og nota of mikið ilmvatn.


Ef hinir almáttugu eru að sýna einhverjum útvöldum mannkynssöguna í nútíð og framtíð þá á ég mjög erfitt með að skilja af hverju er ekki hægt að gera það bara, án milligöngu básúna, rauðra dreka og Babýlonshóra sem kannski eru Rómaborg.

Allavega hefur þetta gefið upp boltann fyrir rugludalla síðustu 2000 ára eða svo, sem og búið til nokkur þúsund ára skekkjumörk á hvenær hinir boðuðu atburðir verða.

En mögnuð bók.

Eins og skáldið sagði: „Full of Sound and Fury.“

6.11.2015

Jóhannesarbréf og Júdasar

PS ...

Textinn (Jóhannes 1, Jóhannes 2, Jóhannes 3, Júdas)
Samanburður (Jóhannes 1, Jóhannes 2, Jóhannes 3, Júdas)
Kynning (Jóhannesarbréf, Júdas)


Bréfakafla Biblíunnar lýkur á fjórum bréfum, einu sæmilega löngu og þremur stuttum. Sem er einmitt „B“ í morsstafrófinu. Tilviljun? Já ætli það ekki bara. Það er líklega líka tilviljun að bréfin standa saman, enda ekki efnislega samstæð. Höfundarnir báðir (líklega) í postulahópnum, en það voru nú Pétur og Jóhannes líka. Og um sum bréfanna er alveg hægt að velta fyrir sér hvaða erindi þau eiga í svona grundvallarrit.

Förum yfir þetta í þremur bútum.


Fyrsta almenna bréf Jóhannesar

Þetta er langviðamesti textinn af þessum fjórum. Og næsta víst að hér stýrir penna sami höfundur og skrifaði Jóhannesarguðspjall. Hér er líkingaþrungið mál með stórum orðum sem bréfritari leggur í djúpa skáldlega merkingu.

Ljós. Myrkur. Orð. Sannleikur. Réttlæti. Synd.

Stundum finnst manni orðin taka völdin af höfundinum og heimsmyndin verða jafnvel einfaldari og afdráttarlausari en hann í rauninni vill.



Hver sem synd drýgir fremur lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot. Þið vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd. Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
Börnin mín, látið engan villa ykkur. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur. Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn hefur syndgað frá upphafi. (3. 4–8)

Ekkert svigúm fyir breyskleika eða svoleiðis pjatt hér. Og þessi skemmtilega röklausa rökhenda:



Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ og hatar bróður sinn, er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. (4. 20)

Þó tilgangurinn sé fallegur – að hvetja fólk til að vera almennilegt hvert við annað – þá þykir manni kannski dálitið langt seilst að segja það djöfullegt ef því gengur illa að elska þann misjafna sauð sem meðbræður okkar eru. Svo eru hún stundum dálítið yfirgengileg þessi kristilega yfirtaka kærleikshugtaksins:

Þér elskaðir, elskum hvert annað, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. (4. 7–8)

Ég hef minnst á það áður að Biblíubréfin virðast mér hafa tvö meginhlutverk:

a) Að leiðrétta, en þó fyrst og fremst andmæla, hugmyndum annarra sem stangast á við það sem bréfritari telur rétta kenningu. Þetta á fyrst og fremst við Pálsbréf.

b) Að hvetja viðtakendur til trúfesti, þolgæði og réttrar breytni.

Fyrir vikið er ekki í þeim að  finna kerfisbundna útlistun hinna réttu hugmynda, né heldur skýrar og/eða sannfærandi röksemdir fyrir þeim. Bréfin ganga út frá skilningi og þekkingu viðtakendanna á því sem hyggjumst og þurfum að sækja í þau.

Þetta er í senn spennandi og pirrandi.

Í öðru Pétursbréfi er minnst á fallna engla – annar tveggja staða í Biblíunni sem þeir koma við sögu – og af orðalaginu er augljóst að verið er að vísa í sögu sem allir ætlaðir viðtakendur bréfsins þekktu og trúðu.*

Hér mætir önnur þekkt persóna á sviðið, kannski skyld óþekktarenglunum, en kannski ekki.

Börn mín, hin síðasta stund er upp runnin. þið hafið heyrt að andkristur kemur, …

Það fer auðvitað hrollur um okkur þegar við heyrum þetta. Í okkar hug er þetta löngu orðið að sérnafni, næstum eða alveg samheiti við djöfulinn, pokurinn, Lúsífer, Belsebúbb og Satan, sem auðvitað þýðir „andstæðinur“. Óvininn.

Og Jóhannes veit greinilega að hugtakið er kunnuglegt viðtakendunum. „Þér hafið heyrt …“ En hann leggur nú samt ekki hina persónubundnu merkingu í orðið, sem okkur er orðin töm, því setningin heldur áfram:

... og nú eru líka margir andkristar komnir fram. (2. 18)

og síðan:



Þeir komu úr okkar hópi, en heyrðu okkur ekki til. (2. 19)

og

Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum. (2. 22)

Andkristur virðist því ekki vera persóna heldur bara þessi venjulegi trúvillingur. Sem eru auðvitað alltaf mikið verra fólk en „fæddir“ heiðingjar, um það eru kristnir og múslimar sammála. Samt tengir Jóhannes „komu“ andkristanna við „hina síðustu stund“, heimsendinn og dóminn sem allir bíða óþreyjufullir eftir. Og:



Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum. (4. 2-3)

 Hér virðist aftur vera á ferðinni sú nautn sem Jóhannes hefur af því að að vera afdráttarlaus í sinni með-eða-á-móti boðun. En þannig verður til sú tilfinning að hér fari einstaklingur af yfirnáttúrlega taginu, gengst þannig til í munni predikara og túlkenda öldum saman þar til hr. Antikristur telst fullskapaður og tilbúinn til að láta Gabriel Byrne leika sig í slag í End of Days.

Allt vegna þess hvers eðlis Biblíubréfin eru.

Annað og þriðja almenna bréf Jóhannesar

Tvö örstutt einkabréf sem lítið er um að segja. Annað en kannski að undrast hvað þau eru að vilja upp á dekk í Kanónunni. Í því fyrra er reyndar minnst á andkrist í fimmta og síðasta sinn, nú með örlitilli áherslubreytingu:

Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn sem maður. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn. (1. 7)

Ekki endilega yfirnáttúruleg vera, en heldur ekki bara undanvillingur úr söfnuðinum, heldur beinlínis boðberi villunnar.


Bréfin eru bæði stíluð á einstaklinga, hið fyrra á ónefnda konu en hið síðara á Gaíus nokkurn. Bæði eru hvatningarbréf og aðvaranir gegn villuboðurum, þó orðið “andkristur” sé aðeins notað í því fyrra.

Lokaorð beggja vekja athygli:

Þótt ég hafi margt að rita ykkur vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki heldur vona að koma til ykkar og tala munnlega við ykkur til þess að gleði okkar verði fullkomin. Börn systur þinnar, hinnar útvöldu, biðja að heilsa þér. (2. bréf, 12–13, leturbreyting mín)

Og

Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna. En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við augliti til auglitis. (3. bréf 13–14, leturbreyting mín)

Það er greinilega tími ofsókna og ritskoðunar. Sennilega á vegum Antikristanna.


Hið almenna bréf Júdasar

Hér kveður sér hljóðs annar af sonum Maríu, og sá sem var óheppnastur með nafn, svona eftir á að hyggja. Bókin byrjar á hógværasta neimdroppi bókmenntasögunnar:

Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, (1, leturbreyting mín)

„Hæ, ég heiti Artúr. bróðir Begga, þú veist, gítarleikara í Egó“.

Annars er þetta endurtekið efni. Nánar tiltekið, endurtekið úr bréfum Péturs. Eins og þar koma fallnir englar við sögu. Júdas tilgreinir allskyns dæmi úr sögu Gyðinga til að stappa stálinu í hina vantrúðu. Sumt hefur kannski eitthvað skolast til á langri leið:

Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla himnaverum. Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að saka djöfulinn um guðlast, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: „Drottinn refsi þér!“ (8–9)

Veit ekki alveg um þetta rifrildi Mikaels og Djöfulsins um lík Móse. Neðanmáls er vísað í vers í Daníelsbók þar sem Móses kemur ekki við sögu.

Látum þar við sitja. Og þökkum að lokum Júdasi og þýðendum hans fyrir hið fallega orð „draumvilltir“.



* Ég fór á grúskstúfana og fann út að helsta heimildin um fallna engla er Enoksbók, sem er svo apókríf að hún fær ekki einu sinni að fljóta með apókrífu bókunum í kristnu biblíunni. Ætla nú samt að lesa hana við tækifæri.

6.06.2015

Jakobsbréf og Péturs

Fyrir hönd aðstandenda

Textinn (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)
Samanburður (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)
Kynning (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)

Þrjú bréf, eignuð (með mismikilli vissu) tveimur mönnum sem stóðu Kristi nær en flestir eða allir. Ekki er hann nú heilt yfir í aðalhlutverki frekar en fyrri daginn. Páll er með fjarvistarsönnun, en bróðir og besti vinur?

Hið almenna bréf Jakobs

Jakobsbréfið er kannski merkilegast fyrir höfund sinn. Jakob þessi er nefnilega hvorki meira né minna en bróðir Jesú. Eða hálfbróðir, væntanlega. Kannski skýrir það veru bréfsins í kanónunni, því ekki bætir það miklu við. Reyndar er sterkur gamaltestamenntisblær á því. Spakmælasafn eins og nokkur sem þar er að finna.

Enn vekur athygli fjarvera Krists úr textanum. Eins og Páll þá er eins og og Jakob hafi ekkert um orð hans að segja, vitnar ekki í hann, leggur ekki út af orðum hans eða túlkar dæmisögur eða athafnir. Páll var vissulega með „fjarvistarsönnun“, en hvað veldur þögn Jakobs?

Annars er Jakob mun meira umhugað um að menn láti trúna stýra verkum sínum en Páll. Það blandast ágætlega saman við hið klassíska minni fornra spekirita að skamma ríka og upphefja þá fátæku:

Hvað stoðar það, bræður mínir og systur, þótt einhver segist hafa trú en sýnir það eigi i verki? Mun trúin geta frelsað hann? Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og eitthvert ykkar segði við þau: „Farið í friði, vermið ykkur og mettið!“ en þið gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin. (2. 14–17)

Og Jakob sækir rökstuðning fyrir því að verk trompi trú aftur í fornöldina, en minnist ekki á bróður sinn í því samhengi:

Réttlættist ekki Abraham faðir okkar af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið? Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum. (2. 21–22)

og:

Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið? (2. 25)

Semsagt: meira að segja verk án trúar teljast til réttlætingar.

Innanum eru síðan spakleg mæli og forvitnilegar líkingar:

Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. Því að hlýði einhver á orðið án þess að fara eftir því er hann líkur manni er skoðar andlit sitt í spegli. Hann skoðar andlit sitt, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig það var. (1. 22–24)

og þessi ágæta brýning um að hafa taumhald á tungu sinni, mikilvægi þess og vandkvæði:

Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum. Ef við leggjum hestunum beisli í munn til þess að þeir hlýði okkur, þá getum við stýrt öllum líkama þeirra. Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill. Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. (3. 2–5)

Vel mælt.

Annars hvarflar athygli og umhugsun lesandans óneitanlega að bréfritaranum sjálfum. Bróðir Jesú? Hvernig ætli það hafi verið? Allavega er ljóst að ef maður ætti þess kost að eiga orðastað við Jakob væru fyrstu spurningarnar ekki um hvort trú dugi til réttlætingar, eða hversu mikilvægt sé að hlú að fátækum. Meira svona: Segðu mér frá barnæskunni.


Hin almennu bréf Péturs

Jakob Jósefsson er kannski Carl Wilson eða Marlon Jackson, eða í versta falli Lýður Ægisson Biblíunnar, en það kemur hinsvegar nokkuð á óvart að Símon Pétur skuli vera Barbara Cartland góðu bókarinnar. Eða þannig skil ég lokaorð fyrra Pétursbréfs:

Ég hef látið Silvanus, sem er trúr bróðir í mínum augum, skrifa þetta stutta bréf til þess að hvetja ykkur og vitna hátíðlega að þetta er hin sanna náð Guðs. (1. bréf, 5. 12)

Er alls ekki til í að sjá þetta öðruvísi fyrir mér en Pétur makindalegan í bleikum kufli, liggjandi á legubekk og lesandi fyrir að hætti Barböru.Og Silvanus með pennann á lofti að fanga gullkornin.

Reyndar er síðar Pétursbréf víst ekki lengur eignað honum, ekki frekar en við vitum með vissu hversu mikið ritarar ástarsögudrottningarinnar eiga í hennar verkum.

Það kveður við nokkuð annan tón í þessu bréfi. Hér er ekki í forgrunni þyrrkingsleg guðfræði Páls, né heldur Gamaltestamentisbölbænir Hebreabréfs og Jakobs. Ást á Kristi gegnsýrir textann, jafnvel svo að manni þykir nóg um:

Segið þvi skilið við alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal. Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ómenguðu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis, enda „hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.“ (1. bréf 2. 1–3)

Hinsvegar er hann á sama máli og Páll hvað varðar undirgefni við valdhafa, sem jafnvel þó hundheiðnir séu virðast vera á vegum Guðs:


Verið Drottins vegna hlýðin allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel. Því að það er vilji Guðs að þið þaggið niður í vanþekkingu heimskra manna með því að breyta vel.  (1. bréf 2. 13–15)

Vissulega er saga af því að Pétur hagi seglum eftir vindi í samskiptum við utantrúarfólk. Þó er alveg ljóst, eins og þá, af hverju mikilvægt er að hinir Kristnu ruggi bátnum ekki um of. Lái þeim hver sem vill.

Ekki það að ef hinir Guðs útvöldu heiðingjar ákveða að typta hina Kristnu þá hefur svoleiðis líka gildi:

Kristur leið líkamlega. Því skuluð þið búast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega er skilinn við synd, hann lætur mannlegar fýsnir ekki ná tökum á sér heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs. (1. bréf 4. 1–2, leturbreyting mín)

Ætli sjálfstyptarar klaustra og annarsstaðar hafi ekki lesið þennan bút af athygli og með hrollkenndri sælu.

Annað bréfið – þetta sem er ekki eftir Pétur – er stutt og ekkert sérlega bitastætt. Þó geymir það þennan einstaka bút:

Ekki þyrmdi Guð englunum er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella þar sem þeir eru geymdir til dómsins (2. bréf 2. 4)

Þetta er semsagt það eina sem finnst í Biblíunni um synduga engla og fall þeirra. Augljóslega er samt gengið út frá því að lesendur viti um hvað er verið að tala. Sem er auðvitað hálfu forvitnilegra. Vissulega er talað um fall Satans annarsstaðar í Biblíunni þá er hann ekki kallaður engill. Enda enginn engill.

Svo eru hér hressilegar formælingar gegn guðlausu fólki – og frumlegur tónn í þeim:

Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur. Þeir láta klingja innantóm diguryrði og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá sem eru í þann vegin að sleppa frá þeim sem ganga í villu. [...] Ef þeir, sem sluppu frá saurgun heimsins af því þeir þekktu Drottinn vorn og frelsara Jesú Krist, flækja sig í heimi að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. [...] Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: „Hundur snýr aftur til spýju sinnar,“ og: „Þvegið svín veltir sér í sama saur.“ (2. bréf 2. 17–22) 

Og svo þessi kunnuglegi frasi, sem hér gegnir því hlutverki að róa þá sem eru orðnir óþreyjufullir eftir að heimurinn farist, sem er eitt helsta erindi bréfsins samkvæmt inngangi:

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. (2. bréf, 3. 8)

Þjóðlegt maður, þjóðlegt. Merkilegt að þolinmæði skuli ekki vera höfuðdyggð Íslendinga þrátt fyrir þessa brýningu Sankti Péturs og séra Matthíasar.

5.31.2015

Bréfið til Hebrea

Tveirfyrireinn

Textinn
Samanburður
Kynning

Í fyrsta lagi: hvernig getur það verið að fólk hafi öldum saman trúað því að þetta bréf væri eftir Pál? Allt annar stíll, sem getur allsekki bara skýrst af því að markhópurinn er annar.

Talandi um stílinn þá las ég einhversstaðar að Hebreabréfið þætti einhverskonar meistarastykki á frummálinu. Þess sjást nú ekki skýr merki á íslenskunni, verður að segjast. Fyrir nú utan það hvað þetta virkar „gamaltestamentislega“ allt saman. En þá er kannski innihaldið að stýra upplifun manns. Eins og innihöld eiga auðvitað að gera.

Eins og títt er um bréf þá stjórnast innihaldið af  viðtakendum og því erindi sem bréfritari, hver sem hann nú er, á við hann.

Og ólíkt Páli, sem eyðir sínum helstu bréfum í að útskýra fyrir heiðingjum að þeir þurfi ekki að gerast Gyðingar til að verða Kristnir, þá er höfundur Hebreabréfsins að láta Gyðinga sem tekið hafa Kristna trú vita að þeir megi – eiginlega skuli – hætta að vera Gyðingar.

Til að sýna fram á þetta fer hann yfir gervalla sögu Gyðinga og dregur fram hliðstæður og andstæður eftir þörfum til að rökstyðja mál sitt.

Það verður að segjast eins og er að þegar maður stendur jafn langt frá markphópnum í tíma, rúmi, trú og menningu og raun ber vitni, þá þykja manni röksemdirnar talsvert langsóttar og ögn fjarstæðukenndar. Þannig fer hinn fyrirferðarmikli hluti, þar sem prestkonungnum Melkísedek í Salem er stillt upp gegn Aroni og levítaprestunum til að sannfæra Gyðinga um að þeim sé óhætt að hætta fórnfæringum sínum, eilítið fyrir ofan garð og neðan hjá manni í minni stöðu.

En það er semsagt aðalerindi bréfsins. Fórnir skulu aflagðar. Útkoman úr rökfærslunni er eftirfarandi:

Slíks æðsta prests höfðum við þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri. Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gerði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér. Lögmálið skipar breyska menn æðstu presta en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar æðsta prest sem er sonur, fullkominn að eilífu.  (7. 26–28)

Jesús er hinn nýi æðstiprestur og syndafórn um leið. Rosalegt kombó. Og pínu gróteskt, ef „pínu“ er rétta orðið:



Vegna þess að Jesús úthellti blói sínu megum við nú, systkyn, með djörfung ganga inn í hið heilaga. Þangað vígði hann okkur veginn, nýjan veg lífsins inn í gegnum fortjaldið sem er líkami hans. (10. 19–20)

Það er vissulega gaman að endurlifa Gamlatestamenntið með þessum vinkli. Höfundur Hebreabréfsins er vel verseraður og vitnar í Sálmana og spámennina máli sínu til stuðnings. Ágætis upprifjun líka á miskunnarleysi og þverúð Guðs á þessum fyrstu árum:



Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain af því að hann treysti Guði, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. (11. 4)

og

Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur eins og Esaú sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn. (12. 16)

Ef heimhver heildarmynd hefur orðið til hjá mér af lestri Biblíunnar þá er henni best lýst sem „þroskasögu Guðs“. Þarna var hann klárlega á barnsaldri og ekki byrjaður að taka rítalínið.

Þetta endurlit inn í harðýðgisstemmingu frumbýlingsáranna í samlífi Guðs og manns gerir Hebreabréfið dálítið ógeðfelldan lestur. Ekki síst þegar kemur á daginn að það má alveg eins skilja hinn nýja tíma sem uppskrift að enn strangari refsimenningu, þegar hið notarlega fórnarréttlæti er fyrir bí:



Því að ef við syndgum af ásettu ráði, eftir að hafa öðlast þekkingu á sannleikanum, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, heldur er það óttaleg bið eftir dómi og heitum eldi, sem eyða mun andstæðingum Guðs. Sá er að engu hefur lögmál Móse verður vægðarlaust líflátinn ef tveir eða þrír vottar bera. Hve miklu þyngri hegning ætlið þið þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fyrirlítur son Guðs og metur einskis blóðið, sem sáttmálinn var grundvallaður á og smánar anda náðarinnar?  Við þekkjum þann er sagt hefur: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda.“ Og á öðrum stað: „Drottinn mun dæma lýð sinn.“ Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs. (10. 26–30, leturbreyting mín)

Þessi bréfritari veit hvar takkarnir eru á viðtakendunum eru og hikar ekki við að ýta. Fast.

Að sjálfsögðu eru hér líka fallegir kaflar. Þetta er til dæmis ágætisupptalning á grunnatriðum kristindómsins undir því yfirskini að hún sé óþörf:

Þess vegna skulum við sleppa byrjendafræðslunni um Krist og snúa okkur að fræðslunni fyrir lengra komna. Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og að trúa á Guð og hverfa frá breytni sem leiðir til dauða, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm. (6. 1–2, leturbreyting mín)

Og þessi oftívitnaða skilgreining á hvað trú er stendur alltaf fyrir sínu:



Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. (11. 1)

Stórkostlegt. Amen.

5.27.2015

Títusar- og Fílemonsbréf


Páll gamli allur

Textinn (Títus, Fílemon)
Samanburður (Títus, Fílemon)
Kynning (Títus, Fílemon)

Tvö síðustu bréf Páls eru örstutt. Ekki það að þetta séu síðustu bréfin sem hann skrifaði, heldur bréfin sem kanónustjórar Nýja testamentisins hafa sett aftast, mögulega einmitt af því að þau eru svona stutt.

Þó grunnerindi Páls sé yfirleitt það sama þá er alltaf eitthvað sem fangar auga hins nýjungagjarna og gleður þann sem er að lesa þetta í einni beit, sem eðli máls samkvæmt var aldrei ætlun höfundar.

Títusarbréfið

Tvennt finnst mér umtalsvert í þessu stutta stálstöppunarbréfi til Títusar Krítarbiskups. Annað tengist skrítlu úr heimspekináminu, nefnilega hinni frægu „Lygaraþverstæðu“ sem gjarnan er rakin til krítverska sjáandans Epímendeasar og staðhæfingar hans um að „allir Krítverjar séu lygarar“. Það er vafalaust hann sem Páll er að tala um hér og færir mögulega í stílinn:



Einn landi þeirra, þeirra eigin spámaður, sagði: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar.“
Þarna er þeim rétt lýst. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir hljóti heilbrigða trú og gefi sig ekki að bábiljum Gyðinga og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum. (1. 12–13)

Mikið var gaman að rekast á tilvísun í þessa sögu hér. Nú er bara að koma hinu stórkostlega skammaryrði „letimagi“ í almenna umferð og þá hefur þessi þeysireið um Ritninguna ekki verið til einskis.

Svo þarf líka að veifa hinum flottu skrauthvörfum „fráhverfur sannleikanum“, t.d. í hinu pólitíska argaþrasi, eða þegar einhver heldur því fram að Stóns séu betri en Bítlarnir.

Og aftur kemur bullið úr Gyðingum við sögu, hér kallað „bábiljur“, en var áður „ævintýri“, líkt og í fyrra Tímóteusarbréfi 1.4. Páll er mögulega verið að tala um, eins og svo oft áður, „villu“kenningar um að hin nýja trú sé einfaldlega tilbrigði við Gyðingdóm og hinir nýkristnu þurfi að gangast undir sáttmálann með tilheyrandi mataræðisþrengingum og typpasnippi. En þetta orðalag, sérstaklega orðin „ævintýri“ og „ættartölur“ (1Tim 1.4) vekur vangaveltur um að eitthvað annað/fleira hangi á spýtunni. En hvað? Vitum það ekki.

Hitt sem ég stoppaði við var enn ein upptalningin, að þessu sinni þessar ágætu siðareglur fyrir aldraða:



En tala þú það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu. Aldraðir karlmenn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu. 
Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttum sínum eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur vera öðrum til fyrirmyndar  til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum eftirlátar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt. (2. 1–5)

Lítið stuð á DAL (Dvalarheimili aldraðra letimaga) í Heraklion. Ekkert bús, ekkert sex og engar kjaftasögur.

Samt: skírlífar OG eiginmönnum sínum eftirlátar? Reyndar stóð þarna „undirgefnar“ í eldri þýðingu, sem í samhenginu væri kannski betra, – PC-deildin í þýðendateyminu aðeins að fara fram úr sér hérna.


Fílemonsbréfið

Bréfið til Fílemons Kólossubiskups er bæði stutt og óvenjulegt. Í því er bara eitt erindi. Að biðja biskupinn að fara vel með bréfberann.

Það er nefnilega þannig að pósturinn Onesímus er eigu Fílemons, en er búinn að vera með Páli um hríð og er þeim greinilega mjög hugþekkur. Og nú langar Páli að Fílemon gefi honum frelsi. Býðst meira að segja til að borga ef Fílemon telur þess þurfa.

Reyndar er allt bréfið gegnstílað af orðum um ánauð, bandingja, fanga og þræla. Enda er Páll í tukhúsinu þegar það er skrifað, fyrir utan að vera „bandingi Krists Jesú“ eins og hann orðar það í upphafi bréfsins. Flott og gegnumfært stílbragð.

En allavega, hann langar til að Onesímus fái frelsi. Það er nú fallega hugsað af Páli. Ekki finnst mér textinn þó styðja á óyggjandi hátt þá skoðun inngangsritara að Onesímus sé strokuþræll. Enn síður þykir mér hægt að fullyrða neitt um að hér komi eitthvað meira fram um safnaðarlíf en annarsstaðar í bréfum þessum. Þvert á móti, mætti segja, svo mjög sem öll önnur bréf eru undirlögð af fyrirmælum um hegðun safnaðarmeðlima og hvatningu til öldunga um að framfylgja þeim.

Þetta er þvert á móti prívatmál, þar sem tveir valdamiklir menn hlutast til um eign annars þeirra. Ekkert sérkristið við það. Eða er eitthvað sem bendir til að félagslegur hreyfanleiki þrældómsfólks sé meiri vegna Páls og Kristninnar en hann var í hinum heiðna heimi? Ekki á þessum vitnisburði.

Og varðandi þrælahald þá tekur Páll hvað eftir annað á sig krók til að hvetja þræla til að vera húsbændum sínum undirgefnir, líkir stöðu þeirra jafnvel við samband manns og guðs.

Það er auðvitað auðvelt að skilja hvað honum gengur til – áhugaleysi Páls um að rugga samfélagsbátnum stendur vafalaust í beinu sambandi við þá trú hans að endalokin væru í nánd.

Það virðist vera mat hans – vafalaust rétt – að mál Onesímusar eitt og sér hrófli þar ekki við neinu, og því óhætt að biðja honum frelsisgriða meðan öðrum skuli haldið haldið innan helsisins þar til frelsarinn mikli snýr aftur.


Að Páli lesnum 

Þarmeð er lokið yfirferð minni yfir bréf Páls. Næsta bréf, Hebreabréfið, var lengi talið hans verk, en flestir nú sammála um að svo sé ekki. Síðan koma þeir í beinni röð; Jakob, Pétur, Jóhannes og Júdas (no relation).

Allir geta hlýtt á og tekið mark á siðaboðandanum Páli. Líka þeir sem ekki skrifa undir grunnstoðir hugmynda hans; að trú á Krist og upprisuna frelsi menn og tryggi þeim eilífa sælu að heiminum loknum, og að heimsslitin séu á næsta leyti. Áhugaleysi hans um að bæta samfélag manna almennt er skiljanlegt í þessu samhengi, sem og hans helsta verkefnis – að afla liðsmanna í kristna söfnuði í löndunum norðan og austan Miðjarðarhafs.

Ég hef áður drepið á afleiðingar þess að þessir lykiltextar kristninnar eru bréf, skrifuð til tiltekins hóps í ákveðnum afmörkuðum tilgangi. Það þýðir bæði ákveðna endurtekningu, sem og að kerfisbundin framsetning kenninganna er ekki á dagskrá. Páll þarf bara að skerpa á kenningum sem allir þekkja þegar, einkum þegar hann grunar að menn séu að linast í trúnni.

Guðspjöllin eru ekki heldur neinir sérstakir skýrleikstextar, en þetta tvennt hefur gefið hinni kristnu menntastétt eitthvað að rífast um æ síðan.

Eitt finnst mér merkilegt og ætla að hafa lokaorð um Pálsbréfin. Í þeim örlar varla á útleggingum á orðum eða athöfnum aðalpersónu kristninnar. Páll vitnar sárasjaldan í orð Jesú, talar ekkert um athafnir hans, fæðingargoðsögnin virðist honum ókunnug. Hann túlkar ekki dæmisögurnar (sem þó væri engin vanþörf á) og virðist heilt yfir ekki hafa áhuga á neinu nema upprisunni. Samt var hann í sambandi við Pétur og fleiri lærisveina, sem fylgdu Jesú vissulega eftir allan hans feril, námu vísdóm af vörum hans og horfðu á kraftaverk stór og smá. Allt þetta virðist gleymt, eða í það minnsta ekki í frásögur færandi.

5.25.2015

Þessalóníku- og Tímóteusarbréf

I've got a little list ...

Textinn (Þessalóníka 1, Þessalóníka 2, Tímóteus 1, Tímóteus 2)
Samanburður (Þessalóníka 1, Þessalóníka 2, Tímóteus 1, Tímóteus 2)
Kynning (Þessalóníka 1, Þessalóníka 2, Tímóteus 1, Tímóteus 2)

Tvö bréfapör frá sitthvorum enda starfsævi Páls á hinum kristna akri. Þau bera þess auðvitað merki, og svo skiptir líka máli að þau síðari eru einkabréf, en hin fyrri ekki. Þar er reynt að svara guðfræðilegum spurningum, í þeim síðari er fyrst og fremst verið að stappa stáli í mikilvægan leiðtoga og fyrirmynd söfnuðar sem er í grundvallaraatriðum með teóríuna á hreinu.

Í upphafi fyrra Þessalóníkubréfs minnir Páll okkur enn á hvað hann getur verið góður í því sem hann gerir:

Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist. (1. 3, leturbreyting mín)

Þetta er alltsvo orðalagið á eldri þýðingu - endurskoðendurnir hafa því miður kreist allan safa úr þessum fögru orðum.

Þetta er hins vegar fallega gert, þó ég kunni vel við sjaldhafnarorðið “langlyndi” sem stóð í stað “þolinmæði” fyrir 2011:

Ég hvet ykkur systkin: Vandið um við iðjulausa, hughreystið ístöðulitla, takið að yður óstyrka, verið þolinmóð við alla. (5. 14, leturbreyting mín)

Páll fer almennt mjög vel með þetta upptalningastílbragð, og beitir því reyndar óspart og oft snilldarlega. Svolítið eins og AC/DC hugsar sinn stílsmáta, ef eitthvað virkar þá er um að gera að hamra á því og hætta aldrei.

Annars er erindi fyrra Þessalóníkubréfsins ekki síst að fyrirbyggja smá misskilning. Nefnilega þann að þeir sem hrökkva upp af áður en heimurinn ferst hafi mögulega keypt köttinn í sekknum með að gerast kristnir, og muni missa af hinni eilífu veislu. Kannast ekki allir við þessa tilfinningu? Ekki? Allavega, það er ekkert að óttast.

Ekki vil ég, systkyn, láta ykkur vera ókunnugt um þau, sem sofnuð eru, til þess að þið séuð ekki hrygg eins og hin, sem ekki eiga von. Því að ef við trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þau, sem sofnuð eru. 
Því að það segi ég ykkur, og það er orð Drottins, að við, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en þau sem sofnuð eru. Þegar Guð skipar fyrir, þegar raust erkiengilsins kveður við og básúna Guðs hljómar mun sjálfur Drottinn stíga niður af himni og þau sem dóu í trú á Krist munu fyrst upp rísa. Þá munum við sem eftir lifum verða hrifin burt ásamt þeim í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum við vera með Drottni alla tíma.  (4. 13–17)

Þá vitum við það. Það skiptir máli við lestur bréfa Páls, og reyndar guðspjallanna líka, að hin boðuðu endalok heimsins, uppgjörið og réttarhöldin, eru yfirvofandi – það er verið að tala við fólk sem mun lifa þessa atburði. Sú staðreynd að þetta hefur ekki gengið þannig fyrir sig hefur örugglega litað skilning fólks sem vill lifa eftir þessum kenningum, stýrt því hvað ber að taka bókstaflega, og átt sinn þátt í að búa til það svigrúm að ekki skuli taka allt bókstaflega.

Í síðara Þessalóníkubréfinu staldraði ég við annað þema sem lestur nýja testamenntisins kveikir:

Ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður lögleysisins, komi fram, sonur glötunarinnar, sem setur sig á móti Guði og hreykir sér yfir allt sem heitir Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði. 
Minnist þið ekki þess, að ég sagði ykkur þetta meðan ég var enn þá hjá ykkur? Þið vitið hvað aftrar honum nú. Hann á að bíða síns tíma. Því leyndardómur lögleysisins er þegar farið að starfa en fyrst verður að ryðja þeim burt sem stendur í vegi. Þá mun lögleysinginn opinberast en Drottinn Jesús mun koma og birtast, tortíma honum með anda munns síns og gera hann að engu. Þegar Lögleysinginn kemur er Satan að verki með alls kyns furðuverkum, lygatáknum, undrum og með alls konar ranglætisvélum sem blekkja þau sem eru á glötunarleið. Þau glatast af því að þau vildu ekki þiggja kærleikann til sannleikans svo að þau mættu verða hólpin. Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þau trúi lyginni. Þannig verða þau öll dæmd, sem trúðu ekki kærleikanum, en höfðu velþóknun á ranglætinu. (2. 3–12, leturbreyting mín)

Það er þessi hugsun um að hið illa sé í senn andstæðingur (sem er orðrétt þýðing hebreska orðsins “Satan”) og afl á vegum Guðs til að reyna hina veiklunduðu. Freistingarnar virðast stundum vera á hans vegum, og jafnvel nauðsynlegar til að vilji hans geti orðið. Ekki ósvipað skítverkinu sem Júdas, Pílatus og valdaklíka Gyðinga þurftu að vinna til að fórnardauði Krists gæti átt sér stað.

Það er þessi tvöfalda sýn sem upplifist utan frá eins og mótsögn og rökleysa. Ef saga mannkyns er drama samið af almáttugum skapara sem enn heldur í alla spotta, þá er bæði óréttlátt að refsa þeim sem hann kýs að hafa með svarta hatta, og þó sérstaklega þegar það er eins og svarthattagengið gegni mikilsverðu hlutverki í sögunni - hún óhugsandi (eða allavega óþolandi leiðinleg) án þess.

Og engar helvítis afætur takk:

Ég heyri, að nokkur meðal yðar slæpast og vasast í því sem þeim kemur ekki við. Slíkum mönnum býð ég og áminni vegna Drottins Jesú Krists að vinna kyrrlátlega og sjá fyrir sér sjálfir. (3. 11–12)

Þetta hefði Lóan hans Þorsteins Eggertssonar, afskiptakrákan sú, ekki orðað betur. Tökum samt eftir því að þarna sleppa endurskoðendurnir að hafa konurnar með í áminningarorðum Páls.

Já og svo eiga allir/öll að ganga í takt:

En þið, systkin, þreytist aldrei gott að gjöra. En ef einhver hlýðir ekki orðum mínum í bréfi þessu, þá takið eftir þeim manni [Í fyrri þýðingu: merkið yður þann mann, sem er flottara]. Slítið samneyti við hann, þá kann hann blygðast sín. En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður eða systur. (3. 11–13)


Tímóteus

Bréfin til Tímoóteusar eru fremst í stuttri röð einkabréfa Páls til nafngreindra samverkamanna sinna. Þau eru svo sem ekkert eðlisólík safnaðarbréfunum, svipað form og sami penni. Þó er örlítið léttari tónn í þeim og svo bregður fyrir svona skemmtilegum “mannlegum” smáatriðum sem einmitt rata einatt í prívatpóst:

Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar. (Seinna bréf 4. 13)

Annars er Páll eins og vant er með áhyggjur af hreinleika kenningarinnar:

Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með villukenningar og gefa sig ekki að kynjasögum og endalausum ættartölum er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs. (Fyrra bréf, 1. 3–4, leturbreyting mín)

Kynjasögur og endalausar ættartölur? Ágætis undirtitill á sumar bækur Gamlatestamentisins. Já og auðvitað Íslendingasögurnar. Í eldri þýðingu voru það reyndar „ævintýri“, sem er alls ekki síðra.

Páll er flinkur að vinna með eigin status í þessum textum. Sveiflast punkta á milli frá því að vera aumastur allra, ekkert nema auðmýktin og feimnin, yfir í að vera sá sem valdið hefur, í það minnsta tilvísunarvald:

Henni [trúnni, innskot mitt] hafa sumir hafnað og liðið skipbrot á trú sinni. Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.  (Fyrra bréf 1. 19–20, leturbreyting mín)

Og auðvitað eru upptalningar. Hér er t.d. ein úr þriðja kafla fyrra Tímóteusarbréfs þar sem tilgreindar eru hæfniskröfur fyrir biskupsembætti. Biskup þarf að vera:


  • Óaðfinnanlegur
  • Einkvæntur
  • Bindindissamur
  • Hóglátur
  • Háttprúður
  • Gestrisinn
  • Góður fræðari
  • Ekki drykkfelldur 
  • Ekki ofsafenginn
  • Gæfur
  • Ekki deilugjarn
  • Ekki fégjarn
  • Veitir góða forstöðu heimili sínu 
  • Halda börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði 
  • Ekki vera nýr í trúnni
  • Hafa góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan 


Ég skrifa og/eða editera stundum atvinnuauglýsingar. Þær eru flestar nákvæmlega svona, að viðbættum kröfum um að vera góður í ensku og Excel.

Og hér er önnur krassandi úr því seinna:

En það skalt þú vita að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Forðastu þá. (Síðara bréf 3. 1–5)

Svona pakk verður sko aldrei biskup!

Áherslan í síðara bréfinu er annars mest á að stappa stálinu í Tímóteus, já og leggja honum og söfnuðinum nokkrar lífsreglur í leiðinni.

Slúttum þessari lesskýrslu með kostulegum kafla úr því fyrra um hvernig á að koma fram við ekkjur, en þó einkum um hvernig á að greina þær frá öðrum konum:

Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur. En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er Guði þóknanlegt. 
Sú sem er ekkja í raun og veru og á engan að festir von sína á Guð og ákallar hann stöðugt og biður nótt og dag. En hin bílífa er lifandi dauð. 
Brýn þetta fyrir þeim til þess að þær sæti engu ámæli. 
En ef einhver sér ekki fyrir skylduliði sínu, sérstaklega sínum nánustu, þá hefur hún afneitað trúnni og er verri en vantrúuð. 
Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk. 
En tak ekki ungar ekkjur á skrá. Þegar þær hvatir véla þær frá Kristi vilja þær giftast og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit. Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala. 
Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi andstæðingnum ekkert tilefni til ills umtals. Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan. (Fyrra bréf, 5. 3–15, leturbreyting mín)

Dásamleg blanda af skynsemi, manngæsku og almennu glóruleysi. Ætli embættismenn ESB í Brüssel hefðu gert þetta öllu betur?

PS: Ú á trúvillinga!

5.21.2015

Bréf Páls til Galata-, Efesus-, Filippí- og Kólossumanna

I am the way!

Textinn: (Galata, Efesus, Filippí, Kólossu)
Samanburður (Galata, Efesus, Filippí, Kólossu)
Fræði (Galata, Efesus, Filippí, Kólossu)


Textar þeir sem við höfum og eignaðir eru Páli frá Tarsus eru allir af sama taginu: Bréf til tiltekinna söfnuða eða einstaklinga. Þeir eru ætlaðir fólki sem hann þekkir og/eða hann veit að eru vel heima í hugmyndum hans um merkingu lífs og dauða Krists og þýðingu þeirra fyrir mannkynið, ekki síst þá sem aðhylltust þessar hugmyndir.

Við heyrum Pál því aðeins „predika yfir kórnum“, ef svo má segja. Fyrir vikið er hér hvergi skýr og kerfisbundin framsetning hugmyndanna – útlistun þeirra fyrir þá sem eru ekki þegar sannfærðir.

Reyndar er einn sterkasti þráðurinn sá að „endursannfæra“ þá sem Páll hefur frétt að séu á villigötum, en því miður að mestu án þess að hann geri grein fyrir í hverju villurnar séu fólgnar, og án þess að hans eigin hugmyndir séu ítrekaðar nema í algerum grundvallaratriðum.

Mest er þetta á forminu: „Ég hef heyrt að þið séuð að hlusta á einhverja vitleysinga. Hættiði því og munið hvað ég sagð ykkur. Það er allt rétt, Jesú birtist mér og sagði mér það sjálfur.“

Annar fyrirferðarmikill þráður, bæði í þeim bréfum sem ég þef þegar skrifað um og þeim sem hér eru til umræðu er réttlæting þess að heiðingjar, ekki-gyðingar, óumskornir, geti og eigi að gerast kristnir, en þurfi samt sem áður ekki að gerast gyðingar – þurfi hvorki að leggjast undir lögmálið né hnífinn.

Sá þriðji er síðan brýningar um skikkanlega hegðun og að temja sér hina ýmsu mannkosti. Þessir kaflar eru gjarnan aftarlega í bréfunum og þarna fer mælskumaðurinn Páll oft á miklum kostum. Það er líka þessi Páll sem helst fer fram með eitthvað sem okkur þykir hæpið í dag.

Stundum tekur hann reyndar fram að hann hafi svo sem ekkert guðlegt kennivald um veraldlega hluti.

Almennt verður þetta nú smám saman kunnuglegt eftir því sem fleiri bréf eru lesin. Þá staldrar lesandinn kannski helst við það sem er óvenjulegt, eða sýnir nýjan vinkil.


Galata

Hér er umskurnarþráhyggjan í nokkrum forgrunni, sem og aðrar hliðar á stöðu kristinna manna af heiðnum uppruna, og hvernig trúin er komin í stað lögmálsins. Og Páll er svo sannarlega viss í sinni sök:

En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það sem ég hef boðað ykkur, þá sé hann bölvaður. Eins og ég hef áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar ykkur annað fagnaðarerindi en það, sem það hafið numið þá sé hann bölvaður. (1.8–9)

Það fer minna fyrir rökstuðningi fyrir hinu eina sanna fagnaðarerindi. Enda kannski ekki sérlega rökstyðjanleg hugmynd, þessi með að trú á að Kristur sé Guðs sonur og trú á hann muni frelsa þann sem hana játar. Maður verður einfaldlega bara að taka hana trúanlega, ef svo má segja. Nema maður sé til í að líta á svona glæsilega bókmenntagreiningu sem röksemdafærslu:



Segið mér, þið sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þið ekki hvað lögmálið segir? Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni. Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti. Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar; en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum. En Jerúsalem,  sem er í hæðum, er frjáls og hún er móðir vor, því að ritað er:

Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! 
Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! 
Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri 
en hinnar, sem manninn á. 

En þér, bræður mínir og systur, eruð börn Guðs eins og Ísak af því að hann gaf fyrirheit um ykkur. En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú. En hvað segir ritningin? 
„Rek burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar.“ Þess vegna, bræður mínr og systur, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.  (4. 21–31)

Flott. Og allir kannast við hvað það er kitlandi tilfinning að sjá sig sem (mikilvægan) þátttakanda í stóru drama.

Gaman hefði samt verið að fá aðeins meiri útlistun á hverjar hinar hættulegu rangtúlkanir eru.


Efesus

Ekki veit ég hvort það skiptir miklu máli um innihald bréfsins, en það skrifar Páll úr fangelsi, eða kannski öllu heldur varðhaldi, sem hann var hnepptur í að undirlagi sinna fyrrum bandamanna í Faríseaflokknum.

Einhvernvegin virðist Páli takast að hafa eitthvað í hverri bók sem gersamlega gengur fram af manni. Í bréfinu til Efesusmanna er það þetta:



Hugsun þeirra [heiðingjanna, innskot mitt] er allslaus, skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í og síns harða hjarta.  Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi. (4. 17–19, mínar leturbreytingar)

Það dugar ekkert minna. þeir sem ekki eru á bandi Páls eru ófærir um að hugsa, skilja ekki neitt og hafa ekki tilfinningar. Sennilega alveg á mörkum þess að teljast hryggdýr.

Já og svo þetta:



Þrælar, hlýðið jarðneskum húsbændum ykkar með lotningu og ótta af einlægni hjartans, eins og það væri Kristur. (6. 5)

Páll beinir nokkrum sinnum orðum sínum til þræla og þá einatt í þessum tón. Hef ekki heyrt neinn af þeim sem sækja visku um almenna hegðun og viðhorf til veraldlegra mála í bréfin halda þessari speki á lofti.

Ég reyni almennt að hafa lesaugun opin þegar talað er um yfirnáttúrulegar verur aðrar en heilaga þrenningu. Um þetta eru merkilega fá dæmi í bókinni góðu. Stundum er reyndar óljóst hvort aðrir guðir en Guð séu til eða ekki, og svo loftið þykkt af illum öndum í guðspjöllunum. En hér er nýr fýr kynntur til sögunnar – eða kannski gamall undir nýju tignarheiti:



Þið voruð dauð vegna afbrota ykkar og synda, sem þið lifðuð í áður samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú verkar í þeim, sem ekki trúa. Eins lifðum við öll fyrrum, lutum  jarðbundnum girndum, gerðum að sem okkur lysti og refsidómur Guðs vofði yfir okkur eins og öðrum mönnum (2. 1–3, leturbreytingar mínar)

og aftur



Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem vér eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. (6. 10–12, leturbreytingar mínar)

Hér er mjög sterk sannfæring fyrir að djöfullinn sé raunverulegur, og raunverulegur mótherji Guðs og Krists og kristinna, birtist í öllu atferli heiðingjanna og búi á himnum.

Að lokum skulum við gleðjast yfir þessari skrautlegu grein:



Sérhver okkar þáði af Kristi sína náðargjöf. Því segir ritningin: „Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir.“ En „steig upp“, hvað merkir það annað en að hann hafi einnig stigið niður í undirdjúp jarðarinnar? Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fullna allt. (4. 7–10)

Það er ekki mjög oft sem Páll vitnar í ritninguna, og stundum finnast þeir staðir sem hann vitnar í hvergi. Hér er hann hinsvegar með 68. Davíðssálm í huga, en þar segir í 19. versi:



Þú steigst upp til hæða
hafðir á burtu bandingja
tókst við gjöfum frá mönnum
jafnvel uppreisnarmönnum.

Close enough, þó Páll víxli reyndar gefanda og þiggjanda. Sælir eru báðir. En átt- og rökvísinni í seinni hlutanum geta allir dáðst að.


Filippí

„Bréf gleðinnar“ segir inngangur útgefanda að Filippíbréfið sé kallað. Ég er að hugsa um að kalla það „biskupsbréfið“ eða þá „djáknabréfið“, en hér koma þessi tvö starfsheiti fyrir í fyrsta sinn að því ég best fæ séð. Það er sumsé komin kirkja í Filippíuborg. Sem auðvitað er gleðiefni.

Verra samt að hún virðist vera á villigötum. Allavega segir inngangurinn að bréfið snúist um að leiðrétta „villukenningar“, m.a. um „fortilveru Krists“. Nú er alveg vitað og viðurkennt að hugmyndir um þetta mál voru mjög á reiki og liðu aldir þar til einhverskonar almenn sátt myndaðist í málinu. En gott að það sé á hreinu frá sjónarhóli útgefanda að þetta sé svona klippt og skorið.

Páll leggur sumsstaðar áherslu á að kristnir menn eigi að sjá fyrirmynd í Kristi. Að mörgu leyti geta fleiri en kristnir tekið undir það – jafnvel guðlausir húmanistar geta ýmislegt sótt til bæði orða og gerða meistarans. Það þarf samt að passa sig á á eigna honum ekki allar dygðir:

Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. 

Hann var í Guðs mynd. 
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. 
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd 
og varð mönnum líkur. 
Hann kom fram sem maður, 
lægði sjálfan sig 
og varð hlýðinn allt til dauða, 
já, dauðans á krossi. (2. 5–8, leturbreyting mín)

Mikið er setningin „hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur“ falleg. En „hlýðinn“?! Really? Talandi um villukenningar.

Að lokum skulum við, eins og Páll, minnast þeirra Evódíu og Sýntýke.

Ég áminni Evodíu og Sýntýke að vera samlyndar vegna Drottins. Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins, ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, og standa nöfn þeirra í lífsins bók. (4. 2–3)

Gaman að vitnisburði um að konur hafi a.m.k. í upphafi mátt láta í sér heyra. Verst að þær virðast komnar í hár saman. En gott að þeirra gamla vopnabróður skuli þykja ómaksins vert að segja þeim að hætta þessu veseni þar sem hann situr í fangaklefa sínum og heimurinn um það bil að líða undir lok.


Kólossu


Svosem ekki mikið um þetta bréf að segja sem ekki hefur þegar verið sagt um önnur. Sama uppbygging, sami boðskapur og áþekkt orðalag.

Hér er þó gaman að sjá að Páll sér ekkert að því að hinir kristnu létti sér lífið svona stundum og skelli skollaeyrum við vandlæturum úr eigin röðum:



Enginn skyldi því dæma ykkur fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. Slíkt er aðeins skuggi þess, sem koma átti. Veruleikinn er Kristur. Látið þá ekki taka af ykkur hnossið sem stærast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í sjálfshyggju í stað þess að halda sér við hann sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og tengir hann saman með taugum og böndum, svo að hann vex eins og Guð vill.
Fyrst þið dóuð með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þið ykkur þá eins og þið lifðuð lífi þessa heims og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi: „Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á“? – Allt mun þetta þó eyðast við notkun! – mannaboðorð og mannasetningar! Þó hefur þetta að sönnu orð á sér sem speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann. En gildi hefur það ekkert, fullnægir aðeins eigin hvötum. (2. 16–23)

Púrítanar og sjálfstyptarar allra tíma hafa líklega hoppað yfir þessi orð frjálslynda postulans.