12.21.2005

Rutarbók

Textinn
Samanburður
Kynning


Tengdamömmudraumur

Eitt fallegasta lag í heimi heitir Sabbath Prayer og er úr besta söngleik í heimi, Fiðlaranum á þakinu. Ekkert annað lag kemst eins nálægt því að græta mig, og það í hvert einasta sinn sem ég heyri það. Bæn Tevyes og Goldu fyrir mannkostum dætra sinna er eftirfarandi:

"May you be like Ruth and like Esther"

Rut þessi kemur líka við sögu í alkunnum barnasöng þar sem segir "Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut", og það er annar handleggur, en minnir samt á að bæði séu þau góðar fyrirmyndir, og þá jafnt fyrir stráka og stelpur, sitt á hvað og krisskross.

En allavega - Rut er kona til eftirbreytni. Hana prýða mannkostir miklir, sem ekki eru endilega í tísku: þolgæði, trúfesti, fórnfýsi. Sagan er stutt, og margt ku benda til að hún hafi upphaflega verið hluti Dómarbókarinnar. Himinn og haf skilur þó að stemminguna í henni og atganginn þar.

Stóri munurinn felst í heiðursgestinum fjarverandi. Rutarbók er fyrsta bók Biblíunnar þar sem Guð kemur ekki við sögu. Hann er ekki gerandi í sögunni, þó vitaskuld sé til hans vitnað og nafn hans nefnt. Hann talar ekki við neinn og er ekki kennt um neinar hörmungar.

Annar munur er að ólíkt sláturtíðinni í Dómara- og Jósúabókum eru hér engin morð né limlestingar. Vissulega nokkurt harðræði, en ekki er dvalið við það. Persónurnar eru lika allar geðfelldar.

Rut er móabítsk kona sem giftist innflytjanda af gyðingaættum sem kominn er í land hennar ásamt foreldrum sínum og bróður á flótta undan hungursneyð. Þegar faðirinn deyr og synirnir báðir afræður tengdamóðir Rutar að halda heim til Betlehem og Rut ákveður að fylgja henni.

Til að átta sig á hvað þetta og það sem á eftir fylgir þýðir er gott að rifja upp stöðu mála í þessum heimshluta þegar sagan gerist. Fyrir nokkrum mannsöldrum birtist þar upp úr þurru þjóð ein utan úr eyðimörkinni og byrjaði að herja á þá sem fyrir voru. Aðkomumennirnir voru sigursælir, og stafaði mikil ógn af þeim enda höfðu þeir allajafnan þann sið að eira engu sem þeir sigruðu - konur og börn voru miskunarlaust brytjuð niður, en árásarmennirnir kváðust hafa skýr fyrirmæli um þetta ráðslag frá guði sínum, en honum fórna þeir forhúð sveinbarna sinna - sannkallaðir villimenn.

Það er inn í mitt ríki þessarar þjóðar sem útlendingurinn Rut heldur nú með tengdamóður sinni - tvær varnarlausar konur upp á von og óvon.

Þær búa við nokkuð harðan kost og Rut er send til að týna upp það sem eftir verður á ökrunum þegar menn eigendanna hafa farið þar um. Og fyrir velvilja örlaganna, eða Guðs, ratar hún á akur Bóasar nokkurs, sem bæði er enn eitt góðmennið í sögunni, og skyldur tengdaföður hennar heitnum.

Þetta var í þá daga þegar orðið "skyldur" hafði aðra þýðingu en einbert DNA-samband, og Bóas er "lausnarmaður" fjölskyldunnar - skyldugur til að kaupa land hennar til baka ef það hefur lent í höndum óskyldra manna.

Og þar fyrir utan líst honum ljómandi vel á Rut - og að því er virðist henni á hann. Þetta sér tengdó, og sér sér leik á borði (hvað eru mörg sér í því?):

Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel? Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum. Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið. En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."


Það er skemmst frá því að segja að þetta gengur svona ljómandi vel upp. Bóas leysir land fjölskyldunnar og tekur sér Rut fyrir konu. Allir glaðir og ekki spillir það gleðinni að sögumaður ljóstrar upp um framtíðina, ekki bara "eignuðust börn og buru..." heldur hreinlega Sonarsonarsonur þeirra hjóna var enginn annar en Davíð konungur! Og eins og allir sem hafa gefist upp á fyrsta kafla Nýja testamentisins ("götunum") vita þá voru fleiri stórmenni af þessari ætt.

Það er í sjálfu sér vel hægt að fara í nútímalegan hneykslunargír yfir þessari sögu. Láta sér finnast framferði Naómíar helst líkjast framferði melludólga þar sem hún leiðir Rut undir mann sem hún þarf að hafa gott af. Og þykja sem hér sé helvítis feðraveldinu rétt lýst.

En tónninn í sögunni stýrir upplifuninni framhjá svona viðbrögðum. Tónninn, og hið taumlausa villimannlega ofbeldi sem á undan er gengið og gerir örlög Rutar að ljúfri og látlausri sigursögu. Rut er vissulega "sæt og góð" eins og sungið er, en hún er líka trú sínum, trú sannfæringu sinni, fórnfús og huguð. Svo sannarlega til eftirbreytni.

Það verður gaman að sjá hvort þau Daníel og Ester verðskulda einnig að vera fyrirmyndir barna.

12.14.2005

Dómarabókin


Textinn
Samanburður
Kynning


When will they ever learn?

Dómarabókin greinir frá tímabilinu frá landtöku og langleiðina þar til konungsríki er stofnað. Þetta er róstursamur tími, enda ljóst að nóg er enn af villutrúarþjóðum innanum Gyðingana til að gera þeim skráveifur eða freista þeirra með guðum sínum. Reyndar er bókin svolítið eins og formúlukennd framhaldssaga þar sem hver kaflinn er öðrum líkur að uppbyggingu:

Gyðingarnir gleyma guði og "taka framjá" með skúrgoðum nágranna sinna.

Guð leyfir einhverjum nágrannanna að undiroka þá í nokkra áratugi.

Gyðingarnir kveinka sér.

Guð sendir þeim Dómara sem siðar þá og leiðir þjóðina í framhaldinu til sigurs yfir óvinum sínum.

Endurtakist eftir þörfum.

Sem betur fer eru sögurnar þó með smá tilbrigðum.

Sagan í þriðja kafla segir frá Ehúð Gerasyni af húsi Benjamíns. Hún þykir mér ágætt dæmi og smáatriðin í henni hið fegursta krydd. Þessa sögu hafa ritendur Íslendingasagna klárlega lesið sér til (ó)bóta:

Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald.

Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár. Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab.

Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið. Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög.

Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn. En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal.

Ehúð sagði við konung: "Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur."

Konungur sagði: "Þei!" og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu.

Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: "Ég hefi erindi frá Guði við þig." Stóð konungur þá upp úr sæti sínu. En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum. Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið.

Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir. En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: "Hann hefir víst sest niður erinda sinna inni í svala herberginu." Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu.


Aðrar eru mínímalísk snilld, sem myndi sóma sér vel á Baggalút, eða þá hjá Hugleiki Dagssyni:

Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi af Filistum sex hundruð manna með staf, er menn reka með naut. Þannig frelsaði hann einnig Ísrael.


Í frásögninni af Gídeon er þessi fallega og manneskjulega mynd af Hinum Þolinmóða Guði (sem er kannski ekki sú lyndiseinkun sem fyrst kemur upp í hugann við lestur bókarinnar:

Þá sagði Drottinn við hann: "Ég mun vera með þér, og þú munt sigra Midíaníta sem einn maður væri."
Gídeon svaraði honum: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gjör mér tákn þess, að það sért þú, er við mig talar. Far ekki héðan burt, fyrr en ég kem aftur til þín og færi hingað út fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig."
Og Drottinn sagði: "Ég mun bíða hér, þar til er þú kemur aftur."


Það er svo undir hverjum og einum lesanda komið að ímynda sér raddblæ Guðs þegar hann fellst á að hinkra eftir fórninni. Sýður í honum bræði yfir ósvífninni? Eða þykir honum gaman hvað Gídeon er höfðingjadjarfur?

Sagan af Jefta hefur kunnuglegt stef sem víða sést í fornum bókum. Hann lofar sumsé Guði að fórna honum í brennifórn þann fyrsta sem gengur um dyr sínar ef sigur vinnst í orrustu. Guði er þetta ekki meira á móti skapi en svo að Jefta sigrar Ammónítana sem kúga Ísrael. Og viti menn: fyrst til að ganga um dyrnar er engin önnur en dóttir hans, ónafngreind. Eins og þjáningarsystir hennar handan hafsins, hún Ífígenía, þá er hún ekki með múður, heldur segir:

Gjör þetta fyrir mig: Lát mig fá tveggja mánaða frest, svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og grátið það með stallsystrum mínum, að ég verð að deyja ung mær.

Og það varð úr. Og síðan, með dæmigerðum stíl þessarar bókar:
En að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns, og hann gjörði við hana samkvæmt heiti því, er hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmann kennt.


Mórallinn: Gættu tungu þinnar.

Og kannski líka: Guð er miskunnsamur. En við tækjum ekki eftir því nema af því að stundum er hann það ekki.

Þetta stef er víða að finna í þjóðsögum heimsins. En annað minni af hroðalegra taginu kannast ég ekki við annarsstaðar en í Góðu bókinni. Í nítjánda kafla segir frá Levíta nokkrum sem leggur í ferð með konu sinni:

... er þeir voru hjá Gíbeu, sem heyrir Benjamín. Viku þeir þar af leið til þess að fara inn í Gíbeu til gistingar. Og er hann kom þangað, staðnæmdist hann á bæjartorginu, en enginn tók þau inn í hús sitt til gistingar.

Maður nokkur gamall kom frá vinnu sinni utan af akri um kveldið. Hann var frá Efraímfjöllum og bjó sem útlendingur í Gíbeu, en mennirnir, sem þarna bjuggu, voru Benjamínítar. Og er honum varð litið upp, sá hann ferðamanninn á bæjartorginu. Þá sagði gamli maðurinn: "Hvert ætlar þú að fara og hvaðan kemur þú?"

Hinn svaraði honum: "Við komum frá Betlehem í Júda og ætlum innst inn í Efraímfjöll. Þaðan er ég. Ég fór suður til Betlehem og er nú á heimleið, en enginn hefir boðið mér hér inn til sín. Við höfum bæði hálm og fóður handa ösnum okkar, svo og brauð og vín handa mér og ambátt þinni og sveininum, sem er með þjónum þínum. Hér er einskis vant."

Þá sagði gamli maðurinn: "Vertu velkominn! Lofaðu mér nú að annast allt, sem þig kann að bresta, en úti máttu ekki liggja í nótt hér á torginu." Og hann leiddi hann inn í hús sitt og gaf ösnunum, og þau þvoðu fætur sína og átu og drukku.

Nú sem þau gæddu sér, sjá, þá umkringdu borgarmenn - hrakmenni nokkur - húsið, lömdu utan hurðina og kölluðu til gamla mannsins, húsbóndans: "Leið út manninn, sem til þín er kominn, að vér megum kenna hans."

Þá gekk maðurinn, húsbóndinn, út til þeirra og sagði við þá: "Nei, bræður mínir, fyrir hvern mun fremjið ekki óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn inn í mitt hús, þá fremjið ekki slíka svívirðingu. Hér er dóttir mín, sem er mey, og hjákona hans, ég ætla að leiða þær út, og þær megið þér taka nauðugar og gjöra við þær sem yður vel líkar, en á manni þessum skuluð þér ekki fremja slíka svívirðingu." En mennirnir vildu ekki hlýða á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og leiddi hana út á strætið til þeirra, og þeir kenndu hennar og misþyrmdu henni alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann.

Þegar birta tók af degi, kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins, þar sem bóndi hennar var inni, og lá þar, uns bjart var orðið. En er bóndi hennar reis um morguninn og lauk upp húsdyrunum og gekk út og ætlaði að halda af stað, sjá, þá lá konan, hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum. Hann mælti þá til hennar: "Stattu upp, við skulum halda af stað!" - en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín.


Enga hliðstæðu þessarar sögu man ég eftir að hafa séð í öðru fólklori, ekki hjá Grimmsbræðrum, ekki í grískum sögum. Ekki einu sinni í inúítaþjóðsögunum sem Ágústa Skúladóttir notar stundum og eru hinar hroðalegustu. Glöggir biblíulesendur kannast hinsvegar strax við sig, því samskonar frásögn er að finna í 1. Mósebók, 19. kafla. Þar er á ferð Lot nokkur og borgin er Sódóma. Það fór nú eins og það fór. Eða eins og Séra Frosti segir í Jólaævintýrinu:

"Það eru skemmtilegar sögur!"

Hér er sumsé eitt af því sem greinir trúarrit okkar kristinna frá öðrum þjóðsögum. Til hamingju með það. En að þessu sinni er það ekki Guð sem gengur í að hefna óhæfunnar. Eftirmál þessara atburða, sem jafnframt er síðasti hluti bókarinnar eru áframhaldandi manngerð hroðaverk.

Hinni óhreinu konu sem fyrir árásinni varð er slátrað. Ísraelsmönnum er safnað saman til að hefna óhæfunnar á Benjamínsættkvísl. Þeir drepa góðan slatt og sverja að gefa engum af þeirri ættkvísl dætur sínar til kvonfangs. Engu að síður þykir þeim sárt að engar hafi Benjamínsmenn konurnar, og þá er ekki nema um eitt að ræða: Ræna þeim í næstu sveit. Dómarabókinni líkur á snaggaralegum lýsingum á fjöldamorðum og meyjaránum, og svo þessum lokaorðum sem vel má vera að séu hugsuð sem kaldhæðni:

Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, sem honum vel líkaði.


Dómarabókin er svakaleg bók, dimm og full af grimmd og ofbeldi sem á rætur í illskiljanlegum hugsunarhætti. Guði líkar illa að fólkið sé að sleikja sér upp við aðra Guði, en lætur mennina sjálfa að öðru leyti næsta óáreitta með sínar erjur. Eftir að hafa verið "Hands-On" stjórnandi á sínu fyrsta skeiði er hann farinn að prófa að Sleppa og Treysta.

Hvað sem öðru líður hvarflar ekki að honum, frekar en öðrum ábyrgðaraðilum, að segja af sér.

10.13.2005

Viðtalsbil

Það hefur verið svolítið uppihald í þessum pistlum, og biðst ég afsökunar á því. Er kominn lengra með að lesa, en hef verið á kafi í öðrum skrifum og ekki tímt tíma í þetta verkefni. Það stendur hinsvegar ekki til að hætta og útlit fyrir að bráðum rofi til.

Hef bætt við nokkrum krækjum, tvær fúndametalistakirkjur, Krossinn og Kefas og svo álíka einstrengingslega og húmorslausa trúleysingja, Vantrú.is. Einnig Kaþólsku kirkjuna á Íslandi og síðu um gyðingdóm, að ógleymdu Deus Ex Cinema.

Einnig bætti ég inn þremur krækjum við hverja grein, til þægindaauka fyrir lesendur. Ein krækjan leiðir að texta viðkomandi bókar á Íslensku, önnur inn á Bible Gateway þar sem hægt er að bera saman ólíkar þýðingar. Síðast en ekki síst er krækja inn á síðu um viðkomandi bók á Wikipedia.

Ég er svoddan fróðleiksnörd að ég var ekki fyrr byrjaður en ég fór að viða að mér ítarefni. Keypti t.d. Apókrífu bækurnar og velti nú fyrir mér hvort ég geri þeim skil áður en ég ræðst á nýja testamentið, eða geymi þær þar til síðast. Um daginn fjárfesti ég svo í Nýjatestamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar og er að gæla við þá hugmynd að nota hana sem aðaltexta. Sennilega ekki samt.

Svo keypti ég mér tvær hækjur. Og hef þegar hent þeim báðum. Kraftaverk!

Isaac Asimov er mikil hamhleypa til skrifta og hefur farið yfir Biblíuna með ströngu auga staðreyndapostulans. Asimov's Guide to the Bible er mikill doðrantur og á köflum gagnlegur, en svolítið eins og að hafa Björn Margeir mínus húmorinn í höndunum.

The Bible for Dummies er eins og nafnið bendir til. Einstaka gagnlegir fróðleiksmolar, en pakkað inn í svo aumingjagóða froðu að manni verður illt. Svo er bókin dálítið upptekin af því að skýra burt allt sem er stuðandi í ritunum, og eins og nærri má geta á sú nálgun lítt upp á pallborð þess sem hér skrifar.

Eitt sem ég lærði af þeirri bók er ágætt dæmi um hvernig hægt er að lesa hluti í texta í stað þess að lesa þá úr honum.

Þið munið eftir setningunni góðu "þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar". Sérkennileg skilaboð kannski, en engu að síður nokkuð afdráttarlaus og auðvelt að hlýða þeim. Kemur svo ekki á daginn að það er þessi lífsregla sem liggur til grundvallar því að gyðingar borða ekki saman kjötafurðir og mjólkurafurðir af neinu tagi.

Hvernig þeir láta þá túlkun ganga upp er mér óskiljanlegt. Sumir textar eru greinilega til þess fallnir að álykta vítt útfrá þeim. Dæmisögur eru til dæmis svoleiðis. En kannski ekki fullkomlega konkret lagagreinar. Og þó svo það sé svigrúm til að gefa sér að þessi regla gefi vísbendingu um fleira en kiðlinga og geitamjólk, þá virðist mér þessi útfærsla bannsins vera algerlega fráleit.

Reyndar er það það kannski uppsúmmeringin af lestri þessara fyrstu bóka. Það er erfitt að sjá í þeim lærdóma sem hægt er að nýta sér, eða lífsreglur sem eftirsóknarvert er að fara eftir. Þeim mun meira af blóði, mannhatri, kvenfyrirlitningu og reglum sem jafnvel kristnasta fólki dytti aldrei í hug að fara eftir. Vissulega magnaðar sögur, en það sem þó er í samræmi við það sem við teljum gott eru það sem Þórbergur kallaði "Tómar selvfölgeligheðer".

Enn er slatti eftir af þeim hluta gamlatestamentisins sem rekur söguna. Það er líklega ekki fyrr en með spámönnunum sem annað hljóð fer að færast í strokkinn.

10.10.2005

Jósúabók


Textinn
Samanburður
Kynning


Örlítið meiri diskant

Í Jósúabók ráðast ættkvíslirnar tólf inn í fyrirheitna landið með öllu því sjálfstrausti sem einn Guð getur innblásið einni þjóð. Forystumaðurinn er mikill kappi, tónelskur en vekur ógn og skelfingu engu að síður. Jósúa er einhverskonar Benni Helga* þeirra Ísraela.

Brífið er alveg skýrt: ekkert má taka sem herfang af villutrúarmönnunum og engu lífi má eira. Á þessu verða reyndar áhugaverðar undantekningar. Fyrst í njósnaferðinni í 2 kafla þar sem Jeríkóska gleðikonan Rahab felur spæjarana uppi á þaki hjá sér gegn loforði um að henni og hennar fólki verði þyrmt. þetta er æsispennandi saga og ég hafði þungar áhyggjur af því að Ísraelsmenn gerðust eiðrofar þar sem loforðið við Guð um algera eyðileggingu teldist hinu æðra. En svo reyndist ekki vera og fjölskylda vændiskonunnar fékk að fara.

Önnur skemmtileg saga um fólk sem slapp undan útrýmingunni eru Gíbeonbúar, sem dulbjuggu sig sem ferðalanga og féllu því ekki undir kríteríuna fyrir, afsakið orðbragðið, helförina. Fengu að gerast þrælar í staðinn og undu allir glaðir við sitt. Reyndar kemur síðan í ljós að fleiri sluppu og "landnámið" var ekki eins snyrtilegt og til hafði staðið. Enda eru illsakir Guðs við sitt fólk upp frá þessu þær helstar að lýðurinn er sífellt að laumast til að tilbiðja aðra guði sem nágrannarnir koma þeim uppá.

Engu að síður er þessi engu-má-eira-stefna atriði sem erfitt er að kyngja, hvað þá að samhæfa við guð fermingarfræðslunnar. Fyrir utan hvað er óþægilegt að lesa um þessa útvöldu landtökumenn og þá blessun sem hvílir yfir illvirkjum þeirra, svona í ljósi ástandsins í fyrirheitna landinu í dag. En þetta er vitaskuld ein afleiðing þess að lesa bókina frá upphafi og gera grein fyrir áhrifum hvers kafla fyrir sig. Mér skilst að þetta gangi allt saman upp að lokum, en eins og segir í söngnum góða um Roy Rogers:

"Mér þætti gaman að sjá það!"

Hápunktur bókarinnar í Hollywoodskilningi er vitaskuld fall Jeríkó fyrir hátækniárás karlakórs Ísraelska hersins. En eins og með slíka punkta í bíó þá er hann hálfgert antiklæmax miðað við hinar mannlegu smásögur í kring. Svolítið eins og síðasta Matrix-myndin, sem þrátt fyrir gengdarlausrar brellur, mannfall og djöfulgang er algerlega misheppnuð við hliðina á hugmyndagnóttinni og persónulegu sálarstríði fyrstu myndarinnar. Örlög Rahab eru áhugaverð, herskarar að kljást er hávaði.

Síðari hluti bókarinnar er síðan tilbrigði við listasmíðina í fyrri bókum. Að þessu sinni er gerð grein fyrir "landnámi" hverrar kynslóðar, hvaða borgir prestaætt Leví fær fyrir sig og hvaða borgir eru griðastaðir, en það mál fær merkilega mikið vægi hér og í bókunum á undan. Griðaborgir eru fyrir þá sem óvart drepa menn, svo þeir geti komist undan hefndarþyrstum ættmennum þess sem fyrir slysaspjótinu varð. Góð hugmynd, en eins og ég segi, fyrirferðin á málinu er athyglisverð, svo og fjöldi borga sem hýstu svona ógæfumenn. Kannski voru þeir svona klaufskir og ómannglöggir, nema þá að systemið hafi verið misnotað...

Að lokum ein skemmtileg saga um GM**.
Nú kemur nefnilega á daginn að á þeim fjörutíu árum sem fólkið hafði flakkað um eyðimörkina hafði þeim haldist uppi að efna ekki sáttmála Abrahams. Hvernig á því stendur er ekki ljóst, en nú kemur Guð með bakreikning og felur Jósúa að smíða sér steinhníf og byrja að kútta. Sem hann og gerir. Allir halaklipptir áður en vaðið var útí og slátrunin hefst fyrir alvöru.

Á austurbakkanum bíða konur, börn og 601.730 forhúðir.


*Referens aðeins fyrir Húsvíkinga. Sorrí.
**Genital Mutilation

9.21.2005

5. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Síðasta bók Móse gerist á bökkum Jórdanár. Á austurbakka árinnar, nánar tiltekið, þar sem ferðalangarnir hafa komið sér fyrir til að undirbúa yfirtöku fyrirheitna landsins. Að forminu til er hún ávörp Mósesar til þjóðar sinnar, endursögn á sögunni só far og upprifjun laganna. Lögmálsins. Og eins og alltaf þegar lög þessrar bókar eru tíunduð á ný þá bætist eitthvað sniðugt við.

Hernaðarlögin í 20. kafla eru til dæmis skemmtileg. Þar er tilgreint hverjir skuli undanþegnir herþjónustu, og munar þar væntanlega mest um þá sem ekki þora. Þeir mega fara heim án þess að það kosti eitthvað vesen.

Það eru svona manneskjulegar smámyndir innan um forneskjulega grimmdina sem gera þetta svo skemmtilegt.

Reyndar hefur forneskjan algerlega sitt skemmtigildi líka. eins og til dæmis fyrirmælin um að ef sonur er óþægur og drykkfelldur þá skuli hann grýttur í hel (21. kafli). Eða að þeir sem hafa orðið fyrir meiðslum á viðkvæmum stað séu ekki lengur velkomnir í söfnuð Guðs (23. kafli). Í samræmi við það þá segir svo í 25. kafla:

Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum, þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga.

Lifi réttlætið!

Einhvernveginn fær maður reyndar þá mynd af stöðu kvenna í gegnum þetta allt að heldur sé réttinda/skyldu ballansinn þeim í óhag. Þær virðast ekki eiga rétt á arfi nema ef þær séu svo heppnar að eiga enga bræður. Fjölkvæni er útbreytt, sem og hjákonuhald. Líkamsstarfsemi sú sem þær hafa umfram kallana er "óhrein".

En svo kemur ein grein sem lýsir sérréttindum fyrir konur. Og hún er frábær! Gefum Móse orðið:

Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana, en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.

En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: "Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig."

Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: "Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana," þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: "Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns." Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt.

Þess má geta í afturvirku framhjáhlaupi að dæmi um mágsskyldu er að finna í fyrstu Mósebók, en þar svíkst Ónan nokkur um að sæða mágkonu sína en lætur safann frekar fara til spillis. Það líkar Guði ekki og slær Ónan af, væntanlega svo hann verði ekki blindur af öllu rúnkinu. Tækniorðið yfir svoleiðis handbrögð er síðan kennt við Ónan þennan á helstu menningarmálum.

Eins og fyrri daginn eru sum lögin skynsamleg frá okkar bæjardyrum séð, önnur allsendis furðuleg. Enn furðulegra er að enn skuli vera meðal vor einhverjir sem vísa í þessi lög til að réttlæta fordóma sína og afturhaldssemi. Allir eru þeir undir sömu sök seldir og við hin: að leggja sjálfstæða siðferðilega dóma á það sem þessi lög hafa að geyma. Siðareglur sem kalla á svoleiðis eru ekki til mikils gagns er það? Nema náttúrulega til að reyna að skilja fólkið sem lifði eftir þeim, eða reyndi það allavega.

Fimmta Mósebók er á köflum magnaður texti. Sérstaklega blessana- og bölvanakaflinn í 27. og 28. kafla. Bölbænirnar eru sérlega mergjaðar eins og gengur. Lesið þær endilega, bara ekki í viðkvæmu ástandi. Það hríslast óneitanlega um mann gæsahúð þegar ótrúfesti gyðinga er sögð kalla yfir þá þjóð eina:

...úr fjarlægð, frá enda jarðarinnar, og kemur hún fljúgandi eins og örn, þjóð, hverrar tungu þú ekki skilur, illúðlegri þjóð, sem eigi skeytir manngrein gamalmenna og enga vægð sýnir ungmennum.

Sem situr um og myrðir og dregur alla mennsku úr hinum útvöldu.

En nóg komið af hinu ljóta. Svei mér ef ég hef ekki fundið ljómandi skemmtilega prentvillu í Biblíunni minni!

Ég keypti mér sumsé svona nýmóðins pappírskiljubiblíu sem einhver bévítans auglýsingastofa hannaði kápu á með myndum af þunglyndislegu fólki utaná. Ódýr og þess eðlis að maður hikar ekki við að krota og undirstrika það sem við á.

En allavega. Eitt af þeim lögum sem Drottinn er ákveðinn í að lýður hans skuli hlíta er að ekki megi sjóða kiðlinga í mjólk móður sinnar.Skemmtilegt og skrítið ákvæði, svolítið eins og Skólavörðustígur að því leyti. Þetta er líka tekið fram í 2. Mósebók 34. kafla, og ítrekað hér.

Nema hvað að í 5. Mósebók, 14. kafla, 21. versi í bókinni minni stendur skýrum stöfum:

Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður þinnar

Leturbreyting mín.

Það sama er upp á teningnum hjá netútgáfunni

Aðrar biblíuútgáfur sem ég hef skoðað og skilið benda eindregið til þess að þetta sé prentvilla, og ef svo er þá er hún með þeim meinlegustu sem ég hef séð. Þó er lagagreinin öllu skiljanlegri svona, einhvern vegin meira vit í að banna svo óvirðulega meðferð á brjóstamjólk.

Metið í meinlegheitum á samt tvímælalaust prentun á hinni mögnuðu King James biblíu frá 1632, en villan sú kostaði prentarann árslaun og ávann útgáfunni viðurnefnið "The Wicked Bible". Lesið sjálf!

En þetta var útúrdúr. Hér skiljum við við Ísraelslýð að sinni. Sofandi í herbúðum sínum, Móses dáinn, lúðrasveitarstjórinn Jósúa tekinn við. Allir ólmir að svamla yfir ána og drepa handan hennar allt kvikt að undirlagi Guðs.

Þetta er búið að vera magnað ferðalag, og sagan er rétt að byrja...

Leiðrétting. Hýrudráttur prentarans var reyndar öllu róttækari, nam æfilaunum hans. Á þetta benti Þorkell réttilega.

9.17.2005

4. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


1.820 í mínus

Snemma í fjórðu Mósebók er manntal. Samkvæmt því eru vopnfærir ísraelsmenn 603.550 talsins ári eftir að ferð þeirra frá Egiftalandi til þess fyrirheitna hófst. Þegar þeir eru komnir í áfangastað og ekkert eftir nema að hrekja íbúana burtu er aftur talið og kemur þá 601.730 upp úr kössunum. Fjörutíu ár eru liðin, og óhætt að segja að á ýmsu hafi gengið í samvinnu Guðs og manna. Guð er að reyna að aga óstýrlátan lýðinn, en stundum finnst manni hann ekki alveg vera að höndla uppeldishlutverkið sem skyldi. Ég næ t.d. alls ekki upp í ástæðu þess að Móse er á gamals aldri meinað að komast á leiðarenda í kafla 20. Það rauða spjald þykir mér ekki verðskuldað.

En ekki tjáir að deila við dómarann. Kannski er það helsti lærdómurinn sem draga má af þessari bók, sem að miklu leyti er saga um möglun og uppreisnir hins langþreytta lýðs og refsingarnar sem af þeim leiða.

Reyndar er athyglisvert að sjá hvernig manntalinu er skipað niður. Allt er skráð eftir ættkvíslum. Minnir á þann kafla sem allir þekkja úr biblíunni, sjálft jólaguðspjallið. Í því manntali hverfa allir til "sinnar borgar" eftir forfeðrum.

Fórnarlagabálkurinn birtist hér aftur, svo og leiðarlýsing ferðalagsins. Og fleiri lagabálkar og úrskurðir í sérmálum sem leiða af sér lög, eins og hvernig land skuli erfast í ættleggjum þar sem einungis fæðast dætur.

Athyglisverður eru lög um prófun vegna afbrýðisemi, sem finna má í 5. kafla. Ef mann grunar að kona hans hafi verið honum ótrú þá fara þau til prestsins og hann lætur hana drekka forarvatn sem hann blandar með því að hræra mold af gólfi herbúðarinnar saman við vatn. Ef henni verður ekki meint af hefur hún ekki verið ótrú.

Það eru svona kaflar innan um gleðiboðskap og réttlátar siðareglur sem við fyrstu kynni draga úr gildi bókarinnar sem lærdómsrits um góða breytni. Henni er klárlega ekki að treysta sem slíkri, við þurfum að velja og hafna hvaða ákvæði eru góð og hver vond. Og hvaðan kemur okkur myndugleiki eða vit til að gera það?

Í miðri bókinni er skemmtilegt ævintýri um Bíleam nokkurn, spámann meðal villiþjóða. Hann er ráðinn af óvinum Ísraels til að biðja þeim bölbæna, en mistekst það hrapallega, enda þylur hann einungis það sem Guð blæs honum í brjóst. Vinnuveitendur hans eru vitaskuld fúlir, en samskipti þeirra og Bíleams minna dálítið á glímu Bush og Blair við niðurstöður leyniþjónustumanna sinna um gereyðingarvopn í Írak. Sannleikurinn sem þeir fengu hentaði ekki, svo þeir breyttu honum. Eins er Balak Móabítakonungur fúll yfir því að hans maður segi sannleikann, en ólíkt hinum B-unum tveimur hefur hann ekki vit á að falsa niðurstöðurnar. Útkoman er svo frekar keimlík - sannleikurinn leitar út um síðir. Engin gerðeyðingarvopn í Írak, og ísraelsmenn eru að sönnu blessaðir.

Bókinni lýkur á bökkum Jórdanár, gegnt Jeríkó. Næsta mál er að ráðast þar inn og drepa allt mennskt sem fyrir verður.

Í biblíunni minni eru neðanmálsgreinar á stangli, sem ætlað er að útskýra torskild hugtök og annað skrítið sem á vegi lesandans verður. Stundum skil ég ekki alveg hvað er skýrt og hvað ekki. Guð gerir t.d. fullt af undraverðum kraftaverkum í mósebókunum, en það er aðeins tilvist Manna sem fær vísindalega útskýringu, í fjórðu Mósebók 11. kafla sjöunda vers. Þar ku sumsé vera á ferðinni eftirlæti skordýra sem lifa á blöðum runnans Tamarix mannifera sem vex á Sínaískaga.

Einmitt það já?

Hvernig skyldu nú ritstjórar Íslensku biblíunnar vita það? Og af hverju á þetta tiltekna kraftaverk sér náttúrufræðilegar skýringar sem vert er að segja frá, en ekki t.d. að Guð lætur af sama tilefni rigna Lynghænum. Eða klýfur rauðahafið. Hvað þá plágur Egiptalands.

Consistency please!

9.13.2005

3. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Ekki er hægt að segja að þriðja bók Móse sé mikill skemmtilestur. Hún ber nafnið Leviticus á alþjóðamálum, sem vísar í að hér er mikill lagabálkur um prestskap, mannasiði og þó aðallega fórnfæringar, en ættkvísl Leví er valin til þjónustu við Guð í samkomutjaldinu. Skipaðir sjálfboðaliðar, eins og það hét í Ástríksbókunum.

Hún gæti reyndar líka heitið Lagið um það sem er bannað. Og viðlagið úr samnefndum sálmi Sveinbjarnar I. er ágætis súmmering:

Þetta fullorðna fólk er svo skrítið, 
það er alltaf að skamma mann, 
þó maður geri ekki neitt, 
það er alltaf að skamma mann. 

Fyrri hluti bókarinnar eru gríðarlega smásmyglislegar lýsingar á matfórnum. Hvaða dýrum skyldi fórnað hvenær og hvernig. Hvað af innvolsinu skyldi brennt á altarinu til "eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin", eins og þrástagast er á, og hvað skyldi falla í hlut Levísona.

Eins og í Exodus er endurtekningarstíllinn í hávegum hafður og heildaráhrifin fyrir vikið frekar klígjuleg. Það er eins og stöðugur straumur nautgripa, kinda, geita og dúfna liggi inn í samkomutjaldið, þar sem Aron og synir hans standa með kutana reidda, albúnir að fjarlægja mörinn, netjuna og stærra lifrarblaðið til að brenna og búa til góða lykt fyrir Guð. Og borða restina innan tveggja daga. Eins gott að dr. Atkins er búinn að sanna að kjötát sé überhollt, annars þyrfti sífellt að vera að víkka prestskrúðann, sem er ærið verk miðað við lýsinguna á saumaskapnum í síðustu bók.

Býð spenntur eftir skýringu á því af hverju Gyðingar eru hættir þessu fórnarbrölti. (Þeir eru það, er það ekki?)

Þegar fórnarkaflanum líkur taka við lög um ýmislegt annað.

Og fyrst það sem mikilvægast er: Hvað er hreint, og þó sérstaklega óhreint.

Lík, holdsveikir, graftrarkýli, konur á túr. Óhreint. Allskyns serimóníur til að hreinsa sig af snertingu við þessháttar, og hreinsun viðkomandi þegar holdsveikin skánar eða Rósa frænka drullar sér heim. Skemmtilegt.

Og svo hvaða matur er hreinn. Það er sniðugt. Dýr sem jórtra og hafa klofinn hóf, sjávardýr með hreistur og sundugga, slatti af fuglum. Að ógleymdum engisprettum af tilteknum gerðum.

Þetta má borða.

Hér er líka að finna fyrstu greinina sem þeir sem eru þannig innréttaðir vitna í til að fordæma samkynhneigð. Í 18. kafla, 22. versi:

Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

Nokkuð afdráttarlaust, en til allrar óhamingju fyrir hina hómófóbísku eru í næsta nágrenni jafn afdráttarlaus ákvæði sem engum kristnum manni dettur í hug að fylgja.

Sérstaka athygli vekur að Guð notar sömu orð um kynlíf tveggja karlmanna og það að borða humar. Viðurstyggð.

Minnir mig á að í æsku minni á Húsavík var orðið humar í vissum kreðsum slanguryrði yfir...

Let's not go there.

í 19. kafla koma svo allt í einu ákvæði sem allir ættu að geta skrifað undir. Ekki ljúga, veriði góð við fatlað fólk og gamalt. Verið sanngjörn í dómum, dragið hvorki taum lítilmagnans né þess volduga.

Hvaðan kemur okkur siðvit til að greina á milli þess sem er gott og, ja, miður gott í fyrirmælum þessar forneskjulegu lögbókar og gæðahandbókar í kjötiðju? Mér skilst að Gamlatestamentið sé í kristinni guðfræði meira og minna skilið óeiginlegum skilningi sem fyrirheit og spásagnir um komu Krists, jafnvel þessi bók ef marka má þessa grein (undir "Christian Views"). Eðli verkefnisins samkvæmt er ég ekki að lesa með þessum gleraugum, heldur reyni að mæta hverri bók með opnum huga. Fyrirfram þykir mér reyndar dálítið hæpið að líta á texta eins og þennan sem eitthvað annað en það sem hann bókstaflega er. Hegðunarreglur.

Og okkur þykja sumar þeirra eðlilegar, aðrar ekki. Og þar sem það stangast á þá gildir siðvitið í brjóstum okkar. Við borðum humar, grýtum ekki spámenn, höldum ekki þræla og þau okkar sem eru ekki alger fífl láta samkynhneigða óáreitta.

En jafnvel í þessari dálítið subbulegu bók eru fallegar greinar. Mér finnst 25. kaflinn vera góður, þó ég sé ekki viss um að íslenskir kvótakóngar og aðrar kapítalískar afætur séu mér sammála.

Þar segir að allt land skal látið í friði sjöunda hvert ár, ekkert sáð og ekki uppskorið. Allir mega eta það sem sprettur hjálparlaust. Mjög fallegt, gott fyrir landið, og með því að rótera þessu milli bæja geta allir veglausir og fátækir fundið eitthvað í gogginn.

Fimmtugasta hvert ár, árið eftir sjöunda sabbatsárið er Fagnaðarár, The Year of Jubilee í enskum biblíuþýðingum. Þá eru öll viðskipti afturkölluð. Enginn getur selt land lengur en í fimmtíu ár, því að þeim loknum skal hver halda heim á land feðra sinna. Guð á nefnilega landið, mennirnir eru leiguliðar. Jafnframt eru allir Ísraelsmenn sem ratað hafa í þrældóm gefnir frjálsir á þessu ári.

Er þetta ekki snjöll lausn á einokun og hringamyndun? Það er gefið upp á nýtt á hálfrar aldar fresti.

Og svo er bannað að taka vexti. Sem húsnæðiskaupandi í yfirvofandi verðbólguumhverfi þykir mér það skynsamleg regla líkt og sú um að ekki megi ljúga og stela, en ekki forneskjuleg vitleysa eins og fordæming samkynhneigðra eða bann við að éta strútakjöt.

9.11.2005

2. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


The plot thickens!

Núna eru Ísraelsmenn þrælar í Egiftalandi. Og svo fæðist Móse. Og Guð felur honum að frelsa lýðinn. Og honum finnst hann ekki vera nógu flinkur PR maður. Og Guð gefur honum leyfi til að hafa Aron bróður sinn með. Og þeir vaða í Faraó og heimta frelsi. Og Faraó eykur bara okið. Og Guð gengur í málið.

Eitt það athyglisverðasta í Exodus eru galdrakallar Faraós. Þeir eru svolítið eins og þessir nútímagaurar sem rembast við að afhjúpa miðla og hugsanalesara og stjörnuspekinga og svoleiðis fólk. Móse mætir með nýjasta trikkið frá Guði og spámenn Faraós gera eins. Stafur breytist í snák. Vatn breystist í blóð. Froskar. Móse galdrar í umboði Guðs og töframenn Faraós gera eins.

Og Faraó hlær og hristir hausinn yfir Ísraelsmönnum og Guðinum þeirra sem er engu máttugri en hans eigin töframenn.

En svo kemur mývargsplágan og spámennirnir ráða ekki við að leika það eftir. Eftir það er fjölkynngi Guðs óumdeild. Ísraelsmenn fá að fara og ræna slatta af gersemum í leiðinni, í boði guðs.

Og æða út í eyðimörkina.

Og út í Rauðahafið

Og Egiftar á eptir

og lengi tekur sjórinn við...

Hér eru kaflaskil. Núna eru það bara Ísraelsmenn og Guð um hríð. Og hann tekur til við að ala þá upp. Hann leggur Móse lífsreglurnar. Reglur um samskipti milli manna, reglur um viðurlög við allskyns afbrotum, og svo bannhelgisreglur og önnur fyrirmæli sem hafa engin tenxl við siðferði eða raunveruleikann yfirleitt.

Það er eitthvað skrítið við þessa texta. Það er eitthvað undarlegt við að Guð gefi ordrur um bannhelgi. Maður kann einhvernvegin betur við að hún byggist á sérvisku og ótta mannanna. Að þeir hafi fundið upp á henni sjálfir. Guð setur einhvernvegin niður við að vasast í því sjálfur að menn séu ekki að borða súrdeixbrauð í apríl eða sjóða kiðlinga í mjólk móður sinnar. Ef maður er almáttugur, hvað ætli manni væri ekki sama?

Hvað varðar bókina sjálfa þá er eitt svona "þú-hlýtur-að-vera-að-grínast-" móment. Eftir gríðarlangan kafla þar sem Guð leggur línurnar um byggingu musteristjaldsins, prestskrúðans og innanstokksmunanna allra, í talsvert meiri smáatriðum en manni finnst að sjálfsöruggur guð ætti að gera. Þá kemur annar kafli þar sem iðnaðarmenn Ísraels framfylgja þessum skipunum og það er tilgreint í nákvæmlega sömu smáatriðum! Orðrétt.

Svolítið eins og sögufrægt atriði úr útvarpsskemmtiþáttunum The Goon Show þar sem sagði "og hann barði á dyrnar hundrað sinnum". Og svo komu hundrað högg. Fyrst skrítið. Svo fyndið. Síðan absúrt. Að lokum leiðinlegt. Og tilgangslaust.

Að lokum smá um sjálfa og útleggingar hennar. Hvað er þetta með boðorðin tíu?

Í Biblíunni eru þau svona:
Guð talaði öll þessi orð og sagði:

1
Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

2
Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

3
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

4
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

5
Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

6
Þú skalt ekki morð fremja.

7
Þú skalt ekki drýgja hór.

8
Þú skalt ekki stela.

9
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

10
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.


Á vef íslensku þjóðkirkjunnar eru þau hinsvegar svona, og vitnað í sjálfan Lúther því til stuðnings;
1
Þú skalt eigi aðra guði hafa.

2
Þú skalt eigi leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.

3
Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.

4
Heiðra skaltu föður þinn og móður.

5
Þú skalt eigi mann deyða.

6
Þú skalt eigi drýgja hór.

7
Þú skalt eigi stela.

8
Þú skalt eigi bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

9
Þú skalt eigi girnast hús náunga þíns.

10
Þú skalt eigi girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.


Af hverju stafar munurinn? Af hverju vilja Lúthersmenn ekki boðorð um líkneskjur? Og þó svo þeir vilji þau ekki, hvað gefur þeim leyfi til að breyta orðum guðs efnislega?

Þó svo bókstafstrúarmenn séu frekar hjákátlegt fólk, þá verður grunnritið að vera nokkuð stöðugt, er það ekki? Eða eins og Jerry Springer myndi orða það:

I'm Confused...

9.06.2005

1. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Þetta er engin smá bók! Hún er reyndar ekki ýkja löng, en það gerist hinsvegar eitt og annað. Sköpun heimsins. Syndafallið. Kain og Abel. Nóaflóðið. Babelsturninn. Eyðing Sódómu og Gómórru. Abraham og Ísak. Jakob og Esaú. Jakob glímir við Guð. Jósep og draumar Faraós.

Þetta er móðir allra sögubóka.

Eins og oft með fornar svoleiðis bækur þá er gjarnan farið hratt yfir sögu þegar merkustu atburðirnir gerast, en staldrað við og greint í löngu máli frá smáatriðum og hlutum sem síðari tíma fólki finnst kannski ekki skipta miklu máli. Svolítið eins og Íslendingasögurnar, með sínum fáorðu lýsingum af stórviðburðum og lotulöngu ættartölum og lagaþrætum. Þó auðvitað séu það Sögurnar sem eru mótaðar eftir Biblíunni en ekki öfugt.

Og það þarf engan að undra að ýmislegt er mótsagnarkennt, ruglingslegt og útúrdúrasamt. Þetta er gömul bók og hefur vitaskuld ratað í ýmsar raunir á ferð sinni inn í prentsmiðjur nútímans.

Í bókinni sjáum við menningu verða til. Eða réttara sagt, sjáum það ekki. Nói fórnar brennifórn þegar flóðið sjatnar. Aldrei fáum við að vita hvernig sá siður komst á. Við fáum líka smámsaman innsýn í siðferði þessa fólks, hvað því finnst skipta máli. Við fáum að vita að frumburðir hafa rétt umfram aðra, konur eru keyptar og seldar, þrælar sömuleiðis. Þetta er fjölkvænissamfélag þar sem börnum er bölvað fyrir að koma að föður sínum nöktum og brennivínsdauðum.

Hvernig þetta skipulag hefur komist á kemur ekki fram, það er svolítið eins og náttúrulögmál. Sem það er ekki. Á hinn bóginn eru vissar siðvenjur raktar beint til Guðs, til sáttmála sem hann gerir við mennina. Fyrst við Nóa, um að ekki skuli etið ket sem blóð er í, síðan við Abraham um að karlmenn skuli umskornir. Þetta er auðvitað frekar dularfullt fyrir okkur.

Samband söguhetjanna við Guð skipar stóran sess í bókinni. Guð er mjög nálægur, talar við fólkið, gerir samninga, leiðir menn áfram. Hann setur ekki lög í þessari bók, það kemur síðar. Jú, eina reglu setur hann snemma í bókinni, en hún er umsvifalaust brotin. Síðan reynir hann aðrar leiðir til að ala mannkynið upp. Í Nóaflóðinu er eins og hann langi að byrja upp á nýtt, út frá einu vel heppnuðu eintaki innan um allan lýðinn. Svolítið erfðafræðileg nálgun. En fljótlega eftir það fer hann að fara samningaleiðina. Lofar landi, ríkidæmi og langlífi ættar Abrahams gegn því að mennirnir gjöri vilja hans. Ýmsar sögur fara af því hvernig fer fyrir þeim sem ekki fara að þeim vilja. Sögur eru hinsvegar sérlega varasamar til að draga almennar ályktanir af. Sérstaklega jafn gamlar og skrítnar sögur og hér eru á ferðinni.

En það er svo sannarlega gert. Áhugasamir gætu t.d. kíkt á þessar útleggingar á hverjum kafla Biblíunnar. Heldur þykir mér hér langt seilst stundum í að lesa lærdóma í orðin. Eins og ég sagði í innganginum í gær þá eru menn fljótir að missa sjónar af því hvað þeir sjá í textanum og hvað þeir koma með sjálfir.

1. Mósebók er mögnuð bók. Dularfull, framandi, en samt svo stútfull af viðburðum, persónum, minnum og lærdómum sem eru í stöðugri endurvinnslu hjá okkur. Því vekur það sérstaka ánægju að rekast á mergjaða kafla sem ekki er haldið á lofti. Eins og til dæmis 34. kafli, þar sem synir Jakobs semja um það við íbúa Síkemborgar að þeir láti umskerast svo þjóðirnar geti sameinast og sótt sér kvonfang úr röðum hvorrar annarar. En meðan hinir nýskornu liggja og jafna sig eftir aðgerðina fara tveir af Jakobssonum um borgina með sverð sín og drepa þá alla, en hneppa konur og börn í þrældóm. Engum sögum fer af því hvað Guði þótti um þær aðfarir, nema að það urðu engin eftirmál. Förum samt varlega í að draga almennar ályktanir af því og vaða um ganga sjúkrahúsanna með eggvopn.

En sagan er góð. Hryllileg en samt pínulítið fyndin (Biblían með Tarantino-augum).

Og þó hér sé sagt frá miklum tíðindum, sköpun heimsins og tilurð þjóðar, þá eru líka unaðslegar litlar myndir sem gera þessar fjarlægu ofurhetjur svo mannlegar:
Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons. Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.
IM 26 35-35
Eiginkonur hafa greinilega lengi farið í taugarnar á tengdaforeldrum sínum, ekki síst þegar kolbítar eins og Esaú ganga loxins út.

Látum það verða lokaorð í þessum fyrsta biblíupistli Varríusar.

ATH. Þessi pistill birtist einnig á Varríusi sjálfum Þar eru einnig komment við hann.

9.05.2005

Varríus les Biblíuna

Varríus er að lesa bók. Og ekki bara einhverja bók eins og venjulega, heldur Bók. Bókina. Bók bókanna. Sjálfa Biblíuna.

Það hefur lengi staðið til að lesa ritninguna. Eiginlega fáránlegt að hafa ekki gert það. Út í hött að þykjast skilja vestræna menningu án þess. Fyrir nokkrum árum byrjaði ég en þraut erindið tiltölulega snemma. Núna verður ekki gefist upp, enda verður allur heimurinn til vitnis.

Ég hef nefnilega ákveðið að skrifa pistla eftir hverja bók og birta hér. Gera grein fyrir pælingum sem kvikna, spurningum sem vakna, og skoðunum sem myndast.

Að sjálfsögðu er ég að vona að sem flestir Varríusarlesendur fylgi fordæminu, leggist yfir ritninguna með mér og kommenti sem aldrei fyrr. Svoleiðis leshringur yrði heldur en ekki skemmtilegur.

En fyrst smá vangaveltur um forsendur.

Það er ekki laust við að maður fái í herðarnar þegar Biblían er opnuð með svona markmið í huga. Ekkert skrítið, því á þeim sitja herskarar af ofstækisfullum bókstafstrúarmönnum, álíka fanatískum trúleysingjum, sprenglærðum og þrætubókarfimum guðfræðingum og mærðafullum kirkjuklerkum. Fyrir nú utan alla þá spekinga og listamenn sem hafa sótt innblástur að brilljant hugmyndum í þetta grundvallarrit Vesturlanda.

Það er innprentað í mann að þetta sé ekki nein venjuleg bók og ekki hægt að lesa hana sem slíka. Gegn slíku viðhorfi talar agnostísk rödd skynsemishyggjumannsins og heimtar að hún sé einmitt lesin með hlutlausu auga, ef hún er merkilegri en aðrar bækur hljóti hún að segja lesandanum það sjálf. Háværar raddir bókstafstrúarmanna kalla á leit að atriðum til að spæla þá með: mótsögnum, loðmullu, úreltum fyrirmælum. Hluta af manni langar einfaldlega til að heillast. Von mín er að geta haldið þessum ólíku röddum í einhverskonar jafnvægi.

Biblían verðskuldar augljóslega þá virðingu af lesanda sínum að það sé heilmikið í hana spunnið þó stundum sé erfitt að sjá það. Svona svipað og að lesa Shakespeare, Kafka eða Beckett. Staða hennar sem trúarrit krefst þess jafnframt að hún sé spurð erfiðra spurninga. Það á ekki að þurfa að teygja sig út fyrir mörk rökvísi, skynsemi og málskilnings til að fá vit í það sem í henni stendur. Enda þýddi það að vitið væri ekki úr henni heldur lesandanum.

Í öllu falli vona ég að lesturinn kenni mér að lesa Biblíuna. Þá er til nokkurs stautað.

Tvö hjálpargögn sem stuðst verður við:

BibleGateway er gríðarlegur gagnagrunnur með Ritningunni á ótal tungumálum og fjölmörgum útgáfum á ensku. Þarna er t.d. hægt að skoða Íslensku Biblíuna, og svo er þetta gríðarlega gott áhald til að skoða skrítna staði með samanburði á þýðingum.

Wikipedia er eitt magnaðasta fyrirbæri á netinu. Þar er gríðarlegt magn af fróðleik um ótrúlegustu hluti. Mögulega ekki allt satt og rétt, enda misjafn sauður sem skrifar. En heilt yfir alger snilld.