9.21.2005

5. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Síðasta bók Móse gerist á bökkum Jórdanár. Á austurbakka árinnar, nánar tiltekið, þar sem ferðalangarnir hafa komið sér fyrir til að undirbúa yfirtöku fyrirheitna landsins. Að forminu til er hún ávörp Mósesar til þjóðar sinnar, endursögn á sögunni só far og upprifjun laganna. Lögmálsins. Og eins og alltaf þegar lög þessrar bókar eru tíunduð á ný þá bætist eitthvað sniðugt við.

Hernaðarlögin í 20. kafla eru til dæmis skemmtileg. Þar er tilgreint hverjir skuli undanþegnir herþjónustu, og munar þar væntanlega mest um þá sem ekki þora. Þeir mega fara heim án þess að það kosti eitthvað vesen.

Það eru svona manneskjulegar smámyndir innan um forneskjulega grimmdina sem gera þetta svo skemmtilegt.

Reyndar hefur forneskjan algerlega sitt skemmtigildi líka. eins og til dæmis fyrirmælin um að ef sonur er óþægur og drykkfelldur þá skuli hann grýttur í hel (21. kafli). Eða að þeir sem hafa orðið fyrir meiðslum á viðkvæmum stað séu ekki lengur velkomnir í söfnuð Guðs (23. kafli). Í samræmi við það þá segir svo í 25. kafla:

Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum, þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga.

Lifi réttlætið!

Einhvernveginn fær maður reyndar þá mynd af stöðu kvenna í gegnum þetta allt að heldur sé réttinda/skyldu ballansinn þeim í óhag. Þær virðast ekki eiga rétt á arfi nema ef þær séu svo heppnar að eiga enga bræður. Fjölkvæni er útbreytt, sem og hjákonuhald. Líkamsstarfsemi sú sem þær hafa umfram kallana er "óhrein".

En svo kemur ein grein sem lýsir sérréttindum fyrir konur. Og hún er frábær! Gefum Móse orðið:

Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana, en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.

En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: "Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig."

Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: "Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana," þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: "Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns." Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt.

Þess má geta í afturvirku framhjáhlaupi að dæmi um mágsskyldu er að finna í fyrstu Mósebók, en þar svíkst Ónan nokkur um að sæða mágkonu sína en lætur safann frekar fara til spillis. Það líkar Guði ekki og slær Ónan af, væntanlega svo hann verði ekki blindur af öllu rúnkinu. Tækniorðið yfir svoleiðis handbrögð er síðan kennt við Ónan þennan á helstu menningarmálum.

Eins og fyrri daginn eru sum lögin skynsamleg frá okkar bæjardyrum séð, önnur allsendis furðuleg. Enn furðulegra er að enn skuli vera meðal vor einhverjir sem vísa í þessi lög til að réttlæta fordóma sína og afturhaldssemi. Allir eru þeir undir sömu sök seldir og við hin: að leggja sjálfstæða siðferðilega dóma á það sem þessi lög hafa að geyma. Siðareglur sem kalla á svoleiðis eru ekki til mikils gagns er það? Nema náttúrulega til að reyna að skilja fólkið sem lifði eftir þeim, eða reyndi það allavega.

Fimmta Mósebók er á köflum magnaður texti. Sérstaklega blessana- og bölvanakaflinn í 27. og 28. kafla. Bölbænirnar eru sérlega mergjaðar eins og gengur. Lesið þær endilega, bara ekki í viðkvæmu ástandi. Það hríslast óneitanlega um mann gæsahúð þegar ótrúfesti gyðinga er sögð kalla yfir þá þjóð eina:

...úr fjarlægð, frá enda jarðarinnar, og kemur hún fljúgandi eins og örn, þjóð, hverrar tungu þú ekki skilur, illúðlegri þjóð, sem eigi skeytir manngrein gamalmenna og enga vægð sýnir ungmennum.

Sem situr um og myrðir og dregur alla mennsku úr hinum útvöldu.

En nóg komið af hinu ljóta. Svei mér ef ég hef ekki fundið ljómandi skemmtilega prentvillu í Biblíunni minni!

Ég keypti mér sumsé svona nýmóðins pappírskiljubiblíu sem einhver bévítans auglýsingastofa hannaði kápu á með myndum af þunglyndislegu fólki utaná. Ódýr og þess eðlis að maður hikar ekki við að krota og undirstrika það sem við á.

En allavega. Eitt af þeim lögum sem Drottinn er ákveðinn í að lýður hans skuli hlíta er að ekki megi sjóða kiðlinga í mjólk móður sinnar.Skemmtilegt og skrítið ákvæði, svolítið eins og Skólavörðustígur að því leyti. Þetta er líka tekið fram í 2. Mósebók 34. kafla, og ítrekað hér.

Nema hvað að í 5. Mósebók, 14. kafla, 21. versi í bókinni minni stendur skýrum stöfum:

Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður þinnar

Leturbreyting mín.

Það sama er upp á teningnum hjá netútgáfunni

Aðrar biblíuútgáfur sem ég hef skoðað og skilið benda eindregið til þess að þetta sé prentvilla, og ef svo er þá er hún með þeim meinlegustu sem ég hef séð. Þó er lagagreinin öllu skiljanlegri svona, einhvern vegin meira vit í að banna svo óvirðulega meðferð á brjóstamjólk.

Metið í meinlegheitum á samt tvímælalaust prentun á hinni mögnuðu King James biblíu frá 1632, en villan sú kostaði prentarann árslaun og ávann útgáfunni viðurnefnið "The Wicked Bible". Lesið sjálf!

En þetta var útúrdúr. Hér skiljum við við Ísraelslýð að sinni. Sofandi í herbúðum sínum, Móses dáinn, lúðrasveitarstjórinn Jósúa tekinn við. Allir ólmir að svamla yfir ána og drepa handan hennar allt kvikt að undirlagi Guðs.

Þetta er búið að vera magnað ferðalag, og sagan er rétt að byrja...

Leiðrétting. Hýrudráttur prentarans var reyndar öllu róttækari, nam æfilaunum hans. Á þetta benti Þorkell réttilega.

9.17.2005

4. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


1.820 í mínus

Snemma í fjórðu Mósebók er manntal. Samkvæmt því eru vopnfærir ísraelsmenn 603.550 talsins ári eftir að ferð þeirra frá Egiftalandi til þess fyrirheitna hófst. Þegar þeir eru komnir í áfangastað og ekkert eftir nema að hrekja íbúana burtu er aftur talið og kemur þá 601.730 upp úr kössunum. Fjörutíu ár eru liðin, og óhætt að segja að á ýmsu hafi gengið í samvinnu Guðs og manna. Guð er að reyna að aga óstýrlátan lýðinn, en stundum finnst manni hann ekki alveg vera að höndla uppeldishlutverkið sem skyldi. Ég næ t.d. alls ekki upp í ástæðu þess að Móse er á gamals aldri meinað að komast á leiðarenda í kafla 20. Það rauða spjald þykir mér ekki verðskuldað.

En ekki tjáir að deila við dómarann. Kannski er það helsti lærdómurinn sem draga má af þessari bók, sem að miklu leyti er saga um möglun og uppreisnir hins langþreytta lýðs og refsingarnar sem af þeim leiða.

Reyndar er athyglisvert að sjá hvernig manntalinu er skipað niður. Allt er skráð eftir ættkvíslum. Minnir á þann kafla sem allir þekkja úr biblíunni, sjálft jólaguðspjallið. Í því manntali hverfa allir til "sinnar borgar" eftir forfeðrum.

Fórnarlagabálkurinn birtist hér aftur, svo og leiðarlýsing ferðalagsins. Og fleiri lagabálkar og úrskurðir í sérmálum sem leiða af sér lög, eins og hvernig land skuli erfast í ættleggjum þar sem einungis fæðast dætur.

Athyglisverður eru lög um prófun vegna afbrýðisemi, sem finna má í 5. kafla. Ef mann grunar að kona hans hafi verið honum ótrú þá fara þau til prestsins og hann lætur hana drekka forarvatn sem hann blandar með því að hræra mold af gólfi herbúðarinnar saman við vatn. Ef henni verður ekki meint af hefur hún ekki verið ótrú.

Það eru svona kaflar innan um gleðiboðskap og réttlátar siðareglur sem við fyrstu kynni draga úr gildi bókarinnar sem lærdómsrits um góða breytni. Henni er klárlega ekki að treysta sem slíkri, við þurfum að velja og hafna hvaða ákvæði eru góð og hver vond. Og hvaðan kemur okkur myndugleiki eða vit til að gera það?

Í miðri bókinni er skemmtilegt ævintýri um Bíleam nokkurn, spámann meðal villiþjóða. Hann er ráðinn af óvinum Ísraels til að biðja þeim bölbæna, en mistekst það hrapallega, enda þylur hann einungis það sem Guð blæs honum í brjóst. Vinnuveitendur hans eru vitaskuld fúlir, en samskipti þeirra og Bíleams minna dálítið á glímu Bush og Blair við niðurstöður leyniþjónustumanna sinna um gereyðingarvopn í Írak. Sannleikurinn sem þeir fengu hentaði ekki, svo þeir breyttu honum. Eins er Balak Móabítakonungur fúll yfir því að hans maður segi sannleikann, en ólíkt hinum B-unum tveimur hefur hann ekki vit á að falsa niðurstöðurnar. Útkoman er svo frekar keimlík - sannleikurinn leitar út um síðir. Engin gerðeyðingarvopn í Írak, og ísraelsmenn eru að sönnu blessaðir.

Bókinni lýkur á bökkum Jórdanár, gegnt Jeríkó. Næsta mál er að ráðast þar inn og drepa allt mennskt sem fyrir verður.

Í biblíunni minni eru neðanmálsgreinar á stangli, sem ætlað er að útskýra torskild hugtök og annað skrítið sem á vegi lesandans verður. Stundum skil ég ekki alveg hvað er skýrt og hvað ekki. Guð gerir t.d. fullt af undraverðum kraftaverkum í mósebókunum, en það er aðeins tilvist Manna sem fær vísindalega útskýringu, í fjórðu Mósebók 11. kafla sjöunda vers. Þar ku sumsé vera á ferðinni eftirlæti skordýra sem lifa á blöðum runnans Tamarix mannifera sem vex á Sínaískaga.

Einmitt það já?

Hvernig skyldu nú ritstjórar Íslensku biblíunnar vita það? Og af hverju á þetta tiltekna kraftaverk sér náttúrufræðilegar skýringar sem vert er að segja frá, en ekki t.d. að Guð lætur af sama tilefni rigna Lynghænum. Eða klýfur rauðahafið. Hvað þá plágur Egiptalands.

Consistency please!

9.13.2005

3. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Ekki er hægt að segja að þriðja bók Móse sé mikill skemmtilestur. Hún ber nafnið Leviticus á alþjóðamálum, sem vísar í að hér er mikill lagabálkur um prestskap, mannasiði og þó aðallega fórnfæringar, en ættkvísl Leví er valin til þjónustu við Guð í samkomutjaldinu. Skipaðir sjálfboðaliðar, eins og það hét í Ástríksbókunum.

Hún gæti reyndar líka heitið Lagið um það sem er bannað. Og viðlagið úr samnefndum sálmi Sveinbjarnar I. er ágætis súmmering:

Þetta fullorðna fólk er svo skrítið, 
það er alltaf að skamma mann, 
þó maður geri ekki neitt, 
það er alltaf að skamma mann. 

Fyrri hluti bókarinnar eru gríðarlega smásmyglislegar lýsingar á matfórnum. Hvaða dýrum skyldi fórnað hvenær og hvernig. Hvað af innvolsinu skyldi brennt á altarinu til "eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin", eins og þrástagast er á, og hvað skyldi falla í hlut Levísona.

Eins og í Exodus er endurtekningarstíllinn í hávegum hafður og heildaráhrifin fyrir vikið frekar klígjuleg. Það er eins og stöðugur straumur nautgripa, kinda, geita og dúfna liggi inn í samkomutjaldið, þar sem Aron og synir hans standa með kutana reidda, albúnir að fjarlægja mörinn, netjuna og stærra lifrarblaðið til að brenna og búa til góða lykt fyrir Guð. Og borða restina innan tveggja daga. Eins gott að dr. Atkins er búinn að sanna að kjötát sé überhollt, annars þyrfti sífellt að vera að víkka prestskrúðann, sem er ærið verk miðað við lýsinguna á saumaskapnum í síðustu bók.

Býð spenntur eftir skýringu á því af hverju Gyðingar eru hættir þessu fórnarbrölti. (Þeir eru það, er það ekki?)

Þegar fórnarkaflanum líkur taka við lög um ýmislegt annað.

Og fyrst það sem mikilvægast er: Hvað er hreint, og þó sérstaklega óhreint.

Lík, holdsveikir, graftrarkýli, konur á túr. Óhreint. Allskyns serimóníur til að hreinsa sig af snertingu við þessháttar, og hreinsun viðkomandi þegar holdsveikin skánar eða Rósa frænka drullar sér heim. Skemmtilegt.

Og svo hvaða matur er hreinn. Það er sniðugt. Dýr sem jórtra og hafa klofinn hóf, sjávardýr með hreistur og sundugga, slatti af fuglum. Að ógleymdum engisprettum af tilteknum gerðum.

Þetta má borða.

Hér er líka að finna fyrstu greinina sem þeir sem eru þannig innréttaðir vitna í til að fordæma samkynhneigð. Í 18. kafla, 22. versi:

Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

Nokkuð afdráttarlaust, en til allrar óhamingju fyrir hina hómófóbísku eru í næsta nágrenni jafn afdráttarlaus ákvæði sem engum kristnum manni dettur í hug að fylgja.

Sérstaka athygli vekur að Guð notar sömu orð um kynlíf tveggja karlmanna og það að borða humar. Viðurstyggð.

Minnir mig á að í æsku minni á Húsavík var orðið humar í vissum kreðsum slanguryrði yfir...

Let's not go there.

í 19. kafla koma svo allt í einu ákvæði sem allir ættu að geta skrifað undir. Ekki ljúga, veriði góð við fatlað fólk og gamalt. Verið sanngjörn í dómum, dragið hvorki taum lítilmagnans né þess volduga.

Hvaðan kemur okkur siðvit til að greina á milli þess sem er gott og, ja, miður gott í fyrirmælum þessar forneskjulegu lögbókar og gæðahandbókar í kjötiðju? Mér skilst að Gamlatestamentið sé í kristinni guðfræði meira og minna skilið óeiginlegum skilningi sem fyrirheit og spásagnir um komu Krists, jafnvel þessi bók ef marka má þessa grein (undir "Christian Views"). Eðli verkefnisins samkvæmt er ég ekki að lesa með þessum gleraugum, heldur reyni að mæta hverri bók með opnum huga. Fyrirfram þykir mér reyndar dálítið hæpið að líta á texta eins og þennan sem eitthvað annað en það sem hann bókstaflega er. Hegðunarreglur.

Og okkur þykja sumar þeirra eðlilegar, aðrar ekki. Og þar sem það stangast á þá gildir siðvitið í brjóstum okkar. Við borðum humar, grýtum ekki spámenn, höldum ekki þræla og þau okkar sem eru ekki alger fífl láta samkynhneigða óáreitta.

En jafnvel í þessari dálítið subbulegu bók eru fallegar greinar. Mér finnst 25. kaflinn vera góður, þó ég sé ekki viss um að íslenskir kvótakóngar og aðrar kapítalískar afætur séu mér sammála.

Þar segir að allt land skal látið í friði sjöunda hvert ár, ekkert sáð og ekki uppskorið. Allir mega eta það sem sprettur hjálparlaust. Mjög fallegt, gott fyrir landið, og með því að rótera þessu milli bæja geta allir veglausir og fátækir fundið eitthvað í gogginn.

Fimmtugasta hvert ár, árið eftir sjöunda sabbatsárið er Fagnaðarár, The Year of Jubilee í enskum biblíuþýðingum. Þá eru öll viðskipti afturkölluð. Enginn getur selt land lengur en í fimmtíu ár, því að þeim loknum skal hver halda heim á land feðra sinna. Guð á nefnilega landið, mennirnir eru leiguliðar. Jafnframt eru allir Ísraelsmenn sem ratað hafa í þrældóm gefnir frjálsir á þessu ári.

Er þetta ekki snjöll lausn á einokun og hringamyndun? Það er gefið upp á nýtt á hálfrar aldar fresti.

Og svo er bannað að taka vexti. Sem húsnæðiskaupandi í yfirvofandi verðbólguumhverfi þykir mér það skynsamleg regla líkt og sú um að ekki megi ljúga og stela, en ekki forneskjuleg vitleysa eins og fordæming samkynhneigðra eða bann við að éta strútakjöt.

9.11.2005

2. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


The plot thickens!

Núna eru Ísraelsmenn þrælar í Egiftalandi. Og svo fæðist Móse. Og Guð felur honum að frelsa lýðinn. Og honum finnst hann ekki vera nógu flinkur PR maður. Og Guð gefur honum leyfi til að hafa Aron bróður sinn með. Og þeir vaða í Faraó og heimta frelsi. Og Faraó eykur bara okið. Og Guð gengur í málið.

Eitt það athyglisverðasta í Exodus eru galdrakallar Faraós. Þeir eru svolítið eins og þessir nútímagaurar sem rembast við að afhjúpa miðla og hugsanalesara og stjörnuspekinga og svoleiðis fólk. Móse mætir með nýjasta trikkið frá Guði og spámenn Faraós gera eins. Stafur breytist í snák. Vatn breystist í blóð. Froskar. Móse galdrar í umboði Guðs og töframenn Faraós gera eins.

Og Faraó hlær og hristir hausinn yfir Ísraelsmönnum og Guðinum þeirra sem er engu máttugri en hans eigin töframenn.

En svo kemur mývargsplágan og spámennirnir ráða ekki við að leika það eftir. Eftir það er fjölkynngi Guðs óumdeild. Ísraelsmenn fá að fara og ræna slatta af gersemum í leiðinni, í boði guðs.

Og æða út í eyðimörkina.

Og út í Rauðahafið

Og Egiftar á eptir

og lengi tekur sjórinn við...

Hér eru kaflaskil. Núna eru það bara Ísraelsmenn og Guð um hríð. Og hann tekur til við að ala þá upp. Hann leggur Móse lífsreglurnar. Reglur um samskipti milli manna, reglur um viðurlög við allskyns afbrotum, og svo bannhelgisreglur og önnur fyrirmæli sem hafa engin tenxl við siðferði eða raunveruleikann yfirleitt.

Það er eitthvað skrítið við þessa texta. Það er eitthvað undarlegt við að Guð gefi ordrur um bannhelgi. Maður kann einhvernvegin betur við að hún byggist á sérvisku og ótta mannanna. Að þeir hafi fundið upp á henni sjálfir. Guð setur einhvernvegin niður við að vasast í því sjálfur að menn séu ekki að borða súrdeixbrauð í apríl eða sjóða kiðlinga í mjólk móður sinnar. Ef maður er almáttugur, hvað ætli manni væri ekki sama?

Hvað varðar bókina sjálfa þá er eitt svona "þú-hlýtur-að-vera-að-grínast-" móment. Eftir gríðarlangan kafla þar sem Guð leggur línurnar um byggingu musteristjaldsins, prestskrúðans og innanstokksmunanna allra, í talsvert meiri smáatriðum en manni finnst að sjálfsöruggur guð ætti að gera. Þá kemur annar kafli þar sem iðnaðarmenn Ísraels framfylgja þessum skipunum og það er tilgreint í nákvæmlega sömu smáatriðum! Orðrétt.

Svolítið eins og sögufrægt atriði úr útvarpsskemmtiþáttunum The Goon Show þar sem sagði "og hann barði á dyrnar hundrað sinnum". Og svo komu hundrað högg. Fyrst skrítið. Svo fyndið. Síðan absúrt. Að lokum leiðinlegt. Og tilgangslaust.

Að lokum smá um sjálfa og útleggingar hennar. Hvað er þetta með boðorðin tíu?

Í Biblíunni eru þau svona:
Guð talaði öll þessi orð og sagði:

1
Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

2
Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

3
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

4
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

5
Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

6
Þú skalt ekki morð fremja.

7
Þú skalt ekki drýgja hór.

8
Þú skalt ekki stela.

9
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

10
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.


Á vef íslensku þjóðkirkjunnar eru þau hinsvegar svona, og vitnað í sjálfan Lúther því til stuðnings;
1
Þú skalt eigi aðra guði hafa.

2
Þú skalt eigi leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.

3
Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.

4
Heiðra skaltu föður þinn og móður.

5
Þú skalt eigi mann deyða.

6
Þú skalt eigi drýgja hór.

7
Þú skalt eigi stela.

8
Þú skalt eigi bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

9
Þú skalt eigi girnast hús náunga þíns.

10
Þú skalt eigi girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.


Af hverju stafar munurinn? Af hverju vilja Lúthersmenn ekki boðorð um líkneskjur? Og þó svo þeir vilji þau ekki, hvað gefur þeim leyfi til að breyta orðum guðs efnislega?

Þó svo bókstafstrúarmenn séu frekar hjákátlegt fólk, þá verður grunnritið að vera nokkuð stöðugt, er það ekki? Eða eins og Jerry Springer myndi orða það:

I'm Confused...

9.06.2005

1. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Þetta er engin smá bók! Hún er reyndar ekki ýkja löng, en það gerist hinsvegar eitt og annað. Sköpun heimsins. Syndafallið. Kain og Abel. Nóaflóðið. Babelsturninn. Eyðing Sódómu og Gómórru. Abraham og Ísak. Jakob og Esaú. Jakob glímir við Guð. Jósep og draumar Faraós.

Þetta er móðir allra sögubóka.

Eins og oft með fornar svoleiðis bækur þá er gjarnan farið hratt yfir sögu þegar merkustu atburðirnir gerast, en staldrað við og greint í löngu máli frá smáatriðum og hlutum sem síðari tíma fólki finnst kannski ekki skipta miklu máli. Svolítið eins og Íslendingasögurnar, með sínum fáorðu lýsingum af stórviðburðum og lotulöngu ættartölum og lagaþrætum. Þó auðvitað séu það Sögurnar sem eru mótaðar eftir Biblíunni en ekki öfugt.

Og það þarf engan að undra að ýmislegt er mótsagnarkennt, ruglingslegt og útúrdúrasamt. Þetta er gömul bók og hefur vitaskuld ratað í ýmsar raunir á ferð sinni inn í prentsmiðjur nútímans.

Í bókinni sjáum við menningu verða til. Eða réttara sagt, sjáum það ekki. Nói fórnar brennifórn þegar flóðið sjatnar. Aldrei fáum við að vita hvernig sá siður komst á. Við fáum líka smámsaman innsýn í siðferði þessa fólks, hvað því finnst skipta máli. Við fáum að vita að frumburðir hafa rétt umfram aðra, konur eru keyptar og seldar, þrælar sömuleiðis. Þetta er fjölkvænissamfélag þar sem börnum er bölvað fyrir að koma að föður sínum nöktum og brennivínsdauðum.

Hvernig þetta skipulag hefur komist á kemur ekki fram, það er svolítið eins og náttúrulögmál. Sem það er ekki. Á hinn bóginn eru vissar siðvenjur raktar beint til Guðs, til sáttmála sem hann gerir við mennina. Fyrst við Nóa, um að ekki skuli etið ket sem blóð er í, síðan við Abraham um að karlmenn skuli umskornir. Þetta er auðvitað frekar dularfullt fyrir okkur.

Samband söguhetjanna við Guð skipar stóran sess í bókinni. Guð er mjög nálægur, talar við fólkið, gerir samninga, leiðir menn áfram. Hann setur ekki lög í þessari bók, það kemur síðar. Jú, eina reglu setur hann snemma í bókinni, en hún er umsvifalaust brotin. Síðan reynir hann aðrar leiðir til að ala mannkynið upp. Í Nóaflóðinu er eins og hann langi að byrja upp á nýtt, út frá einu vel heppnuðu eintaki innan um allan lýðinn. Svolítið erfðafræðileg nálgun. En fljótlega eftir það fer hann að fara samningaleiðina. Lofar landi, ríkidæmi og langlífi ættar Abrahams gegn því að mennirnir gjöri vilja hans. Ýmsar sögur fara af því hvernig fer fyrir þeim sem ekki fara að þeim vilja. Sögur eru hinsvegar sérlega varasamar til að draga almennar ályktanir af. Sérstaklega jafn gamlar og skrítnar sögur og hér eru á ferðinni.

En það er svo sannarlega gert. Áhugasamir gætu t.d. kíkt á þessar útleggingar á hverjum kafla Biblíunnar. Heldur þykir mér hér langt seilst stundum í að lesa lærdóma í orðin. Eins og ég sagði í innganginum í gær þá eru menn fljótir að missa sjónar af því hvað þeir sjá í textanum og hvað þeir koma með sjálfir.

1. Mósebók er mögnuð bók. Dularfull, framandi, en samt svo stútfull af viðburðum, persónum, minnum og lærdómum sem eru í stöðugri endurvinnslu hjá okkur. Því vekur það sérstaka ánægju að rekast á mergjaða kafla sem ekki er haldið á lofti. Eins og til dæmis 34. kafli, þar sem synir Jakobs semja um það við íbúa Síkemborgar að þeir láti umskerast svo þjóðirnar geti sameinast og sótt sér kvonfang úr röðum hvorrar annarar. En meðan hinir nýskornu liggja og jafna sig eftir aðgerðina fara tveir af Jakobssonum um borgina með sverð sín og drepa þá alla, en hneppa konur og börn í þrældóm. Engum sögum fer af því hvað Guði þótti um þær aðfarir, nema að það urðu engin eftirmál. Förum samt varlega í að draga almennar ályktanir af því og vaða um ganga sjúkrahúsanna með eggvopn.

En sagan er góð. Hryllileg en samt pínulítið fyndin (Biblían með Tarantino-augum).

Og þó hér sé sagt frá miklum tíðindum, sköpun heimsins og tilurð þjóðar, þá eru líka unaðslegar litlar myndir sem gera þessar fjarlægu ofurhetjur svo mannlegar:
Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons. Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.
IM 26 35-35
Eiginkonur hafa greinilega lengi farið í taugarnar á tengdaforeldrum sínum, ekki síst þegar kolbítar eins og Esaú ganga loxins út.

Látum það verða lokaorð í þessum fyrsta biblíupistli Varríusar.

ATH. Þessi pistill birtist einnig á Varríusi sjálfum Þar eru einnig komment við hann.

9.05.2005

Varríus les Biblíuna

Varríus er að lesa bók. Og ekki bara einhverja bók eins og venjulega, heldur Bók. Bókina. Bók bókanna. Sjálfa Biblíuna.

Það hefur lengi staðið til að lesa ritninguna. Eiginlega fáránlegt að hafa ekki gert það. Út í hött að þykjast skilja vestræna menningu án þess. Fyrir nokkrum árum byrjaði ég en þraut erindið tiltölulega snemma. Núna verður ekki gefist upp, enda verður allur heimurinn til vitnis.

Ég hef nefnilega ákveðið að skrifa pistla eftir hverja bók og birta hér. Gera grein fyrir pælingum sem kvikna, spurningum sem vakna, og skoðunum sem myndast.

Að sjálfsögðu er ég að vona að sem flestir Varríusarlesendur fylgi fordæminu, leggist yfir ritninguna með mér og kommenti sem aldrei fyrr. Svoleiðis leshringur yrði heldur en ekki skemmtilegur.

En fyrst smá vangaveltur um forsendur.

Það er ekki laust við að maður fái í herðarnar þegar Biblían er opnuð með svona markmið í huga. Ekkert skrítið, því á þeim sitja herskarar af ofstækisfullum bókstafstrúarmönnum, álíka fanatískum trúleysingjum, sprenglærðum og þrætubókarfimum guðfræðingum og mærðafullum kirkjuklerkum. Fyrir nú utan alla þá spekinga og listamenn sem hafa sótt innblástur að brilljant hugmyndum í þetta grundvallarrit Vesturlanda.

Það er innprentað í mann að þetta sé ekki nein venjuleg bók og ekki hægt að lesa hana sem slíka. Gegn slíku viðhorfi talar agnostísk rödd skynsemishyggjumannsins og heimtar að hún sé einmitt lesin með hlutlausu auga, ef hún er merkilegri en aðrar bækur hljóti hún að segja lesandanum það sjálf. Háværar raddir bókstafstrúarmanna kalla á leit að atriðum til að spæla þá með: mótsögnum, loðmullu, úreltum fyrirmælum. Hluta af manni langar einfaldlega til að heillast. Von mín er að geta haldið þessum ólíku röddum í einhverskonar jafnvægi.

Biblían verðskuldar augljóslega þá virðingu af lesanda sínum að það sé heilmikið í hana spunnið þó stundum sé erfitt að sjá það. Svona svipað og að lesa Shakespeare, Kafka eða Beckett. Staða hennar sem trúarrit krefst þess jafnframt að hún sé spurð erfiðra spurninga. Það á ekki að þurfa að teygja sig út fyrir mörk rökvísi, skynsemi og málskilnings til að fá vit í það sem í henni stendur. Enda þýddi það að vitið væri ekki úr henni heldur lesandanum.

Í öllu falli vona ég að lesturinn kenni mér að lesa Biblíuna. Þá er til nokkurs stautað.

Tvö hjálpargögn sem stuðst verður við:

BibleGateway er gríðarlegur gagnagrunnur með Ritningunni á ótal tungumálum og fjölmörgum útgáfum á ensku. Þarna er t.d. hægt að skoða Íslensku Biblíuna, og svo er þetta gríðarlega gott áhald til að skoða skrítna staði með samanburði á þýðingum.

Wikipedia er eitt magnaðasta fyrirbæri á netinu. Þar er gríðarlegt magn af fróðleik um ótrúlegustu hluti. Mögulega ekki allt satt og rétt, enda misjafn sauður sem skrifar. En heilt yfir alger snilld.