2.13.2015

Lúkasarguðspjall

„Það er þessi með ömmugleraugun!“


Textinn
Samanburður
Kynning

Hún er sterk, tilfinningin að Lúkasarguðspjall Nýja testamentið, á sama hátt og fyrsta og önnur Mósebók séu það gamla. Það stafar auðvitað af því að hér er jólaguðspjallið. Snertipunktur guðleysingjans sem fer samt í kirkju á jólunum, og/eða hlustar á útvarpsmessuna meðan hann skrælir kartöflurnar fyrir sykurbrúninguna.

En hér er líka sagan um miskunnsama Samverjann, um Mörtu og Maríu, Sakkeus tollheimtumaður og fleira sem við þekkjum öll vel þótt við dottuðum í fermingarfræðslunni og höfum vanrækt trúna síðan. Sumt annað ómissandi efni er reyndar ekki hér. Fjallræðan mun rýrari en hjá Mattheusi til dæmis. Sem og faðirvorið.

Og þó fæðingarsagan sé hvergi jafn-ítarleg og hér þá er enginn flótti til Egyptalands eða fjöldamorð á kornabörnum. Sem verður  að teljast lýti á hverri bók.

Heilt yfir er samt ljóst að jafnvel eftir krókaleiðum þýðingar og þýðingarhefðar þá er meira í þennan texta spunnið en M&M. Inngangurinn er t.d fallegur.

Við skulum staldra aðeins við Jólaguðspjallið. Í því eru línur sem vel má líta á sem kveikju þess að ég réðst í þetta verkefni.

Þorláksmessa 1997 og Eyvindur P. Eiríksson flytur ávarp á Ingólfstorgi eftir friðargöngu. Hann leggur út af lofsöng herskaranna á Betlehemsvöllum:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. (2.14)

og varpar fram þeirri spurningu hvers konar Guð fari í manngreinarálit þegar hann boðar frið, og beini þeirri ósk eingöngu til þeirra sem „hann hefur velþóknun á“. Og hvaða fólk er það þá? Þetta veldur smá fjaðrafoki og hinn frómi kórstjóri Þorgerður Ingólfsdóttir leiðir aldrei þessu vant ekki hópflutning á Heims um ból, í mótmælaskyni við guðlast Eyvindar.

Þetta sat í mér. Hafði aldrei hugleitt hvað þessi orð merktu. Þau höfðu álíka status í mínu lífi og Waldorfsalat. En mér fannst vangavelta Eyvindar áhugaverð. Og réttmæt, við fyrstu sýn.

Það var eitthvað seinna sem ég komst að því að bæði er orðalagið hæpin útlegging latínunnar og væri gjarnan þýtt á annan hátt. Eitthvað blandaðist inn í þetta munurinn á lúterskri og kaþólskri guðfræði, án þess ég vissi hvernig.

Þremur árum síðar var ég enn nógu upptekinn af þessu til að varpa fram spurningu á vísindavefnum. Svörin sem ég fékk voru fróðleg, en kannski ekki alveg svör við því sem mig fýsti að vita. Spurningin ekki nógu skýrt orðuð, held ég núna.

Í nýju þýðingunni er þetta svona:

„Dýrð sé Guði í
upphæðum
og friður á jörðu og
velþóknun Guðs
yfir mönnunum“

Sem er allt önnur – nánast andstæð – merking. Eitthvað sem hefði allsekki sjokkerað Eyvind. Annars vegar verður friður með þeim sem Guð hefur velþóknun á (og þá væntanlega ekki öðrum), hins vegar verður friður á jörðu og Guð hefur velþóknun á mannkyninu (öllu).

Svona hefur Oddur G. þetta:

„Dýrð sé Guði í uppæðum og friður á jörðu og mönnum góðvilji“

sem er ca eins og nýjasta þýðing. Þýðingarnefnd Jakobs Englandskonungs skilaði þessu keimlíkt:

„Glory to God in the highest, and on earth peace, good will toward men.“

Allsstaðar er það velþóknun/velvilji guðs gagnvart (öllum) mönnum sem boðaður er. Ekki exklúsívt neitt. Hvaðan sú dularfulla hugmynd er ættuð er jafn skrítið og áður, en skiptir kannski ekki máli úr því þetta er horfið úr íslensku Biblíunni.

Nema samt: Úr því við eigum að virða Orðið, taka fyllsta mark á því og láta það hafa afgerandi áhrif á hvernig við hugsum og hegðum okkur – má þá bara snúa svona upp á það – umræðulaust?

Þetta snýst nefnilega ekki um hvað sjokkerar Eyvind, heldur meira hversvegna umsnúningur lykiltexta úr lykilbók - gildabókinni, siðferðisgrunninum - sjokkerar ekki Þorgerði.

Þannig er nú það.

En úr því við erum að tala um þýðingarmun þá skulum við öll staldra við og njóta þessarar dásamlegu orða úr fjósinu:

„ ...ásamt Maríu, sinni festarkvon óléttri.“

Svipmikið hjá hr. Gottskálkssyni, ekki satt? Annars er ég ekki að standa neitt sérlega staðfastlega við fyrirheit um að lesa OG-þýðinguna meðfram. Til þess er hún ekki nógu spennandi, og svo er andskotans (afsakið) nóg að lesa (næstum) sömu söguna fjórum sinnum, þó maður bæti ekki ólíkum útleggingum við, Og hananú!

En áfram með dr. Lúkas

Hann fylgir formi Guðspjallanna: Boðun – fæðing – freistingar – kraftaverk – lærisveinar – meiri kraftaverk – vaxandi paník í faríseastétt – dæmisögur – Jerúsalem – handtaka – dauði.

Hvað kraftaverkin varðar er hér eins og áður aðallega verið að hrekja burt illa anda og reisa fólk frá dauðum eða þvísemnæst. Það hvað þau taka mikið pláss, og hvaða hlutverki þau gegna í gangi sögunnar er eitt af því sem ég hef lært nýtt af því að lesa NT.

Í siðferðisefnum er Lúkasarkristur á svipuðu róli og hjá M&M. Örlítið mildari samt. Hann fullyrðir reyndar að Lögmálið standi, en býður samt upp á þetta snaggaralega svar þegar kreddumenn hneykslast á honum og lærisveinunum fyrir athafnasemi á hvíldardeginum:

Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé? (14. 5)

Nauðsyn brýtur lög. Að þessu leyti er kenning Krists sveigjanleg, en óneitanlega er víða að finna meiri stífni. Eins og í fyrri spjöllum er sérstaklega útdeilt hórsekt þeim sem taka saman við fráskildar konur.

Dæmisögur og spakmæli Jesús eiga það til að vera torræð og myrk – og það meira að segja haft á orði í sögunum. Ætli sagan um rangláta ráðsmanninn (16. 1–9) sé ekki sú undarlegasta hingað til.

En þetta er fallegt:

Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum því að þeir bjóða þér aftur og þú færð það endurgoldið. Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra. (14. 12-14)

Ekki beint Hávamálamórall hér. Gott ef hér er ekki komið „kristið gildi“. Um hitt má svo deila hversu vel það hefur inngróið í vort vestræna siðvit.

Það er eiginlega mergjað að kapítalisminn skuli vera afsprengi hins kristna samfélags, svo mjög sem hamast er gegn auðsöfnun og veraldarhyggju í grunntextum þess. Ekki furða þó frjálshyggjuliðið reyni að sölsa til sín merkingu sögunnar frægu um miskunnsama Samverjann, sem bara er sögð hér, svona til að hafa eitthvað haldreipi. Með hörmulegum árangri.

Öllu auðveldara er að sjá áhrif guðspjallanna í skorti á fyrirhyggju varðandi framtíðina, sem hefur knúið okkur að brún heimsslitalegra umhverfishamfara, svo mjög sem hamrað er á að heimsendir sé í nánd, Menn eiga að treysta á Guð einan eins og fuglar himinsins og láta sér fátt um ættingja sína og vini. Hvað þá afkomendur.

Hjá Lúkasi líka áhersla á að aldrei sé of seint (eða seint of seint) að snúa sér til Guðs með iðrun sína. Sögurnar um týnda sauðinn og glataða soninn. Mögulega tengist það því að Lúkasarspjall ku vera ætlað heiðingjum fremur en Gyðingum. Hópi sem ekki gat stært sig af langtímatryggð við Lögmálið.

Og hér er líka dvalið við miskunnsemi Guðs gagnvart þeim sem iðrast (og eru ekki ríkir). Þetta er t.d. skemmtileg dæmisaga um mátt bænanna:

Þá sagði Jesús þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: „Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ,Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.' Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ,Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu.'“ Og Drottinn mælti: „Heyrið hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ (18. 1–8)

Manni finnst ansi kræft af Kristi að setja ranglátan dómara í hlutverk Guðs. En hvað, boðskapurinn kemst til skila. Þreytið Guð með nauði ykkar og Gullna hliðinu mun upp lokið verða. Og góð saga.

Annars er það að greiða úr mótsagnarlegum fullyrðingum guðspjallanna um stöðu Lögmálsins í heiminum, og þar með tengsl testamentanna, samband Gyðingdóms og Kristni, verkefni sem kallar á heila háskóladeild, frekar ein eitt fátæklegt leikmannsblogg.

Líkt og hjá Markúsi (en ekki Mattheusi) má segja að endalokasagan hefjist þegar Kristur veltir við borðum víxlaranna:

Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús,
en þér hafið gjört það að ræningjabæli.“
Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann. (19. 45–48)

Hér staldrar maður við tvennt. Annarsvegar „leituðust við að ráða hann af dögum“. Það er nú ekki eins og elítan hyggist á þeim tímapunkti fara „dómstólaleiðina“. Jakobsbiblían talar reyndar um „sought to destroy him“, sem er ekki eins afgerandi (gæti þýtt eitthvað PR-stunt), en Modern English útgáfan er jafnvel enn afdráttarlausari og segir hreinlega „tried to kill him“.

Og svo „allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann“. Sem hljómar eins og Jesús sé a.m.k. á pari við Bítlana í vinsældum á sínum heimavelli, og gerir enn torskildara í hverju svik Júdasar felast. Að benda löggunni á með kossi hver af tólfmenningunum sé hinn „seki“ – frægasti maður Júdeu um þær mundir?

Um aðdraganda krossfestingarinnar fer hefðbundnum sögum. Einstaka atriði eru ólík milli Guðspjalla. Júdas hengir sig einungis hjá Mattheusi en Lúkas segir einn frá samskiptum Krists við ræningjanna (sem hér heita reyndar „illvirkjar“), samferðamenn sína yfirum.

Og ólíkt M&M er hér ekkert um þá skýru upplognu dauðasök Jesú að hafa montað sig af að geta rifið og endurbyggt musterið á nokkrum dögum. Sá sem bar þetta vitni er að mínu mati ein forvitnilegasta persónan sem er EKKI í Biblíunni.

Á hinn bóginn er ein forvitnilegasta aukapersónan í samstofna guðspjöllunum þremur Símon frá Kýrene. Hann er sagður „nýkominn utan úr sveit“ (sem er skemmtilegt orðalag) og er settur í að bera krossinn fyrir Krist, en kemur að öðru leyti ekki við sögu. Það er aðeins hjá Jóhannesi sem Jesús er látinn gera það sjálfur.

Þessi stutta lýsing á meðferð Gyðinga á fanga sínum er hjá þeim Markúsi, Mattheusi og Lúkasi öllum, en skírust og mest hrollvekjandi hér:

En þeir menn sem gættu Jesú hæddu hann og börðu, huldu andlit hans og sögðu:  „þú ert spámaður, segðu hver sló þig“ Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann. (22. 63)

Maður hugsar um Abu Grahib. Og hvaða trúar þeir voru sem þar fóru sínu fram. Og hve þunga áherslu það samfélag leggur á kristin gildi. Og hvort þeir hafi sofið vel í sunnudagaskólanum á sínum tíma.

Blálokin eru forvitnilega ólík milli M, M og L. Eftir að Kristur er upp risinn og kominn í samband við lærisveina sína aftur. Hér er Markús:

Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn. Jesús sagði við þá: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun dæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma og þó að þeir drekki eitthvað banvænt mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur og þeir verða heilir.“
Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu. (Mark 16. 14–20)

Mattheus:

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Mat 28. 16–20)

Og loks okkar maður, líflæknir postulans, dr. Lúkas

Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og undrun. Þá sagði hann við þá: „Hafið þið hér nokkuð til matar?“ þau fengu honum stykki af steiktum fiski og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.
Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“ Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið  kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum.“ 
Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð. (Lúk 24. 40–53)

Það er gaman að þessu með steikta fiskinn hjá Lúkasi. Heyriði ekki fyrir ykkur Jesú segja, eftir fangavist, krossdauða, dvöl í hellinum og þrjá daga í helju: „Hafið þið hér nokkuð til matar?“

Svo er nú skemmtilegt að hann hókusi í þá ritningarskilning. Markús áréttar einn að þeir sem ekki trúi verði fordæmdir. Já og gefur ofsatrúarfólki undir fótinn með að tala tungum og handleika snáka. Vel gert Mark!

Áhugavert líka að eina guðspjallið sem talar um að þau (þeir í eldri versjón) eigi að halda kyrru fyrir í Jerúsalem þar til þau  „íklæðist krafti frá hæðum“.

Eru þau þar enn? Eins og skáldið sagði.

Hjá öllum guðspjallamönnunum er ljóst að erindi Guðs í gegnum umboð Krists og nú lærisveinana er að boða trúna öllum – ekki aðeins Gyðingum. Samt skilst mér að það hafi verið rifist heilmikið um þetta atriði lengi á eftir, og sé jafnvel enn.

Í ljósi þess hve margt er myrkt, mótsagnakennt og óskýrt í kenningunni þá finnst mér nú óþarfi að gera sér að deiluefni skíran samhljóða vitnisburð eins og þennan.