4.08.2015

Postulasagan


Í útrás

Textinn
Samanburður
Fræði

Hér er ný sköpunarsaga. Það tekur reyndar aðeins meira en sex daga og einn í fríi að smíða kirkjuna, en smiðirnir eru líka bara venjulegir menn og fá bara smá hjálp frá meistaranum. Sem felst aðallega í að losa þá úr fangelsum þegar fasteignaeigendum á svæðinu þykir þeir frekir á byggingarefni og ólæsir á aðalskipulagið. Jú og hann headhuntar fyrir þá öflugan yfirsmið úr innsta hring keppinautanna. Vel gert gamli!

Og látum við þar með lokið þessu líkingamáli.

Postulasagan er skýr texti og framvindan hnökralaus. Þrátt fyrir andspyrnu sann-, heit- og bókstafstrúaðra Gyðinga vex hinum nýstofnaða söfnuði kristinnna stöðugt feitari fiskur um hrygg. Lærisveinarnir hafa fengið eitthvað af kraftaverkakrafti Krists í arf og kemur það sér vel - eins og áður tala verkin hærra en Orðið þegar kemur að því að vísa pöpulnum veginn.

Fyrsta verk þeirra, og fyrsta frásagnarefni bókarinnar, er að fylla skarð Júdasar. Sem samkvæmt þessum texta fyrirfór sér ekki af iðrun heldur glataði iðrunum í meinlegu slysi:

Hann keypti landspildu fyrir launin sem hann fékk fyrir ódæði sitt, steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju, svo að iðrin öll lágu úti. (1. 18)

Mátulegt á hann, mætti segja, þó ég eigi enn bágt með að skilja í hverju svik hans voru fólgin.

En nóg um það. Hér með er Júdas úr sögunni og Matthías nokkur kemur í hans stað.

Og fljótlega er orðinn til söfnuður. Söfnuðir reyndar, því Gyðingar utan áhrifasvæðis Jerúsalem eru ekki síður móttækilegir fyrir hinum nýja sið sem lofar framhaldslífi á grunni raunverulegs dæmis, auk allra þeirra tákna og undra sem boðið er upp á.

Eg sagði „söfnuðir“ en „kommúna“ væri kannski ekkert verra orð yfir frumkirkjuna. Einhvernvegin grunar mig að sumir af bókstafstrúuðustu áhangendum Krists vestanhafs og víðar hafi skautað yfir þessa lýsingu:

Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á (3.44–45)

og

En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt. … Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til. (4. 32–35)

Og þar sem er kommúnismi er vissulega ekki langt í Ógnarstjórnina

En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna. En Pétur mælti: „Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns? Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði.“ Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu. (5. 1–5)

Í sönnum biblíustíl endurtekur þessi saga sig nánast orð fyrir orð í næstu versum þegar Saffira leikur sama leik.

Tilraunir Farísea og Saddúkea til að stöðva þessa nýju hreyfingu gana afleitlega, ekki síst þar sem Guð stundar það að sleppa þeim úr fangelsi. En jafnvel þau kraftaverk sannfæra ekki yfirstéttina. Það er raunar merkilegt – hér og í guðspjöllunum – að hin augljósu tákn hafa ekki áhrif á „atvinnutrúmennina“. Eða öfug áhrif reyndar. Of mikið í húfi kannski, hérna megin dómsdags.

Þetta gengur allavega ekkert hjá þeim. Ætli þetta sé ekki rödd skynseminnar í málinu:

Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, vel metinn af öllum. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn. Síðan sagði hann: „Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn. Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu. Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum. Og nú segi ég ykkur: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð.“ (5. 34–39)

Orðalagið „þóttist vera eitthvað“ gleður mig.

En semsagt: Ef þetta er rugl hjá hinum kristnu þá gengur þetta yfir. Ef ekki þá er tilgangslaust að berjast á móti. Við vitum öll hvernig þetta fór.

Ætli guði hafi ekki verið nóg boðið þegar efnilegur predikari, Stefán að nafni, mætti á svæðið – sem fulltrúi grískumælandi Gyðinga, en flokkadrættir í þeim trú- og kynflokki eru undirliggjandi í þessari sögu allri. Og verða Stefáni þessum að falli. Hér er nefnilega hópur sem kallast „Leysingjar“ og þeim mislíkar kenning þessa manns. Rægja hann og æsa „lýðinn“ upp á móti honum:

Þegar ráðsherrarnir heyrðu þetta, trylltust þeir og gnístu tönnum gegn Stefáni. En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.“ 
Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður. Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét. Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.“ Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: „Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar.“ Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann. Sál lét sér vel líka líflát hans. (7. 54–60)

Athygli vekur að hér verður einn maður vitni að kraftaverki en aðrir nærstaddir verða einskis varir. Maður getur skilið að þeir trúi ekki orðum óvinar síns fram yfir eigin augu, þó okkur nútímapempíum þyki kannski óþarfi að grýta manninn fyrir sveppátið. En aðalatriðið hér er samt meðreiðarsveinninn sem passar föt grjótkastaranna og gleðst yfir árangri þeirra. Lykilhetja hefur ekki fyrr í þessari bók verið kynnt til sögunnar á jafn frumlegan hátt.

Sál fer hratt frá því að gæta fata fyrir böðla til þess að gegna mikilsverðu hlutverki í ofsóknum gegn kristnum. En skiptir svo um lið í einu kunnasta atviki bókarinnar allrar. Og svo nafn í framhaldinu, svona upp á að virka betur á erlendum mörkuðum.

Restin af bókinni segir frá ferðum The Artist formerly known as Saul, þar sem hann boðar trúna, aðallega gyðingum á útjöðrum heimsins, en líka að einhverju leyti „heiðingjum“. Ekki voru allir á eitt sáttir um hvort og hvernig það ætti að virka. Einn þröskuldurinn var mataræðið, því leiðin að trúarsannfæringu mannsins liggur auðvitað um magann. Guð leysti góðu heilli úr því, allavega fyrir humarveiðimenn framtíðarinnar:

Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir. Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða fékk hann vitrun. Hann sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum. Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins. Og honum barst rödd: „Slátra nú, Pétur, og et!“
Pétur sagði: „Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint.“ Aftur barst honum rödd: „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!“ Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins. (10. 9–16)

Annað vandamál var svo umskurnarsáttmálinn mikli, en þar var líka ákveðið að hlífa forhúðum heiðingjanna. Hjúkkitt.

Eitt af því sem er allraskemmtilegast í þessum textum er þegar hinu yfirnáttúrulega er kippt niður á jörðina. Það gerist hér – mögulega í síðasta sinn (restin af Biblíunni er guðfræði bréfanna og sýrutripp Opinberunarbókarinnar):

Það gerist nokkru sinni í bókinni að einhver reynir að sníkja sér far með kraftaverkamönnum kristninnar. Þar á meðal eru synir Skeva æðstaprests sem reyna lækningar í nafni Páls og Jesú og hyggjast særa burtu illan anda úr sjúklingi:

En illi andinn sagði við þá: „Jesú þekki ég og Pál kannast ég við en hverjir eru þið?“ (19. 15)

Who the fuck is Alice indeed. En meira að segja illu andarnir þekkja Jesú og Pál.

Annars eru kristniboðsferðir Páls tíðindalitlar fyrir svona rannsókn. Þetta gengur sæmilega þangað til hann er tekinn og komið í hendur Sýrlandslandsstjóra. Þar endurtekur sagan sig um tregðu Rómverja við að fremja réttarmorð eftir pöntun Gyðinga. Páll dúsir í haldi landsstjórans um hríð, eða þar til fellur ferð til Rómar, en þangað skýtur Páll máli sínu, enda rómverskur borgari. Þegar þangað er komið tekur hann síðan til við að boða.

The rest is History. AD History.