5.24.2014

Síraksbók


Ekki gera hitt og ekki þetta

Textinn (á ensku – apókrífuritin eru ekki á netinu á íslensku)
Kynning

Eins og ég hef áður sagt er lögð á það höfuðáhersla í svokölluðum „spekiritum“ að lofsyngja nefnda speki. Hún er hin æðstu gæði, upphaf og endir alls og það sem mest má prýða einn mann. Gott ef hún er ekki sjálft „logosið“ sem var í upphafi hjá Guði – og var Guð.

Í Síraksbók er haldið áfram á þessari braut. En að auki er boðið upp á vænan skammt af raunverulegri speki saman við söluræður um mikilvægi hennar.

Og vandast þá málið.

Ekki það að það eru alveg gagnleg og skynsamlegt hollráð í spakmælasafni Jesús Sírakssonar (eins og heimildarmaðurinn er kallaður). Mörg þeirra eiga sér skýrar rætur í boðorðunum. Ekki ljúga, ekki stela, ekki girnast, vertu prúður við pabba og mömmu (já prúðUR - þessu er alfarið bein til karlmanna).

Og svo slatti af algerlega almennum mannasiðaráðum. Um hógværð, orðheldni, þagmælsku. Um að varast geip og mont.

Og svo að vera duglegur að berja þrælana sína og börnin. 

Já og vera hræddur við konur. 

Og ríkt fólk. 

Og ókunnuga.

Sæmilega siðað fólk getur auðveldlega sigtað góðu ráðin frá hinum „ógeðslegu“. En spurningin vaknar, eins og svo oft í lestri á þessum textum: hvaðan kemur manni viskan til að velja það gagnlega umfram hið glórulausa? Ekki er hægt að sækja þá „speki“ í textana sjálfa, svo mikið er víst.

Það er erfitt að samþykkja að þessi hversdagslegu og heimóttarlegu hollráð um hvernig þú getir varðveitt og eflt (en þó aðallega varðveitt) orðspor þitt í heimi fullum af svindlurum, hræsnurum og illmennum, séu þessi djúpa viska sem hamrað er á að sé hin umrædda „speki“.

Og það er eitt skírt þema í þessum textum að umbun Guðs fyrir rétta breytni birtist alls ekki í veraldlegri velgengni – öðru nær liggur manni við að segja stundum. Svo mjög er hamrað á því hvað hinir ríku og voldugu er vondir og varasamir.

Mannskilningur Síraksbókar er vægast sagt dapurlegur. Samfélagið sem hér er lýst 
 fyrirgefur ekki yfirsjónir. Eða það finnst höfundinum allavega. Hvaðan ætli það – og hann – hafi þá speki …?

Það er auðvitað skemmtilegt að rekast á skýrar hliðstæður við hin hundheiðnum hávamál:

Margt veit sá maður er víða fór,
viturlegar eru reynds manns rætur.
Lítið veit sá er reyndi fátt,
víðförull maður safnar hyggindum.
Fjölmargt sá ég á ferðum mínum,
ég veit fleira en ég greini frá. (34. 9–12)

Og ráðleggingarnar eru þannig séð ekkert glórulausar (allavega ekki allar). En maður sér t.d. enduróm af þeim í einni frægustu/illræmdustu hollráðaþulu heimsbókmenntanna, þar sem realpólitíkusinn siðlausi, Pólóníus, sendir son sinn út í heim með þetta veganesti.

Vel meint (mögulega), en munum samt að Pólóníus er ekki fyrr búinn að gefa þessi ráð en hann ræður mann til að njósna um son sinn. Hvað heldur hann að hann sé? Guð?

Þetta fullkomna fólk er svo skrítið ...

5.10.2014

Speki Salómons


Viskustykki

Textinn
Kynning

Það verður seint sagt um hin svokölluðu „spekirit” að þar sé útdeilt visku úr troðnum þverpokum. Það er meira verið að lofsyngja hina andlegu spekt og tjá velþóknun Drottins á þeim sem yfir henni búa heldur en að tjá í hverju nákvæmlega spekin er fólgin. Þá sjaldan spekiritahöfundar segja eitthvað spaklegt bendir það yfirleitt til þess að orðið sé nokkurnvegin samheiti við guðhræðslu, réttlæti og lögmálshlýðni.

Að þessu sögðu þá er rétt að geta þess að hin apókrífa „speki Salómons“ er alls ekkert vond eða leiðinleg bók. Hún er t.d. ágætlega skrifuð og örlítið frábrugðin kanónískum bókum í stíl. Sennilega yngri en þær flestar. Svo er hún stutt.

Innihaldið er þó að mestu hefðbundið predikunarstöff. Guðlausir fá orð í eyra, þeir sem ekki er gefin sú spekt að þekkja Guð fá gula og/eða rauða spjaldið og svo er sagan um plágur Egyptalands og flóttann þaðan rifjuð upp enn einu sinni, að þessu sinni með áherslu á þá faróísku flónsku að dýrka pöddur en ekki Drottinn.

Hér eru samt fjögur efnisatriði sem fönguðu athygli mína:

I – Framhaldslíf

Það fer lítið fyrir lífi eftir dauðann í Gamla Testamentinu. Miðað við hvað líf eftir dauðann, umbun og refsing er miðlæg í kristninni og raunar ansi mörgum trúarbrögðum, þá sker gyðingdómur sig rækilega úr. Í þessari bók er hinsvegar varið talsverðu plássi í þetta. Fyrist kemur kafli þar sem framferði hinna guðlausu er lýst og rakið til þess að:



Í villu sinni segja þeir með sjálfum sér:

stutt og dapurlegt er líf vort
og engin lækning finnst á dánardægri
né þekkist neinn sem leysir frá helju.
Vér urðum til af hendingu … (2. 1–2)

Eins og stendur hjá Dostojevskí þá dregur þessi ímyndaði guðleysingi þá ályktun að úr því Guð sé ekki til sé allt leyfilegt og hefst þegar handa við að svalla og kúga hina guðhræddu. 

Þá er að segja frá afdrifum trúaðra:

En sálir réttlátra eru í hendi Guðs
og engin kvöl mun ná til þeirra.
Í augum heimskingjanna eru þeir dánir.
Brottför þeirra er talin ógæfa
og viðskilnaður þeirra við oss tortíming
en þeir eru í friði.
Enda þótt þeim væri refsað að mati manna
eiga þeir vissa von um ódauðleika.
Eftir skammvinna hirting munu þeir njóta mikillar gæsku … (3. 1–5)

Jamm. Ekki bara himnaríki heldur hreinsunareldurinn mættur, eða þannig má skilja þetta. Engin furða þó Speki Salómons sé kanónísk hjá kaþólskum en hulin (oss) evangelískum.

Síðan gengur reyndar bókin lengra en kristileg kenning þegar kemur að viðfangsefnum hinna sælu íbúa himnaríkis:



Hinn réttláti, sem dáinn er, mun dæma þá óguðlegu sem á lífi eru. Sá sem deyr fyrir aldur fram mun dæma ranglátan öldung. (4. 16)

Fólk þarf sumsé ekki bara að óttast refsivönd Drottins, heldur munu hefnigjarnir safnaðarmeðlimir taka þátt í dómarastörfunum. Úff.

II – Óskilgetnir

Eftir þennan kafla um fávísi guðlausra og umbun réttlátra kemur nokkuð harkaleg útlistun á stöðu óskilgetinna barna. Þau eru semsagt verri en engin:



Sæl er óbyrjan sem óflekkuð er
og aldrei hefur sængað í synd.
Hún mun hljóta umbun þegar Guð vitjar sálnanna.
Sæll er geldingurinn sem eigi hefur framið lögmálsbrot … (3. 13–14)

Og:



Ávöxtur heiðarlegrar iðju er lofsverður
og rótin, sem viskan sprettur af, er óhagganleg.
En hórbörn munu ekki ná þroska
og afsprengi legorðsbrota munu afmáð.
[...]
Deyi þau fyrir aldur fram eiga þau enga von
og enga huggun á skapadægri. (3. 15–18)

Þetta þykir manni nú nokkuð hörð kenning. Vafalaust sett fram til að hafa hemil á hinum fullorðnu, en bitnar nú engu að síður á blessuðum börnunum, sem verða einhverskonar gíslar Guðs til að hafa stjórn á greddu lýðsins. Ljótt.


III – Vísindi

Speki er loðið hugtak eins og fram hefur komið. Hún rennur áreynslulaust saman við nánast öll önnur mikilvæg og jákvæð hugtök, og missir þá sinn sérstaka karakter og merkingu. Hér er hinsvegar kafli þar sem talið er upp hvað Guð hefur gefið höfundi í formi speki:



Í hendi hans erum vér og orð vor,
allt vort vit og verkleg mennt.
Sjálfur gaf hann mér óbrigðula þekkingu á öllu,
að þekkja byggingu heims og orku frumefnanna,
upphaf, endi og miðju tíðanna,
breytingu sólargangs og árstíðaskipti,
hringrás ársins og stöðu stjarna,
lífsháttu dýranna og æði villidýra,
kraft andanna og hugsanir manna,
tegundir jurtanna og undramátt róta. (7. 16–20)

Svei mér ef þetta er ekki ca. námsskrá Náttúrufræðibrautar í MA frá því í gamla daga. Fyrir utan reyndar þýsku. Guð er semsagt ekki bara vitur, hann er líka góður.

Svo verður þessi fallegi samsláttur:



Spekin, sem allt hefur skapað, kenndi mér það (7. 22)

Hér er spekin ekki gjöf Guðs, heldur sjálf Guð. Allt rennur saman „í eina undursamlega heild“ eins og skáldið sagði.

IV – Skaparinn


Framtíðarhorfur hinna trúlausu eru ekki bjartar samkvæmt þessari bók. Það er því ekki að undra þó höfundur reyni að sýna þeim fram á villur þeirra vega. Hann reynir líka að skilja og greina hvað valdi því að fólk fari svona gróflega mannavillt að tilbiðja dýr, náttúrufyrirbæri og heimatilbúin skúrgoð, í stað Guðs sjálfs. Þar setur hann snyrtilega fram hin frægu „hönnunarrök“ (argument from design) fyrir tilvist Guðs:



Afglapar voru allir í eðli sínu sem þekktu ekki Guð og gátu ekki getið sér til um þann sem er, af fegurð þess sem augun litu, né fengu hugboð um meistarann af verkum hans. Þeir töldu eldinn, vindinn, kvikt loftið, stjarnhvelfinguna, beljandi hafið eða ljósbera himins vera guðina sem stýra heimi. Fyrst þeir hrifust svo af fegurð þessa að þeir álitu það guði, þá ættu þeir að skilja hve miklu fremri þessum fyrirbærum sé er sem ríkir yfir þeim. [...] Fyrst þeim tókst að ná svo langt í þekkingu að þá gat rennt í grun í eilífðina, hvers vegna fundu þeir ekki fyrr Drottinn alls þessa? (13. 1–9)

Þetta sannfærir auðvitað engan, en það er áhugavert að velta fyrir sér að röksemdir fyrir tilvist Guðs hafa fyrst og fremst slagkraft gagnvart þeim sem samþykkir að það sé til einhver guð eða guðdómur. Ef þú ert tilbúin(n) að hugsa um mikilfengleik náttúrunnar sem yfirnáttúrulegan er hægt að vísa þér á höfundinn. Ef þér dugar að elska fyrirbærin fyrir fegurð og stórfengleik þeirra sjálfra bíta hönnunarrökin ekki. 

Það er nú mín speki.