5.29.2013

Esrabók


Á næsta ári í Jerúsalem


Ég vissi ekki að Esrabók væri til fyrr en ég hóf að lesa Biblíuna. Allólík er hún hinum blóðugu bókum um konungana. Fyrsta bókin án mannfalls síðan Rutarbók. Merkilega svakaleg engu að síður - og kallast óneitanlega á við nútímasögu Gyðingaþjóðarinnar.

Sem gæti verið ein af ástæðunum fyrir hvað lítið fer fyrir henni þegar Biblían er rædd í dag – hliðstæðurnar eru dálítið óþægilegar.

Esrabók er stutt og snyrtilega tvískipt. Hefðin segir að umræddur Esra sé höfundur hennar og einnig Króníkubókanna. Hér kveður samt svolítið við annan tón en í þeim fyrri. Mannlegi vinkillinn úr Konungabókum snýr hér aftur og svo koma tvö ný stílbrigði til sögunnar. Í fyrri hlutanum eru beinar tilvitnanir í sendibréf fyrirferðarmiklar og sá seinni er skrifaður í fyrstu persónu.

Fimmtíu ár líða frá herleiðingu Júdamanna til Babýlon og þar til þeir fá að snúa aftur. Í millitíðinni hefur veldi Kaldea (Babýlóníuveldið) fallið fyrir Persum og konungi þeirra, Kýrusi mikla. Samkvæmt bókinni fer Guð þess á leit við hann að muserið verði endurreist í Jerúsalem,

Það er reyndar athyglisvert að heyra hvað Kýrus hefur að segja um þau samskipti:


Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri Drottins, Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem. (1. 2–3)

Kýrus virðist sumsé játa trú á Guð gyðinga, og fá bein fyrirmæli frá honum, en jafnframt er sá Guð „Ísraels Guð“ og „býr í Jerúsalem“. Forvitnilegt dæmi um þá „verufræðilegu óvissu“ sem ríkir í Gamla Testamentinu um stöðu Guðs í heiminum, þrátt fyrir allt.

En Guð hefur talað, musterið skal rísa. Og hverjir eru nú betur til þess fallnir að gera það en einmitt hin útvalda þjóð? Svo þeir eru sendir á vettvang. Ríflega fjörutíu þúsund manns.

Heimferðin er tíðindalaus og skjót, að því er virðist. Það hefur væntanlega verið gleði við varðeldana á kvöldi og sporin létt á daginn. Enn hefur verið á lífi fólk sem mundi „gamla landið“. Þetta hefur verið dásamlegt.

Við heimkomuna kemur svo náttúrulega í ljós að þetta er ekki alveg svona einfalt:


Og þeir reistu altarið þar, er það áður hafði staðið, því að þeim stóð ótti af landsbúum, (3. 3)

Úbbs.

Landið sem sem flóði í mjólk og hunangi fékk vitaskuld ekki að standa óáreitt í hálfa öld.

Engu að síður hefjast menn handa við að reisa musterið aftur:


Og er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri Drottins, námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama Drottin eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs. Og þeir hófu að lofa og vegsama Drottin fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf. Og allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi Drottins. En margir af prestunum og levítunum og ætthöfðingjunum - öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið - grétu hástöfum, þegar grundvöllur þessa húss var lagður að þeim ásjáandi, en margir æptu líka fagnaðar- og gleðióp. 13Og lýðurinn gat ekki greint fagnaðarópin frá gráthljóðunum í fólkinu, því að lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi, og heyrðist ómurinn langar leiðir. (3. 10-13)

Þetta hefur nú heimamönnum (núverandi) þótt aldeilis skrítið fólk.

Fljótlega kemur svo í ljós að svona innflutningur heillar þjóðar inn á svæði sem byggt er annarslags þenkjandi fólki skapar núning þó ekki sé lengra um liðið, og hann getur verið óvæntur. (Er þetta eitthvað kunnuglegt?)

Í Norðurríkinu sem nú heitir Samaría, búa Samverjar, sem líta á sig sem gyðinga, tilbiðja sama guð og gera það að því þeir best vita á réttan hátt. Þeir senda eftirfarandi skilaboð til hinna framkvæmdaglöðu frænda sinna, nýbúanna í Jerúsalem:


„Vér viljum byggja með yður, því að vér leitum yðar Guðs, eins og þér, og honum höfum vér fórnir fært síðan daga Asarhaddons Assýríukonungs, þess er flutti oss hingað.“ (4. 2)

En ættarhöfðingjarnir innflytjendanna eru nú aldeilis ekki á því:


En Serúbabel og Jósúa og aðrir ætthöfðingjar Ísraels sögðu við þá: "Vér höfum ekkert saman við yður að sælda um bygginguna á húsi Guðs vors, heldur ætlum vér að reisa það einir saman Drottni, Ísraels Guði, eins og Kýrus konungur, konungur í Persíu, hefir boðið oss." (4. 3)

Þetta er dálítið magnað. Aftur, þessi skrítna afstaða. Stundum er Guð eini guðinn, stundum ekki. Og þó hann sé (stundum) eini guðinn þá er óæskilegt að óæskilegt fólk lúti honum.

Það vekur líka athygli að yfirskrift kaflans (sem ég held að sé verk íslensku þýðendanna/útgefandans) er: „Samverjar tálma byggingu musterisins“. Ekki t.d. „Aðstoð Samverja afþökkuð pent“.

Spuni?

Allavega - þið eruð ekki við – verið þið úti.

Við taka bréfaskriftir við stjórnvöld í Persíu þar sem klögumálin ganga á víxl. Fyrst tekst andskotum Júdamanna að fá byggingarframkvæmdir stöðvaðar, en síðan tekst að fá Daríus, sem orðinn er Persakóngur, til að virða ákvörðun Kýrusar og leyfa áframhaldandi framkvæmdir. Hann er líka ekkert að spara hótanirnar í sínu bréfi gagnvart þeim sem eru með múður:




„...ef nokkur maður breytir á móti úrskurði þessum, þá skuli taka bjálka úr húsi hans og hann hengdur upp og negldur á hann, en hús hans skal fyrir þá sök gjöra að mykjuhaug.“ (6. 11)

Musterið er reist, vígsluhátíð haldin með tilheyrandi fórnum, páskar sömu leiðis. Lýkur þar fyrri hluta.

Í 7. kafla mætir Esra, „fræðimaður, vel að sér í Móselögum“, á svæðið ásamt fríðum flokki. Í næsta kafla flyst frásögnin yfir í 1. persónu og Esra hefur orðið. Þetta er samkvæmt bestu manna yfirsýn 57 árum og tveimur konungum eftir endurkomuna miklu. Musterið byggt og allt fallið í ljúfa löð.

Eða ekki:

Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: "Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum, því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi." Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa. (9. 1–3)

Enn og aftur eru Ísraelsmenn að klunna. Enn eru fermingarbræðurnir að teyma menn af vegi dygðarinnar. Enginn man lengur að Salómon átti egifska prinsessu fyrir eiginkonu, né heldur að hinn flekklausi Davíð átti a.m.k börn með konum af öðrum þjóðum.

Það er merkilegt að þrátt fyrir margsannaða harðýðgi fólksins þá virðist aldrei hvarfla að neinum að hafa viðurlög við brotum á lögmálinu. Það fer allavega ekki sögum af svoleiðis, nema þegar Guð tekur sig til og lætur þá tapa í stríðum eða sendir drepsótt.

Hér eru menn hins vegar tilbúnir að leiðrétta villuna:


Fyrir því skulum vér nú gjöra sáttmála við Guð vorn um að reka burt allar þessar konur og börn þau, er af þeim eru fædd (10. 3)

Þetta þarf ekkert að vera flókið.

Svo er sett nefnd í að finna út hverjir eiga útlendar konur (þ.e. konur sem eru af öðrum kynþætti - ekki útlendar þannig séð) – og þeim vísað burt. Og börnunum.

Það er vitaskuld ósmekklegt að benda með berum orðum á hverju þetta háttarlag líkist mest.

Eiginmennirnir taka þessu af stillingu:


Lofuðu þeir með handsali að reka frá sér konur sínar og að fórna hrút vegna sektar sinnar. (10.19)

Bókinni lýkur á upptalningu þeirra 114 syndasela sem hafa tekið sér konur meðal þeirra sem fyrir voru í landinu og “það voru konur meðal þeirra sem höfðu alið börn”.

Hvílík hneisa!

Ekki fer neinum sögum af því að einhver þessara hafi neitað að reka konu sína og börn burt og skera hrúta til að friðmælast við Guð.

Í stuttu máli: Nýlenduherra ákveður að endursenda stóran hóp fólks til upprunalandsins, þar sem aðrir búa þegar hér er komið sögu. Forystumenn hinna nýju „landtökumanna“ fá hroll þegar þeirra fólk fer að mægjast við þá sem fyrir eru, skrásetja þá sem varðveita ekki kynþáttahreinleika sinn og hrekja konur og börn hinna seku úr sínum röðum á brott.

Næs.

5.24.2013

Síðari króníkubók


Allt var nú betra í Davíðs tíð

Textinn
Samanburður
Kynning

Síðari Króníkubók fer rösklega yfir sama efni og Konungabækurnar tvær, rekur sögu Ísraels frá valdatöku Salómons til herleiðingar Babýlóníumanna. Eftir klofning ríkisins er fókusinn allur á Suðurríkinu - Júda. Norðurríkið fær eingöngu athygli að svo miklu leyti sem það hefur áhrif fyrir sunnan. Ef sagt er frá örlögum þeirra og flutningi austur á bóginn á vegum Assýríumanna þá var það nógu snubbótt til að fara framhjá mér.

Eins og ég sagði um fyrri Króníkuna þá felst skýrasti munurinn á henni og fyrri frásögnum um sama efni hvað hlutur Davíðs er fegraður og stækkaður. Þessi tilhneyging heldur áfram hér, því þó Davíð hafi dáið í þeirri fyrri er hann síður en svo horfinn úr vitund höfundar. Stöðugt er minnt á velþóknun Guðs á honum og eftirkomendur bornir saman við hann þeim í óhag. Þá er Jerúsalem iðulega kölluð „Davíðsborg“, sem í fyrri ritum var einungis notað í formúlukenndum setningum um greftrun konunga.

Lengst gengur þessi Davíðsdýrkun þegar hörpur eru allt í einu hættar að heita hörpur og farnar að heita „hljóðfæri Davíðs“ (29.26). Við gítaristar ættum kannski að fara að kalla gígjurnar okkar „hljóðfæri Jimis“? Kannski ekki. Og kannski var Davíð ekki örvhentur. Það gæti þó skýrt hvað hann kom Golíat á óvart.

Í sögu Salómons er einkum dvalið við musterisbygginguna og ríkidæmi konungsins, engin saga um uppdeilingu á börnum eða aðrir vitnisburðir um visku hans, né heldur minnst á að Guð hafi fengið ímugust á honum fyrir að temja sér siði heiðinna eiginkvenna sinna.

Eins og fyrri höfundum er þessum umhugað um að tíunda nákvæmlega helstu stærðir í tengslum við musterið. Þessi mælingarárátta sést líka í fyrri bókum Biblíunnar, ekki síst í þriðju Mósebók (minnir mig) þar sem tjaldinu sem er forveri musteris Salómons er lýst af álíka smásmygli. Höfundur þessara lýsinga er svolítið eins og Þórbergur Þórðarson að frádreginni ritsnilldinni. Ekki gott.

Ég var að hugsa um að leggjast í nákvæman samanburð á málsetningunni hér og í fyrri frásögn, fann reyndar einhver misræmi í fljótheitum, en svo ákvað ég að lífið væri hreinlega of stutt. Það er heldur ekki eins og musterið standi þegar sögunni líkur.

Látum þetta duga sem dæmi um nákvæmnina:


En í Hinu allrahelgasta gjörði hann tvo kerúba, haglega skorna og lagði þá gulli. Vængir kerúbanna voru báðir saman tíu álna langir. Annar vængur annars kerúbsins, fimm álna langur, nam húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, nam við væng hins kerúbsins. Annar fimm álna langur vængur hins kerúbsins nam og húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, snart væng hins kerúbsins. Voru vængir kerúba þessara tuttugu álnir, útbreiddir. (2Kro 3. 10–13)

Þá vitum við það. Fjorum sinnum fimm eru tuttugu.

Ef ég velti fyrir mér þessum lýsingum kemur til mín hugsunin um hve lítið ríki og fátæk þjóð Ísraelsmenn eru. þessi tilfinning magnast við að lesa lýsingarnar á áhöldunum í musterinu, sem eru tilgreind í smáatriðum; kertastjakar og skarbítar, skálar og amboð af öllu tagi, gjarnan með ákveðnum greini – bara eitt eintak til. Það er pláss fyrir svoleiðis upptalningar í þessari viðburðaríku konungasögu með öllum sínum fólkorustum og glímu við sjálfan Guð.

Þetta vitnar auðvitað líka um þá miklu helgi sem hvílir á musterinu, en hitt skiptir líka miklu máli. Þetta er pínulítil þjóð, og á þessum tíma umlukin stórveldum. Þó mikið pláss fari í að lýsa fræknum sigrum á ofurefli nágrannaþjóðanna þá eru það einatt þeir viðráðanlegri af grönnunum sem verða fyrir barðinu á Guði og hans uppáhaldsmönnum.

Þetta hlýtur að valda Ísraelum hugarangri. Hér er hin útvalda þjóð með hinn eina raunverulega og almáttuga Guð í sínu liði - en samt eru það ekki þeir heldur Egyptar, Assiríumenn og síðar Kaldear sem eru stórveldin. Hvernig getur staðið á því?

Kannski ekki furða þó þeir freistist til að setja ekki öll eggin í sömu trúarkörfuna. Því það gera þeir reglulega og hafa gert allt frá því þeir steyptu sér gullkálfinn í eyðimörkinni um árið.

Það er enda áberandi tilvistarlegt tvísæi á guðdóminn í þessum frásögnum öllum. Stundum er það morgunljóst að það er einungis einn guð, stundum er jafn skýrt að guðir annarra eru líka til, bara ekki eins frábærir (og að því er virðist ekki eins afbrýðisamir).

Að Salómon gengnum klofnar ríkið. Frásögnin af því er nokkurnvegin samhljóða þeirri í Konungabók – boðuð harðýðgi Reheabeams hrekur Norðanmenn í fang Jeróbóams.

Við tekur hersing Júdakonunga sem ýmist eru góðir í augum drottins eða hallir undir Baala, Asörtur og fórnarhæðir. Þeir berjast við nágranna sína, jafnvel við frændur sína í norðrinu, og hafa ýmsir betur. Ekki ætla ég að fara að bera saman helstu stærðir og staðreyndir um þetta milli bóka. Lífið stutt og svona.

Spámenn bera skilaboð að ofan – en þó sætir það nokkurri furðu að hinir fyrirferðamiklu Elía og Elísa eru fjarverandi. Á Elía er einu sinni minnst og hinn einstaki atburður þegar hann er uppnuminn hefur króníkeranum ekki þótt frásagnarverður. Elísa kemur ekki við sögu hér.

Athygli vekur hins vegar að hér fara nýir menn að birtast: svokallaðir Arabar. Orðið kemur fyrir sem örnefni í Jósúabók og einu sinni sem þjóðarheiti í fyrri Konungabók, en hér dúkkar það nokkrum sinnum upp innan um aðrar heiðingjaþjóðir í nágrenninu sem þarf að sigra og þrælka.

Allt þetta stríð og bras og óvild hins langþreytta Guðs vegna stöðugs framhjáhalds tekur auðvitað sinn toll. Síðari hluti bókarinnar lýsir ágætlega hvernig fjarar undan Júda. Hér er lítil saga sem sýnir hve illa er komið fyrir ríkinu þegar einn af síðustu umbótakonungunum, Hiskía, efnir til fórna:

En talan á brennifórnunum, er söfnuðurinn færði, var: sjötíu naut, hundrað hrútar og tvö hundruð lömb. Var allt þetta ætlað til brennifórnar Drottni til handa. Og þakkarfórnirnar voru sex hundruð naut og þrjú þúsund sauðir. En prestarnir voru of fáir, svo að þeir gátu ekki flegið öll brennifórnardýrin. Hjálpuðu þá frændur þeirra, levítarnir, þeim, uns starfinu var lokið … Þannig var þjónustunni við musteri Drottins komið í lag. (2Kro 29. 32–35)

Þess má geta að við vígslu musterisins voru skorinn 20.000 naut og 120.000 sauðir og fer engum sögum af því að það hafi gengið illa að manna þá sláturtíð.

Aftur kemur hér þessi stórkostlega og stórfurðulega frásögn af lögbókinni sem finnst við tiltekt í musterinu á dögum Jósía. Mér er sem fyrr óskiljanlegt af hverju þessi frásögn er ekki miðlæg í skilningi okkar á þessum tíma, hvers vegna þetta ótrúlega dramatíska atvik hefur ekki orðið yrkisefni skálda og listamanna. Mér finnst þetta allavega magnað, og að hinn pempíulegi höfundur Króníkubókanna haldi þessu til haga segir mér að svona var þetta. Komið, guðfræðingar, og skýrið þetta burt ef þið getið!

Og fyrst þið eruð þarna: Eitt sem mér þykir frekar ámælisvert í fari Guðs í þessum sögum er tilhneyging hans til að refsa saklausum. Hvað eftir annað er afkomendum konunga hegnt fyrir yfirsjónir feðra sinna ef feðurnir hafa skælt nógu hátt. Samt er sérstaklega tekið fram, bæði hér og í Konungabókunum að lögmálið banni svoleiðis, með tilvísun í hina týndu Mósebók. Eins virðist nokkuð sjálfsagt að láta syndir konunga koma niður á þegnunum. Langar einhvern að réttlæta þetta?

Með síðari Króníkubók lýkur áfanga í Biblíusögunni. Frá því Móse stóð við bakka Jórdan í 5. mósebók að þessari hafa liðið aldir. Smáþjóð hefur lagt undir sig land sem þeim hefur verið lofað, hún hefur svikið sinn hluta samningsins trekk oní hvað. Guð hefur verið mildur og refsigjarn á víxl. Það er kannski hluti vandans. Þjóðin hefur klofnað og nú þarf hún að fara. Áður var hún þrælkuð í vestri á vegum Faraós, nú heldur hún austur í boði Babýlons. Frá því iðnaðarmenn fundu Lögmálið í skúmaskotum musterisins á dögum Jósía þar til Kaldear brenna það og rústa líða u.þ.b. 23 ár.

Í þeim heimi sem lýst er í þessum bókum frá Jósúa til seinni Króníkubókar ber mest á illvirkjum, drápum, stríði og miskunnarleysi. Margt er hér okkur ansi framandi.  Það er pínu magnað að þessi saga sé hluti af því sem fólk á að sækja visku til ef það vill verða „sálusorgarar“. Ég fæ ekki betur séð en að t.d. Stephen King myndi gera sama gagn.

Allavega finnst mér, eftir að hafa fylgt Jakobsniðjum frá Egyptalandi að botni Miðjarðarhafs og þar sem ég horfi nú á eftir þeim í austurátt, að lærdómar þessara sagna séu meira lesnir í þær en úr.

Í stuttorðum eftirmála fréttum við reyndar að þeir fá á endanum heimfararleyfi. Þetta er ekki búið.

5.12.2013

Fyrri Króníkubók


Textinn
Samanburður
Kynning

Kölski er kominn á svæðið

Það má alveg halda því fram að Króníkubók hin fyrri segi söguna frá sköpun mannsins fram að dauða Davíðs. Það er ef maður telur ættartölurnar ógurlegu með, en þær hefjast á sjálfum Adam.


Réttara er þó að segja að hún reki sögu Davíðs frá dauða Sáls, og spanni þar með efni síðari Samúelsbókar með smábútum af lokum þeirrar fyrri og upphafi fyrri Konungabókar.


Það er töluvert annar blær yfir þessum texta. Hann er mun „guðrækilegri“ en í Samúelsbókum, sem var meira eins og „hardkor“ sagnfræði. Hér fer líka minna fyrir áhugaverðum og skemmtilegum smásögum - og þess gætt að ekki falli á hetjurnar. Eða hetjuna, því hér er verið að mæra Davíð af miklum móð öðrum fremur.

Það kemur óneitanlega niður á skemmtigildinu - og það sama má segja um áráttukennda unun höfundar af upptalningum og listum hverskonar.

Aðallega er hann þó meiri pempía en þeir höfundar sem hann fetar í fótspor hjá.


Eitt dæmi til að byrja með. Í ættartöluromsunni tekur hann eftirfarandi formúlu beint úr 1. Mósebók:

En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur fyrir augliti Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja. (1Kro 2. 3)

En heldur ekki áfram með söguna, hvernig Ónan bróðir Gers bregst mágsskyldum sínum við ekkjuna og kemur því óorði (og nafni sínu) á runkið sem enn stendur.

Ekki nenni ég að tékka af allar lýsingar á afrekum Davíðs í stríði við nágrannana við sambærilega staði í fyrri bókum. Læt nægja að fara yfir fimm atriði sem stinga strax í augun:


I
Hlutur Davíðs í að undirbúa byggingu musterisins er gerður mun stærri en í Samúel. Hér skilar Davíð hreinlega inn teikningum af öllu, smáu og stóru, og hefði hellt sér í að binda járn og skafa timbur í grunninum ef Guð hefði ekki tekið skýrt fram að hann vildi að Salómon byggði húsið.

II
Talandi um Salómon. Hann er samkvæmt Samúelsbók sonur Batsebu Elíamsdóttur, sem Davíð náði undan kappanum Úría með svívirðilegu ráðabruggi. Um þá ljótu sögu er ekki stafkrókur í Króníkunni, og ekki nóg með það: Salómon er sagður sonur annarrar konu: Batsúu Ammíelsdóttur. Hér er sko alvöru söguendurskoðun í gangi!


III
Kynlíf Davíðs er sorglega fjarverandi í þessari ævisögu, eftir að hafa verið rauði þráðurinn í þeirri fyrri. Hin magnaða frásögn af strípilátum hans í skrúðgöngunni með sáttmálsörkina inn í Jerúsalem, hneykslun Míkal, eiginkonu hans, og skírlífsstraffið sem hún hefur upp úr krafsinu, er hér orðið að: 


En er sáttmálsörk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann. Og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa, fyrirleit hún hann í hjarta sínu. (1Kro 15. 29)

Og búið.


IV
Að þessum siðprýðisúrfellingum frátöldum er eftirfarandi athyglisverðasta frávikið:

Seint á valdatíma Davíðs blossar upp drepsótt í ríkinu. Ástæðan er reiði Guðs yfir því að Davíð ákveður að láta fara fram manntal - sem er víst voðalegt tabú.

Í Samúelsbók er innangur þeirrar sögu svona:



Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: “Far þú og tel Ísrael og Júda.” (2Sam 24. 1)
En í þessari er hún orðin svona:


Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael. (1Kro 21. 1)
Þetta er í fyrsta sinn í Biblíunni sem þessi höfuðpaur kristninnar er nefndur á nafn. Það er vitaskuld áhugavert að hann sé hér að vinna verk sem Guð sjálfur tók að sér í fyrri útgáfunni, að egna, freista.

Þetta er óneitanlega lógískara svona. Guð kom ekkert sérlega vel út í fyrri gerðinni - hann skipar Davíð að telja lýðinn og dæmir síðan drepsótt á þegnana þegar Davíð hlýðir honum.

Hér er þó allavega búið að útvista skítverkunum.

Merkileg annars þessi bannhelgi á manntali. Sú skýring er gefin neðanmáls í Samúelsbók að manntal geri lítið úr Guði, honum einum sé heiðurinn af sigri í orrustum og því diss á hann að telja hermenn. Gott og vel, en tölulegar upplýsingar um fjölda hermanna eru út um allt í Biblíunni og t.a.m. plássfrekar í þessari tilteknu bók. Það virðist ekki trufla guðfræðingana sem skrifuðu skýringuna.

Og að lokum:



V
Áður en Salómon tekur völdin reynir þriðji sonurinn Absalon að ræna völdum. Ekki í þessari bók samt. Allt gengur friðsamlega fram - Salómon tekur við völdum af Davíð föður sinum, sem deyr svo kyrrlátlega, þess fullviss að allt fari á besta veg.

Fyrri Krónikubók er höfðingjaholl bók. Það er skautað yfir persónuleikabresti Davíðs og Satan tekur við freistarahlutverkinu af Guði. Þeir félagar koma betur út í þessari útgáfu sögunnar, en hin er óneitanlega bragðmeiri, efnisríkari og frumlegri.

5.08.2013

Síðari Konungabók


Textinn
Samanburður
Kynning

„Hmm, hvaða bók er nú þetta?“

Í tuttugasta og öðrum kafla Síðari Konungabókar dregur heldur betur til tíðinda. Þá er Jósía við völd í Júda, einn af „góðu konungunum“, og sautjándi konungur frá því dómarar hættu að stýra ríkinu (sjá fyrri Samúelsbók).

Eitt af því sem góðir konungar gera er að sinna viðhaldi og á átjánda valdaári sínu setur Jósía menn í að dytta að musterinu sem Salómon forfaðir hann reisti fyrir all-löngu. Síðan gerist þetta:

Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: „Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana. [...] Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: „Hilkía prestur fékk mér bók.“ Og Safan las hana fyrir konungi. En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín … (2KON 22. 8–11)

það er ekki nema von að brösulega hafi gengið að halda lögmálið! Hann gerir strax út menn til að ræða við Guð, og Hulda spákona fær eftirfarandi skilaboð:

Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið, fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna. En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig - segir Drottinn. Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað. (2KON 22. 16–20)

Jósía gengur í að siðvæða samfélagið - brjóta ölturu og líkneskjur annarra trúarbragða. Og svo kemur þetta:

Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: „Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari.“ Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga, en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem. (2KON 23. 21–23)

Hér vakna nú aldeilis spurningarnar.

Var bara til eitt eintak af Mósebókum?

Saknaði þeirra enginn?

Hvernig komst það í musterið, sem Salómon reisti, en lögbókin búin að vera týnd síðan a.m.k. á dögum Samúels?

Guð er búinn að vera í reglulegu símasambandi við þetta lið, iðulega til að skammast yfir að þau haldi ekki lögmálið. Er það nokkur furða? Og af hverju fýkur svona sérstaklega í hann þegar þeir loksins finna það og geta hætt að giska á hvað honum líkar og hvað ekki?

Ekki nenni ég að reikna út hvað langt er um liðið síðan „á dögum dómaranna“, en það eru einhver árhundruð. Engir páskar í nokkrar aldir.

Og það er ekki í frásögur færandi!

Ég hef í undanförnum pistlum stundum verið að skopast með það að sumar persónurnar virðast ekki hafa lesið lögmálið, og svo kemur bara í ljós að það er ekkert djók - ENGINN hefur lesið lögmálið í einhverjar aldir.

Kannski er ég að misskilja eitthvað gróflega (held samt ekki), en þetta er eitthvað stærsta og furðulegasta „twist“ sem ég hef séð, og einn merkasti einstaki viðburður Biblíunnar fram til þessa.

Svo er þetta vissulega eitthvað málum blandið. Sjáum t.d. í 14 kapítula þegar einn af góðu kóngunum, Amasia, ákveður að hefna föður síns sem hafði verið drepinn af þjónum sínum. Því er lýst svona:

En börn morðingjanna lét hann ekki af lífi taka, samkvæmt því, sem skrifað er í lögmálsbók Móse, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: ,Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum, heldur skal hver líflátinn verða fyrir sína eigin synd (2KON 14. 6)

Hver skal líflátinn fyrir sína eigin synd segir í Mósebókum. Sennilega er Guð líka búinn að týna sínu eintaki.

Bókinni lýkur á tortímingu musterisins og herleiðingu Júdamanna til Babýlon, en áður höfðu Norðurríkismenn verið fluttir nauðungarflutningi á vegum Assýríukonungs og aðrir menn þeim óskyldir settir niður í Ísrael . Assýringar voru víst mikið fyrir þessháttar tilfærslu á sigruðum þjóðum. Mörgum árhundruðum síðar beitti georgískt guðfræðidroppát sömu aðferð. Ætli Stalín hafi fengið hugmyndina við að lesa Konungabækurnar?

Megnið af textanum eru áframhaldandi tilbrigði við stefin úr fyrri bókinni. Konungar koma og fara, eru ýmist góðir eða illir í augum Drottins, og vegnar að einhverju leyti eftir því. Þó ríkti t.d. Manasse yfir Júdeu í ríflega hálfa öld þó hann endurbyggði Baahlof og Asérur sem Hiskía faðir hans (einn af hvítu höttunum) lét rífa niður. Sýrlendingar eru stöðug ógn við norðurríkið og tvö heimsveldi, Assýría og Babýlon, nálgast og láta ekki friðkaupatilraunir stöðva sig nema rétt til málamynda.

Í upphafi bókar er svo einn af einstökum lykilviðburðum Biblíunnar. Elía spámaður deyr … ekki. Hann er nefnilega á sérsamningi og er uppnuminn beint til himna. Elísa eftirmaður hans verður vitni að þessum einstaka atburði sem fær nú ekki ýkjamikð pláss eða tilþrifamikla afgreiðslu hjá höfundi bókarinnar:

En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri. Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar. (2KON 2. 11-12)

Hvað skýrir þessa sérmeðferð Elía? Veit það ekki.

Drjúgur hluti bókarinnar eru svo kraftaverkasögur af Elísa. Þessi er best:

Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: „Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!“ Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. (2KON 2. 23–24)

Elísa – spéhræddi spámaðurinn. Hér myndum við náttúrulega aðallega stríða honum á nafninu.

Konungabækurnar eru viðburðaríkar og að mörgu leyti læsilegar og spennandi frásagnir, þó formúlan ræni stundum frásagnargleðinni og villimennskan sé yfirgengileg á köflum. Það er mannlegri tónn í þeim en í flestu því sem á undan fer. Gott dæmi er t.d. 7. kafli þar sem geisar hungursneyð í Samaríu (höfuðborg Norðurríkisins) og sjónarhornið þrengist skyndilega um fjóra holdsveika menn í borgarhliðinu. Mjög fallega gert.

Sögumaður gerir líka skemmtilega vart við sig á nokkrum stöðum, t.d. svona:

Þannig dýrkuðu þá þessar þjóðir Drottin, en þjónuðu þó um leið skurðgoðum sínum. Börn þeirra og barnabörn breyta og enn í dag eins og feður þeirra breyttu. (2KON 17. 41)

Allt í einu fáum við tilfinningu fyrir að bókin er skrifuð á einhverjum tilteknum tima. Við fáum ekkert að vita hver hann er, en þetta er samt nýbreytni í stíl Biblíunnar.

Þegar bókinni lýkur er Guðs útvalda þjóð á brott úr fyrirheitna landinu, öllu rúin. Hún týndi bókinni, gleymdi lögmálinu. Guði er nóg boðið, í bili að minnsta kosti.

5.01.2013

Fyrri Konungabók


Texti
Samanburður
Kynning

Illt í augum Drottins

Hér segir áfram frá konungum Gyðinga, aðallega þeim fræga Salómon. Þegar hann er allur er farið rösklega yfir sögu og konungar koma og fara. Ekki alltaf prúðir, en frjálslegir í fasi margir hverjir – og lengst af í tvöfaldri röð. Meira um það síðar.

Ég þykist skynja svolítinn stílsmun á þessari bók og þeim sem á undan koma. Einhvernvegin er hann „mannlegri“, jafnvel örlítið innilegri. Samtöl eru liprari og smáatriði færa persónurnar nær manni. Þetta á sérstaklega við um Salómonssögu (sjáið t.d. fyrstu setninguna í næstu tilvitnun). Þegar henni líkur verður allt öllu formúlukenndara og minnir jafnvel á köflum á hina kaldhömruðu Dómarabók að formi og innihaldi.

Þegar sagan hefst er Davíð enn á dögum, tæplega þó. Hirðin þekkir auðvitað sinn mann og telur sig vita hvernig best er að hressa hann við:

Davíð konungur var nú orðinn gamall og hniginn að aldri, og þótt hann væri þakinn sængurfötum, gat honum ekki hitnað. Fyrir því sögðu þjónar hans við hann: „Það ætti að leita að yngismey handa mínum herra konunginum til þess að þjóna konunginum og hjúkra honum. Skal hún liggja við brjóst þitt, til þess að mínum herra konunginum megi hitna.“ Síðan var leitað að fríðri stúlku í öllu Ísraelslandi, og fundu menn Abísag frá Súnem og fóru með hana til konungs. En stúlkan var forkunnar fríð og hjúkraði konungi og þjónaði honum, en konungur kenndi hennar ekki. (1Kon. 1. 1–4)

Þá er nú fokið í flest skjól þegar Davíð dugar ekki konum lengur. Enda byrja synirnir fljótlega að skoða möguleikana, og fólk að koma að máli við þá.

Davíð virðist reyndar vera búinn að ákveða að Salómon eigi að taka við fyrirtækinu, en fjórði sonurinn, Adónía er á öðru máli:

Adónía sonur Haggítar hreykti sér upp og hugsaði með sér: „Ég vil verða konungur.“ [...] En faðir hans hafði aldrei angrað hann á ævinni með því að segja við hann: „Hví hefir þú gjört þetta?“ Auk þess var hann mjög fríður sýnum og næstur Absalon að aldri.(1.Kon. 1. 5–6)

Annað dæmi um þennan skemmtilega „mannlega tón, þetta með slælegt og agalaust uppeldið á drengnum. Núna kemur það ríkinu í koll. Sá gamli hefur hraðar hendur, smyr Salómon og málið dautt.

Salómon þyrmir lífi bróður síns, en þegar Adónía vill fá að giftast Abísag, hinni fögru hjúkku og hjásvæfu föður síns, er konungnum nóg boðið.

Samkvæmt neðanmálsgrein jafngildir það tilkalli til konungdóms að biðja um hönd ekkju konungs. Sem þýðir að annaðhvort hefur Adónía ekki frétt af þessari venju, eða hann er heimskasti maður Biblíunnar. Hvort heldur sem er er hann úr sögunni.

Áður en Davíð safnast til ferðra sinna leggur hann ríkt á við Salómon að halda boð og lögmál Guðs, en einkum er honum umhugað

um að strákurinn hefni harma sinna (þ.e. harma Davíðs). Lokaorð hans snúast um atvik sem varð þegar Davíð flúði undan Absalon í síðustu bók og eru svo sannarlega af klækjastjórnmálaætt:

Símeí Gerasson Benjamíníti frá Bahúrím er og með þér. Hann formælti mér gífurlega, þá er ég fór til Mahanaím. En hann kom til móts við mig niður að Jórdan, og vann ég honum svolátandi eið við Drottin: „Ég skal eigi láta drepa þig.“ En þú skalt eigi láta honum óhegnt, því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar."(1. Kon. 2, 8–9) – leturbreyting mín

Útsmoginn maður Davíð. Og gleymir greinilega engu. Samt er hann í sífellu notaður til samanburðar við eftirmenn sína, þeim í óhag. Eitt stef bókarinnar er hve Drottinn hefur mikla velþóknun á Davíð. Á einum stað er þó minnst á að „hvernig hann fór með Úría Hetíta.“ sé vissulega ljóður á ráði hans, en reyndar sá eini. Allir, þar á meðal höfundur bókarinnar, virðist vera búinn að gleyma því  að Guð lofaði ættlegg Davíðs að „sverðið hyrfi aldrei úr húsi hans“ fyrir það uppátæki.

Frægð Salómons hvílir á tvennu: byggingu musterisins og visku hans. Um uppruna viskunnar er lítil þjóðsaga - Guð birtist honum í draumi og gefur honum eina ósk. Salómon velur visku og Guð er himinlifandi.

Til merkis um viskuna er svo sagan fræga um konurnar og barnið sem þær báðar segjast eiga, og Salómonsdóminn sem sker úr um það. Ég minnist þess reyndar ekki að í fermingarfræðslunni hafi komið fram að þetta voru “portkonur” sem deildu húsi og áttu barn um svipað leyti en annað þeirra dó af því að móðirin lagðist ofan á það. En þannig var þetta nú samt.

Annað sem kom á óvart er að þetta er eina dæmið um visku Salómons. Hún er lofuð, Drottningin af Saba kölluð til vitnis og því lýst að hann hafi skrifað spakmæli og ort ljóð. Það er fínt. En þessi saga er látin duga í þessari bók til að sýna getu Salómons til að taka viturlegar ákvarðanir. Enda reynast þær ekki allar jafn snjallar. Sérstaklega ekki í kvennamálum.

En fyrst þarf að byggja musteri. Það er magnað að það hafi ekki gerst fyrr. Það er ávæningur af ákvörðun um að byggja slíkt í sögu Davíðs, en Salómon gengur í málin.

Hvað þetta varðar er trúarlíf hinnar útvöldu þjóðar svolítið eins og íslenskt tónlistarlíf. Stendur í ógurlegum blóma í áratugi, er miðlægt í sjálfsmyndinni, en á sér ekki þak yfir höfuðið.

Nú verður bætt úr því. Kaflarnir um byggingu musterisins minna eðlilega mest á hinar smásmyglislegu útboðslýsingarlýsingar í Mósebókum um búnaðinn í tjaldinu. Að sjö árum liðnum er þó komið hið veglegasta heimili fyrir Guð og sáttmálsörkina.

Mælir þá hinn vitri Salómon:

“Nú hefi ég byggt þér hús til bústaðar, aðseturstað handa þér um eilífð” (8. 13)

Það er ekki laust við að það fari hrollur um mann við að lesa þessi orð. Þau enduróma í gegnum allar
heimsbókmenntirnar - þetta afdráttarlausa loforð sem getur ekki annað en brostið.

Það er margt fallegt í ræðum Salómons í kringum vígsluna. Sérstaka athygli mína vakti þessi klausa:

Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns - því að þeir munu heyra getið um þitt mikla nafn, þína sterku hönd og útréttan armlegg þinn - ef hann kemur hingað og biður frammi fyrir þessu húsi, þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig, eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig. (1Kon 8. 41–43)

Þetta er sem sagt ekki strangbundið við ættkvíslir Gyðinga. Það er gott, ég veit ekki betur en þetta sæti tíðindum.

Við vígslu hins nýja musteris  er svo fórnað 20 þúsund nautum og 120 þúsund sauðum. Það er til orð yfir svoleiðis hús, en það er ekki „musteri“.

En það er sama hvað musterið er vel innréttað, ef þitt eigið innvols lætur ekki að stjórn.

Salómon konungur unni mörgum útlendum konum auk dóttur Faraós, móabítískum, ammónítískum, edómítískum, sídonskum og hetítskum - konum af þeim þjóðum, er Drottinn hafði sagt um við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki eiga mök við þær, og þær skulu ekki eiga mök við yður.Þær munu vissulega snúa hjörtum yðar til guða sinna' - til þeirra felldi Salómon ástarhug. Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis. Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni … (1Kon 11. 1–5)

Að dýrka guði kærastanna, er að ekki svolítið eins og að láta sig hafa það að kinka kolli yfir Duran Duran og Wham, þó maður viti betur, í von um sleik? En Guði er ekki skemmt. Það er eiginlega alveg ljóst að boðorðin tíu eru í mikilvægisröð – versta syndin er að halda framhjá honum.

Guð er samt pínu meðvirkur, er það ekki? Hvað er hann oft búinn að segja „Ef þú hættir ekki  NÚNA að dýrka aðra guði þá skal ég sko láta þig lönd og leið”?

Hann uppvekur Salómoni mótstöðumenn fyrir þessa trúvillu, og í kjölfarið upphefst endanlegur klofningur ríkisins, sem hafði nú reyndar dottið í sundur a.m.k. einu sinni á dögum Davíðs. (Sjá 2S 2. 8–11)

Jeróbóam er lýst sem „dugnaðarmanni“ og þegar spámaðurinn Ahía ber honum þau skilaboð frá Guði að hann verði konungur yfir tíu af ættkvíslum Gyðinga tekur hann til óspilltra málanna.

Salómon og niðjar hans skulu halda einni ættkvísl fyrir sig vegna þeirrar ástar sem Guð ber þrátt fyrir allt til Davíðs. En trúarvingl Salómons kostar samt þetta:

En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi. (1Kon 11.39)

Sennilega fer helgur fiðringur um kristna menn yfir þessum síðustu sex orðum, því Jesús er jú, afkomandi Davíðs í gegnum Jósef (já ég veit).

Dugnaðarmaðurinn Jeróbóam verður konungur yfir ættkvíslunum tíu í Norðurríkinu Ísrael, en Reheabeam, sonur Salómons, tekur við ættaróðali Júda í Suðurríkinu að föður sínum látnum.

Fyrir utan orð spámannsins Ahía, hvað veldur klofningnum? Kannski botnar þetta þrátt fyrir allt í pólitík og efnahagsmálum, jafnvel landsbyggðatortryggni gagnvart höfuðstaðnum. Allavega er það svoleiðis skýringar sem Jeróbóam og öldungar Norðlendinga gefa Rehebeam þegar hann vill að þeir sverji honum hollustu:

Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör þú nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér. (1Kon 12.4)

Gleymum ekki að það er nýlega búið að reisa rándýrt musteri í höfuðborginni fyrir sunnan, og einhversstaðar
hafa aurarnir komið til að halda því uppi. Þá er ekkert víst að Norðanmenn séu búnir að gleyma hinum dýru gjöfum sem Salómon seldi hinni útlendu drottningu af Saba sjálfdæmi um.

Reheabam reynist ekki sérlega klókur stjornandi, hunsar ráðgjafa sína sem vilja að hann sýni mildi. Svar hans til Jeróbóams og tímenninganna er nokkurnvegin: „You ain’t seen nothing yet“.

Og svo klofnar. Spámaðurinn Semaja ber Sunnanmönnum þau skilaboð að þeir skuli láta kyrrt liggja. Og það gera þeir.

Restin af bókinni fellur í konungatalsformið. Nýr konungur í hvoru ríki fyrir sig er kynntur til sögunnar miðað við hvar á valdatíma konungsins í hinu ríkinu hann tekur við. Þessir kaflar eru annála- og formúlukenndir. Þó detta inn merkilegar frásagnir.

Jeróbóam sér t.d. fljótlega að það er ófært að þegnar hans séu að þvælast til höfuðborgar Sunnlendinga til að fórna og biðjast fyrir í musterinu þar. Hann kemur upp eigin tilbeiðslustað og ákveður af einhverjum ástæðum að marka þá með gullkálfum (já, ég sagði það), og gera að prestum menn sem ekki eru af ættkvísl Leví.

Það gengi sennilega betur að halda frið og farsæld í þessu ríki ef helstu menn væru betur að sér í Biblíunni.

Þetta verður nokkurskonar leiðarstef beggja vegna landamæranna, einkum þó norðanmegin. Konungarnir og lýðurinn „gjöra það sem illt er í augum drottins“, tilbiðja guði nágrannaþjóðanna, temja sér siði nágranna sinna. Undantekningin er hann Asa Júdakonungur, sonur Abía og sonarsonarsonur Salómons. Hann kom  skikk á trúarlífið, átti í útistöðum við Basa, konung í Ísrael, og fer svo ekki mikið meiri sögum af honum. Basa þessi rændi völdum af ættlegg Jeróbóams og útrýmdi honum, en var síst eftirbátur þeirra í að styggja Guð og sú ætt því ekki langlíf heldur.

Svona gengur þetta. Óreiðan heldur meiri fyrir norðan landamærin, eðlilega, enda yngra ríki.

Þetta gengur ekki svona, sér Guð. Svo þurrkur brestur á og Drottinn kallar spámann til starfa.

Saga spámannsins Elía er síðasti meginhluti bókarinnar. Mikilvægi spámanna hefur farið stigvaxandi frá því í síðari Samúelsbók. Guð er mest hættur að tala beint við konungana (birtist t.d. Salómoni bara í draumi, sem er pínu svindl). En það er komin upp stétt, sæmilega formleg, sem hefur það verkefni að flytja valdsmönnum skilaboð að ofan. Ekkert í sögunum kallar á annað en þetta sé skilið næsta bókstaflegum skilningi.

Það á allavega við um Elía, sem guð notar ekki bara sem sendiboða heldur gefur hæfileika til að gera kraftaverk. Hann bjargar t.d. fólki frá hungri (17.7–16) og reisir mann frá dauðum (17.17–24).

Og byrjar síðan að berjast móti Akab Ísraelskonungi og hans frægu frú, Jesebel, sem m.a. hefur látið stúta fjölda spámanna og komið manni sínum upp á að dýrka þann vonda guð Baal.

Elía sannar síðan fyrir lýðnum yfirburði Guðs Ísraelsmanna yfir Baal, með því að mana þá í keppni um hverra guð getur kveikt í nauti.

Guð tendrar í sinni fórn fyrir orð Elía, lýðurinn ærist, Baal-spámennirnir eru drepnir, og það fer að rigna.

Það er orðið alllangt síðan Guð hefur „sýnt sig“ á þennan hátt. En sennilega var hann orðinn þreyttur á þessu eilífa hjáguðahóreríi þjóðar sinnar, sem hefur staðið með ótrúlega stuttum hléum síðan hún þrammaði um eyðimörkina.

Jesebel reynir að stúta Elía í hefndarskyni fyrir Baal-spámennina en það tekst ekki. Hún á samt einn stórleik eftir. Þegar konunginum mistekst að kaupa víngarð nálægt höllinni lætur hún varmenni drepa eiganda víngarðsins svo Akab geti náð honum undir sig. Guði mislíkar þetta, sem von er og sendir Elía á vettvang að leggja hina klassísku bölvun yfir hús Akabs. Hann rífur klæði sín, klæðist hærusekk og fastar. Og Guð bregst svona við:

Hefir þú séð, hversu Akab lægir sig fyrir mér? Af því að hann hefir lægt sig fyrir mér, mun ég eigi leiða ógæfuna yfir meðan hann lifir, en á dögum sonar hans mun ég leiða ógæfuna yfir ætt hans." (1Kon 21.29)

Erfðasyndin, maður. Munur líka að geta skælt sig undan refsingunni og komið henni yfir að syni
sína.

Allt er þetta blóðug saga um mannlega bresti - og ekki laust við að brestirnir séu líka hið efra, enda maðurinn skapaður í Guðs mynd. Stundum er talað um “kristið siðferði”, „kristin gildi“. Minna fer gjarnan fyrir útlistun á hver þau gætu nú verið. Kannski er „að hafna flestu því sem talið er til dyggða í Gamlatestamentinu“ ekki versta skilgreiningin.