5.01.2013

Fyrri Konungabók


Texti
Samanburður
Kynning

Illt í augum Drottins

Hér segir áfram frá konungum Gyðinga, aðallega þeim fræga Salómon. Þegar hann er allur er farið rösklega yfir sögu og konungar koma og fara. Ekki alltaf prúðir, en frjálslegir í fasi margir hverjir – og lengst af í tvöfaldri röð. Meira um það síðar.

Ég þykist skynja svolítinn stílsmun á þessari bók og þeim sem á undan koma. Einhvernvegin er hann „mannlegri“, jafnvel örlítið innilegri. Samtöl eru liprari og smáatriði færa persónurnar nær manni. Þetta á sérstaklega við um Salómonssögu (sjáið t.d. fyrstu setninguna í næstu tilvitnun). Þegar henni líkur verður allt öllu formúlukenndara og minnir jafnvel á köflum á hina kaldhömruðu Dómarabók að formi og innihaldi.

Þegar sagan hefst er Davíð enn á dögum, tæplega þó. Hirðin þekkir auðvitað sinn mann og telur sig vita hvernig best er að hressa hann við:

Davíð konungur var nú orðinn gamall og hniginn að aldri, og þótt hann væri þakinn sængurfötum, gat honum ekki hitnað. Fyrir því sögðu þjónar hans við hann: „Það ætti að leita að yngismey handa mínum herra konunginum til þess að þjóna konunginum og hjúkra honum. Skal hún liggja við brjóst þitt, til þess að mínum herra konunginum megi hitna.“ Síðan var leitað að fríðri stúlku í öllu Ísraelslandi, og fundu menn Abísag frá Súnem og fóru með hana til konungs. En stúlkan var forkunnar fríð og hjúkraði konungi og þjónaði honum, en konungur kenndi hennar ekki. (1Kon. 1. 1–4)

Þá er nú fokið í flest skjól þegar Davíð dugar ekki konum lengur. Enda byrja synirnir fljótlega að skoða möguleikana, og fólk að koma að máli við þá.

Davíð virðist reyndar vera búinn að ákveða að Salómon eigi að taka við fyrirtækinu, en fjórði sonurinn, Adónía er á öðru máli:

Adónía sonur Haggítar hreykti sér upp og hugsaði með sér: „Ég vil verða konungur.“ [...] En faðir hans hafði aldrei angrað hann á ævinni með því að segja við hann: „Hví hefir þú gjört þetta?“ Auk þess var hann mjög fríður sýnum og næstur Absalon að aldri.(1.Kon. 1. 5–6)

Annað dæmi um þennan skemmtilega „mannlega tón, þetta með slælegt og agalaust uppeldið á drengnum. Núna kemur það ríkinu í koll. Sá gamli hefur hraðar hendur, smyr Salómon og málið dautt.

Salómon þyrmir lífi bróður síns, en þegar Adónía vill fá að giftast Abísag, hinni fögru hjúkku og hjásvæfu föður síns, er konungnum nóg boðið.

Samkvæmt neðanmálsgrein jafngildir það tilkalli til konungdóms að biðja um hönd ekkju konungs. Sem þýðir að annaðhvort hefur Adónía ekki frétt af þessari venju, eða hann er heimskasti maður Biblíunnar. Hvort heldur sem er er hann úr sögunni.

Áður en Davíð safnast til ferðra sinna leggur hann ríkt á við Salómon að halda boð og lögmál Guðs, en einkum er honum umhugað

um að strákurinn hefni harma sinna (þ.e. harma Davíðs). Lokaorð hans snúast um atvik sem varð þegar Davíð flúði undan Absalon í síðustu bók og eru svo sannarlega af klækjastjórnmálaætt:

Símeí Gerasson Benjamíníti frá Bahúrím er og með þér. Hann formælti mér gífurlega, þá er ég fór til Mahanaím. En hann kom til móts við mig niður að Jórdan, og vann ég honum svolátandi eið við Drottin: „Ég skal eigi láta drepa þig.“ En þú skalt eigi láta honum óhegnt, því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar."(1. Kon. 2, 8–9) – leturbreyting mín

Útsmoginn maður Davíð. Og gleymir greinilega engu. Samt er hann í sífellu notaður til samanburðar við eftirmenn sína, þeim í óhag. Eitt stef bókarinnar er hve Drottinn hefur mikla velþóknun á Davíð. Á einum stað er þó minnst á að „hvernig hann fór með Úría Hetíta.“ sé vissulega ljóður á ráði hans, en reyndar sá eini. Allir, þar á meðal höfundur bókarinnar, virðist vera búinn að gleyma því  að Guð lofaði ættlegg Davíðs að „sverðið hyrfi aldrei úr húsi hans“ fyrir það uppátæki.

Frægð Salómons hvílir á tvennu: byggingu musterisins og visku hans. Um uppruna viskunnar er lítil þjóðsaga - Guð birtist honum í draumi og gefur honum eina ósk. Salómon velur visku og Guð er himinlifandi.

Til merkis um viskuna er svo sagan fræga um konurnar og barnið sem þær báðar segjast eiga, og Salómonsdóminn sem sker úr um það. Ég minnist þess reyndar ekki að í fermingarfræðslunni hafi komið fram að þetta voru “portkonur” sem deildu húsi og áttu barn um svipað leyti en annað þeirra dó af því að móðirin lagðist ofan á það. En þannig var þetta nú samt.

Annað sem kom á óvart er að þetta er eina dæmið um visku Salómons. Hún er lofuð, Drottningin af Saba kölluð til vitnis og því lýst að hann hafi skrifað spakmæli og ort ljóð. Það er fínt. En þessi saga er látin duga í þessari bók til að sýna getu Salómons til að taka viturlegar ákvarðanir. Enda reynast þær ekki allar jafn snjallar. Sérstaklega ekki í kvennamálum.

En fyrst þarf að byggja musteri. Það er magnað að það hafi ekki gerst fyrr. Það er ávæningur af ákvörðun um að byggja slíkt í sögu Davíðs, en Salómon gengur í málin.

Hvað þetta varðar er trúarlíf hinnar útvöldu þjóðar svolítið eins og íslenskt tónlistarlíf. Stendur í ógurlegum blóma í áratugi, er miðlægt í sjálfsmyndinni, en á sér ekki þak yfir höfuðið.

Nú verður bætt úr því. Kaflarnir um byggingu musterisins minna eðlilega mest á hinar smásmyglislegu útboðslýsingarlýsingar í Mósebókum um búnaðinn í tjaldinu. Að sjö árum liðnum er þó komið hið veglegasta heimili fyrir Guð og sáttmálsörkina.

Mælir þá hinn vitri Salómon:

“Nú hefi ég byggt þér hús til bústaðar, aðseturstað handa þér um eilífð” (8. 13)

Það er ekki laust við að það fari hrollur um mann við að lesa þessi orð. Þau enduróma í gegnum allar
heimsbókmenntirnar - þetta afdráttarlausa loforð sem getur ekki annað en brostið.

Það er margt fallegt í ræðum Salómons í kringum vígsluna. Sérstaka athygli mína vakti þessi klausa:

Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns - því að þeir munu heyra getið um þitt mikla nafn, þína sterku hönd og útréttan armlegg þinn - ef hann kemur hingað og biður frammi fyrir þessu húsi, þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig, eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig. (1Kon 8. 41–43)

Þetta er sem sagt ekki strangbundið við ættkvíslir Gyðinga. Það er gott, ég veit ekki betur en þetta sæti tíðindum.

Við vígslu hins nýja musteris  er svo fórnað 20 þúsund nautum og 120 þúsund sauðum. Það er til orð yfir svoleiðis hús, en það er ekki „musteri“.

En það er sama hvað musterið er vel innréttað, ef þitt eigið innvols lætur ekki að stjórn.

Salómon konungur unni mörgum útlendum konum auk dóttur Faraós, móabítískum, ammónítískum, edómítískum, sídonskum og hetítskum - konum af þeim þjóðum, er Drottinn hafði sagt um við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki eiga mök við þær, og þær skulu ekki eiga mök við yður.Þær munu vissulega snúa hjörtum yðar til guða sinna' - til þeirra felldi Salómon ástarhug. Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis. Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni … (1Kon 11. 1–5)

Að dýrka guði kærastanna, er að ekki svolítið eins og að láta sig hafa það að kinka kolli yfir Duran Duran og Wham, þó maður viti betur, í von um sleik? En Guði er ekki skemmt. Það er eiginlega alveg ljóst að boðorðin tíu eru í mikilvægisröð – versta syndin er að halda framhjá honum.

Guð er samt pínu meðvirkur, er það ekki? Hvað er hann oft búinn að segja „Ef þú hættir ekki  NÚNA að dýrka aðra guði þá skal ég sko láta þig lönd og leið”?

Hann uppvekur Salómoni mótstöðumenn fyrir þessa trúvillu, og í kjölfarið upphefst endanlegur klofningur ríkisins, sem hafði nú reyndar dottið í sundur a.m.k. einu sinni á dögum Davíðs. (Sjá 2S 2. 8–11)

Jeróbóam er lýst sem „dugnaðarmanni“ og þegar spámaðurinn Ahía ber honum þau skilaboð frá Guði að hann verði konungur yfir tíu af ættkvíslum Gyðinga tekur hann til óspilltra málanna.

Salómon og niðjar hans skulu halda einni ættkvísl fyrir sig vegna þeirrar ástar sem Guð ber þrátt fyrir allt til Davíðs. En trúarvingl Salómons kostar samt þetta:

En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi. (1Kon 11.39)

Sennilega fer helgur fiðringur um kristna menn yfir þessum síðustu sex orðum, því Jesús er jú, afkomandi Davíðs í gegnum Jósef (já ég veit).

Dugnaðarmaðurinn Jeróbóam verður konungur yfir ættkvíslunum tíu í Norðurríkinu Ísrael, en Reheabeam, sonur Salómons, tekur við ættaróðali Júda í Suðurríkinu að föður sínum látnum.

Fyrir utan orð spámannsins Ahía, hvað veldur klofningnum? Kannski botnar þetta þrátt fyrir allt í pólitík og efnahagsmálum, jafnvel landsbyggðatortryggni gagnvart höfuðstaðnum. Allavega er það svoleiðis skýringar sem Jeróbóam og öldungar Norðlendinga gefa Rehebeam þegar hann vill að þeir sverji honum hollustu:

Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör þú nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér. (1Kon 12.4)

Gleymum ekki að það er nýlega búið að reisa rándýrt musteri í höfuðborginni fyrir sunnan, og einhversstaðar
hafa aurarnir komið til að halda því uppi. Þá er ekkert víst að Norðanmenn séu búnir að gleyma hinum dýru gjöfum sem Salómon seldi hinni útlendu drottningu af Saba sjálfdæmi um.

Reheabam reynist ekki sérlega klókur stjornandi, hunsar ráðgjafa sína sem vilja að hann sýni mildi. Svar hans til Jeróbóams og tímenninganna er nokkurnvegin: „You ain’t seen nothing yet“.

Og svo klofnar. Spámaðurinn Semaja ber Sunnanmönnum þau skilaboð að þeir skuli láta kyrrt liggja. Og það gera þeir.

Restin af bókinni fellur í konungatalsformið. Nýr konungur í hvoru ríki fyrir sig er kynntur til sögunnar miðað við hvar á valdatíma konungsins í hinu ríkinu hann tekur við. Þessir kaflar eru annála- og formúlukenndir. Þó detta inn merkilegar frásagnir.

Jeróbóam sér t.d. fljótlega að það er ófært að þegnar hans séu að þvælast til höfuðborgar Sunnlendinga til að fórna og biðjast fyrir í musterinu þar. Hann kemur upp eigin tilbeiðslustað og ákveður af einhverjum ástæðum að marka þá með gullkálfum (já, ég sagði það), og gera að prestum menn sem ekki eru af ættkvísl Leví.

Það gengi sennilega betur að halda frið og farsæld í þessu ríki ef helstu menn væru betur að sér í Biblíunni.

Þetta verður nokkurskonar leiðarstef beggja vegna landamæranna, einkum þó norðanmegin. Konungarnir og lýðurinn „gjöra það sem illt er í augum drottins“, tilbiðja guði nágrannaþjóðanna, temja sér siði nágranna sinna. Undantekningin er hann Asa Júdakonungur, sonur Abía og sonarsonarsonur Salómons. Hann kom  skikk á trúarlífið, átti í útistöðum við Basa, konung í Ísrael, og fer svo ekki mikið meiri sögum af honum. Basa þessi rændi völdum af ættlegg Jeróbóams og útrýmdi honum, en var síst eftirbátur þeirra í að styggja Guð og sú ætt því ekki langlíf heldur.

Svona gengur þetta. Óreiðan heldur meiri fyrir norðan landamærin, eðlilega, enda yngra ríki.

Þetta gengur ekki svona, sér Guð. Svo þurrkur brestur á og Drottinn kallar spámann til starfa.

Saga spámannsins Elía er síðasti meginhluti bókarinnar. Mikilvægi spámanna hefur farið stigvaxandi frá því í síðari Samúelsbók. Guð er mest hættur að tala beint við konungana (birtist t.d. Salómoni bara í draumi, sem er pínu svindl). En það er komin upp stétt, sæmilega formleg, sem hefur það verkefni að flytja valdsmönnum skilaboð að ofan. Ekkert í sögunum kallar á annað en þetta sé skilið næsta bókstaflegum skilningi.

Það á allavega við um Elía, sem guð notar ekki bara sem sendiboða heldur gefur hæfileika til að gera kraftaverk. Hann bjargar t.d. fólki frá hungri (17.7–16) og reisir mann frá dauðum (17.17–24).

Og byrjar síðan að berjast móti Akab Ísraelskonungi og hans frægu frú, Jesebel, sem m.a. hefur látið stúta fjölda spámanna og komið manni sínum upp á að dýrka þann vonda guð Baal.

Elía sannar síðan fyrir lýðnum yfirburði Guðs Ísraelsmanna yfir Baal, með því að mana þá í keppni um hverra guð getur kveikt í nauti.

Guð tendrar í sinni fórn fyrir orð Elía, lýðurinn ærist, Baal-spámennirnir eru drepnir, og það fer að rigna.

Það er orðið alllangt síðan Guð hefur „sýnt sig“ á þennan hátt. En sennilega var hann orðinn þreyttur á þessu eilífa hjáguðahóreríi þjóðar sinnar, sem hefur staðið með ótrúlega stuttum hléum síðan hún þrammaði um eyðimörkina.

Jesebel reynir að stúta Elía í hefndarskyni fyrir Baal-spámennina en það tekst ekki. Hún á samt einn stórleik eftir. Þegar konunginum mistekst að kaupa víngarð nálægt höllinni lætur hún varmenni drepa eiganda víngarðsins svo Akab geti náð honum undir sig. Guði mislíkar þetta, sem von er og sendir Elía á vettvang að leggja hina klassísku bölvun yfir hús Akabs. Hann rífur klæði sín, klæðist hærusekk og fastar. Og Guð bregst svona við:

Hefir þú séð, hversu Akab lægir sig fyrir mér? Af því að hann hefir lægt sig fyrir mér, mun ég eigi leiða ógæfuna yfir meðan hann lifir, en á dögum sonar hans mun ég leiða ógæfuna yfir ætt hans." (1Kon 21.29)

Erfðasyndin, maður. Munur líka að geta skælt sig undan refsingunni og komið henni yfir að syni
sína.

Allt er þetta blóðug saga um mannlega bresti - og ekki laust við að brestirnir séu líka hið efra, enda maðurinn skapaður í Guðs mynd. Stundum er talað um “kristið siðferði”, „kristin gildi“. Minna fer gjarnan fyrir útlistun á hver þau gætu nú verið. Kannski er „að hafna flestu því sem talið er til dyggða í Gamlatestamentinu“ ekki versta skilgreiningin.

Engin ummæli: