Á næsta ári í Jerúsalem
Ég vissi ekki að Esrabók væri til fyrr en ég
hóf að lesa Biblíuna. Allólík er hún hinum blóðugu bókum um konungana. Fyrsta
bókin án mannfalls síðan Rutarbók. Merkilega svakaleg engu að síður - og
kallast óneitanlega á við nútímasögu Gyðingaþjóðarinnar.
Sem gæti verið ein af ástæðunum fyrir hvað
lítið fer fyrir henni þegar Biblían er rædd í dag – hliðstæðurnar eru
dálítið óþægilegar.
Esrabók er stutt og snyrtilega tvískipt. Hefðin
segir að umræddur Esra sé höfundur hennar og einnig Króníkubókanna. Hér kveður
samt svolítið við annan tón en í þeim fyrri. Mannlegi vinkillinn úr
Konungabókum snýr hér aftur og svo koma tvö ný stílbrigði til sögunnar. Í fyrri
hlutanum eru beinar tilvitnanir í sendibréf fyrirferðarmiklar og sá seinni er
skrifaður í fyrstu persónu.
Fimmtíu ár líða frá herleiðingu Júdamanna til
Babýlon og þar til þeir fá að snúa aftur. Í millitíðinni hefur veldi Kaldea
(Babýlóníuveldið) fallið fyrir Persum og konungi þeirra, Kýrusi mikla. Samkvæmt
bókinni fer Guð þess á leit við hann að muserið verði endurreist í Jerúsalem,
Það er reyndar athyglisvert að heyra hvað Kýrus
hefur að segja um þau samskipti:
Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri Drottins, Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem. (1. 2–3)
Kýrus virðist sumsé játa trú á Guð gyðinga, og
fá bein fyrirmæli frá honum, en jafnframt er sá Guð „Ísraels Guð“ og „býr í
Jerúsalem“. Forvitnilegt dæmi um þá „verufræðilegu óvissu“ sem ríkir í Gamla
Testamentinu um stöðu Guðs í heiminum, þrátt fyrir allt.
En Guð hefur talað, musterið skal rísa. Og
hverjir eru nú betur til þess fallnir að gera það en einmitt hin útvalda þjóð?
Svo þeir eru sendir á vettvang. Ríflega fjörutíu þúsund manns.
Heimferðin er tíðindalaus og skjót, að því er
virðist. Það hefur væntanlega verið gleði við varðeldana á kvöldi og sporin
létt á daginn. Enn hefur verið á lífi fólk sem mundi „gamla landið“. Þetta
hefur verið dásamlegt.
Við heimkomuna kemur svo náttúrulega í ljós að
þetta er ekki alveg svona einfalt:
Og þeir reistu altarið þar, er það áður hafði staðið, því að þeim stóð ótti af landsbúum, (3. 3)
Úbbs.
Landið sem sem flóði í mjólk og hunangi fékk
vitaskuld ekki að standa óáreitt í hálfa öld.
Engu að síður hefjast menn handa við að reisa
musterið aftur:
Og er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri Drottins, námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama Drottin eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs. Og þeir hófu að lofa og vegsama Drottin fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf. Og allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi Drottins. En margir af prestunum og levítunum og ætthöfðingjunum - öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið - grétu hástöfum, þegar grundvöllur þessa húss var lagður að þeim ásjáandi, en margir æptu líka fagnaðar- og gleðióp. 13Og lýðurinn gat ekki greint fagnaðarópin frá gráthljóðunum í fólkinu, því að lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi, og heyrðist ómurinn langar leiðir. (3. 10-13)
Þetta hefur nú heimamönnum (núverandi) þótt
aldeilis skrítið fólk.
Fljótlega kemur svo í ljós að svona
innflutningur heillar þjóðar inn á svæði sem byggt er annarslags þenkjandi
fólki skapar núning þó ekki sé lengra um liðið, og hann getur verið óvæntur.
(Er þetta eitthvað kunnuglegt?)
Í Norðurríkinu sem nú heitir Samaría, búa
Samverjar, sem líta á sig sem gyðinga, tilbiðja sama guð og gera það að því
þeir best vita á réttan hátt. Þeir senda eftirfarandi skilaboð til hinna
framkvæmdaglöðu frænda sinna, nýbúanna í Jerúsalem:
„Vér viljum byggja með yður, því að vér leitum yðar Guðs, eins og þér, og honum höfum vér fórnir fært síðan daga Asarhaddons Assýríukonungs, þess er flutti oss hingað.“ (4. 2)
En ættarhöfðingjarnir innflytjendanna eru nú
aldeilis ekki á því:
En Serúbabel og Jósúa og aðrir ætthöfðingjar Ísraels sögðu við þá: "Vér höfum ekkert saman við yður að sælda um bygginguna á húsi Guðs vors, heldur ætlum vér að reisa það einir saman Drottni, Ísraels Guði, eins og Kýrus konungur, konungur í Persíu, hefir boðið oss." (4. 3)
Þetta er dálítið magnað. Aftur, þessi skrítna
afstaða. Stundum er Guð eini guðinn, stundum ekki. Og þó hann sé (stundum) eini
guðinn þá er óæskilegt að óæskilegt fólk lúti honum.
Það vekur líka athygli að yfirskrift kaflans
(sem ég held að sé verk íslensku þýðendanna/útgefandans) er: „Samverjar tálma
byggingu musterisins“. Ekki t.d. „Aðstoð Samverja afþökkuð pent“.
Spuni?
Allavega - þið eruð ekki við – verið þið úti.
Við taka bréfaskriftir við stjórnvöld í Persíu
þar sem klögumálin ganga á víxl. Fyrst tekst andskotum Júdamanna að fá
byggingarframkvæmdir stöðvaðar, en síðan tekst að fá Daríus, sem orðinn er
Persakóngur, til að virða ákvörðun Kýrusar og leyfa áframhaldandi framkvæmdir.
Hann er líka ekkert að spara hótanirnar í sínu bréfi gagnvart þeim sem eru með
múður:
„...ef nokkur maður breytir á móti úrskurði þessum, þá skuli taka bjálka úr húsi hans og hann hengdur upp og negldur á hann, en hús hans skal fyrir þá sök gjöra að mykjuhaug.“ (6. 11)
Musterið er reist, vígsluhátíð haldin með
tilheyrandi fórnum, páskar sömu leiðis. Lýkur þar fyrri hluta.
Í 7. kafla mætir Esra, „fræðimaður, vel að sér
í Móselögum“, á svæðið ásamt fríðum flokki. Í næsta kafla flyst frásögnin yfir
í 1. persónu og Esra hefur orðið. Þetta er samkvæmt bestu manna yfirsýn 57 árum
og tveimur konungum eftir endurkomuna miklu. Musterið byggt og allt fallið í
ljúfa löð.
Eða ekki:
Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: "Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum, því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi." Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa. (9. 1–3)
Enn og aftur eru Ísraelsmenn að klunna. Enn eru
fermingarbræðurnir að teyma menn af vegi dygðarinnar. Enginn man lengur að
Salómon átti egifska prinsessu fyrir eiginkonu, né heldur að hinn flekklausi
Davíð átti a.m.k börn með konum af öðrum þjóðum.
Það er merkilegt að þrátt fyrir margsannaða
harðýðgi fólksins þá virðist aldrei hvarfla að neinum að hafa viðurlög við
brotum á lögmálinu. Það fer allavega ekki sögum af svoleiðis, nema þegar Guð
tekur sig til og lætur þá tapa í stríðum eða sendir drepsótt.
Hér eru menn hins vegar tilbúnir að leiðrétta
villuna:
Fyrir því skulum vér nú gjöra sáttmála við Guð vorn um að reka burt allar þessar konur og börn þau, er af þeim eru fædd (10. 3)
Þetta þarf ekkert að vera flókið.
Svo er sett nefnd í að finna út hverjir eiga
útlendar konur (þ.e. konur sem eru af öðrum kynþætti - ekki útlendar þannig
séð) – og þeim vísað burt. Og börnunum.
Það er vitaskuld ósmekklegt að benda með berum
orðum á hverju þetta háttarlag líkist mest.
Eiginmennirnir taka þessu af stillingu:
Lofuðu þeir með handsali að reka frá sér konur sínar og að fórna hrút vegna sektar sinnar. (10.19)
Bókinni lýkur á upptalningu þeirra 114
syndasela sem hafa tekið sér konur meðal þeirra sem fyrir voru í landinu og
“það voru konur meðal þeirra sem höfðu alið börn”.
Hvílík hneisa!
Ekki fer neinum sögum af því að einhver þessara
hafi neitað að reka konu sína og börn burt og skera hrúta til að friðmælast við
Guð.
Í stuttu máli: Nýlenduherra ákveður að
endursenda stóran hóp fólks til upprunalandsins, þar sem aðrir búa þegar hér er
komið sögu. Forystumenn hinna nýju „landtökumanna“ fá hroll þegar þeirra fólk
fer að mægjast við þá sem fyrir eru, skrásetja þá sem varðveita ekki
kynþáttahreinleika sinn og hrekja konur og börn hinna seku úr sínum röðum á
brott.
Næs.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli