Another Brick ...
Textinn
Samanburður
Kynning
Nehemíabók heldur áfram frásögn Esrabókar af endurreisn samfélags og fasteigna gyðinga í Júda.
Titilpersónan – og sögumaðurinn – heyrir af bágu ástandi í Landinu helga og þá ekki síst af niðurníðslu borgarmúra Jerúsalem. Nehemía er í góðri stöðu sem byrlari konungs en afræður að biðjast lausnar og reyna að gera eitthvað í málinu.
Hann fær leyfið og heldur til landsins „hinumegin fljóts“, sem er mikið notað orðalag í þessum frásögnum af endurkomunni til gamla landsins. Það eru fjörutíu ár síðan Esra fór sömu leið, og því um öld síðan gyðingarnir hófust handa við að endurreisa samfélag sitt, musteri, og nú borgarmúra.
Það er enn pínu nýr tónn í þessari bók. Eins og síðari hluti Esrabókar er hann skrifaður í 1. persónu sem hefur mikil áhrif á upplifun lesandans. Einkum á þann veg að textinn gefur ekki bara mynd af því sem sagt er frá heldur gerir mann meðvitaðan um sögumanninn. Það er ekki sérlega heppilegt fyrir Nehemía, sem virkar eins og frekar leiðinlegur maður og sjálfhælinn. Einkum eru þreytandi áminningar hans til Guðs um að halda til haga öllu því sem hann (Nehemía) hefur gert.
Hér er hann t.d. búinn að hrósa sér af að hafa ekki þegið landstjóralaun:
Virstu, Guð minn, að muna mér til góðs allt það, sem ég hefi gjört fyrir þennan lýð (5. 19)
Ekki það að hann eigi ekki til húmor:
...fór ég á fætur um nótt og fáeinir menn með mér, án þess að hafa sagt nokkrum manni frá því, er Guð minn blés mér í brjóst að gjöra fyrir Jerúsalem, og án þess að nokkur skepna væri með mér, nema skepnan, sem ég reið. (2. 12)
Þarna er hann að fara að kanna múrana sem hann síðar stendur fyrir að verði endurreistir. Því fylgja hefðbundnar upptalningar á hverjir unnu verkið, og síðar kemur allur heili listinn úr Esrabókum um þá sem sneru aftur í fyrstu bylgjunni. Nehemia enginn eftirbátur forvera sinna í listasmíðinni.
Forystumenn annarraþjóðakvikinda á svæðinu mögla eitthvað út af múrsmíðinni og fá þetta skorinorða svar:
Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja. En þér eigið enga hlutdeild né rétt né minning í Jerúsalem.(2. 20)
Auðvitað ekki - hafa bara búið þar í svosem eins og mannsaldur eða þrjá.
Svolítið eins og sagt er um íslensk sjávarþorp. Þú ert aðfluttur fram í svona 3. kynslóð.
og svo fylgja frekari lýsingar á bæði áhyggjum af og viðbrögðum við viðhorfum nágrannanna. Gyðingarnir vopnbúast og skipuleggja varðstöðu. Ekkert gerist samt. Engu blóði er óthellt í þessari bók og þó Nehemía telji að forystumenn Samverja hafi haft illt í hyggju þegar þeir bjóða honum til fundar við sig í einhverju nágrannaþorpanna, þá höfum við svo sem ekkert nema hans orð fyrir því.
Reyndar tekur þýðandi/útgefandi íslensku útgáfunnar þetta hrátt upp og setur yfirskriftina “vélabrögð gegn Nehemía” á kafla sem byrjar svona:
Þegar þeir Sanballat, Tobía og Gesem hinn arabíski og aðrir óvinir vorir spurðu það, að ég hefði byggt upp múrinn og að ekkert skarð væri framar í hann, þótt ég þá hefði eigi enn sett hurðir í hliðin, þá sendu þeir Sanballat og Gesem til mín og létu segja mér: "Kom þú, svo að vér megum eiga fund með oss í einhverju af þorpunum í Ónódalnum." En þeir höfðu í hyggju að gjöra mér illt. (6. 1-2)
Er það nú víst? Hvernig veit hann það? Dæmi hver fyrir sig.
Þegar byggingunni lýkur er komið að því að siða lýðinn. Lögmálið er lesið yfir þeim, helstu atriði sérstaklega tíunduð (tíund, hvíldardagur, að halda sig frá utanþjóðflokkskonum ofl.) og stórhátíðir innleiddar.
Allt virðist fallið í ljúfa löð og Nehemía skreppur í frí heim til Babýlon. En þegar hann snýr aftur er allt fallið í gamla farið aftur, sem kemur lesendum þessara pistla sennilega minna á óvart en honum.
Um þær mundir sá ég og Gyðinga, sem gengið höfðu að eiga konur frá Asdód eða ammónítískar eða móabítískar konur. Og börn þeirra töluðu að hálfu leyti asdódsku eða tungu sinnar þjóðar, en kunnu ekki að tala Júda-tungu. Og ég taldi á þá og bað þeim bölbæna, já, barði nokkra af þeim og hárreytti þá, og ég særði þá við Guð: "Þér skuluð ekki gifta dætur yðar sonum þeirra, né taka nokkra af dætrum þeirra til handa sonum yðar eða sjálfum yður. Syndgaði ekki Salómon, konungur Ísraels, í þessu? (13. 22–26)
Hér kætir mann tvennt: að hann hárreiti brotamennina, og að Salómon sé tilgreindur sem syndari að þessu tilliti – nokkuð sem skautað er yfir bæði í Króníkunni og Esrabók.
Gott hjá Nehemía – þó hann geti vissulega ekki stillt sig um að berja sér á brjóst í lokaorðum bókarinnar:
Mundu mér það, Guð minn, til góðs.
Með Nehemíabók verða kaflaskil að því ég best fæ séð. Samfelld, krónólógísk rakning sögu Gyðingaríkisins í Kanaanslandi sem hófst í Jósúabók með falli múra Jeríkóborgar lýkur hér í reisugilli endurbyggingar Jerúsalemveggja. Við taka textar af öðru tagi; sálmar, speki, og spádómar.
Þetta er viðburðarík saga, full af blóði og hryllingi, en einnig hetjuskap og trúfesti. Það hefur gengið á ýmsu í sambúð Guðs og manns. Sennilega eru nú svikin fyrirferðarmeiri en trúin, hvort sem það segir meira um mannkosti þessa fólks, kröfuhörku Drottins eða hitt, að breyskleiki er það sem umfram annað er í frásögur færandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli