9.13.2005

3. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Ekki er hægt að segja að þriðja bók Móse sé mikill skemmtilestur. Hún ber nafnið Leviticus á alþjóðamálum, sem vísar í að hér er mikill lagabálkur um prestskap, mannasiði og þó aðallega fórnfæringar, en ættkvísl Leví er valin til þjónustu við Guð í samkomutjaldinu. Skipaðir sjálfboðaliðar, eins og það hét í Ástríksbókunum.

Hún gæti reyndar líka heitið Lagið um það sem er bannað. Og viðlagið úr samnefndum sálmi Sveinbjarnar I. er ágætis súmmering:

Þetta fullorðna fólk er svo skrítið, 
það er alltaf að skamma mann, 
þó maður geri ekki neitt, 
það er alltaf að skamma mann. 

Fyrri hluti bókarinnar eru gríðarlega smásmyglislegar lýsingar á matfórnum. Hvaða dýrum skyldi fórnað hvenær og hvernig. Hvað af innvolsinu skyldi brennt á altarinu til "eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin", eins og þrástagast er á, og hvað skyldi falla í hlut Levísona.

Eins og í Exodus er endurtekningarstíllinn í hávegum hafður og heildaráhrifin fyrir vikið frekar klígjuleg. Það er eins og stöðugur straumur nautgripa, kinda, geita og dúfna liggi inn í samkomutjaldið, þar sem Aron og synir hans standa með kutana reidda, albúnir að fjarlægja mörinn, netjuna og stærra lifrarblaðið til að brenna og búa til góða lykt fyrir Guð. Og borða restina innan tveggja daga. Eins gott að dr. Atkins er búinn að sanna að kjötát sé überhollt, annars þyrfti sífellt að vera að víkka prestskrúðann, sem er ærið verk miðað við lýsinguna á saumaskapnum í síðustu bók.

Býð spenntur eftir skýringu á því af hverju Gyðingar eru hættir þessu fórnarbrölti. (Þeir eru það, er það ekki?)

Þegar fórnarkaflanum líkur taka við lög um ýmislegt annað.

Og fyrst það sem mikilvægast er: Hvað er hreint, og þó sérstaklega óhreint.

Lík, holdsveikir, graftrarkýli, konur á túr. Óhreint. Allskyns serimóníur til að hreinsa sig af snertingu við þessháttar, og hreinsun viðkomandi þegar holdsveikin skánar eða Rósa frænka drullar sér heim. Skemmtilegt.

Og svo hvaða matur er hreinn. Það er sniðugt. Dýr sem jórtra og hafa klofinn hóf, sjávardýr með hreistur og sundugga, slatti af fuglum. Að ógleymdum engisprettum af tilteknum gerðum.

Þetta má borða.

Hér er líka að finna fyrstu greinina sem þeir sem eru þannig innréttaðir vitna í til að fordæma samkynhneigð. Í 18. kafla, 22. versi:

Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

Nokkuð afdráttarlaust, en til allrar óhamingju fyrir hina hómófóbísku eru í næsta nágrenni jafn afdráttarlaus ákvæði sem engum kristnum manni dettur í hug að fylgja.

Sérstaka athygli vekur að Guð notar sömu orð um kynlíf tveggja karlmanna og það að borða humar. Viðurstyggð.

Minnir mig á að í æsku minni á Húsavík var orðið humar í vissum kreðsum slanguryrði yfir...

Let's not go there.

í 19. kafla koma svo allt í einu ákvæði sem allir ættu að geta skrifað undir. Ekki ljúga, veriði góð við fatlað fólk og gamalt. Verið sanngjörn í dómum, dragið hvorki taum lítilmagnans né þess volduga.

Hvaðan kemur okkur siðvit til að greina á milli þess sem er gott og, ja, miður gott í fyrirmælum þessar forneskjulegu lögbókar og gæðahandbókar í kjötiðju? Mér skilst að Gamlatestamentið sé í kristinni guðfræði meira og minna skilið óeiginlegum skilningi sem fyrirheit og spásagnir um komu Krists, jafnvel þessi bók ef marka má þessa grein (undir "Christian Views"). Eðli verkefnisins samkvæmt er ég ekki að lesa með þessum gleraugum, heldur reyni að mæta hverri bók með opnum huga. Fyrirfram þykir mér reyndar dálítið hæpið að líta á texta eins og þennan sem eitthvað annað en það sem hann bókstaflega er. Hegðunarreglur.

Og okkur þykja sumar þeirra eðlilegar, aðrar ekki. Og þar sem það stangast á þá gildir siðvitið í brjóstum okkar. Við borðum humar, grýtum ekki spámenn, höldum ekki þræla og þau okkar sem eru ekki alger fífl láta samkynhneigða óáreitta.

En jafnvel í þessari dálítið subbulegu bók eru fallegar greinar. Mér finnst 25. kaflinn vera góður, þó ég sé ekki viss um að íslenskir kvótakóngar og aðrar kapítalískar afætur séu mér sammála.

Þar segir að allt land skal látið í friði sjöunda hvert ár, ekkert sáð og ekki uppskorið. Allir mega eta það sem sprettur hjálparlaust. Mjög fallegt, gott fyrir landið, og með því að rótera þessu milli bæja geta allir veglausir og fátækir fundið eitthvað í gogginn.

Fimmtugasta hvert ár, árið eftir sjöunda sabbatsárið er Fagnaðarár, The Year of Jubilee í enskum biblíuþýðingum. Þá eru öll viðskipti afturkölluð. Enginn getur selt land lengur en í fimmtíu ár, því að þeim loknum skal hver halda heim á land feðra sinna. Guð á nefnilega landið, mennirnir eru leiguliðar. Jafnframt eru allir Ísraelsmenn sem ratað hafa í þrældóm gefnir frjálsir á þessu ári.

Er þetta ekki snjöll lausn á einokun og hringamyndun? Það er gefið upp á nýtt á hálfrar aldar fresti.

Og svo er bannað að taka vexti. Sem húsnæðiskaupandi í yfirvofandi verðbólguumhverfi þykir mér það skynsamleg regla líkt og sú um að ekki megi ljúga og stela, en ekki forneskjuleg vitleysa eins og fordæming samkynhneigðra eða bann við að éta strútakjöt.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Assgoti held ég túnin færu í mikla sinu ef maður mætti ekki slá á 7 ára fresti.

fangor sagði...

þú gætir étið af þeim í staðin er það ekki? alls konar grasaseyði í tísku núna..:þ

Nafnlaus sagði...

Ég myndi með öðrum orðum súpa seyðið af því að slá ekki. Þennan óslátt mætti kalla sinudrátt.

Afsakið! Næst skal ég reyna að segja e-ð gáfulegt um Biblíuna.

Nafnlaus sagði...

"Býð spenntur eftir skýringu á því af hverju Gyðingar eru hættir þessu fórnarbrölti. (Þeir eru það, er það ekki?)"

Og hér kemur hún! Fórnir lögðust niður um leið og musterið var jafnað við jörðu (fyrir um 2000 árum) og verða ekki teknar upp aftur fyrr en musterið er endurreist. Þar sem Klettamoskvan stendur á þeim stað er ekki að vænta þess að það verði á næstunni.

Nafnlaus sagði...

Já og varðandi bókina sjálfa. Ég er sammála því að þar er margt fallegt. Mitt uppáhald er 19. kafli, vers 9-18:

9
Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar.
10
Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.
11
Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum.
12
Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.
13
Þú skalt eigi beita náunga þinn ofríki, né ræna hann, og kaup daglaunamanns skal eigi vera hjá þér náttlangt til morguns.
14
Þú skalt ekki bölva daufum manni, né leggja fótakefli fyrir blindan mann, heldur skalt þú óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.
15
Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn.
16
Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.
17
Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu. Einarðlega skalt þú ávíta náunga þinn, að þú eigi bakir þér synd hans vegna.
18
Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.

Varríus sagði...

Takk fyrir upplýsingarnar um fórnirnar Þorkell.

Kindur og naut fyrir botni miðjarðarhafs stand í þakkarskuld við þá framsýnu menn sem byggðu klettamoskuna.

Og lífsreglurnar í 19. kafla eru svo sannarlega hin mesta bókarprýði. Ef maður vill endilega vera með leiðindi þá mætti höfundur þeirra stundum hugleiða viðhorfið til þess að vera "hefnisamur" og "langrækinn".

En maður á ekki að vera með leiðindi, og reglurnar eru ekkert verri þó einhverjir fari ekki alltaf eftir þeim.

Nafnlaus sagði...

Bíð spenntur eftir fjórðu Mósebók.

Torfi Jóhannesson sagði...

Aðeins um meltingarkerfi og klaufir: Jórturdýr sem ekki hafa klaufir (klofin hóf) eru ekki mjög mörg en úlfaldar eru þó í þeim hópi. Og "ekki jórturdýr" væru aðallega svín og hestar. Það er ekki alveg óvitlaust hjá Guði að letja fólk til að éta hesta og úlfalda því þetta voru samgöngutæki. Beikonið er hins vegar aðeins langsóttara, en þó má minnast þess að tríkínur (trichinosis) eru leiðindakvikindi sem smita þá sem éta hrátt (smitað) svínakjöt.