12.21.2005

Rutarbók

Textinn
Samanburður
Kynning


Tengdamömmudraumur

Eitt fallegasta lag í heimi heitir Sabbath Prayer og er úr besta söngleik í heimi, Fiðlaranum á þakinu. Ekkert annað lag kemst eins nálægt því að græta mig, og það í hvert einasta sinn sem ég heyri það. Bæn Tevyes og Goldu fyrir mannkostum dætra sinna er eftirfarandi:

"May you be like Ruth and like Esther"

Rut þessi kemur líka við sögu í alkunnum barnasöng þar sem segir "Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut", og það er annar handleggur, en minnir samt á að bæði séu þau góðar fyrirmyndir, og þá jafnt fyrir stráka og stelpur, sitt á hvað og krisskross.

En allavega - Rut er kona til eftirbreytni. Hana prýða mannkostir miklir, sem ekki eru endilega í tísku: þolgæði, trúfesti, fórnfýsi. Sagan er stutt, og margt ku benda til að hún hafi upphaflega verið hluti Dómarbókarinnar. Himinn og haf skilur þó að stemminguna í henni og atganginn þar.

Stóri munurinn felst í heiðursgestinum fjarverandi. Rutarbók er fyrsta bók Biblíunnar þar sem Guð kemur ekki við sögu. Hann er ekki gerandi í sögunni, þó vitaskuld sé til hans vitnað og nafn hans nefnt. Hann talar ekki við neinn og er ekki kennt um neinar hörmungar.

Annar munur er að ólíkt sláturtíðinni í Dómara- og Jósúabókum eru hér engin morð né limlestingar. Vissulega nokkurt harðræði, en ekki er dvalið við það. Persónurnar eru lika allar geðfelldar.

Rut er móabítsk kona sem giftist innflytjanda af gyðingaættum sem kominn er í land hennar ásamt foreldrum sínum og bróður á flótta undan hungursneyð. Þegar faðirinn deyr og synirnir báðir afræður tengdamóðir Rutar að halda heim til Betlehem og Rut ákveður að fylgja henni.

Til að átta sig á hvað þetta og það sem á eftir fylgir þýðir er gott að rifja upp stöðu mála í þessum heimshluta þegar sagan gerist. Fyrir nokkrum mannsöldrum birtist þar upp úr þurru þjóð ein utan úr eyðimörkinni og byrjaði að herja á þá sem fyrir voru. Aðkomumennirnir voru sigursælir, og stafaði mikil ógn af þeim enda höfðu þeir allajafnan þann sið að eira engu sem þeir sigruðu - konur og börn voru miskunarlaust brytjuð niður, en árásarmennirnir kváðust hafa skýr fyrirmæli um þetta ráðslag frá guði sínum, en honum fórna þeir forhúð sveinbarna sinna - sannkallaðir villimenn.

Það er inn í mitt ríki þessarar þjóðar sem útlendingurinn Rut heldur nú með tengdamóður sinni - tvær varnarlausar konur upp á von og óvon.

Þær búa við nokkuð harðan kost og Rut er send til að týna upp það sem eftir verður á ökrunum þegar menn eigendanna hafa farið þar um. Og fyrir velvilja örlaganna, eða Guðs, ratar hún á akur Bóasar nokkurs, sem bæði er enn eitt góðmennið í sögunni, og skyldur tengdaföður hennar heitnum.

Þetta var í þá daga þegar orðið "skyldur" hafði aðra þýðingu en einbert DNA-samband, og Bóas er "lausnarmaður" fjölskyldunnar - skyldugur til að kaupa land hennar til baka ef það hefur lent í höndum óskyldra manna.

Og þar fyrir utan líst honum ljómandi vel á Rut - og að því er virðist henni á hann. Þetta sér tengdó, og sér sér leik á borði (hvað eru mörg sér í því?):

Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel? Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum. Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið. En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."


Það er skemmst frá því að segja að þetta gengur svona ljómandi vel upp. Bóas leysir land fjölskyldunnar og tekur sér Rut fyrir konu. Allir glaðir og ekki spillir það gleðinni að sögumaður ljóstrar upp um framtíðina, ekki bara "eignuðust börn og buru..." heldur hreinlega Sonarsonarsonur þeirra hjóna var enginn annar en Davíð konungur! Og eins og allir sem hafa gefist upp á fyrsta kafla Nýja testamentisins ("götunum") vita þá voru fleiri stórmenni af þessari ætt.

Það er í sjálfu sér vel hægt að fara í nútímalegan hneykslunargír yfir þessari sögu. Láta sér finnast framferði Naómíar helst líkjast framferði melludólga þar sem hún leiðir Rut undir mann sem hún þarf að hafa gott af. Og þykja sem hér sé helvítis feðraveldinu rétt lýst.

En tónninn í sögunni stýrir upplifuninni framhjá svona viðbrögðum. Tónninn, og hið taumlausa villimannlega ofbeldi sem á undan er gengið og gerir örlög Rutar að ljúfri og látlausri sigursögu. Rut er vissulega "sæt og góð" eins og sungið er, en hún er líka trú sínum, trú sannfæringu sinni, fórnfús og huguð. Svo sannarlega til eftirbreytni.

Það verður gaman að sjá hvort þau Daníel og Ester verðskulda einnig að vera fyrirmyndir barna.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það sem mér hefur alltaf þótt skemmtilegast í Rutarbók er hinn lesbíski undirtexti (vissir þú annars að subtext er anagram af buttsex? Þessi staðreynd vekur iðulega upp barnslega kátínu í bókmenntafræðinemapartýum)

En orð Rutar til tengdó væri t.d. mjög eðlilegt og fallegt að hafa yfir í brúðkaupi:

"Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. 17Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig." (1:16-17)

Segið svo að gamla testamentið sé andsnúið okkur öfuguggum!

Gleðileg jól og kzpbkhey!

Gadfly sagði...

Ekki sé ég neinn lesbískan undirtexta hér. Þetta hljómar í mínum eyrum eins og örvæntingarfull viðbrögð barnungrar stúlku sem óttast að vera yfirgefin og heldur dauðahaldi í einu manneskjuna sem hún á náið samband við.

Það er sko alveg til í dæminu að fólk verði tilfinningalega háð vinum eða fjölskyldumeðlimum án þess að vera á kafi hvert í annars klofi og rassgötum.

Bjössi sagði...

Já en ekki nærri því eins skemmtilegt.

Nafnlaus sagði...

Hvernig er það, á ekki að halda áfram með þetta? Ég bíð spenntur.

Nafnlaus sagði...

Það er áreiðanlega fullt af fólki sem bíður eftir því að þú haldir áfram með biblíuna. Það er ábyrgðarhluti að láta fólk bíða svona

Nafnlaus sagði...

Þessari skemmtilegu yfirferð virðist vera lokið, því nú ver og miður :-(