7.03.2013

Sálmarnir


Þrettán tilraunir til sálmgreiningar

Textinn Ath. eldri þýðing
Samanburður
Kynning

Það er best að skipta þessari umfjöllun í nokkra búta – enda enginn efnisþráður að rekja.

I
Sálmarnir hafa svo sannarlega skilið eftir sig spor í bókmenntum og listum - eiginlega í allri tjáningu. Þeir enduróma allsstaðar. Lesandinn hnýtur stöðugt um kunnuglegt orðalag og línur sem hafa birst óbreyttar í öðrum textum, eða eru notaðar sem spakmæli í máli manna. Þar að auki hafa þeir verið tónsettir af allskyns meisturum - fyrir utan þá klassísku verðum við að nefna Pat Metheny (121), U2 (40) og auðvitað Boney M (137 – og já, ég veit að það var coverútgáfa!).


II
Enginn virðist velkjast í vafa um að sálmarnir séu „bundið mál“. Séu ljóð. Kannski jafnvel söngtextar. Varla hægt að kalla þetta annað en atómljóð samt. Frjálst form að mestu. Línulengd með ýmsu móti, ekkert rím eða stuðlasetning. Varla hægt að fá tilfinningu fyrir reglu í hrynjandi, og í fljótu bragði finn ég ekkert um það að svoleiðis sé til staðar í frumtextanum.

Merkilegt að menn hafi froðufellt í nútímanum yfir ljóðum í frjálsu formi, hafandi þessi háklassísku og mikilsvirtu dæmi um nákvæmlega það. Sennilega (og nú tala fordómarnir) sömu menn og höfðu þessa texta í hávegum.

Reyndar er eitt nefnt til sögunnar sem bragfræðilegt trikk. „Hliðstæðurím“ - kallað „Parallelism“ á ensku. Sem felst í því að grunnhugmynd eða lykilorð einnar línu er endurtekið í þeirri næstu. Eða andstæða þess.

Þetta þykir okkur neftóbaksköllunum nú andskotann ekki vera rím – meira svona stílbragð sem heitir alveg örugglega eitthvað í klassískri mælskufræði en ég nenni allsekki að fletta upp.

En ef Hliðstæðurím er rím þá gerði hann sér sennilega ekki grein fyrir því, menntaskólaskáldið, að eftirfarandi vísa væri ort undir áhrifum frá Davíðssálmum:

Eitt sinn stakk ég afa minn
í efri góm með heykvísl.
Í bræði drap hann bróður sinn
og barði mig með skóflu.

Fyrir utan þetta trikk eru sálmarnir frekar lausbeislaðir. Svo mjög að ljóðkerinn í manni hrekkur við þegar viðlag gerir vart við sig í sálmi 107 – tvær línur endurteknar nokkrum sinnum - reyndar með mismiklu millibil.:

Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn.

Annars bara álíka háttvíst og Jaques Prévert eða Jón úr Vör.


III
Viðfangsefni sálmanna eru ekkert sérlega mörg. Ætli þetta séu ekki þau helstu.

  • Óskir um hjálp frá Drottni við að stúta útlendingum
  • Bænir um hjálp frá honum við vernd gegn ranglátum
  • Lýsingar á hvað  hann er mikilfenglegur
  • Miskunnarbænir og syndajátningar
  • Gleðióp yfir því að vera með honum í liði
  • Hvatningar til lýðsins að sýna honum verðskuldaða virðingu

Óneitanlega verður þetta nú svolítið einhæft þegar efnið er innbyrt svona í heilu lagi. Ekki ósvipað því að hlusta t.d. á allar plötur Motörhead hverja á fætur annarri. Maður hættir að sjá trén fyrir skóginum. Fyrir vikið beinist athygli manns dálítið að „kynlegu kvistunum“.


IV
Rosalega eru „óþýðanlegu orðin“ í yfirskriftum sumra sálmanna spennandi:

Á gittít
Sela
Almút labben
Miktam
Maskíl
Makalat

Og svo framvegis

Flest þessi orð eru talin vísa í tónlistina sem öll er glötuð og engin veit hvernig var. Tónfræði? Hljóðfæri? Lagboða? Takt? Enginn veit. Merkilegt hvernig þess orð án merkingar vekja jafnvel sterkari hugboð um týndan heim en þau sem liggja í augum uppi.


V
Stór hluti sálmanna er kenndur við Davíð konung. Það að þeir eru það ekki allir styrkir mann í trúnni á að hann sé höfundur a.m.k einhverra/flestra sálmanna sem eru honum eignaðir.

Það er svolítið forvitnilegt að hugsa um hvað hann hefur við Guð sinn að segja. Ekkert skrítið þó konungur sem á í sífelldu stríði við nágranna og jafnvel uppreisnarmenn meðal eigin þjóðar eigi það erindi við Guð að biðja um hjálp í þessum verkum. Og jafn breyskur maður og Davíð þarf vissulega að biðja um náð og fyrirgefningu. Hitt vekur athygli manns hvað margir sálmanna sem við hann eru kenndir snúast um illa og óguðlega einstaklinga sem þrengja að tilveru hinna trúuðu með yfirgangi og ofsóknum. Þar þykir manni ljóðmælandi vera hversdagsmaður, jafnvel minnihlutamaður þar sem hann á heima.

Allir eru sálmarnir e-k 1. persónutexti, stundum talar Guð, en oftast að því er virðist skáldið sjálft. Svo annaðhvort var konungurinn ekki höfundur þessara sálma eða hann var merkilega góður í empatíu. Vonum að svo hafi verið, það er góður eiginleiki valdsmanna.

En svo má auðvitað líka segja (og er oft sagt): Valdsmaður sem skælir utan í Guði vegna fólks sem talar illa um hann og yrkir um hann níðkvæði ætti kannski bara að snúa sér að einhverju öðru.


VI
Það er gegnumgangandi tvennskonar sýn á réttlæti og umbun Guðs fyrir réttláta breytni í sálmunum – og víðar reyndar, t.d. í Jobsbók.

Annarsvegar er hinn réttláti fátækur en hinn rangláti/óguðlegi ríkur og drambsamur (og ríkur af því að hann er óguðlegur). Kveinstafir yfir illri meðferð hinna voldugu óguðlegu hrokagikkja á hinum trúuðu er gegnumgangandi stef.

En hinsvegar er skýrt að Guð launar trúfesti með velgengni. Á vígvelli að sjálfsögðu, en líka í persónulegri velgengni, eins og hinir réttrúuðu í Jobsbók hamra á.

Það er eins og það sé ekkert sérlega erfitt almennt séð að lifa við þessar andstæður. Að trúa á réttlátan almáttugan guð, en kveina yfir óréttlæti heimsins sem Guð hefur allskostar í hendi sér að breyta til betri vegar, með refsingum ef ekki vill betur.

í 37. sálmi  birtist þetta tvísæi fallega.

Ver eigi of bráður þeim sem  illt vinna,
öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
því að þeir fölna skjótt sem grasið,
visna sem grænar jurtir.
Treyst Drottni og ger gott,
þá muntu óhultur búa í landinu.
Njót gleði í Drottni,
þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir. (2–3)

Ekki öfunda hinn rangláta þó hann njóti velgengni – Treystu Guði og gjör gott og þá fer allt vel.


VII
Frá því ég las Mósebækurnar hef ég verið forvitinn um fórnarathafnir Ísraelsþjóðar. Þær eru á köflum nokkuð yfirgengilegar í textanum og ég hef stundum haft orð á því. Því stoppaði ég við 50. sálm:

Ég er Guð, Guð þinn!
Ég álasa þér ekki fyrir sláturfórnir þínar
brennifórnir þínar eru stöðugt frammi fyrir mér.
Ég þarf ekki að taka naut úr fjósi þínu
né geithafra úr stíu þinni,
því að öll skógardýrin eru mín
og skepnurnar á fjöllunum þúsund.
Ég þekki alla fugla á fjöllunum,
og það sem á mörkinni hrærist er mitt.
Væri ég svangur segði ég þér ekki frá því
því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
Et ég nautakjöt,
eða drekk ég hafrablóð?
(7–13)

Ég er svo aldeilis – er Guð ekki að afþakka dýrafórnirnar? Segja „neitakk, var að borða“?


VIII
Ég fór af rælni að bera saman nýju og gömlu þýðinguna þegar ég var að skrifa um ofangreindan sálm. Hér eru þrjú dæmi um muninn:

Gamla
brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.

Nýja
brennifórnir þínar eru stöðugt frammi fyrir mér.

„stöðuglega“? Hvers vegna í ósköpunum? Það kemur oft fyrir að orðaval í eldri þýðingunni slær mann eins og vísvitandi annkanalegt. Sérstaklega þegar það virðist ekkert standa í þýðendum nútímans að nota bara hversdagsleg orð sem gera sama – nei, mun meira – gagn.

Gamla
því að mín eru öll skógardýrin
og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.

Nýja
því að öll skógardýrin eru mín
og skepnurnar á fjöllunum þúsund.

„fjöllum þúsundanna“? Hvað þýðir það? Er það tæk íslenska?

Stundum er hreinlega allt önnur merking:

Gamla
Ég þekki alla fugla á fjöllunum,
og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.

Nýja
Ég þekki alla fugla á fjöllunum,
og það sem á mörkinni hrærist er mitt.

Þetta er ekki eina dæmið um gerólíka merkingu milli þýðinganna, ég rakst á eitt og annað slíkt í Jobsbók, sem varð ásamt öðru til þess að ég skipti um texta. En óneitanlega vekur þetta spurningar um gagnsemi þess að smásmyglislesa textann í leit að merkingu, leiðsögn um lífið og hinstu rökum.


IX
Talandi um orð. Af einhverjum ástæðum stoppaði ég við orðið „hærusekkur“ í sálmi 30. Orðið kemur reyndar oft fyrir í Góðu bókinni, fyrst í 1. Mósebók. Þar er talað um að Jakob vefji „hærusekk um lendar sínar“ þegar hann fær lygafréttirnar um lát Jósefs.

Hlutverk þessa klæðnaðar er alveg skýrt sumsé. Þetta er sorgarklæðnaður. En hvað er eiginlega Hærusekkur, annað en poki sem ræningjarnir í Kardemommubænum taka með sér í bæjarferð? Það var löngu tímabært að kanna málið.

Orðabókin segir „poki úr hrosshári“

Jakobsbiblían (og enskar biblíur almennt) nota orðið „Sackcloth“. Gefum Wikipediu orðið:

Sackcloth (Hebrew שַׂק saḳ) is a term originally denoting a coarsely woven fabric, usually made of goat's hair. It later came to mean also a garment made from such cloth, which was chiefly worn as a token of mourning by the Israelites.

Það  hljómar eins og síðari tíma tilbúningur að tengja þetta hebreska „sak“ við „sack“, þ.e. poka, og gera flíkina að þessháttar múnderingu sem útihátíðargestir búa sér til í rigningu úr svörtum ruslasekkjum. En það er ein grunnmerkinga orðsins í almennri ensku í dag, sýnist mér.

Smá rannsóknarleiðangur á Bible Gateway leiddi í ljós að á málum sem ég ræð við að skilja vísar þýðingin jafnan í notkunina en ekki efni eða snið:

„Sørgeklær“ (norska), „Syrgibúnanum“ (færeyska), „Sorgens dräkt“ (sænska), „Sørgedragt“ (danska), „Habits de deuil“ (franska) og „Trauergewand“ (þýska)

Lúter lætur sér hinsvegar nægja „Sack“ í sinni þýðingu.

Íslenska þýðingin sker sig nokkuð úr - á skemmtilegan hátt. „Hærusekkur“ vísar bæði í snið og óþægindi. Alltaf er ljóst af samhenginu að þetta eru föt til að klæðast í sorg eða vegna yfirbótar og sjálfsauðmýkingar gagnvart Guði. Óþarfi að taka það fram í orðinu sjálfu.

Hærusekkur. Vel gert, íslenska!


X
72. sálmur er sá eini sem kenndur er Salómoni, og sá er nú aldeilis ekki með það á hreinu hver er Guð og hver Salómon:

Guð, fel konungi dóma þína
og konungssyni réttlæti þitt,
svo að hann [konungur?] dæmi lýð þinn í réttlæti
og þína þjáðu með sanngirni.
Fjöllin beri þjóðinni frið
og hæðirnar réttlæti.
Hann [konungur?] láti hina þjáðu meðal þjóðarinnar ná rétti sínum,
og veiti hinum snauðu hjálp
og kremji kúgarann.
Þá mun hann (konungur?!) lifa meðan sólin skín 
og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
Hann [konungur?] falli sem regn á slægjuland,



Megi hann lifa og hljóti hann gull frá Saba,
sífellt biðji menn fyrir honum [konunginum, væntanlega, ekki þarf að biðja fyrir</> Guði?]

Þessi óreiða gerir textann bæði mjög nútímalegan og „skáldlegan“, þó hann fái mann líka til að efast um sálarheill Salómons og jafnvel (hverju Guð forði) vitsmuni.



XI
Í sálmi 44 er Guð látinn heyra það. Hann er stílaður nánast eins og sendibréf til Guðs – bænaskjal, ef vill.

Fyrst er Guði sagt frá því að bréfritarar hafi heyrt hvað hann gerði vel við forfeðurna:

… Þú stökktir burt þjóðum,
en gróðursettir feðurna,
þú lékst lýði harðlega,
en lést þá breiða úr sér
Ekki unnu þeir landið með sverðum sínum,
og eigi hjálpaði armur þeirra þeim,
heldur hægri hönd þín og armur.  (3–4)

Af Guði hrósum vér oss ætíð
og lofum nafn þitt að eilífu. (9)

En nú er öldin önnur:

…En nú hefir þú hafnað oss og niðurlægt
þú  fórst eigi út með hersveitum vorum.
Þú lést oss hörfa undan óvinum
og hatursmenn vorir taka herfang. … (10–11)

Þetta „Þú lést oss hörfa...“ finnst mér snilld: „Sjáðu hvað þú lést mig gera!“

En allavega, bréfritarar lýsa sig ekkert hafa til sakar unnið:

… Allt þetta er yfir oss komið,
þó höfðum vér ekki gleymt þér
og ekki rofið sáttmála þinn. … (18)

Það veit Guð náttúrulega best sjálfur:

… Hefðum vér gleymt nafni Guðs vors
og hafið upp hendur  til framandi guðs,
hefði Guð þá ekki orðið þess áskynja,
hann sem þekkir leyndarmál hjartans? (21–22)

Svo það er ræs:

Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? (24)

Hér er sko ekkert verið að krjúpa í auðmýkt! Dramatískt og skemmtilegt.


XII
Ég minnist þess ekki að hafa séð það áður í þessum textum, en hér kemur alloft fyrir stefið að Guð búi á/í fjalli. Oftast er það Síon (fjall skammt frá Jerúsalem) en í 68. sálmi býr hann reyndar á Basansfjalli austan við Jórdan. Vel má vera að þarna sé verið að tala eitthvað skrítið líkingamál, eða vísa í staðsetninu Sáttmálsarkarinnar, en ég fer samt að hugsa um leifar af fornum átrúnaði.

Svona frávik frá „réttrúnaðinum“ finnast mér alltaf dýpka innsýnina í heim bókarinnar, hvað sem allri guðfræði áhærir.


XIII
Það þarf ekki alltaf mikið til að gleðja mann. Hér er Guð að tala um hina ýmsu sigra yfir nágrönnum Ísraels í 60. sálmi:

… ég fleygi skóm mínum á Edóm …

Þessi skemmtilega tjáning fyrirlitningar sem við þekkjum úr austurlöndum nær (eða reyndar sjónvarpinu) á sér sumsé djúpar rætur. Hvað höfðingjarnir hafast að  …

Hvaða númer ætli hann noti?

Engin ummæli: