Textinn
Kynning
Eftir lestur Tóbítsbókar og svo Júdítar- rennur fyrst almennilega upp fyrir manni hvað sú fyrrnefnda er sérstök í samhengi Biblíunnar. Í Júdítarbók snúa helstu stílgallar frásagnarbókanna aftur með fullum þunga. Orðmargar og smásmyglislegar upptalningar, nákvæmni (ef það er rétta orðið) um smáatriði sem snerta ekki meginefnið nema lauslega.
Tökum dæmi. Í upphafi bókarinnar er talað um að Nebúkadnesar sé keisari yfir Assýríuveldinu (ég veit, meira um það síðar) og á sama tíma ríki Arpaksad yfir Medaveldinu. Svo kemur:
Hann reisti múr af höggnum steini umhverfis Ekbatana. [so far so good, innskot mitt] Steinarnir voru þriggja álna breiðir og sex álna langir. Hann hafði múrinn sjötíu álna háan og fimmtíu álna breiðan. Við borgarhliðin reisti hann hundrað álna háa turna sem voru sextíu álna breiðir neðst. Hliðin hafði hann sjötíu álna hjá og fjörutíu álnir á breidd. Herir hans gátu farið um þau til bardaga búnir og með fylktu fótgönguliði. (1. 2–4)
Þetta væri auðvitað allt gott að vita ef ekki fyrir það að áður en fyrsta kapítula er lokið hefur Nebúkadnesar sópað þessari borg í burtu og sagan eiginlega ekki byrjuð. En hva, það er hverjum manni hollt að vita hlutföllin í fallinni borg. Vei, vei!
Hinum létta og mjúka stíl Tóbítsbókar er sem sagt ekki til að dreifa hér.
Þar fyrir utan er Júdítarbók spennandi og krassandi. Og jú, hún hefur eitt frásagnarelement sem er fáséð í þessum textum: Sögusviðið flakkar milli góðu gæjanna (Gyðinga í borginni Betúlúu) og innrásarhersins sem Hólófernes fer fyrir og situr um borgina þegar Júdít, hin fagra og guðhrædda (en að öðru leyti allsendis óhrædda) ekkja, grípur til sinna ráða.
Þetta er allt spennandi, og aðalpersónan glæsileg í alla staði. En áhugafólk um trúverðugleika (þ.e. þeir sem líta á Biblíuna sem sannleiksuppsprettu) gæti lent í smá þrautum með tíma- og aðra sagnfræðióreiðu:
- Hér er Nebúkadnesar (Babýlóníukeisari á 6. öld f. kr) sagður stjórna Assýríuríki frá Níneve (7. öld f. kr).
- Svo virðist sem staða mála í Júdeu sé eins og eftir heimkomu og musterisendurreisnina (5. öld f. kr).
- Og hershöfðinginn Hólófernes var víst til, en hann var víst óvart í þjónustu Xerxesar III Persakóngs (4. öld f. kr).
Fyrir okkur sem erum bara að lesa er þetta ekkert verra en t.d. allskonar hjá Shakespeare. Í Simli konungi er t.d. engin leið að greina í sundur Bretland fyrir innrás Rómverja, Rómaveldi á tímum Kládíusar og Ítalíu endurreisnartímans. Og hverjum er ekki sama?
þetta er semsagt krassandi saga um sigur kjarks og hugvits yfir ofureflinu. Hin fróma ekkja Júdít kemur sér í mjúkinn hjá hershöfðingja umsátursliðsins, gerir hann vitlausan í sig og grípur svo tækifærið eftir mikla veislu þegar gaurinn er orðinn vel fullur og sneiðir af honum hausinn.
Sjáið þið ekki atriðið fyrir ykkur? Reffar: Raiders of the Lost Ark og The Firm, svona til dæmis. Fyrir utan þetta með hausinn reyndar. Já og svo mistókst Marion að sálga René í Indianajones-myndinni. En samt, það er hugarfarið sem gildir.
Það er ekkert sérlega trúarlegt við bókina, fyrir utan að aðalsöguhetjan er með afbrigðum fróm, og skúrkurinn dýrkar húsbónda sinn. Það pirrar reyndar Nebúkadnesar alveg svakalega þegar fólk viðurkennir ekki að hann sé guð, og deilir hann þeim persónuleikagalla með … ja, þið vitið hverjum.
Svona t.d. gerir Nebú alveg trylltan (og verður reyndar kveikjan að herferðinni sem endar með gróflega lágvaxnari leiðtoga hennar):
Þeir voru alls óhræddir við hann því að í augum þeirra var hann eins og hver annar maður. (1. 11)
The nerve!
Reyndar er ræða Júdítar þar sem hún stappar stálinu í sína umsetnu samborgara ein besta og skýrasta útlistun sem ég man eftir á röksemdum hinna guðhræddu þegar þeir skilja ekki af hverju þeir lenda í skítnum til jafns við aðra. Þeir hafa ákveðið að þrauka fimm daga enn í vatns- og matarlausu umsátrinu og heita á Guð að frelsa sig, en gefast síðan upp ef engin himnahjálp berst. Skamm, segir Júdit:
Hlíðið á mig, þið sem eruð leiðtogar Betúlúubúa. Ekki gerðuð þið rétt að tala þannig til fólksins í dag og sverja Guði þann eið að gefa óvinunum borgina á vald ef Drottinn veitir okkur ekki hjálp innan þessa tiltekna tíma. Hverjir haldið þið að þið séuð að freista Guðs, eins og þið hafi gert í dag, og setja ykkur sjálfa í Guðs stað meðal mannanna? Þið eruð að reyna að rannsaka almáttugan Drottin. Aldrei að eilífu munuð þið verða nokkru nær. Ekki getið þið einu sinni komist að raun um hvað leynist í djúpi hjarta mannsins né heldur skilið hugrenningar hans. Hvernig hyggist þið rannsaka Guð sam allt þetta hefur skapað, skilið hugsanir hans og komast að því sem hann ætlast fyrir? Það verður aldrei. (8. 11–14)
Semsagt: Vegir Guðs eru órannsakanlegir, og það hleypur í hann kergja ef við reynum að kortleggja. Eins og dæmin sanna.
Þetta er skýr og vel orðuð útlistun þessara röksemda. Ég sagði ekki að þær væru röklega skotheldar. Enda tekur Júdít til sinna ráða, innblásin af trú sinni og trausti um stuðning Guðs við aðgerðirnar.
Þegar kona heldur heim á leið í partídressinu með haus kvalarans í farangrinum skiptir minnstu máli hvort eldsneytið sem knúði sverðið í gegnum hálsliðina var placebo eða alvöru stöff.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli