6.20.2014

Önnur Makkabeabók

More is More


Textinn (á ensku – apókrífu ritin eru ekki á íslensku á netinu)
Kynning

Hún er kölluð „Önnur Makkabeabók,“ ekki „Seinni“, þó aðeins tvær séu hafðar með hér. Það stafar af því að M3 og M4 eru til en eru svo apókrífar að þeim er nánast allsstaðar útskúfað úr kanónunni. Hér er lesanda frjálst að mynda hugrenningatengsl við Police Academy. Eða Highlander jafnvel. Að sjálfsögðu á eigin ábyrgð.


Eða kannski frekar við Saw-seríuna, því hér eru pyntingar og hrottaskapur í talsvert meiri forgrunni en í öðrum bókum Biblíunnar. Það er enn meira áberandi fyrir þá sök að hér er sögð nokkurnvegin sama saga og í fyrri hluta M1, af ofsóknum gegn Gyðingum á vegum Antíokkusar IV og uppreisn Júdasar Makkabeusar.


Stíllinn og frásagnarhátturinn er jafnvel enn „nútímalegri“ en í M1. Þetta er lipur og auðlesinn texti, en stærsta breytingin er samt sú hvað höfundur veifar gildisdómavopninu oft og mikið. Talar um „mannhunda“, „hrakmenni“ og fleira skrautlegt þegar þarf að mála óvini sterkum litum.


Það er heldur ekkert dregið úr þegar kemur að lýsingum á framferði þeirra. Það fer frá því að vera all-sakleysislegt frá okkur séð, eins og þegar hellenskt þenkjandi æðstiprestur:


… reyndist óðfús að reisa íþróttamannvirki undir sjálfri háborginni og fylkti um sig göfugustu æskumönnum, en þeim leyfðist nú að bera hatta … (4. 12)


yfir í grimmilegar kúgunar- og niðurlægingaraðgerðir á vegum Antíokkusar:


Einna virtastur af fræðimönnunum var Eleasar. Hann var aldraður maður maður og sviphreinn. Hann var þvingaður til að opna munninn og svínakjöti troðið upp í hann. (6. 18)


Hámarki ná svo þessar lýsingar í löngum kafla þar sem sjö bræður eru pyntaðir til dauða fyrir framan móður sína til að reyna að fá þau til að neyta hins forboðna svínakjöts. Öll sýna þau mikla trúfesti. Hér mælir móðirin til sonanna:




Ég veit ekki hvernig þið urðuð til í lífi mínu. Ekki var það ég sem gaf ykkur líf og anda og ekki kom ég skipan á frumefnin sem þið eruð úr. Það er skapari heimsins sem mótar manninn þegar hann verður til og ákvarðar tilurð allra hluta. Þess vegna mun hann í miskunn sinni gefa ykkur anda og líf að nýju fyrir það að fórna ykkur fyrir lögmál sitt. (7. 22–23)

Lýsingarnar á dauða drengjanna eru ekki falleg lesning. En trúarbragðanördinn hnýtur um að hér er talað um framhaldslíf, sem almennt er ekki á dagskrá í Gamla testamenntinu. Það lætur einnig á sér kræla í orðum sögumanns um framferði Júdasar eftir eina orrustuna þegar hann lætur:


... alla sína menn skjóta saman. Urðu það tvö þúsund drökmur silfurs sem Júdas sendi til Jerúsalem til að kosta syndafórn. Þetta gerði hann vel og skynsamlega því að hann hafði upprisuna í huga. Ef hann hefði eigi vænst þess að hinir föllnu risu upp hefði það verið óþarfi og heimska að biðja fyrir látnum. Auk þess leit hann svo á að dýrleg umbun biði þeirra sem sofna í trú. Heilög og fróm hugsun er það. Þess vegna lét hann færa sáttarfórn fyrir hina látnu til að þeir leystust frá syndum sínum. (12. 43–45)

Það er eftir þessa skelfingu með drengina sem uppreisn Júdasar Makkabeusar hefst fyrir alvöru. Atburðarásin er ekki mikið frábrugðin þeirri í M1, en lýsingarnar eru litríkari og Guð er óneitanlega sýnilegri. Hér birtist dularfullur riddari á hvítum hesti í fylkingarbrjósti hersins þegar minnst varir (11. 8). Veikindin sem draga Antíokkus IV til dauða eru líka mun skýrar skrifuð á reikning Drottins. Og lýst af umtalsvert meiri meinfýsni:

Dómur himinsins var sannarlega með í þeirri för. Konungur sagði nefnilega í drambi sínu: „Ég skal gera Jerúsalem að fjöldagröf Gyðinga um leið og ég kem þangað.“ En Guð Ísraels, sem er alskyggn Drottinn, laust hann ósýnilegri og ólæknandi meinsemd. Hafði konungur vart sleppt þessum orðum þegar hann gat tæpast af sér borið fyrir iðrakvölum og innantökum. … Þótt hann væri enn á lífi skriðu ormar úr augum hins óguðlega og holdið leystist af honum með mikilli þjáningu og kvöl. Fnykurinn sem lagði af rotnandi holdi hans varð hernum óbærilegur. Litlu fyrr hafði hann talið sig geta náð til stjarna himinsins. Nú gat enginn borið hann vegna daunsins sem af honum lagði. (9. 4–10)


Don’t mess with da God!


Gróteskar lýsingar eru ófáar. Hér er hetjudauði öldungsins Rasís:


… þar sem hersveitin var að ryðjast inn um dyrnar stökk hann óttalaus upp á virkismúrinn og varpaði sér djarfur ofan á mannfjöldann fyrir neðan … stóð hann upp og hljóp í gegnum mannþyrpinguna, þótt blóðið rynni í lækjum og sárin væru mikil, og nam staðar uppi á þverhníptum hamri. Þo að honum væri næstum blætt út dró hann sjálfur innyflin út, tvíhenti þau og varpaði þeim á mannfjöldann. Ákallaði hann Drottinn lífs og anda og bað hann að gefa sér það að nýju sem hann nú missti. Með þessum hætti lét hann lífið. (14. 43–46)


Bókinni lýkur með sigri Júdasar og borgina helgu í höndum Gyðinga. 


Þetta er að mörgu leyti dæmigerður „sequel“. Meira ofbeldi, hástemmdari tónn, en innihaldið a.m.k. ekki meira en í fyrirrennaranum.

Vel þess virði samt fyrir unnendur hasars.


Engin ummæli: