Jesús yrkir í sandinn
Guðspjall Jóhannesar er eðlisólíkt hinum þremur eins og alþekkt er. Það liggur bæði í stíl og frásagnarefni. Margt er hér ekki sem allir hinir fjalla um. Engin er hér fjallræða, engin lokakvöldmáltíð, þó brauðið og vínið fái sína helgun. Mun færri dæmisögur og kraftaverk.
Og miklu meiri „guðfræði“ – ítarlegri útlistanir á orðum og gjörðum söguhetjunnar. Manni líður stundum eins og textinn sé önnur hliðin á rökræðu. Sem skýrir að einhverju leyti hvað frásagnarmátinn er stundum skrítinn og stirður. Hér eru málalengingar og stagl, en af öðru tagi en staglið í Gamlatestamentinu. Þetta er grískt stagl en ekki hebreskt. Meiri Platón – minni Móses.
Margt er þó fallegt og mikilvægt hjá Jóhannesi. Hin glæsilega byrjun, „Í upphafi var orðið …“. Og sagan um bersyndugu konuna – sem er bara hér – er eitt skýrasta dæmið um það sem mætti kalla „kristin gildi“, þó vafalaust megi finna dæmi um þennan þanka hjá eldri spekingum og þeim sem engin kynni hafa haft af Jesú.
En þetta er bara svo flott saga. Besta saga heimsins um hræsni. Og öflug lykilsetning: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Betra á íslensku en ensku (af því við eigum orðið „syndlaus“), sem gleður mann. Og þetta er ekki dæmisaga – þarna grípur Jesús inn í atburðarás samtímans á áþreifanlegan, en samt ekki yfirnáttúrulegan hátt. Hver sem er hefði getað gert þetta – sagt þetta. En það var hann sem sagði það.
Og enn og aftur talar Jesús gegn Lögmálinu. Þó hann segi líka að ekki stafkrókur þess sé fallinn úr gildi. Skömmu eftir glímuna við grjótkastarana skammar hann menn fyrir að hlýða því ekki - hræsni aftur skotmarkið:
Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt? (7.19)
Það má segja að það sé mótsagnakennt. En það má líka segja að það gefi siðferðilegt andrými. Og þetta eru sem því svigrúmi nemur hæpnari leiðarvísir. En svo má líka segja að hæpinn leiðarvísir sé þó skárri en hið afdráttarlausa Lögmál, með öllum sínum grýtingum og glórulausu humarhatri.
Eitt skrítið smáatriði fangaði athygli mína innan um kunnuglegu orðin í kaflanum um þá hórseku og wannabe-böðla hennar:
En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. (8. 6-8 - leturbreyting mín) Og allt í einu verður ein stórkostlegasta atvikssaga heimsins brotinu skrítnari og mannlegri og þar með stærri. Hvað var hann að skrifa? Er þetta ekki eina dæmið um að Jesús skrifi yfirhöfuð? Hvaða áhrif hafði það að hann var að skrifa á þá sem hann var að tala við? Sjáið þetta fyrir ykkur. Voru það þessi ævintýralegu „svalheit“ sem björguðu stúlkunni, burtséð frá stórbrotnum röksemdunum? Svona lið er nú ekki vant að stjórnast af snjallyrðum. Kraftaverkin eru fá, en lengur dvalið við og lagt út af og rætt um hvert og eitt. Hér er vatni breytt í vín og Lasarus reistur frá dauðum. Og blindir fá sýn. Allt þetta stuðar Gyðingana. Og talandi um Gyðingana. Jóhannesarguðspjalli er oft lýst sem andsemitíska guðspjallinu. Þar erum við samt að tala um stigs- en ekki eðlismun. Það er alveg skýrt líka hjá MML að rómversku yfirvöldin höfðu nákvæmlega EKKERT við Krist að athuga. Öðru máli gegnir um keppinauta hans um hylli almennings í Gyðingaelítunni. Hér hafa þýðendurnir ákveðið að hjálpa okkur smá. Jóhannes hefur nefnlega skrítna áráttu til að skrifa „Gyðingar“ þegar hann augljóslega meinar „Farísear“ eða „æðstupresta“. Svolítið eins og að skrifa „Garðbæingar“ þegar maður meinar „Sjálfstæðismenn“. Í nýju útgáfunni er gjarnan sett „ráðamenn“ og „Farísear“ í staðinn fyrir G-orðið, og tekið fram neðanmáls að orðrétt sé þetta „Gyðingar“. Þetta er alveg skiljanleg ákvörðun en orkar stundum tvímælis, Virkar fínt þegar „Gyðingar“ táknar augljóslega Farísea eða aðra forráðamenn. T.d. hér: Þetta sögðu foreldrar hans af ótta við ráðamenn Gyðinga (9. 22) Þar sem upphaflega stendur „af ótta við Gyðinga“, þó umrædd kjarnafjölskylda sé það líka – sem er ruglingslegt. En undarlegt verður þetta annarsstaðar: Menn tóku aftur upp steina til að grýta hann. (10. 31) Hér er „menn” sett inn fyrir „Gyðingar“ eins og það sé ekki augljóst að þeir sem grýta séu Gyðingar – þetta gerist í musterinu. Óþarfa viðkvæmni að leyfa því ekki einfaldlega að standa, þó „menn“ fari í sjálfu sér ekkert illa þarna. En það yrði langt og tafsamt verk að laga og nútímavæða stílinn á öllu ritsafninu. Á hinn bóginn er „Gyðingar“ látið halda sér þar sem sag er frá einhverju „jákvæðu“, t.d. þegar talað er um fólk sem hlýðir á Jesú og trúir honum. Ágætis prinsipp hjá þýðendunum – en aðeins of mikil PC-lykt af útfærslunni. Því þetta er ekki PC-texti. Dæmi um það er t.d. þessi eftirmáli kraftaverksins með Lasarus, sem lítt er haldið á lofti: Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú. (12.10–11) Ekki er sagt frá því hvort þeir létu verða af þessum áformum sínum. Það væri samt dæmigert. Og við tökum eftir að hér er orðinu „Gyðingum“ leyft að standa þó því sé strangt tekið ofaukið, enda birtast þeir þarna í jákvæðu ljósi frá sjónarhóli kristninnar. Í Jóhannesarguðspjalli er engin fæðingarsaga sögð. Móðir Krists kemur tvisvar við sögu, en er aldrei nefnd á nafn sýnist mér. Sem er reyndar erfitt að fullyrða, svo mjög sem Maríur koma hér við sögu og lítt hirt um að greina milli þeirra. Tvisvar er hann kallaður „Jesús sonur Jósefs“, já og „bræður hans“ koma við sögu. Á hinn bóginn er mun sterkar að orði kveðið hér en annarsstaðar að Jesú sé sonur Guðs – bæði af höfundi og ekki síður aðalsöguhetjunni. Við hittum Jesúm fyrst um leið og Jóhannes skírari, sem er í stóru hlutverki í upphafi guðspjalls nafna síns, þó ekki sé hér sögð sagan af dauða hans eins og hjá sumum hinna. Hann er meira að segja í hlutverki smalans fyrir arftaka sinn: Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans. Hann sér Jesú á gangi og segir: „Sjá, Guðs lamb.“ Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú. (1. 35–37) En þó Jóhannes sé í stóru hlutverki í guðspjalli nafna síns þá er sagan af dauða hans ekki sögð. Ég hef nokkrum sinnum í þessum NT-pistlum sagt frá ljúgvitninu sem segir Krist hafa raupað af því að geta reist musterið úr rústum á þremur dögum, sem sumir guðspjallamannanna segja vera það sem hann var dæmdur til dauða fyrir. Ja, ljúgvitni? Kannski var hann einfaldlega viðstaddur þegar Jesús átti þessi orðaskipti við ráðamenn Gyðinga: Ráðamenn Gyðinga sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur um að þú megir gera þetta?“ Jesús svaraði þeim: "Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.” (2. 18–19) Á hinn bóginn er ekkert meira um þetta rætt og þessi orð verða ekki til að sakfella Krist í þessari útgáfu sögunar. Framhaldið er reyndar líka forvitnilegt: En Jesús var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu sem Jesús hafði talað. (2. 21–22) Svona klausur með eftiráskýringum eru stíleinkenni á guðspjallinu. Þetta er afleitur frásagnarmáti. Svolítið eins og fjögurra ára barn að segja brandara sem það skilur ekki. Já og svo er þetta alveg glötuð eftiráskýring. Þó að óraunsæjar byggingaráætlanir verði ekki hornsteinn málareksturs gegn uppreisnarseggnum í þessari bók, eru áætlanir Farísea hvergi tíundaðar jafn afdráttarlaust og nákæmlega og hjá Jóhannesi: Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann. En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört. Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.“ En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: „Þér vitið ekkert og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist.“ Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina, og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs. frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi. (11. 45–53) Aftur – hverskonar bjánastill er þetta? En áhugavert að höfundur bókarinnar hefur aðgang að leynifundum óvinanna. Við vitum öll hvar þetta plott endar - og það er alltaf jafn skrítin og mótsagnakennd saga. Þetta með svikin er alltaf jafn illskiljanlegt, og eyðurnar í því hvað nákvæmlega bæði Gyðingar og Rómverjar hafa út á manninn að setja frekar óskýrt. Það er samt alveg skýrt – og líka í hinum spjöllunum - að það er fyrst og fremst hin Gyðinglega yfirstétt sem fær Jesús líflátinn. Þetta segir hann við Pílatus: Þú hefðir ekkert vald mér ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök sem hefur selt mig þér í hendur. (19. 11) Sem er auðvitað svolítið kyndugt. Að forlögin bindi hendur Pílatusar en ekki Kaífasar og félaga. Reyndar má kannski hengja þetta á þann rauða þráð í guðspjöllunum og Jóhannesi sérstaklega, að hér séu máttarvöldin einfaldlega að manipúlera framvinduna til að spádómar rætist. Og Pílatus þá peð í því tafli. En á það þá ekki við um alla gerendur sögunnar? Heródes, Kaífas, Júdas og Annas? Og þá fráleitt að líta á þá sem seka um neitt heldur. Eðli forlagatrúarinnar er mótsögnum hlaðið og skiljanlegt að menn vilji ekki tala skýrt um það. Pílatus er áhugaverð persóna, með sína áreynsluþrungnu tilraunir til að þyrma Jesú og grimmilegt afdráttarleysið þegar þær mistakast. Það er hér sem hann spyr son Guðs „Hvað er sannleikur?“ og fær engin svör. Í upphafi var orðið, en að lokum er það þögnin. Það er áhugaverður snúningur hér á einu smáatriði, háðungarskiltinu á krossinum. Aðeins Jóhannes orðar það nákvæmlega eins og okkur er tamt að sjá það fyrir okkur: „Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga“ (INRI). En það er líka aðeins hér sem Pílatusi er eignuð hugmyndin og framkvæmdin. Og það er líka bara hér sem hinir óvitlausu ráðamenn heimamanna sjá að skensið beinist gegn þeim en ekki Kristi: Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki Konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“ Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“ (19. 21–22) Face. Þið ratið út. Látum að öðru leyti nægja um endalokin að segja frá því að það er hér sem Kristur ber kross sinn sjálfur, eins og við sjáum það öll fyrir okkur. Áfram mun mér þykja Símon frá Kyrene einstaklega áhugaverður maður, og sú saga sem því nemur sennilegri að hún er minna áhrifarík. Með Jóhannesarguðspjalli ljúkum við þessum þungavigtarhluta Biblíulestrarverkefnisins. Enginn hluti bókarinnar er – eðlilega – jafn kunnuglegur leikmönnum og þessi fjórþætta frásögn af lífi Jesú. Þetta er kjarninn. Hann hefur vitaskuld verið matreiddur ofan í mann á ýmsan hátt, og fróðlegt bæði að sjá hvað kemur hvaðan, og hverju er síður haldið á lofti. Auðvitað festir lesandi eins og ég svolítið augun á því sem stangast á við barnalærdóminn, eða fékk í það minnsta ekki inni í honum. Má þar nefna ástar-haturþríhyrninginn milli Krists, gyðinglegrar hefðar og Lögmálsins. Sem og hve margar minna þekktu dæmisögurnar eru torræðar og/eða grimmúðlegar. Og alltaf er það pínu „sjokk“ þegar söguhetjan sýnir á sér „ósympatíska hlið“. Þegar hann reiðist, þegar hann örvæntir yfir trú- og skilningsleysi samferðamanna sinna. Þegar hann beitir sófistískum mælskubrögðum. Þegar hann svarar í sumartunglið. Hann er bæði mannlegri og fjarlægari í mínum huga eftir þessa yfirferð. Lokahluti bókarinnar fer síðan í að smíða trúarbrögð úr þessum efnivið mótsagnakenndra orða, myrkra fullyrðinga, ótrúlegra máttarverka og uppfylltra spádóma. Hlakka til.
1 ummæli:
Ég held að ég viti alveg hvað þú átt við með ljóta stílnum. Ég man t.d. eftir því þegar flytur bæn upphátt og bætir svo einhverju svona við eina setninguna: "Ég sagði þetta bara fyrir fólkið í kring, ég myndi aldrei segja þetta í alvörunni."
Skýringin er væntanlega sú að fólk hefur verið að bæta við textann, þeas sett inn litlar glósur og verið að krukka í textanum, enda er Jóhannesarguðspjall frekar slitrótt (t.d. er 21. kaflinn af mörgum talinn síðari tíma viðbót og svo virðist ræðan í 15-17 kafla ekki passa inn í textann þar).
>Auðvitað festir lesandi eins og ég svolítið augun á því sem stangast á við barnalærdóminn, eða fékk í það minnsta ekki inni í honum. Má þar nefna ástar-haturþríhyrninginn milli Krists, gyðinglegrar hefðar og Lögmálsins. Sem og hve margar minna þekktu dæmisögurnar eru torræðar og/eða grimmúðlegar.
Já, ég tók líka eftir þessu þegar ég las fyrst Nýja testamentið. Ég leyfi mér að kalla það hvernig Jesús er matreiddur af kirkjunni og í skólum "lygaáróður" út af þessu. :)
Hlakka til að sjá hvað þú hefur um Postulasöguna að segja, sem er að mínu mati skemmtilegasta ritið í Nýja testamentinu.
Skrifa ummæli