5.15.2015

Kórintubréfin

Af höfði konunnar og upprunavottuðu keti

Textinn
Samanburður
Fræði

Eftir lestur bréfanna til Rómverja og Kórintumanna finnst mér ég farinn að fá ágæta tilfinningu fyrir bréfritaranum Páli.

Hún er reyndar ansi mótsagnakennd, eins og hann sjálfur. Og langtífrá viðfelldinn heilt yfir.

Um mælskuna þarf ekki að rífast. Hér skrifar vel menntaður maður sem kann öll trixin í hinni þykku bók sem gríska málsvæðið, með sína retórísku ástríðu, hefur safnað í. Það er frekar að nautn höfundar af mælskubrögðum beri innihaldið ofurliði, þegar hann sprautar andstæðu- og hliðstæðupörum yfir blaðsíðurnar eins og pylsusali tómatsósu eða graffari á vegg.

Og óneitanlega virkar það að skrifa um stóru málin – eilíft líf, óendanlega gæsku, tamarkalaust vald, hin yfirvofandi endalok heimsins – eins og hrossasterar á svona mann, líkt og á spámenn og höfunda spekirita forðum.

Allt verður dálítið absólútt.

Sem er óheppilegt þegar menn eru ekki alveg búnir að negla skilaboðin, og Páll er klárlega ekki búinn að því. Sundum svolítið eins og hann sé að hugsa „upphátt“ við bréfritunina. Þannig staldraði ég við ólíkar hugmyndir, eða þróun hugmyndar, um hvort verk, lögmálshlýðni eða trú réttlætti mennina í Rómverjabréfinu, sem allt er staðhæft.

Þessa sér enn stað í Kórintubréfunum, en þar er þó miklu minna pláss fyrir svona, enda minni kenningasmíði. Hér er Páll meira að siða menn til, slökkva tiltekna elda sem hann hefur frétt af og sníkja peninga fyrir söfnuðinn í Jerúsalem. Já og segja frá sjálfum sér. Bréfritari er snöggtum fyrirferðarmeri persóna í þessum bréfum en þeim fyrri, og tóntegundin sú sem stundum er kölluð “humblebrag”, og þykir ekki sérlega fín.

Eitt af því sem Páll hefur frétt að þurfi að hnykkja á eru hjúskaparmálin. Athygli vekur áherslan sem hann leggur á jafnræði karls og konu, gagnkvæmar skyldur og að því er virðist jafnræði. Það á reyndar eftir að kveða við annan tón.

Almennt er þessi hjónabandsráðgjöf Páls frekar líbó. Er jafnvel á því að kynlif heitbundinna sé í góðu lagi, svo fremi viðkomandi giftist síðar (7. 36) Á hinn bóginn þykir honum almennt æskilegt að kynlífi sé stillt í verulegt hóf, enda heimurinn að farast á næstu dögum og um nóg annað að hugsa en stundarfró og svo bleyjuskipti í framhaldinu. Hlutverk hjónabandsins er aðallega að stemma stigu við saurlífi og gæta sín á freistingum. Best auðvitað að gera það aldrei. Páll tekur skýrt fram að þetta sé ábending frá honum sjálfum en ekki valdboð að ofan, og bætir svo við:

En þess óska ég að allir menn væru eins og ég er sjálfur en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina. (7. 7)

Blessaður karlinn. Þetta kemur víst fyrir alla einhverntíman.

Annars er hinn frjálslyndi Páll frekar viðkunnanlegu gaur. Hann birtist t.d í 8. kafla fyrra Kórintubréfs  þar sem talað er um það mikla tabú um kjöt af fórnardýrum. Þar birtist allt í senn, hin gyðinglega obsessjón um hreint og óhreint og snilldarleg orðfimin og svo ekki síst óþol Páls gegn því að kveða skýrt að orði. Svo virðist sem öllum sé þannig séð frjálst að éta þetta ket, enda goðin sem þeim eru fórnuð ekki til (eða hvað?) en vissulega er betra ef það er ekki gert og þeir sem vita betur eiga að vera hinum fákænu og ketsvöngu fyrirmynd.

Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp. Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.  Allt það sem selt er á kjöttorginu getið þið etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar. Því að jörðin er Drottins og allt sem á henni er. (10. 22–26)

„Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt“ finnst mér svolítið skemmtileg speki, þó tæpast sé hún sérlega fókuserað leiðarljós í amstri dagsins. En þó Páll sé vissulega svolítið að skipta sér af hversdagsbjástri fólks þá er fókusinn alltaf á tvennt: Að boða rétta trú og búa alla undir hin yfirvofandi endalok.

Eitt af fallegri leiðarstefjum bréfanna er sú áhersla sem Páll leggur á að allir eigi að lifa og biðja og trúa eins og hæfileikar þeirra, þjóðfélagsstaða og geta stendur til. Allir hafa eitthvað til síns ágætis og það mikilvæga er að beina því ágæti í réttar áttir, frekar en að rembast við að vera annað en maður er:

Mismunur er á náðargáfum en andinn er hinn sami, mismunur er á þjónustusörfum en Drottinn hinn sami.  Mismunur er á framkvæmdum en Guð hinn sami sem öllu kemur til leiðar í öllum. Þannig birtist andinn sérhverjum manni til þess að hann geri öðru gagn. Einum gefur  andinn gáfu að mæla af speki, öðrum gefur sami andi kraft til að mæla af þekkingu. Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að sannreyna anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. Öllu þessu kemur einn og sami andinn til leiðar og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.  (12. 4–11)

Kærleikskaflinn frægi og fallegi kemur í beinu framhaldi af þessu. Kærleikur – agape – ást er samnefnarinn og leiðarljósi í hinu fjölbreytta brölti í mannhafinu.

Skuggahliðin á hugsuninni um að hver geri það sem hann gerir best er síðan áhersla á að hrófla ekki við þjóðfélaginu, berjast ekki fyrir réttlæti eða breytingum í þessu lífi, lúta yfirvöldum og halda sig við sinn leista. Þannig talar t.d. sá Páll sem í Rómverjabréfinu segir ÖLL yfirvöld innblásin og vottuð af Guði.

Og þó gagnkvæm harmónía og eindrægni sé leiðarstefið í hjúskaparkaflanum hér að ofan, og kærleikurinn hið allra helgasta samkvæmd stóra hittara Fyrra Kórintubréfs þá líður ekki á löngu þar til Páll skrifar þetta:

En ég vil, að þér vitið að Kristur er höfuð sérhvers karlmanns, að karlmaðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.  [...] Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt því að hann er ímynd Guðs og endurspeglar dýrð hans en konan er vegsemd mannsins. Því ekki er karlinn af konunni kominn, heldur konan af karlinum og ekki var heldur karlinn skapaður vegna konunnar heldur konan vegna karlsins. (11. 3–9)

og – svona til að bíta höfðið af skömminni:

Dæmið sjálf: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð? Kennir ekki sjálf náttúran ykkur að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd en ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd? (11. 13–15 – leturbreyting mín)

Æ, kom on Mr. P!

Ein afleiðing þess hvað þetta mikla kennivald er óskýrt og ósammkvæmt sjálfu sér á köflum er skálkaskjólið nokkuð rúmgott sem textinn veitir misvel innrættu fólki til að fara sínu fram. Þannig virðist sem kaþólska kirkjan, sem öldum saman stóð gegn því að Biblían væri aðgengileg á þjóðtungum lýðsins og brenndi og pyntaði þá sem dirfðust til að reyna slíkt, hafi ekki lesið þennan bút:

Sá sem talar tungum biðji því um að geta útskýrt það sem hann segir. Því biðjist ég fyrir með tungum biður andi minn að vísu en skilningur minn er ávaxtalaus. Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda en ég vil einnig lofsyngja með skilningi. Því ef þú lofar Guð með anda hvernig á þá sá venjulegur maður sem er viðstaddur að geta sagt amen við þakkargjörð þinni þar sem hann skilur ekki hvað þú ert að segja? (14. 13–17, leturbeyting mín)

Þetta er nú alveg sæmilega skýr fyrirmæli um að skilningur+innblástur trompar innblásturinn einberann. Kjósi maður að skilja það svo.

En þeim mun gaumgæfilegar hafa kirkunnar menn rýnt í og (of)túlkað boðskapinn nokkrum línum neðar, þar sem Páll segir konum að þegja í söfnuðinum, en af þeirri setningu ku sú ályktun dregin – enn í dag – að konur geti ekki verið prestar. (14. 34–35)

Annað bréfið bætir síðan litlu markverðu við, bæði styttra og rýrara í roði en það fyrra. Þó má hafa mjög gaman af hve fimlega Páll dansar kringum þann heita graut að minna Kórintumenn á að inna af hendi áður lofaðan fjárstuðning, en það efni kemur reyndar líka við sögu í fyrra bréfinu.

Og svo er hann auðvitað fjári mælskur, helvítið á honum:

Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs: með miklu þolgæði í þrengingum, nauðum og andstreymi, þegar ég hef mátt þola barsmíðar, verið í fangelsi, orðið fyrir aðsúg, í erfiði mínu, andvökum og sulti, með grandvarleik ekkingu, þolinmæði og mildi, með heilögum anda, með falslausum kærleika, með orði sannleikans, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, í heiðri og vanheiðri, lasti og lofi. Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þo ekki deyddur, hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt. (2. bréf 6. 3–10)

Jájá, þú ert frábær Palli. Réttu mér sauðalærið atarna, það var á tilboði á musteriströppunum áðan.

Engin ummæli: