8.27.2013
Hósea – Jóel – Amos – Óbadía
Hórkonur, engisprettur, sósíalismi og bræðravíg
Textinn (Hósea)
Samanburður (Hósea)
Kynning (minni spámennirnir)
Gamla testamentinu lýkur á tólf bókum hinna minni spámanna. Þetta eru flest örstuttar bækur og hyggst ég gera þeim skil í þremur áföngum, fjórum og fjórum í senn. Hér koma fyrstu smáspámennirnir fjórir.
Hósea
Norðurríkið (Ísrael) var alla tíð meira fyrir framhjátökur en Suðurríkið (Júda). Hósea var norðlendingur og hefur því yfir ýmsu að kvarta við landa sína fyrir hönd Drottins. Góðu heilli vofir ógn yfir sem hægt er að nota. Breytir ekki öllu hvað hún heitir, Norðangrýlan Assiría eða Suðrgrýlan Babýlon.
Allt hefur það nú svo sem komið fram áður, og sett fram af meiri andagift en hjá honum. Þó vekur athygli byrjun bókarinnar, en þar setur Guð honum verkefni, líkt og Esekíel forðum. Líkt, en ólíkt samt:
Farðu og gakktu að eiga hórkonu
og eignastu hórbörn.
Því að landið drýgir hór
og hverfur frá Drottni. (1. 2)
Það er eins og Guð treysti ekki alveg mælsku Hósea, og vilji að hann kynnist framhjátökum á eigin skinni, ef svo má segja, til að spámanninum gangi betur að skilja hvernig Drottni líður þegar hann horfir upp á sitt fólk dýrka Baal og félaga.
Það vekur líka athygli að Hósea ávarpar sjaldnast „Ísrael“ eða „Samaríu“, en beinir orðum sínum að „Efraím“, sem var einn af ættbálkunum tólf, og sá suðlægasti í Norðurríkinu. Kannski hefur hann verið frá þeim slóðum og heimamenn verið svolítið eins og Mývetningar, sem eru Mývetningar fyrst og þingeyingar svo.
Annars er ekki margt sem fangar hugann í þessari hefðbundnu ógnarræðu.
Jóel
Með næsta spámanni erum við aftur komin suður og til sjálfrar höfuðborgarinnar Jerúsalem. Og hér er ekki spáð fyrir um hvað muni gerast ef menn bæta ekki ráð sitt, heldur lagt út af hörmungum sem þegar hafa dunið yfir eða eru yfirstandandi. Náttúruhaförum, engisprettuplágu. Henni er lýst með miklum glæsibrag:
Fyrir þeim fer eyðandi eldur
og slóð þeirra er logandi bál.
Fyrir þeim er landið sem Edensgarður
í slóð þeirra öræfi og auðn
sem enginn fær flúið.
Áþekkir hestum eru þeir,
fráir sem gæðingar,
það glymur sem í stríðsvögnum
er þeir þjóta um fjallatindana
snarkar sem í loga af hálmi,
kliðar sem máttugur her
búist til bardaga.
Fyrir þeim skjálfa þjóðirnar,
allar ásjónur skipta litum.
Þeir þjóta fram sem stríðsgarpar,
klífa borgarmúra sem hermenn.
Hver heldur eigin stefnu,
enginn villist í annars braut. (2. 3-7)
Að sjálfsögðu er plágan rakin til reiði Guðs eins og spámenn gera fram á þennan dag – var ekki fellibylurinn Katrina rakinn til siðleysis íbúa New Orleans af einhverjum af sjónvarpstrúarskröggum Bandaríkjanna?
Lausin er að klæðast hærusekk, iðrast syndanna og biðja um miskunn. Ekkert er minnst á að bæta ráð sitt, kannski segir það sig sjálft, þó sagan sýni reyndar annað.
Sæluríkinu sem hlýst af þessari iðrun er síðan lýst og svo eins og svo oft er að lokum farið yfir hvernig nágrönnum Gyðinga verður refsað. Að þessu sinni verður það verk ekki á hendi Drottins eða náttúrunnar, heldur er Gyðingum sjálfum gert að tukta óvini sína til. Þar vekur athygli þessi hagkvæma endurvinnsla:
Smíðið sverð úr plógjárnum yðar
og spjót úr sniðlum yðar. (4. 10)
Svona í ljósi þess að hjá Jesaja er þetta:
Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. (Jes. 2. 4)
Ég hef nú eiginlega meiri áhyggjur af málmþreytunni en ósamkvæmninni.
Skáldleg tilþrif eru áberandi í þessari stuttu og snaggaralegu bók, sem gerir hana eftirminnilegasta af þessum fjórum. Hér er meðferðinni á óvinum Ísraels lýst:
Bregðið sigðinni,
vínberin eru fullþroskuð.
Komið og troðið,
svo full er vínþróin
að lagarkerin flóa yfir.
Svo mikil er illska þeirra.
Mannþröng, mannsægur,
í Dal dómsins.
Nálægur er dagur Drottins
í Dal dómsins. (4. 13-14)
Vel mælt. Skál í boðinu.
Amos
Lítið eftirminnilegt við hana þessa - hér er bæði þjóð Guðs og nágrönnum hennar lesin pistillinn eins og oftast. Það sem helst greinir Amos frá öðrum spámönnum er hvað stór hluti bókarinnar fer í að benda á misgjörðir gegn fátækum og syndir hinna ríku og voldugu. Stef sem bregður fyrir hjá nánast öllum spámönnunum og í skyldum ritum, t.d. Jobsbók. En hér er þetta bæði plássfrekt og afdráttarlaust, þar sem í öðrum bókum stundum er látið að því liggja að velþóknun Guðs birtist einmitt í efnahagslegri velgengni.
Óbadía
Stysta bók biblíunnar er vitaskuld með skýran fókus – ekkert svigrúm til að hlaupa út undan sér. Fókusinn er á Edómítum, einni af nágrannaþjóðum Gyðinga. Þeir eru varaðir við að vera með derring og spáð útrýmingu og að Ísrael eignist lönd þeirra. Nú eru Edómítar afkomendur Esaús, tvíburabróður Jakobs, ættföður Gyðinga. Þeir sem muna sögu þeirra bræðra verða vafalaust dálítið hissa á þessum orðum Drottins via Óbadía:
Sakir ofbeldisverka þinna
gegn Jakob, bróður þínum
mun smánin hvolfast yfir þig
og þú tortímast að eilífu. (10)
„Ofbeldisverkin“ ku vera þau að Edómítar komu Júda ekki til hjálpar þegar Babýlóníumenn réðust á Jerúsalem, heldur voru jafnvel til í að láta greipar sópa um hina föllnu borg. Fyrir utan að horfa framhjá samskiptum ætfeðranna, sem Jakob kemur nú ekki sérlega vel út úr, þá virðist hér gleymt að Sál og Davíð lögðu Edóm undir sig með hernaði. Erfitt er að fallast á það með Guið og Óbadía að Edómítar standi í einhverri sérstakri þakkar- og blóðskuld við drottnara sína.
En svona er þetta víst. Guð sagði það.
8.21.2013
Daníelsbók – Bæn Asarja – Lofsöngur unglinganna – Súsanna – Bel og drekinn
Ljónið, kóngurinn og eldofninn
Textinn
Samanburður
Kynning
Daníelsbók er ein þeirra sem er fræg út fyrir raðir þeirra sem hafa helgi á Biblíunni. Held samt að hún sé ekki mikið lesin, enda verðskuldar hún það varla, jafn tætingsleg og skrítin sem hún er.
En samt: ungum manni, „fylltum hetjumóð“ er kastað í ljónagryfju en er óétinn daginn eftir. Þessa sögu þekkja allir – hún er eitt af því sem gerir Biblíuna að menningarverðmætum langt út fyrir raðir hinna trúuðu. Svo er reyndar fleira sem á uppruna sinn í Daníelsbók og er á allra vörum.
Hvernig sagan um Daníel og ljónin er nákvæmlega er síðan áhugavert út af fyrir sig. Og líka hvað felst í hinum umsungna hetjumóð hans. En nú erum við komin fram úr okkur.
Bókin skiptist snyrtilega í tvo hluta. Í þeim fyrri er sagt frá fjórum ungum Gyðingum sem eru meðal þeirra sem Nebúkadnesar lætur flytja til Babýlon í fyrstu bylgjunni eftir að hann leggur undir sig Júda. Hugmynd konungs er að gera úr þessum hópi hirð- og menntamenn sem læri mál og siði heimamanna.
Fjórmenningarnir byrja strax að vera með vesen í konungsgarði og neita að borða það kjötmeti sem fyrir þá er sett, enda ekki „kosher“. Eftir tíu daga mótmælasvelti eru hinir fjórir fræknu í betra ásigkomulagi en landar þeirra sem hafa graðgað í sig hirðkrásirnar og eru upp frá því á grænmetisfæði.
Fljótlega þrengist fókus bókarinnar utan um einn úr hópnum, titilpersónuna Daníel. Konung dreymir draum og fær þá hugmynd að biðja vitringa sína ekki bara um ráðningu, heldur eiga þeir líka að segja honum hvað hann dreymdi! Og að sjálfsögðu að viðlagri dauðarefsingu.
Það fer aðeins eftir hvernig á það er litið hvort þetta sé gamla Turandot-minnið, illur konungur með óleysanlega þraut og „cruel and unusual“ refsingu, eða alveg sérlega áhrifarík leið til að fá úr því skorið hvort vitringarnir og spámennirnir viti í raun lengra nefi sínu. Að sjálfsögðu ræður enginn við verkefnið nema Daníel – enda birtir Guð honum svarið „í nætursýn“ (2. 19). Og hlýtur hann mikinn heiður fyrir, og ferningin öll vegtyllur miklar.
Þess má geta í framhjáhlaupi að í draumi Nebúkadnesars er að finna uppruna orðatiltækisins „feet of clay“, sem á sér íslensku hliðstæðuna „standa á brauðfótum“. Biblíuþýðendurnir hafa hins vegar stillt sig um að elta þessa skemmtilegu staðreynd og láta líkneskið í draumnum fá brauð í stað leirs til að standa á. Því miður, liggur mér við að segja.
Daníel ræður seinna annan draum fyrir kóng. Sá kafli er lagður í munn Nebúkadnesari sjálfum, enda fjallar hann um þegar hans hátign missir glóruna um skeið og leggst á beit með nautgripum, að því er virðist í refsingarskyni fyrir syndir sínar. Draumurinn segir fyrir um þetta, en ekki tekst konungi að bæta ráð sitt og allt rætist.
Síðasta ráðningarverkefni Daníels er fyrir Belassar, arftaka Nebúkadnesar. Sá heldur svallveislu mikla og notar ílát úr musterinu í Jerúsalem undir drykkjarföngin. Guð hefur engan húmor fyrir svona og í miðju partíi birtist hendi sem skrifar ógnvekjandi skilaboð á hallarvegginn. Enginn getur ráðið í orðin: „Mene, tekel, peres“ nema Daníel, sem sér þau sem spá um að ríki Kaldea líði undir lok sakir guðlausrar framkomu Belassars. Héðan höfum við orðatiltækið „The writing on the wall“, sem á sér að ég held enga hliðstæðu hér hjá okkur.
Þó enginn standi Daníel á sporði í ráðningum (fyrr en á vorum dögum þegar Robert Langdon leysir jafnvel snúnustu þrautir frá Da Vinci og öðrum snillingum á nótæm) þá gengur nú ekki allt þýðasta gang í samskiptum þeirra félaga við yfirvaldið. Til þess eru þeir of réttrúaðir, hirðmennirnir of öfundsjúkir og konungarnir of glórulausir. Af slíku veseni eru tvær sögur í bókinni.
Í þeirri fyrri neita þremenningarnir, félagar Daníels, að tilbiðja líkneski sem Nebúkadnesar hefur látið gera og er þeim varpað í eldsofn. Allt kemur fyrir ekki, þeir ganga þaðan út aftur og ekki einu sinni sviðalykt af þeim. Konungur fyrirskipar í framhaldinu að Guð Gyðinga njóti virðingar í ríki sínu.
Sú síðari er síðan hin fræga frásögn af ljónagryfjunni. Þá er reyndar búið að skipta um karl í Babýlonbrúnni, Persar búnir að leggja undir sig veldið. Daríus hefur mætur á Daníel eins og forveri hans, en hirðmenn narra konung til að krefjast tilbeiðslu af þegnum sínum. Þegar Daníel neitar er honum kastað fyrir ljónin eins og hirðmennirnir voru búnir að fá kóng til að lögleiða.
Daríusi er þetta þvert um geð, en vilji hans er ekki æðri lögum í hinu siðmenntaða Persaveldi og gryfjan gleypir Daníel. Daginn eftir gægist hinn vansvefta konungur í gryfjuna (hann hafði vakað og beðið Guð að bjarga Daníel) og þar er Daníel við góða heilsu:
„Guð sendi engil sinn og hann lokaði gini ljónanna svo þau unnu mér ekkert mein. Gagnvart honum hef ég reynst saklaus og í engu hef ég brotið gegn þér, konungur“ (6. 23)
Það er náttúrulega ekki alveg rétt – Daníel braut jú lögin. En hinn káti Daríus er ekkert að hefta sig við það lengur. Þvert á móti:
En konungur bauð að mennirnir, sem höfðu rægt Daníel, yrðu sóttir og þeim, börnum þeirra og konum kastað í ljónagryfjuna. Og áður en þau kenndu botns í gryfjunni hremmdu ljónin þau og bruddu öll bein þeirra. (6. 25)
Nice.
Fyrri hluta bókarinnar lýkur svo á tilskipun Daríusar að þegnar hans skuli óttast og virða „Guð Daníels“.
Þetta eru mikil ævintýri og Daníel og félagar hinir vönduðustu menn. Einhvernvegin finnst manni nú samt „hetjumóður“ ekki alveg rétta orðið yfir mann sem er jafn viss í sinni trú og Daníel er. Af hverju ætti hann að óttast nokkuð? Styrkur hans kemur utanfrá, úr æðstu stöðum og hann veit það.
Um síðari hlutann er svo ekki margt skemmtilegt að segja. Þar hefur Daníel sjálfur orðið, eða „ég, Daníel“ eins og hann orðar það gjarnan. Hann lýsir sýnum sem honum hafa birst um framtíðina, bæði nálæga (meðan Ptólemear og Selevkídar berjast um landið helga, sem er ca. ritunartími Daníelsbókar) og hina fjarlægu – heimsslitum og nýrri veröld.
Fyrri hluti sýnanna er líkur draumum, eða vondum sýrutrippum í lélegum bíómyndum – þar berjast allskyns furuverur, ljón með arnarvængi, bjarndýr, vængjaður ferhöfðaður hlébarði með fuglsvængi og óskilgreint dýr sem fær þessa glæsilegu lýsingu:
… hræðilegt, ógnvekjandi og afar máttugt. Það hafði járntennur og hámaði í sig og bruddi og traðkaði undir fótum það sem það leifði. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og var með tíu horn.
Þegar ég virti fyrir mér hornin sá ég annað horn og smærra spretta fram meðal þeirra og voru þrjú af fyrri hornunum rifin upp til að rýma fyrir því. Á þessu horni voru augu, lík mannsaaugum, og munnur sem mælti gífuryrði. (7. 7–8)
Flott dýr. Verst að Daníel skyldi ekki punkta hjá sér gífuryrðin.
Síðar birtist honum yfirnáttúrulegur maður sem fer yfir framtíðarhorfurnar með honum, að mestu án torskilinna líkinga. Miklar hörmungar eru framundan og fer nokkrum sögum af því hvenær þeim linnir. Tímaásinn í þessu öllu er nokkuð snúinn - en skýringu á torræðninni má kannski lesa út úr þessum fallegu orðum undir bókarlok:
En leyndu þessum orðum, Daníel, og innsiglaðu bókina þar til dregur að endalokum. Menn munu leita víða og skilningur þeirra mun aukast. (12. 4)
Það er mannkyninu ekki hollt að fá þekkinguna tilreidda á silfurfati. Það að „leita“ hefur gildi í sjálfu sér – jafnvel þó hægt væri að spara sér sporin ef okkur væri sagt frá niðurstöðunni. En það þarf líka að leita „víða“. Ekki bara með nefið ofan í spádómum og torráðum sýnum. Skilningurinn eykst við að hafa gott útsýni.
Það er gott að vita – svörin og skilningurinn fæst af víðsýni, ekki með nefið ofan í bókinni sem þó geymir svörin.
Apókrífu bækurnar geyma síðan nokkra viðaukatexta við Daníelsbók
Í Bæn Asarja og Lofsöng unglinganna erum við stödd í eldofninum með þeim þremenningum Asarja, Hananja og Mísael. Bænin er falleg og einlæg. Asarja játar syndir sínar og þjóðarinnar og biður um miskunn. Sem fæst eins og fram hefur komið. Það kallar á lofsönginn þar sem hin ýmsu fyrirbæri náttúru og yfirnáttúru eru hvött til að syngja Guði lof.
Sagan af Súsönnu er hinsvegar lítil, snotur og alveg óyfirnáttúruleg glæpasaga með Daníel í hlutverki spæjarans. Þegar hin fagra Súsanna neitar að láta að vilja tveggja gamalla saurlífisseggja saka þeir hana um að hafa tekið framhjá bónda sínum með ungum fola. Lýðurinn er að safna saman grjóti til aftökunnar þegar Daníel finnur upp á því snjallræði að yfirheyra hin gröðu gamalmenni hvorn í sínu lagi. Þeir verða tvísaga og allt fer vel.
Bel og drekinn er svolítið villandi yfirskrift, enda eru þetta algerlega aðgreindar smásögur. Í sögunni af Bel kemur Daníel upp um útsmogna hofpresta samnefnds skúrgoðs sem laumast inn í musteri hans á næturnar og éta fórnargjafirnar. Konungur (Persinn Kýrus að þessu sinni) hugðist sanna fyrir Daníel að Bel væri raunverulegur guð, enda hyrfi allur matur sem lagður væri inn til líkneskisins. En með því að strá ösku á gólf hofsins sýnir Daníel fram á hvernig i öllu liggur. Prestarnir eru teknir af lífi og allir glaðir. Flestir.
Viðaukunum líkur síðan á bráðskemmtilegu tilbrigði við ljónasöguna. Hún hefst á einni af flottustu byrjunarsetningu Biblíunnar að mínu mati:
Í borginni var einnig dreki mikill sem Babýloníumenn tilbáðu. (23)
Kýrus reynir að fá Daníel til að gera slíkt hið sama, en Daníel býðst til að drepa drekann án vopna og sanna þannig að hann sé ekki tilbeiðsluverður. Konungur fellst á það. Ekki veit ég hvaðan Daníel hefur þetta húsráð:
Þá tók Daníel tjöru, tólg og hár sem hann sauð hvað með öðru og gerði kökur af. Stakk hann þeim í gin drekans sem át þær og sprakk. „Sjáið nú hvað það er sem þið tilbiðjið“, sagði Daníel. (27)
Brilljant!
Babýlóníumenn eru ekki sammála því og þröngva konungi til að framselja þeim Daníel og kasta honum í ljónagryfjuna.
Eins og við munum var það „engill Guðs“ sem lokaði ginum ljónanna í fyrri útgáfu sögunnar. Hér er eru öllu meiri tilþrif á ferð:
Þá var spámaðurinn Habbakuk á dögum í Júdeu. Hafði hann soðð súpu og lagt brauðmola í … þá sagði engill Drottins við Habbakuk: „Taktu þennan mat sem þú ert með og færðu hann Daníel sem er í ljónagryfjunni í Babýlon.“ En Habbakuk svaraði: Herra! Ég hef aldrei séð Babýlon og veit ekkert um gryfjuna.“ Þá greip engill Drottins í hvirfil hans, hóf hann upp á hárinu og þaut með hann á einu andartaki til Babýlonar og setti hann niður við gryfjuna. (33–36)
Habbakuk kemur matnum til Daníels, sem matast. Hvernig það hjálpar honum í glímu við ljónin er látið liggja milli hluta. Kannski vilja ljón ekki fólk sem er nýbúið að borða súpu. Allavega endar þetta eins og fyrr – konungur finnur Daníel óskaddaðan meðal ljónanna, frelsar hann og fóðrar dýrin á óvinum hans.
Þetta eru skrautlegar og ævintýralegar frásagnir. Daníel er mikið ofurmenni, einhverskonar blanda af Indiana Jones, Nostradamusi, Karli Blómkvist og Sæmundi fróða.
Á sýru.
8.12.2013
Esekíel
Voru guðirnir geimfarar?
Textinn
Samanburður
Kynning
Esekíel fylgir að miklu leyti formi stóru spámannsritanna þriggja. Þar er hamrað á syndum og siðleysi lýðsins, refsingarnar tíundaðar, nágrönnunum spáð öllu illu og framtíðinni björtu þegar hinum syndugu hefur verið refsað.
Bókin sker sig samt um margt á afgerandi hátt frá hinum tveimur, og meira afgerandi en þær hvor frá hinni.
Það er til að mynda mun meira flug á Guði hér en í fyrri ritunum, bæði í stíl og svo bókstaflega. Flugtakið er strax í fyrsta kafla, þegar Guð birtist spámanni sínum í fyrsta sinn:
Þá sá ég hvassviðri koma úr norðri, mikið ský og eldglæringar. Um það lék ljómi og úr honum miðjum leiftraði sem af hvítagulli. Úr ljómanum miðjum birtist eitthvað sem líktist fjórum lifandi verum … verurnar voru á að líta sem blossandi kolaglóð og minntu á kyndla og gengu leiftur á milli veranna … þegar ég horfði á verurnar sá ég eitt hjól á jörðinni við hliðina á hverri af verunum fjórum. … þau voru þannig gerð að eitt virtist vera innan í öðru. Hjólin gátu snúist í allar fjórar áttir án þess að breyta um stefnu þegar þau snerust. Á þeim voru hjólgjarðir og sá ég að allar fjórar voru alsettar augum allt um kring. … Yfir höfðum veranna var eitthvað sem líktist hellu og ljómaði eins og ógnvekjandi kristall ... (1. 4-18)
Annað hvort hafði Erich Von Däniken rétt fyrir sér og Guðirnir voru geimfarar, eða Spielberg og kó í Sæfæbransanum hafa verið duglegir að lesa Biblíuna sína.
Guð ávarpar Esekíel úr hásæti sínu í farkostinum flotta, með orði sem aðeins einu sinni áður hefur sést í Biblíunni, í Jobsbók og þar sem háðsyrði, lítilsvirðingarorð:
Mannssonur.
Þannig ávarpar Guð Esekíel bókina á enda. Hann virðist svo sem ekkert meina það honum til minnkunnar, en fyrst í stað eru samskipti þeirra nú engu að síður með sterku yfirbragði niðurlægingar:
„Mannssonur, et að sem að þér er rétt. Et þessa bók og farðu síðan og ávarpaðu Ísraelsmenn.“ Þá opnaði ég munninn og hann fékk mér bókina að eta og sagði við mig: „Mannssonur, et bók þessa og láttu hana fylla magann.“ Þá át ég hana og hún var sæt sem hunang í munni mér. (3. 1-3)
Næst:
Farðu heim og lokaðu þig inni í húsi þínu. Þú, mannssonur, verður lagður í bönd og bundinn svo þú komist ekki út til þeirra. (3. 24-25)
Þetta hefur auðvitað allt yfir sér smá S/M áru, en svo bætist annað element við:
Mannssonur, taktu tígulstein, teiknaðu á hann borg, Jerúsalemborg. Gerðu umsátur um hana, reistu víggirðingar gegn henni og gerðu virki til árása á hana. Settu herbúðir gegnt henni og komdu múrbrjótnum fyrir. Taktu síðan járnpönnu og komdu henni fyrir eins og járnvegg milli þín og borgarinnar og snúðu andlitinu að henni. Þá eru hún umsetin og þú skalt sitja um hana. (4.1-3)
Og skömmu síðar:
Mannssonur, taktu þér hárbeitt sverð, … og rakaðu af þér bæði hár og skegg. Takt síðan vog og vigtaðu hárið. Þriðjung skaltu brenna á báli inni í borginni þegar umsáturstímanum er lokið. Annan þriðjung skaltu taka og höggva allt í kringum hann með sverðinu og þriðjungi skaltu dreifa fyrir vindinum og ég mun elta hann með brugðnu sverði. En þú skalt taka fáein hár og vefja þau inn í skikkjulaf þitt, en loks skaltu taka nokkur þeirra, fleygja þeim á eld og brenna þau upp. Þannig mun eldurinn breiðast út um allan Ísrael. (5. 1–4)
Smá galdrabragð af þessu, er það ekki? Meira samt The Witches of Eastwick en Harry Potter.
Þriðja elementið er síðan næstum sjamaískt:
Leggstu á vinstri hliðina og taktu á þig sekt Ísraels … Ég legg á þig að bera sekt Ísraelsmanna jafnmarga daga og árin sem þeir hafa syndgað gegn mér, eða þrjú hundruð og níutíu.
Að þeim dögum liðnum skaltu síðan leggjast á hægri hliðina. Þá skaltu bera sekt Júdamanna í fjörutíu daga … Þú skalt snúa andlitinu að hinni umsetnu Jerúsalem … Ég legg á þig bönd svo þú getir ekki snúið þér af annarri hliðinni á hina fyrr en umsáturstímanum er lokið. (4. 4–8)
Síðan fylgir uppskrift af ströngum matarkúr sem Esekíel skal nærast á þetta rúma ár sem hann skal liggja fjötraður. Og:
Þú skalt baka brauðið við mannasaur fyrir allra augum og neyta þess sem væri það byggbrauð. (4. 12)
Esekíel kvartar og segist aldrei hafa verið óhreinn eða neytt forboðins/óhreins matar. Mannaskítnum er því skipt út fyrir húsdýratað. Segið svo að Guð sé ekki miskunnsamur.
Að þessari manndómsvígslu Esekíels afstaðinni byrjar hann að meðtaka orðið, milli þess og meðfram að hann hann er fluttur í farkostinum flotta hingað og þangað í tíma og rúmi, og sennilega stundum út úr báðum.
Orð Guðs við Esekíel er ef eitthvað er kjarnmeira en þegar hann talaði við forvera hans. Hafi Jeremía fengið að heyra talað um hórerí þá fékk hann nú ekki svona harðkjarnalýsingar:
En hún (Síon/Jerúsalem/útvalda þjóðin) jók ólifnað sinn og minntist æskuára sinna þegar hún stundaði ólifnað í Egyptalandi. Og hún tók að girnast ástmenn sína sem voru jafn hreðjamiklir og asnar og stóð sæðisgusan úr þeim sem úr stóðhestum. Þú saknaðir ólifnaðar æsku þinnar þegar menn þukluðu brjóst þín í Egyptalandi og gældu við meyjarbarm þinn. (23. 19–21)
Fyrir utan kynlífslýsingar er Guð Esekíels dálítið upptekinn af því að koma því á hreint að sá uppsker sem sáir. Syndir fólks bitna á þeim persónulega en ekki hans nánustu:
Sá maður sem syndgar skal deyja. Hvorki skal sonur taka á sig sekt föður síns né faðir taka á sig sekt sonar síns. Rétlæti réttláts manns skal tilreiknað honum sjálfum og ranglæti guðlauss mans skal koma niður á honum sjálfum. En snúi guðlaus maður frá öllum sínum syndum, haldi hann öll mín lög …. skal hann sannarlega lifa … en snúi réttlátur maður frá réttlæti sínu og fremji ranglæti … skal hann deyja. (18. 20–24]
Eitthvað gæti manni fundist þessi afstaða stangast á við það sem á undan er gengið, bæði hvernig þjóðin geldur fyrir uppátæki konunga sinna, og hvernig þeir hafa stundum verið náðaðir, og refsingu frestað um einn ættlegg (en ekki aflýst) hafi þeir sýnt einhvern bótavilja.
Og svo má nú velta fyrir sér hvort önnur eins heildsöluhefnd og Guð hefur hugsað sér núna muni láta nokkurn ósnortinn.
Hann á samt sín góðu móment. Þó að falsspámenn séu ekki í forgrunni hér eins og hjá Jeremía þá er hér samt að finna þessa skilmerkilegu greiningu á “spámannsvandanum”:
Landar þínir ræðast við um þig, upp við veggi og í húsdyrum, og segja hver við annan, hver maður við bróður sinn: Komið og heyrið orðið sem komið er frá Drottni. … Þeir hlusta á orð þín en fara ekki eftir þeim. En þegar það kemur fram sem þú hefur sagt, og það mun koma fram, skilja þeir að spámaður hefur verið á meðal þeirra. (33. 30–33)
eða með orðum Þórarins Eldjárns:
Uns örugg við okkur blasir
eftiráviskan spök.
Þá verður núið um nasir
og nöguð handarbök.
Reyndar er skoðunarvert við hverja Esekíel er látinn tala – nefnilega útlagasöfnuðinn í Babýlon, og um hvað – nefnilega yfirvofandi eyðingu Jerúsalem vegna syndar þeirra sem þar búa enn, frekar en það sem útlagarnir sjálfir gætu látið sér detta í hug að gera af sér.
Guð reynir óneitanlega dálítið á þol manns gagnvart ósanngirni í þessari bók. En hann kemur því vissulega mjög reglulega að hvað hann sé reiður.
Upptalningin á nágrönnum sem þarf að refsa fyrir að hafa framkvæmt vilja Guðs og níðst á hinum syndugu gyðingum er af hefðbundnu tagi. Þó vekur áherslan á Týrus athygli. Sú föníkíska hafnarborg hafði ekki fengið mikla athygli í nágrannabölbænum fyrri bóka, en hér fær hún heila þrjá kafla. Þar á meðal er talað um hana eins hún og konungur hennar hafi notið sérstakrar velvildar Guðs:
Þú varst fullkomleikinn sjálfur
fullur visku og fullkominn að fegurð.
Þú varst í Eden, garði Guðs,
þakin alls kyns dýrum steinum
…
‘Eg gerði þig verndarkerúb,
þú varst á heilögu fjalli guðanna,
…
Breytni þín var flekklaus
frá skömunardegi þinum
… (28. 12-15)
Til Fönikíumanna er sumt af gróteskari hjáguðadýrkuninni rakið. Í Jeremíabók er t.d. talað um að börnum hafi verið fórnað í eldi og sá siður rakinn til áhrifa Föníka í neðanmálsgrein.
Skrítið.
Einn magnaðasti kafli bókarinnar er svo þegar Guð flýgur með Esekíel í beinadalinn og lætur hann boða beinunum orðið sem lætur þau lifna við. Tákn um að Ísrael muni rísa úr sinni eymd og lifa að nýju.
Ísrael í gömlu merkingunni meira að segja, ættbálkarnir tólf. Ekki bara hið skárra Suðurríki.
Bókinni lýkur á vitrunum um það þrennt sem þarf til að allt geti orðið gott aftur.
Ritúal
Það væri örugglega forvitnilegt að bera helgisiðalýsinguna og réttindaskrá Levíta/presta í Esekíel saman við þá í þriðju Mósebók, en það væri líka pínu skrítin, jafnvel röng, notkun á orðinu “forvitnileg”. Í fljótu bragði er hún að minnsta kosti sömu ættar. Myndi giska á nýi siðurinn sé straumlínulöguð útgáfa þess eldri. Athygli vekur að hér er fórnum aftur gert hátt undir höfði, eftir að hafa hlotið heldur slæmt rykti hjá Jesaja og Jeremía.
Skipting landsins helga
Mig skortir líka þolinmæði til að bera landskiptingarkaflann hér saman við Jósúabók, en aftur virðist hann að forminu til samskonar. Athygli vekur að hér er gert ráð fyrir öllum ættbálkunum, ekki bara Suðurríkisættbálkunum Benjamín og Júda.
Og þó einkum: nýtt musteri
Eirmenni með mælistiku í yfirstærð sýnir Esekíel nákvæmlega (og ég meina nákvæmlega) hvernig musteri á að reisa þegar allt er fallið í hina ljúfu löð. Mér skilst af netgrúski (sem ég ákvað að nota í stað þess að bera sjálfur teikningarnar saman við þær í Samúelsbók) að hið nýja musteri sé ekki eins og það sem hermenn Nebúkadnesar lögðu í rúst og, merkilegt nokk, ekki heldur eins og það musteri sem endurreist var í Esrabók.
Af þessu hafa trúaðir dregið hinar stórkallalegustu ályktanir sem ég treysti mér hvorki til að tíunda né taka undir. En hér er hægt að fara í skoðunarferð um hið óbyggða hof í boði Jútjúbs frænda.
Ekkert örlar á neinum Messíasi í spádómum Ezekíels, en talsvert talað um „Landshöfðingja“, sem er nýtt starfsheiti í þessum fræðum. Borgin sem (endur)reisa skal þar sem Jerúsalem stóð á að heita „Drottinn er hér“.
Hún mun óreist enn.
Esekíel er einhver magnaðasti og dularfyllsti texti sem ég hef enn komist í tæri við í Góðu bókinni og þar sem ég er vel ríflega hálfnaður þá geri ég ráð fyrir að hún haldist í toppsætunum. Guð kannski ekki að spila sitt besta mót og bókin sem því nemur áhugaverðari. Stóru spámannsritin eru öll stórmerkileg en í augnablikinu er þetta í uppáhaldi. Lér konungur Gamla testamentisins.
8.08.2013
Harmljóðin
Hörmungar frá A til Ö
Textinn
Samanburður
Kynning
Eins og þeir vita sem lesið hafa umfjöllun um Jesaja og Jeremía (eða bara Jesaja og Jeremía sjálfa) voru miklar hörmungar í vændum fyrir íbúa Jerúsalem.
Í Harmljóðunum er kveðið um einmitt þessar hörmungar og þá sérstaklega fyrir þá fáu sem Babýlóníumenn skildu eftir í borginni eftir að hafa lagt hana í rúst og flutt þorra fólksins austurábóginn.
Þetta er stutt og átakanleg bók sem bætir litlu við um mynd okkar af þessari ógnvænlegu refsingu sem Guð hefur ákveðið að væri óhjákvæmileg vegna vonsku lýðsins.
Reyndar eru hörmungarnar sem útmálaðar eru af mikilli mælsku slíkar að ljóðinu lýkur á að Guði er bent á að ef einhver leið á að vera til baka verði hann að stíga fyrsta skrefið, lýðurinn sé of hrakinn og svangur til að hægt sé að krefjast nokkurs af honum:
Þú, Drottinn, ríkir að eilífu,
hásæti þitt stendur frá kyni til kyns.
Hví hefur þú gleymt oss með öllu,
yfirgefið oss svo lengi?
Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér aftur,
endurnýja daga vora eins og til forna.
Eða hefur þú hafnað oss fyrir fullt og allt,
ert oss reiður úr öllu hófi? (5. 19-22)
Það er von að spurt sé þegar ástandinu er skömmu áður lýst svona:
Eiga konur að eta afkvæmi sín?
Börnin sem þær bera á örmum (2. 20)
En semsagt: að innihaldi eru Harmljóðin nokkuð keimlík því sem áður er komið. Formið er hinsvegar nýstárlegt, þó það skili sér reyndar ekki í þýðingunni.
Harmljóðin eru nefnilega svokallað Acrostic-ljóð. Það mætti kannski kalla Upphafsstafaform á Íslensku (vafalaust er til íslenskt nafn á þessu sem ég bara veit ekki hvað er)
Í Upphafsstafaljóðum mynda upphafsstafir línu eða erindis einhverskonar merkingarheild. Einfaldast er að sýna þetta með dæmi. Hér er lokakaflinn úr Through the Looking-Glass eftir Lewis Carroll:
A boat, beneath a sunny sky
Lingering onward dreamily
In an evening of July -
Children three that nestle near,
Eager eye and willing ear,
Pleased a simple tale to hear -
Long has paled that sunny sky:
Echoes fade and memories die:
Autumn frosts have slain July.
Still she haunts me, phantomwise,
Alice moving under skies
Never seen by waking eyes.
Children yet, the tale to hear,
Eager eye and willing ear,
Lovingly shall nestle near.
In a Wonderland they lie,
Dreaming as the days go by,
Dreaming as the summers die:
Ever drifting down the stream -
Lingering in the golden gleam -
Life, what is it but a dream?
Svo eru til alþekkt akrostísk stíbrögð í popptextum, til dæmis hér, og auðvitað í þessari tímalausu snilld.
Í Harmljóðunum er það einfaldlega hebreska stafrófsröðin sem birtist í upphafsstaf erindanna. Það hefur ekki þótt fyrirhafnarinnar virði að endurspegla það á neinn hátt í þýðingunni, enda erfitt að sjá hvort þessi formbrella hefur einhverja merka merkingu. Hún er þá allavega fallega dulin.
Nú er skilst mér mikil hefð fyrir að lesa þessa texta eins og dulmál, gjarnan einmitt út frá tölugildum bókstafanna í hebreska stafrófinu. Svo heppilega vill hins vegar til að svoleiðis æfingar falla bæði utan við stefnuskrá þessara skrifa og áhugasviðs þess sem ræður yfir lyklaborðinu.
Skemmtilegt samt þetta með Harmljóðin, smá formfesta þykir mér alltaf prýði á máli sem á að heita bundið.
8.05.2013
Jeremía – Barúksbók – Bréf Jeremía*
Spámannsvandinn
textinn
Samanburður
Kynning
Í fyrri hluta spádómsbókar Jeremía er að mestu það sama uppi á teningnum eins og hjá forvera hans. Í gegnum hann kemur Guð þeim skilaboðum til lýðsins að sakir illsku hans og framhjátöku með öðrum guðum muni dauði og drepsóttir hellast yfir. Að þessu sinni er það Babýlon/Kaldea en ekki Assyría og eins og við vitum lagðist Júdaríki af um tíma eftir sigur heimsveldisins og herleiðingu Gyðinga.
Það er fyrst og fremst blæbrigðamunur á stórum hluta Jeremía og Jesaja. Erindi þeirra er það sama og formið svipað, þó óreiðan sé ekki á eins háu stigi hér og hjá Jesaja.
Tónninn er svolítið annar. Sem, ef maður er í því stuðinu, gæti vakið spurninguna: Hvernig stendur á því að rödd Guðs er önnur þegar hann talar við þennan en þegar hann talar við hinn? Nærtæk skýring skynsemishyggjunnar er auðvitað að enginn Guð sé að tala – bækurnar höfundaverk manna á mismunandi tímum með ólíkan stíl, ólík tilefni.
En svo er líka hægt að sjá þetta sem sjaldséðan vitnisburð um empatíu Guðs – vilja hans til að mæta hverjum og einum eins og best hentar viðkomandi.
Hvað er það þá sem greinir að þessar tvær raddir Guðs?
Eitt er nú að Guði er tamara að tala við Jeremía með „konkret“ sýnum, þannig að mögulega hefur Jeremía haft meiri myndgreind en Jesaja:
Orð Drottins kom til mín öðru sinni:
„Hvað sérðu“?
Ég svaraði: „Ég sé rjúkandi pott sem hallast úr norðri“.
Þá sagði Drottinn við mig: „Úr norðri verður böli hellt yfir alla íbúa landsins“. (1. 13-14)
Við getum líka til dæmis staldrað við þá staðreynd að orðið „hór“ og afleiður þess koma átján sinnum fyrir hjá Jeremía en þrisvar í Jesaja.
Nú eru boðorðin nokkuð skýr hvað hórerí varðar. Engu að síður hafa menn, allavega konungar, haldið hjákonur átölulaust – nema náttúrulega þegar þær útlensku hafa tælt þá til fylgilags við guði sína.
Enda rennir mann í grun að hér sé Guð með hugann við framhjátökur við sig – nefnilega hve Júdamönnum er mikið mál að míga utan í aðra guði og líkneskjur. Það er sem fyrr rót óánægju hans með sitt fólk.
Meira að segja fórnirnar eru orðnar ólystugar, enda boðnar hvaða guðlíki sem á vegi manna verður:
Hvað á ég að gera með reykelsi frá Saba, eða góðan ilmreyr frá fjarlægu landi? Brennifórnir yðar eru mér ekki þóknanlegar og sláturfórnir yðar geðjast mér ekki. (6. 20)
Jesaja hafði líka orð á þessu – og hugsunin skotið upp kollinum áður. Eftir hinar grótesku lýsingar á fórnum og smásmyglina um fyrirkomulag þeirra er greinilega komið nóg.
Þið getið átt ykkar ógeðslega mör sem þið slettið hvort sem er líka í Baal, Mólok og Astarte um leið og ég lít af ykkur! Reyniði frekar að haga ykkur almennilega einu sinni!
Hér er svo gagnorð og skilmerkileg útlistun á hvað er að hegða sér „almennilega“:
Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði ykkur til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda. (7. 5-7)
Mest plássið fær að venju síðasta syndin – brot á fyrsta og öðru boðorðinu: Ekki aðra guði og engin líkneski, takk.
Guð hefur svo vissulega jafnlitla trú á að hebreum sé unnt að taka til hjá sér í nægilegum mæli til að það hann þurfi að efna ofangreint fyrirheit, hvort sem hann talar með Jesaja- eða Jeremíaröddinni:
Getur Núbíumaður breytt hörundslit sínum
eða pardusdýr blettum sínum?
Þá getið þér líka gert gott
sem hafið vanist á að gera illt. (13. 23)
Reyndar fá spár, um að allt fari vel og þeir fáu sem lifa af hörmungar innrásar og herleiðingar Kaldea/Babýlóníumanna setjist að lokum að í landinu helga, minna pláss hér og aðeins ein stutt málsgrein talar um konunginn sem kemur:
Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga mun Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: Drottinn er réttlæti vort. (23. 5–6)
Þessu er ekkert sérstaklega flaggað af kristnum.
Eitt er svo áhugavert efni sem fær mikla athygli hér en enga í Jesaja. Falsspámenn:
Hlustið ekki á orð spámannanna.
Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum drottins.
Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins:
„Þér hljótið heill.“
Og við hvern þann sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir:
„Enginn ógæfa kemur yfir yður.“ (23. 16-17)
Sniðugt svolítið hjá falsspámönnunum að segja það sem fólkið vill heyra. Ekki bara sniðugt – klassískt.
Það er vandalaust fyrir Guð að vita hvaða spámenn tala raunverulega fyrir hann og hverjir gera það ekki. Verra er það fyrir pupulinn og ráðamenn og freistingin að trúa frekar jákvæðum fréttum er eins og allir vita nokkuð sterk. Um þetta fjallar bróðurpartur síðar hluta bókarinnar sem er verulega magnaður.
Þar skiptir úr beinni ljóðrænni ræðu, þar sem Jeremía vitnar um hvað Guð hefur að segja, yfir í frásagnarform. Höfundur er sagður Barúk nokkur, ritari og samstarfsmaður Jeremía.
Jeremía lendir fljótlega í því að hans bölsýnu viðvaranir falla ekki allsstaðar í kramið. Hann er húðstrýktur og settur í gapastokk og fer á tímabilum huldu höfði en Barúk sér um að koma erindi hans á framfæri.
Einn daginn biðja háttsettir embættismenn um að fá að hlýða á Barúk lesa úr glósum sínum. Þeir verða skelfingu lostnir þegar þeir heyra boðskapinn, segja honum að fela sig og einn þeirra fer með hana til að lesa fyrir Jójakím konung.
Kolaeldur logaði í eldstæðinu fyrir framan hann. Í hvert skipti sem Jahúdí hafði lesið þrjá eða fjóra dálka skar konungur þá af bókrullunni með pennahníf og fleygði í eldinn í eldstæðinu þar til öll bókin var brunnin. Hvorki varð konungurinn hræddur né þeir af þjónum hans sem heyrðu þessi orð. … Hins vegar skipaði konungur … að sækja Barúk skrifaða og Jeremía spámann. En Drottinn faldi þá. (36. 22–26)
Næsti konungur trúir heldur ekki á þessa hrunspádóma og heldur áfram að syndga. Hans menn hafa uppi á Jeremía og stinga honum inn. Höfðingjar þjóðarinnar vilja reyndar ganga lengra:
Það verður að taka þennan mann af lífi. Hann dregur úr hugrekki þeirra hermanna sem eftir eru í borginni (38. 4)
Ekkert verður þó af því þó það megi ekki tæpara standa.
Síðan rætast spádómar Jeremía. Jerúsalem fellur og bróðurpartur fólksins fluttur nauðugur austur á bóginn.
Sögulok.
Reyndar ekki.
Hópur andspyrnumanna drepa landstjóra Babýlóníukonungs og hyggjast flýja með alla sem það vilja til Egyptalands. Þeir fá Jeremía til að biðja Guð um gott ferðaveður og fá þau svör að fari þeir verði bæði þeir og Egyptaland lagt í rúst.
Ekki það sem þeir vildu heyra:
Það sem þú segir er lygi. Það var ekki Drottinn, Guð vor, sem sendi þig með þessi boð: Nei, það var Barúk Neríason sem æsir þig upp gegn oss til þess að selja oss Kaldeum á vald... (43. 2–3)
Reyndar ganga þeir lengra og hefja tilbeiðslu á skúrgoðum sínum. Þegar Jeremía/Guð gera athugasemdir stendur ekki á svari:
Vér hlustum ekki á þennan boðskap sem þú hefur flutt oss i nafni Drottins. … Vér munum kveikja fórnareld fyrir drottningu himinsins og færa henni dreypifórnir. Það gerðum bæði vér og forfeður vorir, konungar vorir og höfðingjar í borgum Júda og á strætum Jerúsalem. Þá höfðum vér nóg til matar, oss farnaðist vel og vér þurftum ekki að þola neina ógæfu. En síðan vér hættum að kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir hefur oss skort allt og vér höfum farist fyrir sverði og úr hungri. (44. 16–18)
Og fóru þeir síðan til Egyptalands, Jeremía líka eins og Guð leggur fyrir hann. Allt fór sem spáð var.
Eitthvað er nú formið á þessari atburðakeðju kunnuglegt. Einhver varar við aðsteðjandi ógn og útskýrir hvað þurfi til að afstýra henni. Hann er hæddur og útskúfaður, ógnin dynur yfir og þegar þeir sem eftir standa ákveða að endurtaka leikinn og gera nákvæmlega það sama og olli „hruninu“ er aftur varað við. Og svörin: Við höfðum það svo gott þegar við gerðum svona – við viljum fá það aftur. Þegiðu leiðindapúki.
Bókinni lýkur síðan á spádómum um hvernig fer fyrir óvinaþjóðum Gyðinga og stuttum viðauka um herleiðinguna. Spádómarnir eru öllu svipminni en þeir hjá Jesaja, eða kannski bara of keimlíkir þeim til að vekja sérstakar hugsanir að þessu sinni.
Meðal Apókrífu bókanna eru tveir viðaukar við Jeremías:
Stutt og efnisrýr er Barúksbók og lítið um hana að segja. Þar er eftirlifandi íbúum Jerúsalem skipað að biðja fyrir Nebúkadnesari Babýlonskonungi og Baltasar syni hans, játa syndir sínar og biðja um miskunn. Einnig er þar að finna heldur andlausa vegsömun spekinnar sem stenst engan samanburð við fyrri spekirit. Þessir tveir hlutar vinna heldur ekkert sérlega vel saman.
Öðru máli gegnir um Bréf Jeremía, sem er reyndar enn styttra en frábær texti. Í bréfinu brýnir Jeremía fyrir Gyðingum í Babýlon að falla ekki fyrir skúrgoðum heimamanna.
Eitt grunnstef er endurtekið og útfært á ýmsa vegu: Hve fáránlegt er að tilbiðja manngerð líkneski sem eru smíðuð af dauðlegum mönnum og seld undir allt það hrjáir dauðlega, náttúrulega hluti: Það fellur á gyllingarnar, mölur étur klæðin, þau sem prestarnir ekki stela til að borga musterisskækjum næturgreiðann, þjófar ræna þeim og svo eru þau háð umhyggju klausturþjónanna um að losna við ryk og meindýr.
Hvernig geta svona hlálegir hlutir bænheyrt nokkurn mann?
Þessir gull- og silfurbúnu tréguðir Kaldea verja ekkert fremur en fuglahræða í melónugarði. (69)
Það er dásamlega háðskur tónn í bréfinu - sennilega fengi það fúslega birtingu á Vantrúarvefnum. Þar væri reyndar líklega einhver fljótur að benda á að þó líkneskjadýrkunin sé fáránleg styrkja röksemdirnar gegn henni svo sem ekki trúna á ósýnilegan Guð heldur.
Skiljanlega hugsar spámaður í stöðugu persónulegu talsambandi við viðkomandi almætti ekki út í það, þó reynslan ætti að hafa kennt honum hvað þeir sem ekki eru í þeirri stöðu eiga með að taka mark á vondum fréttum úr jafn fjarlægum stað.
* Já - hér fá tvær apókrífar bækur að fljóta með. Ég er búinn að vera í og úr með hvort ég tæki hinar huldu bækur með í þessum lestri. Var eiginlega búinn að ákveða að gera nokkrum þeirra skil (Makkabeabókum, Júditarbók og Síraksbók ef ég man rétt) þegar ég skyndilega ákvað að skipta yfir í nýju þýðinguna. Um leið og ég fékk hana í hendur sá ég að þar var aprókífan öll með. Sennilega er það til merkis um að ég sé á einhverfu- eða þráhyggjurófinu en þá er mér lífsins ómögulegt að hoppa yfir þessar síður úr því þær eru nú einusinni komnar í mínar hendur. Ég mun því lesa þær að loknu hinu óhulda Gamla testamenti, nema eins og núna þegar eitthvað telst viðauki við eitthvað sem ég er að lesa – þá fær það yfirhalningu samhliða.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)