8.27.2013

Hósea – Jóel – Amos – Óbadía


Hórkonur, engisprettur, sósíalismi og bræðravíg

Textinn (Hósea)
Samanburður (Hósea)
Kynning (minni spámennirnir)

Gamla testamentinu lýkur á tólf bókum hinna minni spámanna. Þetta eru flest örstuttar bækur og hyggst ég gera þeim skil í þremur áföngum, fjórum og fjórum í senn. Hér koma fyrstu smáspámennirnir fjórir.

Hósea
Norðurríkið (Ísrael) var alla tíð meira fyrir framhjátökur en Suðurríkið (Júda). Hósea var norðlendingur og hefur því yfir ýmsu að kvarta við landa sína fyrir hönd Drottins. Góðu heilli vofir ógn yfir sem hægt er að nota. Breytir ekki öllu hvað hún heitir, Norðangrýlan Assiría eða Suðrgrýlan Babýlon.

Allt hefur það nú svo sem komið fram áður, og sett fram af meiri andagift en hjá honum. Þó vekur athygli byrjun bókarinnar, en þar setur Guð honum verkefni, líkt og Esekíel forðum. Líkt, en ólíkt samt:



Farðu og gakktu að eiga hórkonu
og eignastu hórbörn.
Því að landið drýgir hór
og hverfur frá Drottni. (1. 2)


Það er eins og Guð treysti ekki alveg mælsku Hósea, og vilji að hann kynnist framhjátökum á eigin skinni, ef svo má segja, til að spámanninum gangi betur að skilja hvernig Drottni líður þegar hann horfir upp á sitt fólk dýrka Baal og félaga.

Það vekur líka athygli að Hósea ávarpar sjaldnast „Ísrael“ eða „Samaríu“, en beinir orðum sínum að „Efraím“, sem var einn af ættbálkunum tólf, og sá suðlægasti í Norðurríkinu. Kannski hefur hann verið frá þeim slóðum og heimamenn verið svolítið eins og Mývetningar, sem eru Mývetningar fyrst og þingeyingar svo.

Annars er ekki margt sem fangar hugann í þessari hefðbundnu ógnarræðu.


Jóel
Með næsta spámanni erum við aftur komin suður og til sjálfrar höfuðborgarinnar Jerúsalem. Og hér er ekki spáð fyrir um hvað muni gerast ef menn bæta ekki ráð sitt, heldur lagt út af hörmungum sem þegar hafa dunið yfir eða eru yfirstandandi. Náttúruhaförum, engisprettuplágu. Henni er lýst með miklum glæsibrag:

Fyrir þeim fer eyðandi eldur
og slóð þeirra er logandi bál.
Fyrir þeim er landið sem Edensgarður
í slóð þeirra öræfi og auðn
sem enginn fær flúið.
Áþekkir hestum eru þeir,
fráir sem gæðingar,
það glymur sem í stríðsvögnum
er þeir þjóta um fjallatindana
snarkar sem í loga af hálmi,
kliðar sem máttugur her
búist til bardaga.
Fyrir þeim skjálfa þjóðirnar,
allar ásjónur skipta litum.
Þeir þjóta fram sem stríðsgarpar,
klífa borgarmúra sem hermenn.
Hver heldur eigin stefnu,
enginn villist í annars braut. (2. 3-7)

Að sjálfsögðu er plágan rakin til reiði Guðs eins og spámenn gera fram á þennan dag – var ekki fellibylurinn Katrina rakinn til siðleysis íbúa New Orleans af einhverjum af sjónvarpstrúarskröggum Bandaríkjanna?



Lausin er að klæðast hærusekk, iðrast syndanna og biðja um miskunn. Ekkert er minnst á að bæta ráð sitt, kannski segir það sig sjálft, þó sagan sýni reyndar annað.


Sæluríkinu sem hlýst af þessari iðrun er síðan lýst og svo eins og svo oft er að lokum farið yfir hvernig nágrönnum Gyðinga verður refsað. Að þessu sinni verður það verk ekki á hendi Drottins eða náttúrunnar, heldur er Gyðingum sjálfum gert að tukta óvini sína til. Þar vekur athygli þessi hagkvæma endurvinnsla:



Smíðið sverð úr plógjárnum yðar 
og spjót úr sniðlum yðar. (4. 10)


Svona í ljósi þess að hjá Jesaja er þetta:



Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. (Jes. 2. 4)

Ég hef nú eiginlega meiri áhyggjur af málmþreytunni en ósamkvæmninni.

Skáldleg tilþrif eru áberandi í þessari stuttu og snaggaralegu bók, sem gerir hana eftirminnilegasta af þessum fjórum. Hér er meðferðinni á óvinum Ísraels lýst:



Bregðið sigðinni,
vínberin eru fullþroskuð.
Komið og troðið,
svo full er vínþróin
að lagarkerin flóa yfir.
Svo mikil er illska þeirra.
Mannþröng, mannsægur,
í Dal dómsins.
Nálægur er dagur Drottins
í Dal dómsins. (4. 13-14)

Vel mælt. Skál í boðinu.


Amos
Lítið eftirminnilegt við hana þessa - hér er bæði þjóð Guðs og nágrönnum hennar lesin pistillinn eins og oftast. Það sem helst greinir Amos frá öðrum spámönnum er hvað stór hluti bókarinnar fer í að benda á misgjörðir gegn fátækum og syndir hinna ríku og voldugu. Stef sem bregður fyrir hjá nánast öllum spámönnunum og í skyldum ritum, t.d. Jobsbók. En hér er þetta bæði plássfrekt og afdráttarlaust, þar sem í öðrum bókum stundum er látið að því liggja að velþóknun Guðs birtist einmitt í efnahagslegri velgengni.

Óbadía
Stysta bók biblíunnar er vitaskuld með skýran fókus – ekkert svigrúm til að hlaupa út undan sér. Fókusinn er á Edómítum, einni af nágrannaþjóðum Gyðinga. Þeir eru varaðir við að vera með derring og spáð útrýmingu og að Ísrael eignist lönd þeirra. Nú eru Edómítar afkomendur Esaús, tvíburabróður Jakobs, ættföður Gyðinga. Þeir sem muna sögu þeirra bræðra verða vafalaust dálítið hissa á þessum orðum Drottins via Óbadía:



Sakir ofbeldisverka þinna
gegn Jakob, bróður þínum 
mun smánin hvolfast yfir þig
og þú tortímast að eilífu. (10)

„Ofbeldisverkin“ ku vera þau að Edómítar komu Júda ekki til hjálpar þegar Babýlóníumenn réðust á Jerúsalem, heldur voru jafnvel til í að láta greipar sópa um hina föllnu borg. Fyrir utan að horfa framhjá samskiptum ætfeðranna, sem Jakob kemur nú ekki sérlega vel út úr, þá virðist hér gleymt að Sál og Davíð lögðu Edóm undir sig með hernaði. Erfitt er að fallast á það með Guið og Óbadía að Edómítar standi í einhverri sérstakri þakkar- og blóðskuld við drottnara sína.


En svona er þetta víst. Guð sagði það.

Engin ummæli: