9.01.2013

Jónas, Míka, Nahúm, Habbakuk


Næsta spámannaferning:

Textinn (Jónas)
Samanburður (Jónas)
Kynning (minni spámennirnir)

Jónas

Öll vitum við það um Jónas að hann var gleyptur af hval (eða „fiski“ eins og það heitir nú reyndar). Annað hefur nú mest farið framhjá okkur í þessari litlu skrítnu sögu sem formálinn kallar „dæmisögu“. Lærdóminn er reyndar erfitt að koma auga á.

Það eru allir hálf-lítilsigdir í sögunni, nema kannski íbúar Níneve, sem bregðast hratt og örugglega við þegar Jónas ber þeim fregnir af óánægju Guðs með þá. Já og hvalurinn, sem bæði gleypir Jónas og gubbar honum „on cue“.

Skipsfélagar Jónasar eru reyndar frekar tregir til að kasta honum fyrir borð þegar hann býðst til þess, í ljósi þess að hlutkesti hefur sýnt fram á að óveðrið sem þeir eru staddir í er af „hans“ guðs völdum. En gera að nú engu að síður á endanum.

Titilpersónan er svo ekki maður mikilla sæva (pun intended). Meira að segja Richard Dawkins myndi líklega ekki detta í hug þau viðbrögð ef Guð skipaði honum að fara til Níneve að lesa borgarbúum pistilinn að reyna að flýja yfir Miðjarðarhafið. Svo er frekar kjánalegt að fara í megafýlu, þegar hann loksins dratthalast á staðinn, yfir að Assýríumenn taka hann á orðinu, iðrast og er þyrmt. Aðrir spámenn hefðu sennilega fegnir vilja láta taka jafn mikið mark á sér.

Guð er svo kapítuli út af fyrir sig. Sök sér að hann setji aðeins ofaní við Jónas fyrir fýlukastið – en er ekki fullmikið af því góða að stæra sig af því að hafa þyrmt borgarbúunum sem hann var algerlega klár í að útrýma ef þeir hefðu ekki brugðist við eins og þeir gerðu.

Og að lokum: kæru þýðendur. Ef þið hefðuð skrifað setninguna: „Ég geri rétt er ég reiðist til dauða“ í íslenskustíl í menntaskóla þá hefðuð þið uppskorið feitan rauðan mínus, eins og ég er viss um að þið vitið. Samanburður við aðrar þýðingar bendir til það sem Jónas er að reyna að segja sé: „Ég er svo reiður að ég gæti dáið.“ Var ekki bara hægt að hafa þetta þannig? Þið vitið, á íslensku og svona?

Míka
Æ, þegar maður er búinn að lesa sig í gegnum svona marga spámenn þá er fátt sem fangar athyglina. Míka líður svolítið fyrir það, enda nánast ekkert ferskt í erindi hans eða hvernig hann kemur því á framfæri.

Það er helst hvað hann gengur langt í að rugla lesandann með sjónarhornsskiptingum. Í einni línu hefur Guð orðið og ávarpar syndaselina, í þeirri næstu er það Míka sjálfur sem talar við lýðinn, þá birtist Guð aftur en er bara að tala við Míka og því næst Míka að ávarpa Guð.

Honum er heldur ekki sérlega umhugað um form og framvindu. Þannig eru spádómar um framtíðarsæluríki friðarins innan um bölbænir gagnvart syndurum og hiklaust hoppað milli þess að beina reiðinni að nágrönnum gyðinga, gyðingum sjálfum eða bara því hlutmengi þeirra sem er ríkur og óréttlátur.

Það er líka nokkuð óljóst hvernig sælan verður útfærð. í 4. kafla heitir það:



Aðrar þjóðir munu lifa
hver í nafni síns Guðs
en vér munum lifa í nafni Drottins, Guðs vors
um aldir alda (4. 5)

En þremur köflum síðar er framtíðin svona:



Þær (þjóðirnar) munu koma skjálfandi úr fylgsnum sínum
til Drottins, Guðs vors.
Þær munu óttast þig og virða.

Frægust er Míkabók fyrir fallega útlistun á hvað til friðar hins trúaða heyrir – hvernig Guð er ekki sólginn í ríkulegar fórnir heldur skikkanlega hegðun síns fólks:



Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta
eða tugþúsundum lækja af ólífuolíu?

Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er
og hvers Drottinn væntir af þér:
Þess eins að þú gerir rétt,
ástundir kærleika
og þjónir Guði í hógværð. (6. 7-8)

Bannað að vera með vesen. Ef þetta væri nú alltaf svona skýrt.

Nahúm
Ef Gamla testamentið væri plötusafn en ekki bóka- þá væri Nahúm Slayerplatan. Virtúósísk og vægðarlaus árás. Að sönnu glæsileg, en sumir sem flettu í plöturekkanum myndu samt spyrja sig: Í alvöru? Á þetta virkilega heima hérna? Þetta er ekki tónlist þetta helvíti!

Víst er þetta tónlist. Það eru sambærilegir kaflar í spámannsritunum öllum, þar sem dauða, eyðileggingu og hörmungum er spáð.

Munurinn er bara sá að hér er búið að fjarlægja allt annað og hækka upp í ellefu. Já og æfa sig í vel ríflega 10 þúsund tíma.

Þetta er semsagt magnaður texti um yfirvofandi fall höfuðandstæðingsins, hinnar voldugu höfuðborgar Assýríska heimsveldisins, Níneve.

Nokkur tóndæmi:



Drottinn er ákaflyndur Guð og heiftrækinn.
Drottinn er heiftrækin og fullur bræði.
Drottinn hefnir sín á andstæðingum sínum
og er langrækinn við féndur sína. (1. 2)

En ákvörðun Drottins um þig er þessi:
Enginn mun erfa nafn þitt,
úr útskornum og steyptum 
skurðgoðum hofa þinna
bý ég þér gröf,
fyrirlitlega svo sem þú ert. (1. 14)

Níneve er eins og lón
sem vatnið fossar úr.
„Stansið! Stansið“
Enginn snýr við. (2.9)

Huglaus hjörtu, titrandi kné,
skjálfandi lendar, litverp andlit.
Hvar er nú bæli ljónanna
hvar hellir ljónshvolpanna
þar sem ljónið gekk óáreitt,
ljónynjan og hvolparnir? (2. 11-12)

Kaupmenn þínir voru fleiri en stjörnur himinsins
en sem grasvargur skiptu þeir hömum og hurfu á braut.
Verðir þínir voru sem engisprettur
og herforingjar þínir eins og skordýrasægur
sem sest á steingarða á svölum degi
en flýgur á burt þegar sólin birtist
og enginn veit hvað af honum verður (3. 16-17)

Þetta er sko ekki um guð miskunarinnar, hér er ekkert pláss fyrir ást og hógværð. Og það gleymist í hávaðanum að þessir sömu Assýríumenn voru einmitt á Guðs vegum þegar þeir bökuðu sér þetta hatur - refsivöndur hans gegn hinum synduga Ísrael. Rokk og ról!

Habbakuk
Hér fer fram hefðbundin Jobsbókarleg samræða manns og guðs, þar sem maðurinn spyr hversvegna réttlátir þjást og guð bænheyri ekki hina réttlátu. Svör Drottins eru svo í sumartunglið. Lokaorðin eru fallega orðuð niðurstaða þess sem trúir þrátt fyrir allt:



Með hugarró mun ég þó bíða neyðardagsins,
dagsins sem kemur yfir þá þjóð sem fer ránshendi gegn oss.
Þótt fíkjutréð beri ekki blóm
og vínviðurinn engan ávöxt;
þótt gróði ólífutrésins bregðist
og akrarnir gefi enga fæðu;
þótt sauðfé hverfi burt úr kvíum
og nautgripir úr fjósum
skal ég samt gleðjast í Drottni
og fagna yfir Guði hjálpræðis míns.
Drottinn minn, Guð minn er styrkur minn.
Fætur mína gerir hann fráa sem fætur hindarinnar
og leyfir mér að fara um hæðir mínar. (3. 16-19)




Engin ummæli: