3.01.2014

Tóbítsbók

Fugladrit og fiskigall


Textinn [á ensku því miður, Apókrífu bækurnar ekki aðgengilegar á íslensku á netinu]

Hin apókrífa Tóbítsbók er hvorki hluti af „kanón“ Gyðinga né lúterskra. Reyndar er form hennar og innihald þannig að ef hún saknar þess að tilheyra stóru ritsafni gæti hún alveg eins gengið í Grimmsævintýrin og Biblíuna.

Hér er frekar hreinræktað ævintýri á ferð.

Hinn rétttrúaði og guðrækni Tóbít er einn af þeim sem Assýríumenn nema á brott úr Norðurríkinu, en hann er fljótt kominn í ágætt djobb í innkaupadeild keisarans. Það er dálítð ströggl að vera Kosher og guðrækinn í þessu nýja landi, þar sem fólk (allavega Gyðingar) eru ekki grafnir eftir dauðann heldur hent út fyrir borgina. 

Tóbít þrjóskast við og lendir í klandri út af því. Þessu stússi óskylt hendir hann nokkuð sjaldgæf ógæfa:

Um nóttina baðaði ég mig, fór út í garð og lagðist til svefns undir garðveggnum. Sakir þess að heitt var í veðri hafði ég ekkert á höfðinu. Ég vissi ekki að spörvar höfðust við í veggnum fyrir ofan mig og volgt drit þeirra féll í augu mér og myndaði hvita himnu. Ég leitaði hjálpar af læknum en því fleiri smyrsli sem þeir báru á augun þeim mun meira spillti himnan sjóninni uns ég varð alblindur (2. 9–10)

Á sama tíma annarsstaðar í Assýríu er óvætturinn Asmódeus að hrella Söru, frænku Tóbíts og drepa fyrir henni eiginmenn í stríðum straumum áður en þeir ná svo mikið sem ganga í eina sæng með henni. Líkt og Tóbít er Sara guðrækin og bænir þeirra beggja rata rétta boðleið og Guð gerir út engil, líkt og biskup gerði út mann á Snæfellsnesið löngu síðar.

Erkiengillinn Rafael er reyndar öllu öflugri erindreki en Umbi, þó í dulargerfi sé. 

Undir hans leiðsögn fer Tóbías Tóbítsson í leiðangur eftir sjóði sem faðir hans hafði komið í geymslu. Á leiðinni gerist þetta:


Drengurinn fór ofan að ánni til að þvo fæturna í fljótinu. Þá stökk risavaxinn fiskur upp úr ánni og ætlaði að bíta fótinn af unga manninum sem veinaði upp yfir sig. En engillinn sagði við unglinginn: „Gríptu fiskinn og haltu honum fast.“ Unglingurinn greip fiskinn og bar hann á land. „Slægðu fiskinn“ hélt engillinn áfram, „og taktu gallið, hjartað og lifrina og hirtu það en hentu öðru innvolsi … Hjarta og lifur má brenna ef karl eða kona verða fyrir ásókn ára eða ills anda. það sem sækir að flýr þá reykinn og lætur þau í friði um alla framtíð. Gallinu má smyrja í augu manns sem hefur fengið hvítar himnur á þau. Síðan má blása á himnurnar og læknast þá augun“ (5. 3–9)


Ég þarf ekkert að teikna upp fyrir ykkur hvernig framhaldið verður – þetta rennur allt eftir langslípuðum brautum ævintýrisins. Sara og Tóbías gifta sig og lifa af brúðkaupsnóttina, Tóbít fær sjónina og allir lifa hamingjusamir til æviloka.

Það er skemmtilegur, afslappaður og mannlegur tónn í þessari snotru sögu. Allar persónurnar eru viðfelldnar. Samtölin eru vel skrifuð og óvenju raunsæisleg, t.d. þessar orðahnippingarTóbíts og konu hans þegar þeim er farið að lengja eftir syninum:


„Vertu hljóð og hafðu engar áhyggjur, systir góð,“ sagði Tóbít sífellt. „Það amar ekkert að honum. Eitthvað óvænt hefur tafið hann. Maðurinn sem fylgir honum er traustur. Hann er einn af bræðrum okkar. Hafðu ekki áhyggjur af drengnum, systir, hann kemur bráðum”. En hún svaraði: „Þegi þú sjálfur og reyndu ekki að blekkja mig. Drengurinn er dáinn.“ (10 6–7)


Það er þetta „þegi þú sjálfur“ sem jarðtengir textann. Tónn sem ekki er á hverju strái í góðu bókinni.

Meira að segja Guð sjálfur er mannlegur, allavega ó-óskeikull, ef marka má þessi orð Rafaels þegar hann afhjúpar sitt rétta eðli fyrir fjölskyldunni:


„Þegar þið Sara báðust fyrir var það ég sem bar bænir ykkar fram fyrir dýrð Drottinns og minnti hann á ykkur(12.12 – leturbreyting mín)


Meira segja Guð gleymir. Enda í mörg horn að líta. Það er kannski boðskapur ævintýrisins: Ekki gefast upp í bænum ykkar. Guð bænheyrir hinn réttláta.

Þegar hann man og má vera að.

1 ummæli:

Torfi Stefánsson sagði...

Góð endursögn!