Það verður að viðurkennast: Glímuskjálftinn þegar ég hefst handa við þennan endasprett er bæði meiri og annars eðlis en þegar bókin var opnuð á fyrstu Mósebók.
Því ef þér hefur tekist að afhelga þessa sögu með öllu þá ertu komin(n) lengra út á vantrúarísinn en ég treysti mér, eða kæri mig um. Er ég þó ekki í Þjóðkirkjunni, hvað þá öðrum söfnuðum, og lít ekki á mig sem kristinn.
En samt.
Nýja testamentið er í mínum huga „heilagt“ á einhvern hátt sem það gamla er ekki. Reyndar voru öflugar hreyfingar í frumkristni á því að varpa helgiritum Gyðinga alfarið fyrir róða og láta fagnaðarerindin og pistla Páls og félaga nægja. Þær töpuðu.
Allavega líður mér þannig að það skipti meira máli að nálgast þessi rit með meiri, tjah, kurteisi/nærfærni, en hinar minna þekktu og á köflum súrrealískt hrottalegu bækur GT. Kallið mig pempíu, hræsnara, rasista jafnvel. Svona líður mér. Finnst sjálfsagt að fara úr skónum áður en gengið er hér inn.
Hitt er annað mál: Ég mun alveg örugglega ekki stilla mig um að skrifa um skrítna staði, sjaldséða kafla, veika bletti, kristilega blygðunarbletti ef svo má segja. Skárra væri það nú. Ég mun líka dást að því sem fallegt er og vel sagt og gert. Og ekki síst reyna að svipast um eftir því sem víðsýnn trúleysingi, eins og ég vil meina að ég sé, getur sótt til bókarinnar góðu.
Og hver veit nema ég komi auga á hin kristnu gildi sem svo mjög er hampað sem einstökum verðmætum, og líka dregið í efa að séu nokkuð annað en sjálfsagðir hlutir, heilbrigð skynsemi og góss úr alþýðuspeki og allskyns trúarhugmyndum héðan og þaðan úr tíma og rúmi.
Já og svo ætla ég að reyna að vera skemmtilegur. Og þokkafullur í þessum sjálfskipaða línudansi.
Ég segi nú bara eins og annar opinhuga maður, Heimir Schnitzel: Má maður vera með glímuskjálfta?!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli