1.14.2015

Markúsarguðspjall

Særingamaðurinn

Textinn
Samanburður
Kynning

Í tónlistarbransanum er stundum talað um „erfiðu aðra plötuna“. Það er snúið að fylgja eftir vel heppnaðri frumraun. Ekki það að Markúsarguðspjall sé eftir sama mann og Mattheusar. Eða hafi verið skrifað á eftir því. Eiginlega bara alls ekki. En kanónan raðar þessu svona. Og Markús er klárlega minnst-ívitnaði guðspjallamaðurinn. Í þessu spjalli er fátt sem er ekki líka annarsstaðar. Fjarvera ýmiss efnis beinir svo athygli að öðrum hlutum.

Hér er nú hafist handa á jafnvel enn brattari hátt en hjá Matthíasi. Ekkert um fæðingu, Maríu eða heilagan anda. Ekkert um flótta til Egyptalands, vitringa eða fjárhirða.


Þess í stað byrjum við á hrópandanum í eyðimörkinni. Og svo:


Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu. Jóhannes skírði hann í Jórdan. (1, 10)


Hann viðar að sér lærisveinum með hefðbundnum hætti. Stillir sig reyndar um að segja brandarann um Símon Pétur, en gefur honum viðurnefnið serimóníulaust síðar.


Byrjar svo að predika – og lækna. Og það eru lækningarnar sem ljá orðum hans vigt – það er jafnvel enn skýrara hér en hjá Matthíasi. Sérgreinin er líka skýrari: að flæma út illa anda.


Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi. Menn urðu mjög snortnir af orðum hans því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.
Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti: „Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs.“
Jesús hastaði þá á hann og mælti: „Þegi þú, og far út af honum.“
Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum. Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: „Hvað er þetta? Hann kennir á nýjan hátt. Það er eins og hann búi yfir guðlegum mætti! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum.“ Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu. (1. 21–28)


Hann býr yfir mætti. Þessi máttur gerir orð hans trúanleg, þó hann „kenni á nýjan hátt“.


Já og svo er þetta svolítið snjöll frásögn í því hvernig hinn illi andi talar gegnum þann andsetna. Smá Exorcist-blær á þessu.


Þessar illraandasögur eru fjölmargar hér. Til dæmis þessi með andabandið Hersingu sem hann flæmir úr hýslinum í nærstadda svínahjörð. (5. 9–13).


Vafalaust hafa þetta verið villisvín - varla hafa menn haldið svo óhrein dýr óáreittir undir vökulu auga faríseanna.


Já og sjálf María Magdalena var heimili nokkurra slíkra.


Almennt séð: Krafturinn sem kraftaverk eru kennd við sanna að það sem hann kennir er sannleikurinn.


Kraftaverkasögur eru auðvitað ekki það sem við utantrúarmenn getum sótt til gagns í þessa bók. Fagurlega orðuð tilmæli um að elska náungann og annað þvíumlíkt er öllu hnýsilegra. Og þau eru hér nokkur. Þar á meðal kærleiksboðorðið. En óneitanlega staldrar maður við þegar Jesús beitir kraftaverkamættinum til ills - eða allavega í hefndarskyni:

Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi Jesús hungurs. Þá sá hann álengd laufgað fíkjutré og fór að gá hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því fann hann ekkert nema blöð enda var ekki fíknatíð. Jesús sagði þá við tréð: “Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!” (11. 12-14)

Mannlegur eftir allt saman, gæti einhver sagt. Like father, like son væri líka hægt að segja Dæmisögur eru hér nokkrar, og margar þeirra voru einnig hjá Mattheusi. Hér er jafnvel skýrara en áður að hann talar í dæmisögum við söfnuðinn en berum orðum við lærisveinana. Í mörgum slíkum dæmisögum flutti Jesús þeim orðið svo sem þeir gátu numið og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirr en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt þegar þeir voru einir. (4. 33–34) Það verður að segjast að myrkar eru sögurnar, og það sem umfram þær er í máli Krists við lærisveinanna snýst nánast eingöngu um hvað muni gerast þegar hann verði svikinn og drepinn. Já og svo eru reyndar nokkrar dæmisögur fyrir þá líka. Erfitt að skilja af hverju er svona brýnt að vera óljós þegar talað er við pupulinn samt. Smám saman koma í fókus hinir fjórir tjáningarhættir Krists:
  • Fyrir alla: Kraftaverk
  • Við almenning: Dæmisögur
  • Við lærisveina: Spásagnir um nánustu framtíð og efstu daga
  • Við fræðimenn og Farísea: Spælingar
Hinar síðastnefndu eru stundum býsna góðar. Þessi er t.d. bæði hjá Mat og Mark: Þeir koma aftur til jerúsalem og þegar hann var á gangi í helgidóminum koma til hans æðstu prestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir og segja við hann: „Með hvaða valdi gerir þu´þetta? Hver gaf þér það vald að þú gerir þetta?“ Jesús sagði við þá: „Ég vil leggja eina spurningu fyrir ykkur. Svarið henni og ég mun segja ykkur með hvaða valdi ég geri þetta. Hver fól Jóhannesi að skíra, var það Guð eða voru það menn? Svarið mér!“ Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: „Ef við svörum: það var Guð, spyr hann: Hví trúðuð þið honum þá ekki? Eða ættum við að svara: „Það voru menn?“ – Það þorðu þeir ekki fyrir fólkinu því allir töldu að Jóhannes hefði verið sannur spámaður. Þeir svöruðu Jesú: „Við vitum það ekki.“ Jesús sagði við þá: „Ég segi ykkur þá ekki heldur hver fól mér að gera þetta“. (11. 27–33) Frekar svalt. Enn er alveg ljóst að heimsendir er í nánd. Hann mun koma „í þessari kynslóð“. Þó hér sé ekkert um liljur vallarins eða hvatning um að taka sér fugla himinsins til fyrirmyndar um fyrirhyggju fyrir sig og sína eru fjölskyldugildi ekki hátt skrifuð hér. Kristur er reyndar alveg afdráttarlaust á móti hjónaskilnuðum, en annars er hann á því að vinnan komi fyrst: Nú koma móðir Jesú og bræður, standa úti og gera honum orð að koa. Mikill fjöldi sat í kringum hann og var honum sagt „Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér“ Jesús svarar þeim „ver er móðir mín og bræður?” Og hann leit á þau er kringum hann sáut og segir: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gerir vilja Guðs, sá er bróðir minn og móðir.“ (3. 31-35) Bræðralag allra manna trompar fjölskyldubönd. Talandi um fjölskyldur – Eitt af því sem Markús fer eilítið ítarlegar í en Mattheus er aðdragandi dauða Jóhannesar skírara. Báðir rekja Jesúsarótta Heródesar til trúar á að hann sé Jóhannes endurborinn. Hvorugur nefnir reyndar Salóme á nafn. Og báðir leggja áherslu á hve tregur Heródes er til að lífláta Jóhannes. Lokakaflinn er keimlíkur frásögn Mattheusar, að frátöldu því að engum sögum fer af sjálfsmorði Júdasar eða handþvotti Pílatusar. Aftur hangir dauðadómurinn á upploginni ásökun um að Jesús hafi sagst geta rifið og endurbyggt musterið á þremur dögum. Enn er jafn óskiljanlegt í hverju svik Júdasar ættu að vera fólgin. Reyndar er jafnvel enn meira áberandi hér hvað Kristur þráir að fara höldu höfði, en jafn ljóst að það hefur honum gersamlega mistekist. Mig langar að vita meira um þetta ljúgvitni. Er engin arfsögn um hver þetta gæti hafa verið? Svona eins og að einhverntíman fengu vitringarnir frá Austurlöndum ekki bara tölu heldur nöfn. Að ógleymdri henni Salóme. Hún er enn bara dóttir Heróídasar, bróðurdóttir Heródesar. Og María Magdalena andsetin - engum sögum hefur enn farið af atvinnu hennar. Markúsarguðspjall er meiri axjónsaga en Mattheus. Kaldari, en líka mildari. Læknirinn Jesús er í forgrunni og honum er minna í mun að koma fram sem arftaki spámannanna eða ítreka Lögmálið. Sem bókmenntir er hún lakari, ekki eins snjall sögumaður hér á ferð. Framhald í næsta spjalli.

1 ummæli:

Hjalti Rúnar sagði...

>Bræðralag allra manna trompar fjölskyldubönd.

Mér finnst þú nú að vera lesa svolítið inn í textann þarna. Hann talar um að "hver sem gerir guðs vilja" bróðir/systir hans. Vonda fólkið eins og farísearnir eru t.d. ekki bræður hans. Ekkert þarna um að það sé eitthvað "bræðralag allra manna" til.