6.22.2013

Jobsbók


„Vér erum guðunum sem flugur strákum“
Lér Konungur

Textinn
Samanburður
Kynning

Jobsbók er sú fyrsta í safninu sem hefur óumdeildan status sem heimsbókmenntir. Það orðspor er verðskuldað. Það er þvílíkt flug á hverjum þeim sem hefur haldið á pennanum/meitlinum. Ræðan sem lögð er Guði í munn og hefst í 38. kafla er með glæsilegri textum sem ég hef lesið, og 28. kaflinn er líka aldeilis frábær leikur með líkingar og náttúrumyndir. Megnið af bókinni stendur þessum hápunktum aðeins skammt að baki.

Það voru sennilega óraunhæfar væntingar að ætlast til að bókin svaraði í eitt skipti fyrir öll spurningunni sem hún snýst þó um - en er vissulega sú snúnasta sem guðfræðin glímir við:

Bölsvandinn. Ef guð er góður og réttlátur, af hverju þjást þá góðir og réttlátir menn?

Því það gerir hún ekki. Eiginlega bara alls ekki.

Eitt er nú að bókin reynir að svara þessari spurningu með mælskunni einni. Verra er að við vitum frá upphafi af hverju hinn góði og réttláti Job þjáist: Af því Guð ákvað að sanna fyrir Satani að mótlæti af verstu gerð myndi ekki ganga frá trúfesti Jobs. þegar Satan bendir á að það sé auðvelt fyrir Job að vera guðrækinn meðan allt leikur í lyndi hjá honum felur Guð andstæðingi sínum að taka allt frá honum: eignir, fjölskyldu og heilsu. Og sjá svo hvað gerist.

Guð er með öðrum orðum að leika sér. Til að njóta rökræðna Jobs við andmælendur sína fyrir annað en mælskuna þarf maður eiginlega að reyna að gleyma þessu atriði. Þær deilur snúast algerlega um það hvort hann eigi þjáningarnar skilið, sem við vitum að kemur málinu ekkert við.

Annars minnir framvinda deilunnar sterklega á íslenska rökræðuhefð í því að deilurnar þokast ekkert áfram, heldur halda deilendur bara áfram að segja það sem þeir hafa að segja með nýjum (eða bara sömu gömlu) rökum og orðum og áður:

Job: Hvernig stendur á því svona er komið fyrir mér, réttlátum manninum? Hvað er Guð að spá?

Andmælendur: Hvernig dirfist þú?! Guð er almáttugur og refsar hinum óréttlátu.

Ef þeir væru ekki allir svona helvíti mælskir þá væri þetta lítið skárra en að hlusta á Útvarp Sögu. Skemmtilegastur er sá síðasti, Elíhú, sem byrjar hverja ræðu sína á að tala um hvað hann sé klár og frábær og með munninn fullan af orðum. Kannski meira eins og rappari í stuði heldur en langdrukkinn Söguspekingur.

Í lokin birtist svo Guð sjálfur. Hin stórbrotna ræða hans er varla innlegg í rökræðuna, svo mjög sem hún byggir á því að telja upp allt það sem hann skapaði og stýrir í náttúrunni. Svona „Þegiðu, ég er osom“ röksemdir.

Enda svarar Job ekki öðru en:



Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? (40.4)

og:


Ég þekkti þig af afspurn,  
en nú hefir auga mitt litið þig!
Fyrir því tek ég orð mín aftur
og iðrast í dufti og ösku. (42. 5–6)

Þetta reynist líka vera rétta svarið – Guð kætist, setur ofan í við andstæðinga hans og líf Jobs snýst allt til betri vegar. Lifði hann hamingjusamur til æviloka sem urðu 140 árum eftir að þessir atburðir gerðust (en þá átti hann þegar uppkomin börn).

Á þessu er nú ekki mikið að græða annað en að ástæða þess að Job þjáðist var að Guð ákvað að láta hann þjást. Andmælum hans svarar Guð með því að segja: „Hvernig dettur þér í hug að efast um það sem ég geri? Getur þú kannski látið koma stórhríð eða búið til flóðhest?“

Job gefst upp og allt verður gott aftur.

Þessi bók vefst svolítið fyrir mér af þeirri skrítnu ástæðu að mér þykir hún ekki torskilin, bara frekar grunn. Fyrir vikið finnst mér hún varla standa undir mikilvægi sínu, fyrir utan að vera stórkostlegur skáldskapur. Mér finnst mér hljóti að vera að yfirsjást eitthvað mikilvægt, en finn engar vísbendingar um að svo sé.

Það torskildasta við hana eru eiginlega þessi orð, sem standa í kynningartexta um hana:



Lausnina finnur Job í guðssamfélaginu

Ég bara kem þessu ekki heim og saman við textann sjálfan. Reyndar sýnist mér ritstjórar nýju biblíuþýðingarinnar ekki alveg jafn sannfærðir og fyrirrennarar þeirra:



Guð gefur ekki svör við þeim spurningum sem Job ber fram en sýnir hins vegar fram á sköpunarmátt sinn og vísdóm. Lausnina virðist Job finna í guðssamfélaginu (42.5). leturbreyting mín

Ef það er fimmta vers 42. kapítula sem þessi skilningur byggir á þá kemur það nú þessum lesanda fyrir sjónir sem nokkuð hraustleg túlkun.

Talandi samt um nýju þýðinguna. Einhversstaðar í lestrinum hnaut ég um eitthvað orðalag og ákvað af rælni að skoða hvernig það væri í þeirri nýju. Komst þá að því að bæði er þýðingin gjörólík, og sú nýja í öllum skilningi betri. Hér er búturinn – Job hefur orðið og talar um hvernig lítilsiglt fólk telur sig nú geta komið fram við hann af geðþótta sínum:

Og nú er ég orðinn þeim að háðkvæði
og orðinn umtalsefni þeirra.
Þeir hafa andstyggð á mér, koma ekki nærri mér
og hlífast jafnvel ekki við að hrækja framan í mig.
Þar sem Guð hefir leyst streng sinn og beygt mig,
þá sleppa þeir og beislinu fram af sér gagnvart mér.
Mér til hægri handar vex hyski þeirra upp,
fótum mínum hrinda þeir frá sér
og leggja glötunarbrautir sínar gegn mér.
Þeir hafa rifið upp stig minn,
að falli mínu styðja þeir, sem engan hjálparmann eiga.
Þeir koma sem inn um vítt múrskarð,
velta sér áfram innan um rústir. (30. 9–14)

Nýja þýðingin

En nú kveður það um mig níðvísur
og fleiprar um mig.
Það hefur óbeit á mér, forðast mig,
hikar ekki við að hrækja framan í mig,
þar sem Guð losaði bogastreng minn og niðurlægði mig
sleppti það fram af sér beislinu frammi fyrir mér.
Frá hægri reis skari gegn mér,
kippti undan mér fótunum og lagði gegn mér óheillabrautir sínar.
Þeir rufu stíg minn, unnu að falli mínu
og enginn aftraði þeim,
þeir komu eins og gegnum breitt múrskarð
og byltust sem öldur innan um rústirnar.

Ég tek ofan fyrir þýðendum nýju útgáfunnar. Þetta er bæði skiljanlegra og svipmeira. Bara t.d. munurinn á persónufornöfnunum „þeir“ og „það“. Íhaldssamir kristsmenn hafa kvartað hátt yfir að í nýju þýðingunni sé karlkyni skipt út fyrir hvorugkyn, en hér eykur það t.d. á áhrifin. Eða þá furðuorðasambandið: „fótum mínum hrinda þeir frá sér“ í þeirri gömlu (sem mér finnst á mörkunum að vera íslenska) og hið kýrskíra „kippti undan mér fótunum“ í þeirri nýju.

Það kom mér á óvart hvað munurinn er mikill. Ég hef því tekið ákvörðun um að breyta fyrri ákvörðun um að halda mig við gömlu þýðinguna og mun hér eftir lesa þá nýju. Framundan eru enda bækur þar sem orðsnilld skiptir meginmáli (Sálmarnir, orðskviðirnir) og torskildustu kaflarnir (Spámennirnir).

Þetta mun væntanlega hægja aðeins á framvindunni, þar sem nýja þýðingin er ekki til á Kindilformi og ég mun auk þess þurfa að slá inn allar tilvitnanir. Það stendur engu að síður ekkert annað til en að klára dæmið.

Engin ummæli: