6.18.2015

Opinberunarbókin

Það bjargast ekki neitt ...

Textinn
Samanburður
Kynning

Biblían hefst á sköpun heimsins og lýkur á heimsendi. En ekki hvað? Opinberunarbókin greinir frá stórfenglegri skoðunarferð sem engill á vegum Guðs og Krists bjóða höfundi hennar í um fortíð, nútíð og þá nánustu framtíð sem markar endalok tímans og endursköpun heimsins eftir dóminn þar sem mannkynið verður flokkað í hina blessuðu og þá bölvuðu. Reyndar er stundum látið að því liggja að þessi flokkun sé fyrirfram ákveðin, en við skulum ekki hengja okkur í þá þrætubók alla, látum Votta Jehóva um það. Hér er margt að skoða og dást að.

Þetta er frábær texti. Vissulega mjög „biblískur“ en talsvert betri en mjög margt annað í bókinni góðu, sem ekki er nú öll sérlega rishá, verður að segjast. En þessi er flott. Líka upphafskaflinn sem efnislega greinir sig ekki nema í smáatriðum frá öðrum „eftirkriststextum“. Hér er trúarstálinu stappað í sjö asíska söfnuði og þeim gefin loforð. Eins og bréfritarar undangenginna kafla hafa keppst við að gera. Bara ekki eins vel.

Forvitni vekja tvö smáatriði – aðallega af því að á þeim finn ég ekki skýringar.

Annarsvegar aðvaranir vegna „Nikólíta“ sem bréfritari hatar og virðast herja á trúaða í Efesus og Pergamos. Ekki er vitað með vissu hvað þessi villutrúarsöfnuður vann sér til óhelgi, en síðari tíma spekingar töldu/giskuðu m.a. á sifjaspell og stóðlífi, en líka á torskilda trúvillu sem kallast „antinómíanismi“ og tengist afstöðu til róta siðlegrar breytni og mikilvægis hennar fyrir frelsun/réttlætingu. Og virðist í fljótu bragði vera nokkuð meinstrím ef hortft er með mínum leikmannsaugum. En postularnir eru reyndar svo margsaga um það mál að ég nenni ekki að opna þá þrætubók.

Hinsvegar þessar skrítnu samstofna setningar í orðsendingunum til Smyrnu og Fíladelfíu:


Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim sem segja sjálfa sig vera Gyðinga en eru það ekki, heldur samkunda Satans (2. 9)

og

Ég skal láta lygarana af samkundu Satans, sem segjast vera Gyðingar en eru það ekki,  koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig. (3. 9)

Í fyrsta lagi: Gyðingar? Þetta eru skilaboð til kristinna söfnuða í Litlu-Asíu, sem fæstir eru sennilega af gyðinglegum uppruna, heldur „sóknarbörn“ Páls úr heiðingjasamfélögunum. Og fólk sem þykist vera Gyðingar – „gervigyðingar“? Hvað skyldi það nú vera fyrir nokkuð? Allavega eitthvað ógurlega slæmt. „Samkunda Satans“, no less.

Reyndar þykir mér hin gyðinglega nálægð í bréfum þeirra sem ekki eru Páll vera mun meiri en ég hefði fyrirfram búist við. Skilin þarna á milli óskýrari, mótsagnarkenndari en þó um fram allt teygjanlegri en ég hafði talið eftir hinn afdráttarlitla andsemitisma guðspjallanna. En vissulega er svolítið eins og þeir textar séu fornkirkjufeðrunum ekki gjörkunnir, eins og ég hef áður minnst á..

Nóg um það.

Þó þessi upphafskafli sé flottur þá er það fyrst þegar sýnirnar byrja sem Jóhannes fer á flug. Við verðum samt að byrja á að skoða hver opinberar hverjum hvað. Hér er ættartala upplifunarinnar:



Opinberun Jesú Krists sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum, sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá. Sæll er sá er les þessi spádómsorð, og sælir eru þeir sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað því að tíminn er í nánd. (1. 1–3)

Sæll er sá sem hendir reiður á til hvers persónufornafnið „hann“ vísar í hvert sinn í þessum texta og hver sýnir hverjum hvað og á hvers vegum. Hvað þá hversvegna. En það skiptir samt minnstu máli. Myndin er að byrja.

Og sú er mögnuð. Og hefur orðið efni í ótal aðrar af öllu tagi og í öllum formum. Og, það verður að segjast, sækir óspart í Jesaja, Esekíel og Daníel í skrímslasmíð sinni.

Allskonar aðöðruleyti sæmilega útlítandi verur sitja uppi með sjö augu og/eða höfuð. Og/eða höfuðskraut. Allt í þágu tölspekinnar.

Ah, tölspekin.

Í lestri Opinberunarbókarinnar opinberast ekki síst þörf okkar fyrir merkingu. Tölur hafa merkingu, sjö og tólf sérstaklega, og margfeldi þeirra. Og svo erum við viss um að við séum ekki bara að skapa merkingu með lestri og túlkun, heldur sé hin dulda merking í alvörunni þarna, sett þar af höfundinum og/eða þeim sem sýndi honum sýnirnar.

Ég nenni ekki svona táknakjaftæði. Mér finnst alveg sniðugt að ef maður gefur bókstöfum tölugildi (væntanlega á grísku, eða þá hebresku) þá sé grískt nafn Nerós, „Neron Caesar“ samasem 666. En mér finnst líka sniðugt að 666 er fjarlægðin milli Vopnafjaðar og Borgarness, og Reykjahlíðar og Ísafjarðar. Í kílómetrum. Guð veit hvaða fjarlægðir eru 666 mílur. Eða þingmannaleiðir. Eða desilítrar. Eða hvað Judas Priest syngur afturábak. Og ég meina “Guð veit” alveg bókstaflega.

Mér finnst þetta ekki sérlega skemmtilegur samkvæmisleikur. Aðallega get ég ekki litið á þetta sem annað en samkvæmisleik.

Það leikur enginn vafi á því að Opinberunarbókin er dulsaga, en ekki bara spennanndi ævintýri með skrímslum og svoleiðis. Og það er vonlaust annað en að trúa því að „söguþráðurinn“ sé svona glórulaus, endurtekningarsamur og höktandi af því að allt sem sagt er frá stendur fyrir eitthvað sem þegar hefur gerst – misrökvís atburðarás sem þarf að fylgja svona nokkurnvegin með tilheyrandi kenjum. Ef við skiljum þetta ekki þannig er framvindan bara of skrítin, og ekki samboðin jafn flinkum sögumanni og Jóhannes hefur augljóslega verið.

Og þegar klárlega er horft fram í tímann – eftir að Satan, Gog og Magog hefja sína lokaorrustu við hin góðu öfl – verður framvindan alveg rökvís, skýr og vel fram sett.

En bætir hún einhverju við? Er ekki löngu ljóst í guðspjöllum og bréfum, Gamlatestamenntisspádómunum þess vegna, að Messías mun snúa aftur – fólki kynslóðanna verður skipt í hina verðugu og óverðugu og dæmt eftir því? Hefur nokkur málsmetandi umboðsmaður Guðs legið á þeim fréttum að svona verður þetta? Þeim mun skrítnara að það þurfi að pakka öllu inn í svona mikið dulmál, þar sem menn giftast borgum sem kannski eru konur og öðrum verður eytt af því að þær eru of graðar og nota of mikið ilmvatn.


Ef hinir almáttugu eru að sýna einhverjum útvöldum mannkynssöguna í nútíð og framtíð þá á ég mjög erfitt með að skilja af hverju er ekki hægt að gera það bara, án milligöngu básúna, rauðra dreka og Babýlonshóra sem kannski eru Rómaborg.

Allavega hefur þetta gefið upp boltann fyrir rugludalla síðustu 2000 ára eða svo, sem og búið til nokkur þúsund ára skekkjumörk á hvenær hinir boðuðu atburðir verða.

En mögnuð bók.

Eins og skáldið sagði: „Full of Sound and Fury.“

6.11.2015

Jóhannesarbréf og Júdasar

PS ...

Textinn (Jóhannes 1, Jóhannes 2, Jóhannes 3, Júdas)
Samanburður (Jóhannes 1, Jóhannes 2, Jóhannes 3, Júdas)
Kynning (Jóhannesarbréf, Júdas)


Bréfakafla Biblíunnar lýkur á fjórum bréfum, einu sæmilega löngu og þremur stuttum. Sem er einmitt „B“ í morsstafrófinu. Tilviljun? Já ætli það ekki bara. Það er líklega líka tilviljun að bréfin standa saman, enda ekki efnislega samstæð. Höfundarnir báðir (líklega) í postulahópnum, en það voru nú Pétur og Jóhannes líka. Og um sum bréfanna er alveg hægt að velta fyrir sér hvaða erindi þau eiga í svona grundvallarrit.

Förum yfir þetta í þremur bútum.


Fyrsta almenna bréf Jóhannesar

Þetta er langviðamesti textinn af þessum fjórum. Og næsta víst að hér stýrir penna sami höfundur og skrifaði Jóhannesarguðspjall. Hér er líkingaþrungið mál með stórum orðum sem bréfritari leggur í djúpa skáldlega merkingu.

Ljós. Myrkur. Orð. Sannleikur. Réttlæti. Synd.

Stundum finnst manni orðin taka völdin af höfundinum og heimsmyndin verða jafnvel einfaldari og afdráttarlausari en hann í rauninni vill.



Hver sem synd drýgir fremur lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot. Þið vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd. Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
Börnin mín, látið engan villa ykkur. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur. Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn hefur syndgað frá upphafi. (3. 4–8)

Ekkert svigúm fyir breyskleika eða svoleiðis pjatt hér. Og þessi skemmtilega röklausa rökhenda:



Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ og hatar bróður sinn, er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. (4. 20)

Þó tilgangurinn sé fallegur – að hvetja fólk til að vera almennilegt hvert við annað – þá þykir manni kannski dálitið langt seilst að segja það djöfullegt ef því gengur illa að elska þann misjafna sauð sem meðbræður okkar eru. Svo eru hún stundum dálítið yfirgengileg þessi kristilega yfirtaka kærleikshugtaksins:

Þér elskaðir, elskum hvert annað, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. (4. 7–8)

Ég hef minnst á það áður að Biblíubréfin virðast mér hafa tvö meginhlutverk:

a) Að leiðrétta, en þó fyrst og fremst andmæla, hugmyndum annarra sem stangast á við það sem bréfritari telur rétta kenningu. Þetta á fyrst og fremst við Pálsbréf.

b) Að hvetja viðtakendur til trúfesti, þolgæði og réttrar breytni.

Fyrir vikið er ekki í þeim að  finna kerfisbundna útlistun hinna réttu hugmynda, né heldur skýrar og/eða sannfærandi röksemdir fyrir þeim. Bréfin ganga út frá skilningi og þekkingu viðtakendanna á því sem hyggjumst og þurfum að sækja í þau.

Þetta er í senn spennandi og pirrandi.

Í öðru Pétursbréfi er minnst á fallna engla – annar tveggja staða í Biblíunni sem þeir koma við sögu – og af orðalaginu er augljóst að verið er að vísa í sögu sem allir ætlaðir viðtakendur bréfsins þekktu og trúðu.*

Hér mætir önnur þekkt persóna á sviðið, kannski skyld óþekktarenglunum, en kannski ekki.

Börn mín, hin síðasta stund er upp runnin. þið hafið heyrt að andkristur kemur, …

Það fer auðvitað hrollur um okkur þegar við heyrum þetta. Í okkar hug er þetta löngu orðið að sérnafni, næstum eða alveg samheiti við djöfulinn, pokurinn, Lúsífer, Belsebúbb og Satan, sem auðvitað þýðir „andstæðinur“. Óvininn.

Og Jóhannes veit greinilega að hugtakið er kunnuglegt viðtakendunum. „Þér hafið heyrt …“ En hann leggur nú samt ekki hina persónubundnu merkingu í orðið, sem okkur er orðin töm, því setningin heldur áfram:

... og nú eru líka margir andkristar komnir fram. (2. 18)

og síðan:



Þeir komu úr okkar hópi, en heyrðu okkur ekki til. (2. 19)

og

Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum. (2. 22)

Andkristur virðist því ekki vera persóna heldur bara þessi venjulegi trúvillingur. Sem eru auðvitað alltaf mikið verra fólk en „fæddir“ heiðingjar, um það eru kristnir og múslimar sammála. Samt tengir Jóhannes „komu“ andkristanna við „hina síðustu stund“, heimsendinn og dóminn sem allir bíða óþreyjufullir eftir. Og:



Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum. (4. 2-3)

 Hér virðist aftur vera á ferðinni sú nautn sem Jóhannes hefur af því að að vera afdráttarlaus í sinni með-eða-á-móti boðun. En þannig verður til sú tilfinning að hér fari einstaklingur af yfirnáttúrlega taginu, gengst þannig til í munni predikara og túlkenda öldum saman þar til hr. Antikristur telst fullskapaður og tilbúinn til að láta Gabriel Byrne leika sig í slag í End of Days.

Allt vegna þess hvers eðlis Biblíubréfin eru.

Annað og þriðja almenna bréf Jóhannesar

Tvö örstutt einkabréf sem lítið er um að segja. Annað en kannski að undrast hvað þau eru að vilja upp á dekk í Kanónunni. Í því fyrra er reyndar minnst á andkrist í fimmta og síðasta sinn, nú með örlitilli áherslubreytingu:

Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn sem maður. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn. (1. 7)

Ekki endilega yfirnáttúruleg vera, en heldur ekki bara undanvillingur úr söfnuðinum, heldur beinlínis boðberi villunnar.


Bréfin eru bæði stíluð á einstaklinga, hið fyrra á ónefnda konu en hið síðara á Gaíus nokkurn. Bæði eru hvatningarbréf og aðvaranir gegn villuboðurum, þó orðið “andkristur” sé aðeins notað í því fyrra.

Lokaorð beggja vekja athygli:

Þótt ég hafi margt að rita ykkur vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki heldur vona að koma til ykkar og tala munnlega við ykkur til þess að gleði okkar verði fullkomin. Börn systur þinnar, hinnar útvöldu, biðja að heilsa þér. (2. bréf, 12–13, leturbreyting mín)

Og

Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna. En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við augliti til auglitis. (3. bréf 13–14, leturbreyting mín)

Það er greinilega tími ofsókna og ritskoðunar. Sennilega á vegum Antikristanna.


Hið almenna bréf Júdasar

Hér kveður sér hljóðs annar af sonum Maríu, og sá sem var óheppnastur með nafn, svona eftir á að hyggja. Bókin byrjar á hógværasta neimdroppi bókmenntasögunnar:

Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, (1, leturbreyting mín)

„Hæ, ég heiti Artúr. bróðir Begga, þú veist, gítarleikara í Egó“.

Annars er þetta endurtekið efni. Nánar tiltekið, endurtekið úr bréfum Péturs. Eins og þar koma fallnir englar við sögu. Júdas tilgreinir allskyns dæmi úr sögu Gyðinga til að stappa stálinu í hina vantrúðu. Sumt hefur kannski eitthvað skolast til á langri leið:

Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla himnaverum. Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að saka djöfulinn um guðlast, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: „Drottinn refsi þér!“ (8–9)

Veit ekki alveg um þetta rifrildi Mikaels og Djöfulsins um lík Móse. Neðanmáls er vísað í vers í Daníelsbók þar sem Móses kemur ekki við sögu.

Látum þar við sitja. Og þökkum að lokum Júdasi og þýðendum hans fyrir hið fallega orð „draumvilltir“.



* Ég fór á grúskstúfana og fann út að helsta heimildin um fallna engla er Enoksbók, sem er svo apókríf að hún fær ekki einu sinni að fljóta með apókrífu bókunum í kristnu biblíunni. Ætla nú samt að lesa hana við tækifæri.

6.06.2015

Jakobsbréf og Péturs

Fyrir hönd aðstandenda

Textinn (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)
Samanburður (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)
Kynning (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)

Þrjú bréf, eignuð (með mismikilli vissu) tveimur mönnum sem stóðu Kristi nær en flestir eða allir. Ekki er hann nú heilt yfir í aðalhlutverki frekar en fyrri daginn. Páll er með fjarvistarsönnun, en bróðir og besti vinur?

Hið almenna bréf Jakobs

Jakobsbréfið er kannski merkilegast fyrir höfund sinn. Jakob þessi er nefnilega hvorki meira né minna en bróðir Jesú. Eða hálfbróðir, væntanlega. Kannski skýrir það veru bréfsins í kanónunni, því ekki bætir það miklu við. Reyndar er sterkur gamaltestamenntisblær á því. Spakmælasafn eins og nokkur sem þar er að finna.

Enn vekur athygli fjarvera Krists úr textanum. Eins og Páll þá er eins og og Jakob hafi ekkert um orð hans að segja, vitnar ekki í hann, leggur ekki út af orðum hans eða túlkar dæmisögur eða athafnir. Páll var vissulega með „fjarvistarsönnun“, en hvað veldur þögn Jakobs?

Annars er Jakob mun meira umhugað um að menn láti trúna stýra verkum sínum en Páll. Það blandast ágætlega saman við hið klassíska minni fornra spekirita að skamma ríka og upphefja þá fátæku:

Hvað stoðar það, bræður mínir og systur, þótt einhver segist hafa trú en sýnir það eigi i verki? Mun trúin geta frelsað hann? Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og eitthvert ykkar segði við þau: „Farið í friði, vermið ykkur og mettið!“ en þið gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin. (2. 14–17)

Og Jakob sækir rökstuðning fyrir því að verk trompi trú aftur í fornöldina, en minnist ekki á bróður sinn í því samhengi:

Réttlættist ekki Abraham faðir okkar af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið? Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum. (2. 21–22)

og:

Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið? (2. 25)

Semsagt: meira að segja verk án trúar teljast til réttlætingar.

Innanum eru síðan spakleg mæli og forvitnilegar líkingar:

Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. Því að hlýði einhver á orðið án þess að fara eftir því er hann líkur manni er skoðar andlit sitt í spegli. Hann skoðar andlit sitt, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig það var. (1. 22–24)

og þessi ágæta brýning um að hafa taumhald á tungu sinni, mikilvægi þess og vandkvæði:

Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum. Ef við leggjum hestunum beisli í munn til þess að þeir hlýði okkur, þá getum við stýrt öllum líkama þeirra. Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill. Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. (3. 2–5)

Vel mælt.

Annars hvarflar athygli og umhugsun lesandans óneitanlega að bréfritaranum sjálfum. Bróðir Jesú? Hvernig ætli það hafi verið? Allavega er ljóst að ef maður ætti þess kost að eiga orðastað við Jakob væru fyrstu spurningarnar ekki um hvort trú dugi til réttlætingar, eða hversu mikilvægt sé að hlú að fátækum. Meira svona: Segðu mér frá barnæskunni.


Hin almennu bréf Péturs

Jakob Jósefsson er kannski Carl Wilson eða Marlon Jackson, eða í versta falli Lýður Ægisson Biblíunnar, en það kemur hinsvegar nokkuð á óvart að Símon Pétur skuli vera Barbara Cartland góðu bókarinnar. Eða þannig skil ég lokaorð fyrra Pétursbréfs:

Ég hef látið Silvanus, sem er trúr bróðir í mínum augum, skrifa þetta stutta bréf til þess að hvetja ykkur og vitna hátíðlega að þetta er hin sanna náð Guðs. (1. bréf, 5. 12)

Er alls ekki til í að sjá þetta öðruvísi fyrir mér en Pétur makindalegan í bleikum kufli, liggjandi á legubekk og lesandi fyrir að hætti Barböru.Og Silvanus með pennann á lofti að fanga gullkornin.

Reyndar er síðar Pétursbréf víst ekki lengur eignað honum, ekki frekar en við vitum með vissu hversu mikið ritarar ástarsögudrottningarinnar eiga í hennar verkum.

Það kveður við nokkuð annan tón í þessu bréfi. Hér er ekki í forgrunni þyrrkingsleg guðfræði Páls, né heldur Gamaltestamentisbölbænir Hebreabréfs og Jakobs. Ást á Kristi gegnsýrir textann, jafnvel svo að manni þykir nóg um:

Segið þvi skilið við alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal. Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ómenguðu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis, enda „hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.“ (1. bréf 2. 1–3)

Hinsvegar er hann á sama máli og Páll hvað varðar undirgefni við valdhafa, sem jafnvel þó hundheiðnir séu virðast vera á vegum Guðs:


Verið Drottins vegna hlýðin allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel. Því að það er vilji Guðs að þið þaggið niður í vanþekkingu heimskra manna með því að breyta vel.  (1. bréf 2. 13–15)

Vissulega er saga af því að Pétur hagi seglum eftir vindi í samskiptum við utantrúarfólk. Þó er alveg ljóst, eins og þá, af hverju mikilvægt er að hinir Kristnu ruggi bátnum ekki um of. Lái þeim hver sem vill.

Ekki það að ef hinir Guðs útvöldu heiðingjar ákveða að typta hina Kristnu þá hefur svoleiðis líka gildi:

Kristur leið líkamlega. Því skuluð þið búast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega er skilinn við synd, hann lætur mannlegar fýsnir ekki ná tökum á sér heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs. (1. bréf 4. 1–2, leturbreyting mín)

Ætli sjálfstyptarar klaustra og annarsstaðar hafi ekki lesið þennan bút af athygli og með hrollkenndri sælu.

Annað bréfið – þetta sem er ekki eftir Pétur – er stutt og ekkert sérlega bitastætt. Þó geymir það þennan einstaka bút:

Ekki þyrmdi Guð englunum er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella þar sem þeir eru geymdir til dómsins (2. bréf 2. 4)

Þetta er semsagt það eina sem finnst í Biblíunni um synduga engla og fall þeirra. Augljóslega er samt gengið út frá því að lesendur viti um hvað er verið að tala. Sem er auðvitað hálfu forvitnilegra. Vissulega er talað um fall Satans annarsstaðar í Biblíunni þá er hann ekki kallaður engill. Enda enginn engill.

Svo eru hér hressilegar formælingar gegn guðlausu fólki – og frumlegur tónn í þeim:

Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur. Þeir láta klingja innantóm diguryrði og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá sem eru í þann vegin að sleppa frá þeim sem ganga í villu. [...] Ef þeir, sem sluppu frá saurgun heimsins af því þeir þekktu Drottinn vorn og frelsara Jesú Krist, flækja sig í heimi að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. [...] Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: „Hundur snýr aftur til spýju sinnar,“ og: „Þvegið svín veltir sér í sama saur.“ (2. bréf 2. 17–22) 

Og svo þessi kunnuglegi frasi, sem hér gegnir því hlutverki að róa þá sem eru orðnir óþreyjufullir eftir að heimurinn farist, sem er eitt helsta erindi bréfsins samkvæmt inngangi:

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. (2. bréf, 3. 8)

Þjóðlegt maður, þjóðlegt. Merkilegt að þolinmæði skuli ekki vera höfuðdyggð Íslendinga þrátt fyrir þessa brýningu Sankti Péturs og séra Matthíasar.