6.11.2015

Jóhannesarbréf og Júdasar

PS ...

Textinn (Jóhannes 1, Jóhannes 2, Jóhannes 3, Júdas)
Samanburður (Jóhannes 1, Jóhannes 2, Jóhannes 3, Júdas)
Kynning (Jóhannesarbréf, Júdas)


Bréfakafla Biblíunnar lýkur á fjórum bréfum, einu sæmilega löngu og þremur stuttum. Sem er einmitt „B“ í morsstafrófinu. Tilviljun? Já ætli það ekki bara. Það er líklega líka tilviljun að bréfin standa saman, enda ekki efnislega samstæð. Höfundarnir báðir (líklega) í postulahópnum, en það voru nú Pétur og Jóhannes líka. Og um sum bréfanna er alveg hægt að velta fyrir sér hvaða erindi þau eiga í svona grundvallarrit.

Förum yfir þetta í þremur bútum.


Fyrsta almenna bréf Jóhannesar

Þetta er langviðamesti textinn af þessum fjórum. Og næsta víst að hér stýrir penna sami höfundur og skrifaði Jóhannesarguðspjall. Hér er líkingaþrungið mál með stórum orðum sem bréfritari leggur í djúpa skáldlega merkingu.

Ljós. Myrkur. Orð. Sannleikur. Réttlæti. Synd.

Stundum finnst manni orðin taka völdin af höfundinum og heimsmyndin verða jafnvel einfaldari og afdráttarlausari en hann í rauninni vill.



Hver sem synd drýgir fremur lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot. Þið vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd. Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
Börnin mín, látið engan villa ykkur. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur. Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn hefur syndgað frá upphafi. (3. 4–8)

Ekkert svigúm fyir breyskleika eða svoleiðis pjatt hér. Og þessi skemmtilega röklausa rökhenda:



Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ og hatar bróður sinn, er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. (4. 20)

Þó tilgangurinn sé fallegur – að hvetja fólk til að vera almennilegt hvert við annað – þá þykir manni kannski dálitið langt seilst að segja það djöfullegt ef því gengur illa að elska þann misjafna sauð sem meðbræður okkar eru. Svo eru hún stundum dálítið yfirgengileg þessi kristilega yfirtaka kærleikshugtaksins:

Þér elskaðir, elskum hvert annað, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. (4. 7–8)

Ég hef minnst á það áður að Biblíubréfin virðast mér hafa tvö meginhlutverk:

a) Að leiðrétta, en þó fyrst og fremst andmæla, hugmyndum annarra sem stangast á við það sem bréfritari telur rétta kenningu. Þetta á fyrst og fremst við Pálsbréf.

b) Að hvetja viðtakendur til trúfesti, þolgæði og réttrar breytni.

Fyrir vikið er ekki í þeim að  finna kerfisbundna útlistun hinna réttu hugmynda, né heldur skýrar og/eða sannfærandi röksemdir fyrir þeim. Bréfin ganga út frá skilningi og þekkingu viðtakendanna á því sem hyggjumst og þurfum að sækja í þau.

Þetta er í senn spennandi og pirrandi.

Í öðru Pétursbréfi er minnst á fallna engla – annar tveggja staða í Biblíunni sem þeir koma við sögu – og af orðalaginu er augljóst að verið er að vísa í sögu sem allir ætlaðir viðtakendur bréfsins þekktu og trúðu.*

Hér mætir önnur þekkt persóna á sviðið, kannski skyld óþekktarenglunum, en kannski ekki.

Börn mín, hin síðasta stund er upp runnin. þið hafið heyrt að andkristur kemur, …

Það fer auðvitað hrollur um okkur þegar við heyrum þetta. Í okkar hug er þetta löngu orðið að sérnafni, næstum eða alveg samheiti við djöfulinn, pokurinn, Lúsífer, Belsebúbb og Satan, sem auðvitað þýðir „andstæðinur“. Óvininn.

Og Jóhannes veit greinilega að hugtakið er kunnuglegt viðtakendunum. „Þér hafið heyrt …“ En hann leggur nú samt ekki hina persónubundnu merkingu í orðið, sem okkur er orðin töm, því setningin heldur áfram:

... og nú eru líka margir andkristar komnir fram. (2. 18)

og síðan:



Þeir komu úr okkar hópi, en heyrðu okkur ekki til. (2. 19)

og

Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum. (2. 22)

Andkristur virðist því ekki vera persóna heldur bara þessi venjulegi trúvillingur. Sem eru auðvitað alltaf mikið verra fólk en „fæddir“ heiðingjar, um það eru kristnir og múslimar sammála. Samt tengir Jóhannes „komu“ andkristanna við „hina síðustu stund“, heimsendinn og dóminn sem allir bíða óþreyjufullir eftir. Og:



Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum. (4. 2-3)

 Hér virðist aftur vera á ferðinni sú nautn sem Jóhannes hefur af því að að vera afdráttarlaus í sinni með-eða-á-móti boðun. En þannig verður til sú tilfinning að hér fari einstaklingur af yfirnáttúrlega taginu, gengst þannig til í munni predikara og túlkenda öldum saman þar til hr. Antikristur telst fullskapaður og tilbúinn til að láta Gabriel Byrne leika sig í slag í End of Days.

Allt vegna þess hvers eðlis Biblíubréfin eru.

Annað og þriðja almenna bréf Jóhannesar

Tvö örstutt einkabréf sem lítið er um að segja. Annað en kannski að undrast hvað þau eru að vilja upp á dekk í Kanónunni. Í því fyrra er reyndar minnst á andkrist í fimmta og síðasta sinn, nú með örlitilli áherslubreytingu:

Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn sem maður. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn. (1. 7)

Ekki endilega yfirnáttúruleg vera, en heldur ekki bara undanvillingur úr söfnuðinum, heldur beinlínis boðberi villunnar.


Bréfin eru bæði stíluð á einstaklinga, hið fyrra á ónefnda konu en hið síðara á Gaíus nokkurn. Bæði eru hvatningarbréf og aðvaranir gegn villuboðurum, þó orðið “andkristur” sé aðeins notað í því fyrra.

Lokaorð beggja vekja athygli:

Þótt ég hafi margt að rita ykkur vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki heldur vona að koma til ykkar og tala munnlega við ykkur til þess að gleði okkar verði fullkomin. Börn systur þinnar, hinnar útvöldu, biðja að heilsa þér. (2. bréf, 12–13, leturbreyting mín)

Og

Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna. En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við augliti til auglitis. (3. bréf 13–14, leturbreyting mín)

Það er greinilega tími ofsókna og ritskoðunar. Sennilega á vegum Antikristanna.


Hið almenna bréf Júdasar

Hér kveður sér hljóðs annar af sonum Maríu, og sá sem var óheppnastur með nafn, svona eftir á að hyggja. Bókin byrjar á hógværasta neimdroppi bókmenntasögunnar:

Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, (1, leturbreyting mín)

„Hæ, ég heiti Artúr. bróðir Begga, þú veist, gítarleikara í Egó“.

Annars er þetta endurtekið efni. Nánar tiltekið, endurtekið úr bréfum Péturs. Eins og þar koma fallnir englar við sögu. Júdas tilgreinir allskyns dæmi úr sögu Gyðinga til að stappa stálinu í hina vantrúðu. Sumt hefur kannski eitthvað skolast til á langri leið:

Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla himnaverum. Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að saka djöfulinn um guðlast, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: „Drottinn refsi þér!“ (8–9)

Veit ekki alveg um þetta rifrildi Mikaels og Djöfulsins um lík Móse. Neðanmáls er vísað í vers í Daníelsbók þar sem Móses kemur ekki við sögu.

Látum þar við sitja. Og þökkum að lokum Júdasi og þýðendum hans fyrir hið fallega orð „draumvilltir“.



* Ég fór á grúskstúfana og fann út að helsta heimildin um fallna engla er Enoksbók, sem er svo apókríf að hún fær ekki einu sinni að fljóta með apókrífu bókunum í kristnu biblíunni. Ætla nú samt að lesa hana við tækifæri.

Engin ummæli: