6.20.2014

Bæn Manasse


Sorry seems to be the ... word


Textinn (á ensku – apókrífu bækurnar eru ekki á netinu á íslensku)
Kynning

Síðasta bókin í Gamla testamentinu, séu apókrífubækurnar hafðar með, er þessi bæn. Varla bók, rúmlega  blaðsíða. Innihaldslega ekkert sem við höfum ekki séð oft áður.

Sem er viðeigandi. 

Það má alveg líta á Bæn Manasse sem samantekt efnisins, niðurstöðu þessarar löngu misþroskasögu þjóðar – og ekki síður guðs hennar.

Nafnið Manasse stendur líka á sinn hátt fyrir upphaf og endi sögunnar. Þetta nafn bar einn af sonum Jakobs og þar með einn af ættbálkafeðrunum tólf. Fékk úthlutað stórum skika í norðausturhluta fyrirheitna landsins. Seinna ríkti konungur með þessu nafni yfir suðurríkinu Júda. Bænin er hans, Manasse var einn af þeim sem sneri baki við Guði, rauf sáttmálann en iðraðist og sneri aftur. 

Bænin er um það: Guð er máttugur - ég brást honum - ég biðst fyrirgefningar.

Um þetta snýst Gamla testamentið.

Leyfum Manasse Júdakonungi að hafa lokaorðin í yfirferðinni um þetta stórkostlega ritsafn:

Drottinn, almáttugi guð feðra vorra,
Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs
og réttlátra niðja þeirra.
Með boði orðs þíns hlekkjaðir þú hafið, 
lokaðir undirdjúpunum og innsiglaðir þau
með óttalegu og undursamlegu nafni þínu.
Allt óttast þig
og skelfur frammi fyrir almætti þínu.
Enginn afber hátign dýrðar þinnar
og enginn syndari stenst ógn reiði þinnar.
En náð þín er ómælanleg
og fyrirheit þín órekjandi.
Því að þú ert Drottinn, Hinn æðsti,
samúðarríkur, seinn tll reiði
og mildur á miskunn.
Þegar menn líða fyrir syndir sínar
endurmetur þú viðhorf þitt.
Þú, Drottinn, hefur af gnægð mildi þinnar og gæsku
heitið þeim sem brotið hafa gegn þér
að þeir megi iðrast og fyrirgefningu hljóta.
Þú hefur afráðið af mikilli miskunn
að syndarar megi iðrast og hljóta hjálpræði.
Vissulega krafðist þú, sem ert Guð réttlátra,
ekki iðrunar af hinum réttlátu,
af Abraham, Ísak og Jakobi
sem syndguðu aldrei gegn þér.
En af mér krefst þú afturhvarfs
því að syndari er ég.
Syndir mínar eru fleiri en sandkorn á sjávarströnd.
Brot mín gegn lögmálinu, Drottinn, verða ekki talin,
þau eru óteljandi.
Ég er ekki þess verður að hefja upp augu
og horfa til himins
sakir alls ranglætis míns.
Ég er þjakaður af þungum járnfjötrum
svo að ég má eigi höfuð hefja sakir synda minna.
Ekkert léttir þeim af mér
því ég egndi þig til reiði
er ég gerði það sem illt er í augum þínum.
Ég reisti viðurstyggileg skurðgoð
og fjölgaði þeim stórum.
Nú beygi ég kné hjartans
og bið þig að auðsýna mér miskunn þína.
Ég hef syndgað, Drottinn, syndgað
og viðurkenni það sem ég hef af mér brotið.
Ég ákalla og bið þig:
fyrirgef mér, Drottinn fyrirgef,
lát mig eigi glatast vegna afbrota minna.
Minnstu ekki synda minna
og ver mér eigi að eilífu reiður.
Dæm mig ekki niður í undirdjúp jarðar
því að þú, Guð, ert Guð þeirra sem iðrast.
Þá munt þú sýna á mér alla gæsku þína
er þú bjargar mér af mikilli miskunn
þótt ég sé óverðugur.
Ég mun sífellt lofa þig svo lengi sem ég lifi,
allir herskarar himna syngja þér lof,
þín er dýrðin að eilífu. Amen.

Önnur Makkabeabók

More is More


Textinn (á ensku – apókrífu ritin eru ekki á íslensku á netinu)
Kynning

Hún er kölluð „Önnur Makkabeabók,“ ekki „Seinni“, þó aðeins tvær séu hafðar með hér. Það stafar af því að M3 og M4 eru til en eru svo apókrífar að þeim er nánast allsstaðar útskúfað úr kanónunni. Hér er lesanda frjálst að mynda hugrenningatengsl við Police Academy. Eða Highlander jafnvel. Að sjálfsögðu á eigin ábyrgð.


Eða kannski frekar við Saw-seríuna, því hér eru pyntingar og hrottaskapur í talsvert meiri forgrunni en í öðrum bókum Biblíunnar. Það er enn meira áberandi fyrir þá sök að hér er sögð nokkurnvegin sama saga og í fyrri hluta M1, af ofsóknum gegn Gyðingum á vegum Antíokkusar IV og uppreisn Júdasar Makkabeusar.


Stíllinn og frásagnarhátturinn er jafnvel enn „nútímalegri“ en í M1. Þetta er lipur og auðlesinn texti, en stærsta breytingin er samt sú hvað höfundur veifar gildisdómavopninu oft og mikið. Talar um „mannhunda“, „hrakmenni“ og fleira skrautlegt þegar þarf að mála óvini sterkum litum.


Það er heldur ekkert dregið úr þegar kemur að lýsingum á framferði þeirra. Það fer frá því að vera all-sakleysislegt frá okkur séð, eins og þegar hellenskt þenkjandi æðstiprestur:


… reyndist óðfús að reisa íþróttamannvirki undir sjálfri háborginni og fylkti um sig göfugustu æskumönnum, en þeim leyfðist nú að bera hatta … (4. 12)


yfir í grimmilegar kúgunar- og niðurlægingaraðgerðir á vegum Antíokkusar:


Einna virtastur af fræðimönnunum var Eleasar. Hann var aldraður maður maður og sviphreinn. Hann var þvingaður til að opna munninn og svínakjöti troðið upp í hann. (6. 18)


Hámarki ná svo þessar lýsingar í löngum kafla þar sem sjö bræður eru pyntaðir til dauða fyrir framan móður sína til að reyna að fá þau til að neyta hins forboðna svínakjöts. Öll sýna þau mikla trúfesti. Hér mælir móðirin til sonanna:




Ég veit ekki hvernig þið urðuð til í lífi mínu. Ekki var það ég sem gaf ykkur líf og anda og ekki kom ég skipan á frumefnin sem þið eruð úr. Það er skapari heimsins sem mótar manninn þegar hann verður til og ákvarðar tilurð allra hluta. Þess vegna mun hann í miskunn sinni gefa ykkur anda og líf að nýju fyrir það að fórna ykkur fyrir lögmál sitt. (7. 22–23)

Lýsingarnar á dauða drengjanna eru ekki falleg lesning. En trúarbragðanördinn hnýtur um að hér er talað um framhaldslíf, sem almennt er ekki á dagskrá í Gamla testamenntinu. Það lætur einnig á sér kræla í orðum sögumanns um framferði Júdasar eftir eina orrustuna þegar hann lætur:


... alla sína menn skjóta saman. Urðu það tvö þúsund drökmur silfurs sem Júdas sendi til Jerúsalem til að kosta syndafórn. Þetta gerði hann vel og skynsamlega því að hann hafði upprisuna í huga. Ef hann hefði eigi vænst þess að hinir föllnu risu upp hefði það verið óþarfi og heimska að biðja fyrir látnum. Auk þess leit hann svo á að dýrleg umbun biði þeirra sem sofna í trú. Heilög og fróm hugsun er það. Þess vegna lét hann færa sáttarfórn fyrir hina látnu til að þeir leystust frá syndum sínum. (12. 43–45)

Það er eftir þessa skelfingu með drengina sem uppreisn Júdasar Makkabeusar hefst fyrir alvöru. Atburðarásin er ekki mikið frábrugðin þeirri í M1, en lýsingarnar eru litríkari og Guð er óneitanlega sýnilegri. Hér birtist dularfullur riddari á hvítum hesti í fylkingarbrjósti hersins þegar minnst varir (11. 8). Veikindin sem draga Antíokkus IV til dauða eru líka mun skýrar skrifuð á reikning Drottins. Og lýst af umtalsvert meiri meinfýsni:

Dómur himinsins var sannarlega með í þeirri för. Konungur sagði nefnilega í drambi sínu: „Ég skal gera Jerúsalem að fjöldagröf Gyðinga um leið og ég kem þangað.“ En Guð Ísraels, sem er alskyggn Drottinn, laust hann ósýnilegri og ólæknandi meinsemd. Hafði konungur vart sleppt þessum orðum þegar hann gat tæpast af sér borið fyrir iðrakvölum og innantökum. … Þótt hann væri enn á lífi skriðu ormar úr augum hins óguðlega og holdið leystist af honum með mikilli þjáningu og kvöl. Fnykurinn sem lagði af rotnandi holdi hans varð hernum óbærilegur. Litlu fyrr hafði hann talið sig geta náð til stjarna himinsins. Nú gat enginn borið hann vegna daunsins sem af honum lagði. (9. 4–10)


Don’t mess with da God!


Gróteskar lýsingar eru ófáar. Hér er hetjudauði öldungsins Rasís:


… þar sem hersveitin var að ryðjast inn um dyrnar stökk hann óttalaus upp á virkismúrinn og varpaði sér djarfur ofan á mannfjöldann fyrir neðan … stóð hann upp og hljóp í gegnum mannþyrpinguna, þótt blóðið rynni í lækjum og sárin væru mikil, og nam staðar uppi á þverhníptum hamri. Þo að honum væri næstum blætt út dró hann sjálfur innyflin út, tvíhenti þau og varpaði þeim á mannfjöldann. Ákallaði hann Drottinn lífs og anda og bað hann að gefa sér það að nýju sem hann nú missti. Með þessum hætti lét hann lífið. (14. 43–46)


Bókinni lýkur með sigri Júdasar og borgina helgu í höndum Gyðinga. 


Þetta er að mörgu leyti dæmigerður „sequel“. Meira ofbeldi, hástemmdari tónn, en innihaldið a.m.k. ekki meira en í fyrirrennaranum.

Vel þess virði samt fyrir unnendur hasars.


6.18.2014

Fyrsta Makkabeabók


Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð

Textinn (á ensku – apókrífu ritin eru ekki á íslensku á netinu)
Kynning

Í þessari sögubók segir frá sjálfstæðis- og sjálfsmyndarbaráttu Gyðinga í selevkídaríkinu, sem varð til þegar heimsveldi Alexanders mikla liðaðist í sundur að honum látnum.

Þetta er kunnuglegur þráður sem hér er spunninn. Gyðingar í stríði við nágranna sína og stórveldi sem ráða þeim í raun. En ekki síður við undanvillinga úr eigin röðum. 

Eins og áður lyktar flestum bardaganna með frækilegum sigrum hinna útvöldu, enda heitið á heillakarlinn í himninum. Hvort sem það er Júdas Makkabeus eða bræður hans Jóhannes og Símon sem stýra liðinu, oftast gegn ofurefli heiðingja.

Ýmislegt hefur þó breyst í heiminum frá því fyrstu stríðin voru háð, svona 1400 f.kr, þangað til Júdas Makkabeus fær Guð með sér í lið til að stöðva menningarlega kúgun Selevkídakóngsins Antíokkusar fjórða á annarri öld f. kr.

Hér er til að mynda talað mikið um stríðsvélar, umsátursturna og allskyns stórvirk tól sem bronsaldarmenn réðu ekki við. Og í einni af lykilorrustunum koma fílar í fyrsta sinn við sögu í biblísku stríði. Svalt.

Það sem setur allt í bál og brand er síðan eithvert nútímalegasta deiluefni sem um getur.

Þetta var nefnilega ekki síst fjölmenningarstríð.

Þó Selevkídaveldið væri víðfeðmt var rótarstaða menningarinnar hellensk. Þannig voru grísk áhrif sífellt að verða meira áberandi og aðþrengjandi fyrir þá sem vildu lifa gyðinglegu lífi.

Margir Ísraelar höfðu ekkert við þetta að athuga, jafnvel ekki að spóka sig naktir í nýbyggðum íþróttamannvirkjum að hellenskum hætti. Verst hvað sáttmálinn við Guð var’ sýnilegur við svoleiðis kringumstæður:

Byggðu þeir íþróttaleikvang í Jerúsalem að heiðinni fyrirmynd, létu gera sér forhúð og gerðust fráhverfir sáttmálanum heilaga. (1.14–15)

Já, blessaður rasisminn getur verið driffjöður í fegrunarlækningum. 

Það sauð samt ekki upp úr fyrr en Antíokkus IV rændi musterið, setti setulið í Jerúsalem og bannaði trú, rit og siði Gyðinga, sem og allra annarra. Allir skyldu semja sig að sið hinna ríkjandi. 

Það er aldrei gott plan.

Hinn rétttrúaði Mattatias og hans fólk hefur andóf, í fyrstu aðallega gegn undanvillingum í eigin röðum, drepa þá sem tilbiðja aðra guði, umskera drengi sem þeir klófesta. En sonur hans, Júdas Makkabeus, tekur upp keflið og uppreisnin hefst fyrir alvöru. 

Allt eru þetta augljóslega hryðjuverkamenn.

Það er svo sem óþarfi að reka gang mála í þessum stríðum í smáatriðum. Þau eru æsileg og frækileg og skelfileg og ógeðsleg eins og öll stríð. Orustur og umsátur, borgir brenndar og rændar af miklu kappi. Auk þess er flækjan á köflum allflókin, enda eru samhliða þessu í gangi allskyns skærur milli Selevkída og Ptólemaja (egypta), fyrir utan öll innanflokksátökin. Og svo er kominn nýr krakki í bekkinn:

Orðstír Rómverja barst Júdasi til eyrna. Var mikill herstyrkur þeirra rómaður og af því látið hve góðgjarnir þeir væru öllum bandamönnum sínum, þeir veittu sérhverjum nauðleitarmanni vináttu sína ... (8. 1)

Það er nefnilega það. Júdas og félagar ákveða að gera samkomulag við þessa spennandi og góðgjörnu nýliða, og reyndar Spartverja líka. Og merkilegt nokk þá eru bæði þessi veldi meira en til í að vera vinir þessarar sérvitru smáþjóðar. 

Svona svara Rómverjar t.d. sendimanni Makkabea:

Vel vegni Rómverjum og þjóð Gyðinga til sjós og lands um aldur og ævi. Sverð og óvinir séu þeim fjarri. En beri ófrið fyrr að höndum Rómar eða einhvers bandamanns Rómverja ...einhversstaðar í ríki þeirra þá skal þjóð Gyðinga veita afdráttarlausan stuðning eftir því sem aðstæður krefja. ... Hið sama skal gilda ef ófrið ber fyrr að höndum þjóðar Gyðinga ... (8. 23–27)

En það eru ekki bara fjarlæg stórveldi sem vilja vera í bandalagi með okkar mönnum. Hinar stríðandi fylkingar í glímunni um eftirhreytur Alexandersveldisins eru líka æstar í að hafa þá í sínu liði. Stór hluti bókarinnar eru hinar ýmsu vinabeiðnir og svör við þeim. Hér er t.d. bréf til Jónatans frá Alexander, sonar hins hataða Antíokkusar IV:

„Vér höfum frétt að þú sért hinn mesti kappi og og þess verður að vera vinur vor. Vér höfum því í dag skipað þig æðsta prest þjóðar þinnar og veitt þér að kallast vinur konungs. Ætlum vér þér að annast málefni vor og varðveita vináttu vora.“

Einnig sendi hann Jónatan purpuraskikkju og gullkórónu. (10. 19–20)

Það er eins og Gyðingar hafi verið í einhverskonar lykilstöðu eftir frækilega sigra Júdasar M. Stríðsherrar beggja vegna allra víglína vilja vera vinir þeirra, bjóða þeim allskyns fríðindi, frelsi til sinnar sérvisku, skattfrelsi, jú neim it. Margt af þessu er reyndar svikið jafnharðan, en þó ekki loforð Rómar og Spörtu sem aldrei reynir reyndar á.

Bókinni lýkur snögglega á því að valdafíkinn Gyðingur drepur Símon og tvo sona hans, í tilraun til að hrifsa völdin í sínar hendur. Hin útvalda þjóð heldur áfram að vera eins og sjúk fjölskylda: sameinuð út á við en sjálfri sér sundurþykk.

Í gegnum þetta hegða Gyðingarnir sér eins og dæmigerð smáþjóð með ofvaxna trú á mikilvægi sitt. Þeir veita ýmsum, en er auðvitað fyrst og fremst umhugað að halda sinni menningu lifandi - sem reynslan kennir þeim að er ævinlega og alltaf tvísýnt um, þrátt fyrir hina himnesku forgjöf.

5.24.2014

Síraksbók


Ekki gera hitt og ekki þetta

Textinn (á ensku – apókrífuritin eru ekki á netinu á íslensku)
Kynning

Eins og ég hef áður sagt er lögð á það höfuðáhersla í svokölluðum „spekiritum“ að lofsyngja nefnda speki. Hún er hin æðstu gæði, upphaf og endir alls og það sem mest má prýða einn mann. Gott ef hún er ekki sjálft „logosið“ sem var í upphafi hjá Guði – og var Guð.

Í Síraksbók er haldið áfram á þessari braut. En að auki er boðið upp á vænan skammt af raunverulegri speki saman við söluræður um mikilvægi hennar.

Og vandast þá málið.

Ekki það að það eru alveg gagnleg og skynsamlegt hollráð í spakmælasafni Jesús Sírakssonar (eins og heimildarmaðurinn er kallaður). Mörg þeirra eiga sér skýrar rætur í boðorðunum. Ekki ljúga, ekki stela, ekki girnast, vertu prúður við pabba og mömmu (já prúðUR - þessu er alfarið bein til karlmanna).

Og svo slatti af algerlega almennum mannasiðaráðum. Um hógværð, orðheldni, þagmælsku. Um að varast geip og mont.

Og svo að vera duglegur að berja þrælana sína og börnin. 

Já og vera hræddur við konur. 

Og ríkt fólk. 

Og ókunnuga.

Sæmilega siðað fólk getur auðveldlega sigtað góðu ráðin frá hinum „ógeðslegu“. En spurningin vaknar, eins og svo oft í lestri á þessum textum: hvaðan kemur manni viskan til að velja það gagnlega umfram hið glórulausa? Ekki er hægt að sækja þá „speki“ í textana sjálfa, svo mikið er víst.

Það er erfitt að samþykkja að þessi hversdagslegu og heimóttarlegu hollráð um hvernig þú getir varðveitt og eflt (en þó aðallega varðveitt) orðspor þitt í heimi fullum af svindlurum, hræsnurum og illmennum, séu þessi djúpa viska sem hamrað er á að sé hin umrædda „speki“.

Og það er eitt skírt þema í þessum textum að umbun Guðs fyrir rétta breytni birtist alls ekki í veraldlegri velgengni – öðru nær liggur manni við að segja stundum. Svo mjög er hamrað á því hvað hinir ríku og voldugu er vondir og varasamir.

Mannskilningur Síraksbókar er vægast sagt dapurlegur. Samfélagið sem hér er lýst 
 fyrirgefur ekki yfirsjónir. Eða það finnst höfundinum allavega. Hvaðan ætli það – og hann – hafi þá speki …?

Það er auðvitað skemmtilegt að rekast á skýrar hliðstæður við hin hundheiðnum hávamál:

Margt veit sá maður er víða fór,
viturlegar eru reynds manns rætur.
Lítið veit sá er reyndi fátt,
víðförull maður safnar hyggindum.
Fjölmargt sá ég á ferðum mínum,
ég veit fleira en ég greini frá. (34. 9–12)

Og ráðleggingarnar eru þannig séð ekkert glórulausar (allavega ekki allar). En maður sér t.d. enduróm af þeim í einni frægustu/illræmdustu hollráðaþulu heimsbókmenntanna, þar sem realpólitíkusinn siðlausi, Pólóníus, sendir son sinn út í heim með þetta veganesti.

Vel meint (mögulega), en munum samt að Pólóníus er ekki fyrr búinn að gefa þessi ráð en hann ræður mann til að njósna um son sinn. Hvað heldur hann að hann sé? Guð?

Þetta fullkomna fólk er svo skrítið ...

5.10.2014

Speki Salómons


Viskustykki

Textinn
Kynning

Það verður seint sagt um hin svokölluðu „spekirit” að þar sé útdeilt visku úr troðnum þverpokum. Það er meira verið að lofsyngja hina andlegu spekt og tjá velþóknun Drottins á þeim sem yfir henni búa heldur en að tjá í hverju nákvæmlega spekin er fólgin. Þá sjaldan spekiritahöfundar segja eitthvað spaklegt bendir það yfirleitt til þess að orðið sé nokkurnvegin samheiti við guðhræðslu, réttlæti og lögmálshlýðni.

Að þessu sögðu þá er rétt að geta þess að hin apókrífa „speki Salómons“ er alls ekkert vond eða leiðinleg bók. Hún er t.d. ágætlega skrifuð og örlítið frábrugðin kanónískum bókum í stíl. Sennilega yngri en þær flestar. Svo er hún stutt.

Innihaldið er þó að mestu hefðbundið predikunarstöff. Guðlausir fá orð í eyra, þeir sem ekki er gefin sú spekt að þekkja Guð fá gula og/eða rauða spjaldið og svo er sagan um plágur Egyptalands og flóttann þaðan rifjuð upp enn einu sinni, að þessu sinni með áherslu á þá faróísku flónsku að dýrka pöddur en ekki Drottinn.

Hér eru samt fjögur efnisatriði sem fönguðu athygli mína:

I – Framhaldslíf

Það fer lítið fyrir lífi eftir dauðann í Gamla Testamentinu. Miðað við hvað líf eftir dauðann, umbun og refsing er miðlæg í kristninni og raunar ansi mörgum trúarbrögðum, þá sker gyðingdómur sig rækilega úr. Í þessari bók er hinsvegar varið talsverðu plássi í þetta. Fyrist kemur kafli þar sem framferði hinna guðlausu er lýst og rakið til þess að:



Í villu sinni segja þeir með sjálfum sér:

stutt og dapurlegt er líf vort
og engin lækning finnst á dánardægri
né þekkist neinn sem leysir frá helju.
Vér urðum til af hendingu … (2. 1–2)

Eins og stendur hjá Dostojevskí þá dregur þessi ímyndaði guðleysingi þá ályktun að úr því Guð sé ekki til sé allt leyfilegt og hefst þegar handa við að svalla og kúga hina guðhræddu. 

Þá er að segja frá afdrifum trúaðra:

En sálir réttlátra eru í hendi Guðs
og engin kvöl mun ná til þeirra.
Í augum heimskingjanna eru þeir dánir.
Brottför þeirra er talin ógæfa
og viðskilnaður þeirra við oss tortíming
en þeir eru í friði.
Enda þótt þeim væri refsað að mati manna
eiga þeir vissa von um ódauðleika.
Eftir skammvinna hirting munu þeir njóta mikillar gæsku … (3. 1–5)

Jamm. Ekki bara himnaríki heldur hreinsunareldurinn mættur, eða þannig má skilja þetta. Engin furða þó Speki Salómons sé kanónísk hjá kaþólskum en hulin (oss) evangelískum.

Síðan gengur reyndar bókin lengra en kristileg kenning þegar kemur að viðfangsefnum hinna sælu íbúa himnaríkis:



Hinn réttláti, sem dáinn er, mun dæma þá óguðlegu sem á lífi eru. Sá sem deyr fyrir aldur fram mun dæma ranglátan öldung. (4. 16)

Fólk þarf sumsé ekki bara að óttast refsivönd Drottins, heldur munu hefnigjarnir safnaðarmeðlimir taka þátt í dómarastörfunum. Úff.

II – Óskilgetnir

Eftir þennan kafla um fávísi guðlausra og umbun réttlátra kemur nokkuð harkaleg útlistun á stöðu óskilgetinna barna. Þau eru semsagt verri en engin:



Sæl er óbyrjan sem óflekkuð er
og aldrei hefur sængað í synd.
Hún mun hljóta umbun þegar Guð vitjar sálnanna.
Sæll er geldingurinn sem eigi hefur framið lögmálsbrot … (3. 13–14)

Og:



Ávöxtur heiðarlegrar iðju er lofsverður
og rótin, sem viskan sprettur af, er óhagganleg.
En hórbörn munu ekki ná þroska
og afsprengi legorðsbrota munu afmáð.
[...]
Deyi þau fyrir aldur fram eiga þau enga von
og enga huggun á skapadægri. (3. 15–18)

Þetta þykir manni nú nokkuð hörð kenning. Vafalaust sett fram til að hafa hemil á hinum fullorðnu, en bitnar nú engu að síður á blessuðum börnunum, sem verða einhverskonar gíslar Guðs til að hafa stjórn á greddu lýðsins. Ljótt.


III – Vísindi

Speki er loðið hugtak eins og fram hefur komið. Hún rennur áreynslulaust saman við nánast öll önnur mikilvæg og jákvæð hugtök, og missir þá sinn sérstaka karakter og merkingu. Hér er hinsvegar kafli þar sem talið er upp hvað Guð hefur gefið höfundi í formi speki:



Í hendi hans erum vér og orð vor,
allt vort vit og verkleg mennt.
Sjálfur gaf hann mér óbrigðula þekkingu á öllu,
að þekkja byggingu heims og orku frumefnanna,
upphaf, endi og miðju tíðanna,
breytingu sólargangs og árstíðaskipti,
hringrás ársins og stöðu stjarna,
lífsháttu dýranna og æði villidýra,
kraft andanna og hugsanir manna,
tegundir jurtanna og undramátt róta. (7. 16–20)

Svei mér ef þetta er ekki ca. námsskrá Náttúrufræðibrautar í MA frá því í gamla daga. Fyrir utan reyndar þýsku. Guð er semsagt ekki bara vitur, hann er líka góður.

Svo verður þessi fallegi samsláttur:



Spekin, sem allt hefur skapað, kenndi mér það (7. 22)

Hér er spekin ekki gjöf Guðs, heldur sjálf Guð. Allt rennur saman „í eina undursamlega heild“ eins og skáldið sagði.

IV – Skaparinn


Framtíðarhorfur hinna trúlausu eru ekki bjartar samkvæmt þessari bók. Það er því ekki að undra þó höfundur reyni að sýna þeim fram á villur þeirra vega. Hann reynir líka að skilja og greina hvað valdi því að fólk fari svona gróflega mannavillt að tilbiðja dýr, náttúrufyrirbæri og heimatilbúin skúrgoð, í stað Guðs sjálfs. Þar setur hann snyrtilega fram hin frægu „hönnunarrök“ (argument from design) fyrir tilvist Guðs:



Afglapar voru allir í eðli sínu sem þekktu ekki Guð og gátu ekki getið sér til um þann sem er, af fegurð þess sem augun litu, né fengu hugboð um meistarann af verkum hans. Þeir töldu eldinn, vindinn, kvikt loftið, stjarnhvelfinguna, beljandi hafið eða ljósbera himins vera guðina sem stýra heimi. Fyrst þeir hrifust svo af fegurð þessa að þeir álitu það guði, þá ættu þeir að skilja hve miklu fremri þessum fyrirbærum sé er sem ríkir yfir þeim. [...] Fyrst þeim tókst að ná svo langt í þekkingu að þá gat rennt í grun í eilífðina, hvers vegna fundu þeir ekki fyrr Drottinn alls þessa? (13. 1–9)

Þetta sannfærir auðvitað engan, en það er áhugavert að velta fyrir sér að röksemdir fyrir tilvist Guðs hafa fyrst og fremst slagkraft gagnvart þeim sem samþykkir að það sé til einhver guð eða guðdómur. Ef þú ert tilbúin(n) að hugsa um mikilfengleik náttúrunnar sem yfirnáttúrulegan er hægt að vísa þér á höfundinn. Ef þér dugar að elska fyrirbærin fyrir fegurð og stórfengleik þeirra sjálfra bíta hönnunarrökin ekki. 

Það er nú mín speki.

3.06.2014

Júdítarbók

Höfuðlaus her

Textinn
Kynning

Eftir lestur Tóbítsbókar og svo Júdítar- rennur fyrst almennilega upp fyrir manni hvað sú fyrrnefnda er sérstök í samhengi Biblíunnar. Í Júdítarbók snúa helstu stílgallar frásagnarbókanna aftur með fullum þunga. Orðmargar og smásmyglislegar upptalningar, nákvæmni (ef það er rétta orðið) um smáatriði sem snerta ekki meginefnið nema lauslega.

Tökum dæmi. Í upphafi bókarinnar er talað um að Nebúkadnesar sé keisari yfir Assýríuveldinu (ég veit, meira um það síðar) og á sama tíma ríki Arpaksad yfir Medaveldinu. Svo kemur:

Hann reisti múr af höggnum steini umhverfis Ekbatana. [so far so good, innskot mitt] Steinarnir voru þriggja álna breiðir og sex álna langir. Hann hafði múrinn sjötíu álna háan og fimmtíu álna breiðan. Við borgarhliðin reisti hann hundrað álna háa turna sem voru sextíu álna breiðir neðst. Hliðin hafði hann sjötíu álna hjá og fjörutíu álnir á breidd. Herir hans gátu farið um þau til bardaga búnir og með fylktu fótgönguliði. (1. 2–4)

Þetta væri auðvitað allt gott að vita ef ekki fyrir það að áður en fyrsta kapítula er lokið hefur Nebúkadnesar sópað þessari borg í burtu og sagan eiginlega ekki byrjuð. En hva, það er hverjum manni hollt að vita hlutföllin í fallinni borg. Vei, vei!

Hinum létta og mjúka stíl Tóbítsbókar er sem sagt ekki til að dreifa hér.

Þar fyrir utan er Júdítarbók spennandi og krassandi. Og jú, hún hefur eitt frásagnarelement sem er fáséð í þessum textum: Sögusviðið flakkar milli góðu gæjanna (Gyðinga í borginni Betúlúu) og innrásarhersins sem Hólófernes fer fyrir og situr um borgina þegar Júdít, hin fagra og guðhrædda (en að öðru leyti allsendis óhrædda) ekkja, grípur til sinna ráða.

Þetta er allt spennandi, og aðalpersónan glæsileg í alla staði. En áhugafólk um trúverðugleika (þ.e. þeir sem líta á Biblíuna sem sannleiksuppsprettu) gæti lent í smá þrautum með tíma- og aðra sagnfræðióreiðu:

  • Hér er Nebúkadnesar (Babýlóníukeisari á 6. öld f. kr) sagður stjórna Assýríuríki frá Níneve (7. öld f. kr). 
  • Svo virðist sem staða mála í Júdeu sé eins og eftir heimkomu og musterisendurreisnina (5. öld f. kr). 
  • Og hershöfðinginn Hólófernes var víst til, en hann var víst óvart í þjónustu Xerxesar III Persakóngs (4. öld f. kr). 

Fyrir okkur sem erum bara að lesa er þetta ekkert verra en t.d. allskonar hjá Shakespeare. Í Simli konungi er t.d. engin leið að greina í sundur Bretland fyrir innrás Rómverja, Rómaveldi á tímum Kládíusar og Ítalíu endurreisnartímans. Og hverjum er ekki sama?

þetta er semsagt krassandi saga um sigur kjarks og hugvits yfir ofureflinu. Hin fróma ekkja Júdít kemur sér í mjúkinn hjá hershöfðingja umsátursliðsins, gerir hann vitlausan í sig og grípur svo tækifærið eftir mikla veislu þegar gaurinn er orðinn vel fullur og sneiðir af honum hausinn.

Sjáið þið ekki atriðið fyrir ykkur? Reffar: Raiders of the Lost Ark og The Firm, svona til dæmis. Fyrir utan þetta með hausinn reyndar. Já og svo mistókst Marion að sálga René í Indianajones-myndinni. En samt, það er hugarfarið sem gildir.

Það er ekkert sérlega trúarlegt við bókina, fyrir utan að aðalsöguhetjan er með afbrigðum fróm, og skúrkurinn dýrkar húsbónda sinn. Það pirrar reyndar Nebúkadnesar alveg svakalega þegar fólk viðurkennir ekki að hann sé guð, og deilir hann þeim persónuleikagalla með … ja, þið vitið hverjum.

Svona t.d. gerir Nebú alveg trylltan (og verður reyndar kveikjan að herferðinni sem endar með gróflega lágvaxnari leiðtoga hennar):

Þeir voru alls óhræddir við hann því að í augum þeirra var hann eins og hver annar maður. (1. 11)

The nerve!

Reyndar er ræða Júdítar þar sem hún stappar stálinu í sína umsetnu samborgara ein besta og skýrasta útlistun sem ég man eftir á röksemdum hinna guðhræddu þegar þeir skilja ekki af hverju þeir lenda í skítnum til jafns við aðra. Þeir hafa ákveðið að þrauka fimm daga enn í vatns- og matarlausu umsátrinu og heita á Guð að frelsa sig, en gefast síðan upp ef engin himnahjálp berst. Skamm, segir Júdit:

Hlíðið á mig, þið sem eruð leiðtogar Betúlúubúa. Ekki gerðuð þið rétt að tala þannig til fólksins í dag og sverja Guði þann eið að gefa óvinunum borgina á vald ef Drottinn veitir okkur ekki hjálp innan þessa tiltekna tíma. Hverjir haldið þið að þið séuð að freista Guðs, eins og þið hafi gert í dag, og setja ykkur sjálfa í Guðs stað meðal mannanna? Þið eruð að reyna að rannsaka almáttugan Drottin. Aldrei að eilífu munuð þið verða nokkru nær. Ekki getið þið einu sinni komist að raun um hvað leynist í djúpi hjarta mannsins né heldur skilið hugrenningar hans. Hvernig hyggist þið rannsaka Guð sam allt þetta hefur skapað, skilið hugsanir hans og komast að því sem hann ætlast fyrir? Það verður aldrei. (8. 11–14)

Semsagt: Vegir Guðs eru órannsakanlegir, og það hleypur í hann kergja ef við reynum að kortleggja. Eins og dæmin sanna.

Þetta er skýr og vel orðuð útlistun þessara röksemda. Ég sagði ekki að þær væru röklega skotheldar. Enda tekur Júdít til sinna ráða, innblásin af trú sinni og trausti um stuðning Guðs við aðgerðirnar.

Þegar kona heldur heim á leið í partídressinu með haus kvalarans í farangrinum skiptir minnstu máli hvort eldsneytið sem knúði sverðið í gegnum hálsliðina var placebo eða alvöru stöff.

3.01.2014

Tóbítsbók

Fugladrit og fiskigall


Textinn [á ensku því miður, Apókrífu bækurnar ekki aðgengilegar á íslensku á netinu]

Hin apókrífa Tóbítsbók er hvorki hluti af „kanón“ Gyðinga né lúterskra. Reyndar er form hennar og innihald þannig að ef hún saknar þess að tilheyra stóru ritsafni gæti hún alveg eins gengið í Grimmsævintýrin og Biblíuna.

Hér er frekar hreinræktað ævintýri á ferð.

Hinn rétttrúaði og guðrækni Tóbít er einn af þeim sem Assýríumenn nema á brott úr Norðurríkinu, en hann er fljótt kominn í ágætt djobb í innkaupadeild keisarans. Það er dálítð ströggl að vera Kosher og guðrækinn í þessu nýja landi, þar sem fólk (allavega Gyðingar) eru ekki grafnir eftir dauðann heldur hent út fyrir borgina. 

Tóbít þrjóskast við og lendir í klandri út af því. Þessu stússi óskylt hendir hann nokkuð sjaldgæf ógæfa:

Um nóttina baðaði ég mig, fór út í garð og lagðist til svefns undir garðveggnum. Sakir þess að heitt var í veðri hafði ég ekkert á höfðinu. Ég vissi ekki að spörvar höfðust við í veggnum fyrir ofan mig og volgt drit þeirra féll í augu mér og myndaði hvita himnu. Ég leitaði hjálpar af læknum en því fleiri smyrsli sem þeir báru á augun þeim mun meira spillti himnan sjóninni uns ég varð alblindur (2. 9–10)

Á sama tíma annarsstaðar í Assýríu er óvætturinn Asmódeus að hrella Söru, frænku Tóbíts og drepa fyrir henni eiginmenn í stríðum straumum áður en þeir ná svo mikið sem ganga í eina sæng með henni. Líkt og Tóbít er Sara guðrækin og bænir þeirra beggja rata rétta boðleið og Guð gerir út engil, líkt og biskup gerði út mann á Snæfellsnesið löngu síðar.

Erkiengillinn Rafael er reyndar öllu öflugri erindreki en Umbi, þó í dulargerfi sé. 

Undir hans leiðsögn fer Tóbías Tóbítsson í leiðangur eftir sjóði sem faðir hans hafði komið í geymslu. Á leiðinni gerist þetta:


Drengurinn fór ofan að ánni til að þvo fæturna í fljótinu. Þá stökk risavaxinn fiskur upp úr ánni og ætlaði að bíta fótinn af unga manninum sem veinaði upp yfir sig. En engillinn sagði við unglinginn: „Gríptu fiskinn og haltu honum fast.“ Unglingurinn greip fiskinn og bar hann á land. „Slægðu fiskinn“ hélt engillinn áfram, „og taktu gallið, hjartað og lifrina og hirtu það en hentu öðru innvolsi … Hjarta og lifur má brenna ef karl eða kona verða fyrir ásókn ára eða ills anda. það sem sækir að flýr þá reykinn og lætur þau í friði um alla framtíð. Gallinu má smyrja í augu manns sem hefur fengið hvítar himnur á þau. Síðan má blása á himnurnar og læknast þá augun“ (5. 3–9)


Ég þarf ekkert að teikna upp fyrir ykkur hvernig framhaldið verður – þetta rennur allt eftir langslípuðum brautum ævintýrisins. Sara og Tóbías gifta sig og lifa af brúðkaupsnóttina, Tóbít fær sjónina og allir lifa hamingjusamir til æviloka.

Það er skemmtilegur, afslappaður og mannlegur tónn í þessari snotru sögu. Allar persónurnar eru viðfelldnar. Samtölin eru vel skrifuð og óvenju raunsæisleg, t.d. þessar orðahnippingarTóbíts og konu hans þegar þeim er farið að lengja eftir syninum:


„Vertu hljóð og hafðu engar áhyggjur, systir góð,“ sagði Tóbít sífellt. „Það amar ekkert að honum. Eitthvað óvænt hefur tafið hann. Maðurinn sem fylgir honum er traustur. Hann er einn af bræðrum okkar. Hafðu ekki áhyggjur af drengnum, systir, hann kemur bráðum”. En hún svaraði: „Þegi þú sjálfur og reyndu ekki að blekkja mig. Drengurinn er dáinn.“ (10 6–7)


Það er þetta „þegi þú sjálfur“ sem jarðtengir textann. Tónn sem ekki er á hverju strái í góðu bókinni.

Meira að segja Guð sjálfur er mannlegur, allavega ó-óskeikull, ef marka má þessi orð Rafaels þegar hann afhjúpar sitt rétta eðli fyrir fjölskyldunni:


„Þegar þið Sara báðust fyrir var það ég sem bar bænir ykkar fram fyrir dýrð Drottinns og minnti hann á ykkur(12.12 – leturbreyting mín)


Meira segja Guð gleymir. Enda í mörg horn að líta. Það er kannski boðskapur ævintýrisins: Ekki gefast upp í bænum ykkar. Guð bænheyrir hinn réttláta.

Þegar hann man og má vera að.