7.30.2013

Jesaja


Þetta verður ekkert sárt

Textinn
Samanburður
Kynning

Með Jesaja hefst nýr kafli í Gamla testamentinu – síðasti hluti þess er að mestu helgaður spámönnunum og spádómum þeirra. Fyrst og mest er Jesajabók.


Við höfum reyndar hitt hann aðeins áður – hann kemur við sögu í Konunga- og Króníkubókum hinum síðari, og er sú saga sem þar er sögð af honum endurflutt í þessari bók. Þar ber hann Hiskía Júdakonungi skilaboð frá Guði og hefur milligöngu um smá kraftaverk. Að öðru leyti er Jesajabók ekki ævisöglegt rit um titilpersónuna heldur safn predikana og ræðna sem honum eru eignaðar. Það gengur ekki á með jarteiknum og stórvirkjum eins og hjá Elía og Elísa, og engum sögum fer um að hann hafi verið uppnuminn í eldvagni til himna eins og sá fyrrnefndi. En þeir skilja heldur ekki eftir sig neina spádóma sem jafnast á við þetta mergjaða rit.

Það er mikill kraftur í þessum textum og að minnsta kosti jafn mikil óreiða. Sjónarhornið flakkar milli Guðs að tjá sig í beinni ræðu, 3. persónuendursögn á því sem Guð hefur við sitt fólk að tala, frásögnum af Jesaja og texta þar sem Jesaja tjáir sig í eigin nafni – sem eru réttnefndir spádómar.

Í dag yrði sá sem talar eins og Jesaja samt sennilega tekinn úr umferð og gefin „Truntusól og -tungl“ eins og skáldið sagði. Sama skáld benti reyndar á að „Jesaja spámaður spáir eins og galinn“.

Forsendur þessa lestrar er hinsvegar ekki að rannsaka trúverðugleika vitnanna. Hér eru menn teknir á orðinu – ef menn segja að Guð hafi sagt eitthvað verður það ekki dregið í efa.

Og þeim gamla liggur svo sannarlega eitt og annað á hjarta.

Það hljómar auðvitað þversagnarkennt, en Jesajabók er kannski fyrsta bók Biblíunnar sem er hreinræktað „trúarrit“. Ekki sagnfræði, ekki þjóðsögur, ekki alþýðlegt heilræðasafn, ekki smásmyglisleg fyrirmæli um hegðun. Hér er ekkert nema útlistanir á fyrirætlunum Guðs í heiminum. Þær eru all-róttækar, eins og hans er von og vísa. Reyndar ekki boðað flóð að þessu sinni – meira svona tangarsókn gegn vonsku heimsins:



a) Nota nágrannaþjóðir hinna útvöldu til að refsa þeim fyrir skúrgoðadýrkun og almennan djöfulgang.

b) Leggja síðan sömu nágrannaþjóðir í rúst.

Það  er ekki víst að það sé tilviljun, en er þetta ekki nokkurnvegin strategía Bandaríkjamanna í Afganistan – að styðjaTalibana til að berja á rússunum og reyna síðan að koma þeim fyrir kattarnef? Vandinn er náttúrulega sá að Guð er almáttugur en hin sjálfskipaða guðseiginþjóð ekki.

Reyndar er Guð í svo miklum vígahug í upphafi bókarinnar að hann kærir sig eiginlega ekki um iðrun lýðs síns – sennilega langþreyttur á sviknum loforðum. Það er engu líkara en jafnvel óguðlegheitin séu á hans vegum:

Þá heyrði ég rödd Drottins. sem spurði:
„Hvern skal ég senda? Hver vill reka erindi vort?“
Ég svaraði: „Hér er ég, send þú mig!“
Hann sagði: „Far og seg þessu fólki:
Hlustið og hlustið en skiljið ekki.
Horfið og horfið en skynið ekki
Sljóvga hjarta þessa fólks
deyf eyru þess
og loka augum þess
svo það sjái ekki með augunum,
heyri ekki með eyrunum
og skilji ekki með hjartanu, 
svo það snúi ekki við og læknist. (6. 6-10)

Einungis örfáir eiga að verða eftir - almennilegt fólk sem byggjandi er á. Þetta er svo sem ekki ósvipað og þegar Nói og fjölskylda stóðu ein eftir, nema að þessu sinni er bara verið að laga til í ranni Ísraels og í stað vatns er það holskefla Assýringa sem hellist yfir lýðinn. 


Hrossalækningar eru líka lækningar.


Stór hluti textans eru lýsingar á þeim hörmungum sem bíða manna. Margt af því er ansi mergjað, annað kannski meira kostulegt, séð með nútimagleraugum hálfkæringsins:



Á þeim degi mun Drottinn raka bæði höfuð- og skapahár
með rakhníf sem hann leigði handan fljóts – með Assýríukonungi –  (7. 20)


Assýrískt vax?

Í framhaldinu hyggst Guð síðan tukta til nágrannaþjóðir síns fólks og lýsir því fyrir Jesaja af mikilli nákvæmni, þjóð fyrir þjóð. Það er nefnilega alveg ljóst í þessum texta – í fyrsta sinn í Biblíunni – að Guð er ekki bara guð Ísraelsmanna (þó þeir séu uppáhalds) heldur bæði eini guðinn og guð allra ef þeir eru til í að tilbiðja hann á tilskilinn hátt:

Á þeim degi verða Ísraelsmenn þriðja þjóðin sem ásamt Egyptum og Assýringum verða blessun á jörðinni miðri. Drottinn allsherjar mun blessa þær og segja: „blessuð sé þjóð mín, Egyptar og verk handa minna, Assýringar, og arfleifð mín Ísrael.“ (19. 24-25)

og síðar:

Útlendingur sem er genginn Drottni á hönd,
skal ekki segja:
„Drottinn skildi mig frá þjóð sinni“. (56. 3)

Allt rímar þetta ágætlega við kristinn skilning þessa texta –  hér er verið að tala til allra. Enda svo sem rökrétt í ljósi þess að Guð er skapari alls mannkyns þó hann hafi síðar farið að gera mannamun í barnahópnum.


Það er í kaflanum um tyftun Babýlóníumanna sem ein af höfuðpersónum dramans skýtur upp kollinum – eða ekki:

Nú ertu fallinn af himni
ljósberi, sonur morgunroðans. 
Nú ert þú að velli lagður,
sigurvegari þjóðríkja (14. 2)


Það þarf reyndar að fara í Jakobsbiblíu til að fá kennitöluna:

How art thou fallen from heaven, 
O Lucifer, son of the morning!
How art thou cut down to the ground, 
which didst weaken the nations!

Þessi sakleysislega vísun, þar sem verið er að hæðast að Babýlóníukóngi og líkja honum við hrapandi stjörnu (Venus nánar tiltekið) hefur víst blandast öðrum arfsögnum og orðið að hinu kosmíska drama um uppreisn á himnum og fallna erkiengilinn – og þær síðan blandast saman við freistarann Satan úr Jobsbók og jafnvel ávaxtasölusnákinn í Eden. Það þarf frjálsar túlkunarhendur til að ná þessu fram – en þær hafa löngum verið nokkuð djarftækar í meðferð þessara texta eins og við vitum.


En sá vondi er ekki sá eini sem hér er kynntur til sögunnar Hér er líka spáð fyrir um komu friðarhöfðingjans Immanúels með kafla sem jafnvel þeir þekkja sem fara bara í kirkju á aðfangadag eða hafa kveikt á útvarpsmessunni við sósugerðina, og byrjar svona:



Sú þjóð sem í myrkri gengur
sér mikið ljós … (9. 1)

Það eru öll litbrigði í þessari stóru og kraftmiklu bók. Ólýsanlegum hörmungum er lýst, ástæður þess að þær eru óumflýjanlegar eru útlistaðar og hamingjan sem mun ríkja þegar aðgerðin er yfirstaðin fær líka pláss. Niðurstaðan virðist haldast í hendur við endurkomu Júdamanna til Jerúsalem, en þó er eins og Jesaja skyggnist lengra:


Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð
og hins fyrra verður ekki minnst framar (65. 17)

Og:

Dýr merkurinnar munu tigna mig,
sjakalar og strútar (43. 20)


Kannski eiga spádómar Jesaja enn eftir að rætast. Kannski talaði Guð við hann og sagði honum jafnvel satt. En á hinn bóginn má vera að réttast hefði verið að „troða hann út með spes-stöðluðu smæli“ og vona að honum liði ögn skár. Það er alltaf spurningin.

Fyrra svarið er það sem við köllum “trú”.

7.21.2013

Ljóðaljóðin

Ástin er eins og sinueldur

Textinn
Samanburður
Kynning

Stóra spurningin um Ljóðaljóðin hlýtur að vera: Af hverju í ósköpunum eru þessi líkamlegu ástarljóð hluti af helgiritasafni bæði Gyðinga og kristinna manna?

Því það er verður ekkert undan því vikist að skilja þau sem ástarljóð - og það af holdlegra taginu. Við horfum á textann eins og hann meini það sem hann segi í þessum lestri. Og þá vaknar óneitanlega þessi ofangreinda stóra spurning.

Það fellur utan erindisbréfs þessa biblíulesturs að rökræða hina allegórísku túlkun beggja trúflokka á textanum. Utan að segja: Það er útilokað að samþykkja að það hafi verið upphaflegt markmið þess sem skrifaði textann að miðla ást Guðs á lýð sínum (gyðingleg hefð) eða ást Krists á kirkjunni (kristin túlkun). Af hverju í ósköpunum að fela erindi sitt svona rækilega?

Er þetta ekki meira eins og að rekast á dónalega limru eftir Hómer eða Dante og taka svo nokkur túlkunarfræðileg heljarstökk til að finna ofurskáldinu eitthvað til afsökunar?

Formið á Ljóðaljóðunum minnir á elstu grísku leikritin. Tvær persónur og kór. Óneitanlega vekur athygli að í „gömlu“ þýðingunni eru persónurnar kallaðar „brúður“ og „brúðgumi“ en í þeirri nýju „hún“ og „hann“. Hvaða texta- og þýðingarfræðilegu rök sem kunna að liggja að baki veit ég ekkert um, en eitt af því áhugaverða við bókina er einnmitt togstreitan milli formsins – sem virkar á köflum eins og einhverskonar brúðkaups-ritúal, og innihaldsins – sem virðist jafnvel snúast um ást í meinum:

Ó, að þú værir bróðir minn
sem móðir mín hefði haft á brjósti.
Hitti ég þig á strætinu, mundi ég kyssa þig,
og enginn fyrirliti mig. (8. 1)

Og

Elskhugi minn knýr dyra 
...
Ég er komin úr kyrtlinum,
ætti ég að fara í hann aftur?
Ég hefi þvegið fæturna,
hvernig ætti ég að óhreinka þá?
Elskhugi minn rétti höndina,
og hjarta mitt ólgar af þrá.
Ég stend upp til að opna fyrir elskhuga mínum,
… 
en elskhugi minn var farinn, horfinn.
Ég verð frávita ef hann hverfur.*
Ég leita hans, en finn hann ekki,
kalla á hann, en hann svarar ekki.
Ég hitti verðina sem ganga um borgina.
þeir slá mig, þeir særa mig,
möttlinum sviptu þeir af mér,
verðir múranna.
(5. 2–8)

Eða þá lokaorðin, þar sem það er ekki hún heldur hann sem þarf að óttast ofsóknir:

Skundaðu, elskhugi minn,
upp til ilmfjallanna
líkur dádýri, líkur hindarkálfi

Reyndar enn skýrar í eldri þýðingunni:

Flý þú burt, unnusti minn,
og líkst þú skógargeitinni
eða hindarkálfi á balsamfjöllum.
(8. 14)

„Hann/hún“ eru komin í stað „brúðar“ og „brúðguma“, en „unnusti“ eldri þýðingarinnar er líka horfinn og „elskhugi“ kominn staðinn. Það ýtir enn lengra í burtu tilfinningunni fyrir að hér sé viðurkennt og „formlegt“ samband.

Ljóðaljóðin lýsa fyrst og fremst lostadrifnum samruna. Þetta er mjög holdlegur, áþreifanlegur, líkamlegur texti. Ástin er þörf fyrir snertingu, dýrkun á útliti, frekar en upphafin samtvinnun sálna. Myndmálið er líka mjög skemmtilega bundið (að maður heldur) reynsluheimi höfundar – hvaða önnur skýring getur verið á vali hans á viðlíkingum á útliti unnustunnar:

Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur.
og augu þín dúfur**
undir andlitsblæjunni.
Hár þitt er sem geitahjörð,
sem rennur niður Gíleaðfjall,
tennur þínar ær í hóp,
nýrúnar og baðaðar,
allar tvílembdar
og engin lamblaus.
Varir þínar eru sem  skarlatsborði
og munnur þinn yndislegur,
gagnaugun eins og sneitt granatepli***
undir andlitsblæjunni.
Háls þinn er eins og turn Davíðs,
sem vopnum er raðað á,
þar hanga þúsund skildir,
öll hertygi kappanna.
Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
dádýrstvíburar

Öll ertu fögur, ástin mín,
lýtalaus með öllu. (4. 1–7)

Öll þessi húsdýr, jarðargróði og örnefni jafnvel. Og svo eru menn að hlæja að Svari við bréfi Helgu.

Og hvaða stúlka myndi ekki bráðna við svona pikköpplínu?

Nef þitt eins og Líbanonsturninn,
sem snýr að Damaskus. (7. 5)

Hennar lýsing á honum er aðeins minna súrrealísk – þar hafa landbúnaðarmyndlíkingar að hluta vikið fyrir hönnun og skrautmunum:

Unnusti minn er bjartur og rjóður
og ber af tíu þúsundum.
Höfuð hans er skíragull,
lokkar hans hrafnsvartir döðluklasar,
augu hans eins og dúfur við læki,
baðaðar í mjólk við bakkafullar tjarnir,
kinnar hans sem ilmreitir,
og kryddjurtabeð,
varirnar liljur
sem myrra drýpur af.
Hendur hans gullkefli,
lögð dýrum steinum
kviður hans fílabein,
alsett safírum.
Fótleggir hans eru sem marmarasúlur,
á stalli úr skíragulli … (5. 10–15)

Með öðrum orðum: Diamonds are the girl’s best friend.

Ég las textann einu sinni og þótti hann eiginlega fyrst og fremst skrítinn. Alls ekki áhrifamikill sem ljóðræn tjáning ástar (sem ég hafði búist við). Þetta er jú texti sem kemur með meðmælabréfum -– og ekki bara frá útgefendum sínum. Sennilega sækir hann það orðspor sitt ekki síst samhengið, að vera hluti af Biblíunni. Svona eins og lagið Beth þætti sennilega ekki burðug ballaða ef hún hefði ekki stungið svona rækilega í stúf á Destroyer með Kiss.

En þegar Ljóðaljóðin grautast í hausnum á manni í nokkra daga þá byrja þau að lifa með manni. Það er eitthvað þarna. Það er samt engin ástæða til að hætta að finnast það skoplegt sem er skrítið í textanum.

Eða hætta að þykja Páll Ólafsson hafa gert þetta allt saman svo miklu betur:

Guð að sök mér gefur ei sem góðum manni
unan þó ég fremsta finni
í faðminum á dóttur sinni.

Hvernig væri að taka sig til og túlka þau ástarljóð sem allegóríu? Koma svo!


* Allur þessi kafli er í þátíð í gömlu þýðingunni. Þess tiltekna lína er síðan: „Ég stóð á öndinni meðan hann talaði.“ í þeirri gömlu. Þetta er nú ekki einu sinni í sama nágrenni, merkingarlega.
**Eina dæmið sem ég hef enn fundið þar sem nýi textinn er beinlínis skrítnari en sá gamli. Í eldri þýðingunni eru augu stúlkunnar „eins og dúfuaugu“, sem er óneitanlega skiljanlegra líkingamál, þó gullhamarinn hitti kannski ekki naglann á höfuðið.
*** Annað dæmi: Þessi lína er „Vangi þinn er eins og kinn á granatepli“ í þeirri gömlu.


7.17.2013

Predikarinn


Um tilgangsleysi allra hluta

Textinn
Samanburður
Kynning

Predikarinn er ekki löng bók – og eitthvað er um endurtekið eða samhljóða efni úr Orðskviðunum. Inngangur ritstjórnarinnar talar um að erfitt sé að finna rauða þráðinn. Engu að síður hefur bókin frá mínum bæjardyrum séð yfirbragð gegnumskrifaðs – gegnumhugsaðs verks. Þó hún sé útúrdúrasöm og mótsagnarkennd þá talar í Predikaranum ein rödd.

Nánar tiltekið rödd Bísamrottunnar, sem virðist hafa verið konungur í Jerúsalem áður en hún settist í helgan stein í hengirúmi í Múmíndal.

Meginstefið er, eins og alkunnugt er:

Allt er hégómi. 

Ekkert skiptir máli, enda endum við öll jafn dauð, vitringar, heimskingjar, konungar og þrælar.

Frægasti textakafli Predikarans fyrir okkur poppaldarmenn  er sá sem hljómsveitin Byrds notaði í lag sitt Turn! Turn! Turn! – en inntaki bókarinnar er betur miðlað í annarri þrítekningu:

Þið munuð öll! Þið munuð öll! Þið munuð öll! Deyja!

Og eftir dauðann tekur við óvit – það gildir um alla jafnt. þessi sér-gyðingdómslegi skortur á lífi eftir dauðann er reyndar mjög forvitnilegur.

Það  er svolítið eins og höfundur Predikarans hafi ákveðið að fara út að röklegum endimörkum viskunnar og komist að því að þaðan frá séð skipti ekkert máli. Allt sé hégómi, ekki síst viskan.

Bókin er hinsvegar ekki rökleiðsla, meira eins og ferðasaga, hugmyndafræðileg ævintýraferð. Þar er margt spaklegt sagt í hefðbundnum stíl um mikilvægi viskunnar, og réttvísinnar, en svo lýkur flestum þeim köflum á að segja: „Ekki það að þetta býtti neinu, allt er nefnilega hégómi. Var ég nokkuð búinn að segja það?“

Strax í byrjun kemur þetta:

Ég hef séð öll verk sem unnin eru undir sólinni og öll eru þau hégómi og eftirsókn eftir vindi. (1. 14)

og

Því að mikilli speki fylgir mikið angur
og sá sem eykur þekkingu sína eykur kvöl sína (1. 18)

Leitin að viskunni getur nefnilega leitt menn að niðurstöðu sem tekur allan safa úr tilverunni, eins og leiðsögumaður okkar er gott dæmi um. Hér er sama stef:



Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað mennina rétt, en vangaveltur þeirra urðu of margar* (7. 29) Leturbreyting mín

Skilningstréð er enn að bera ávöxt. Það er okkar sök en ekki Guðs að við erum að þessu grúski.

Það virðist nú engu að síður vera einhvers virði að sjá í gegnum hégómann:



Betri er hryggð en hlátur
því þegar andlitið er dapurt
líður hjartanu vel. (7.3)

Enda getur bölsýnin haft jákvæðan tilgang:

Enginn maður ræður yfir vindinum, svo að hann geti stöðvað hann, og enginn maður hefir vald yfir dauðadeginum, enginn fær sig lausan úr bardaganum og óhæfan bjargar ekki þeim er hana fremur. (8. 8)

Því þrátt fyrir veraldlega tómhyggjuna hafnar Predikarinn nefnilega ekki því að til sé rétt og rangt, synd og réttlæti. Og hví þá fremja óhæfu þó hún virðist færa þér ávinning? Allt er nefnilega hégómi og eins gott að vera bara frómur. Það er jú það sem Guð vill, þó við skiljum ekki af hverju.

Og lokaorðin eru:

Vér skulum hlýða á niðurstöðu þessa alls: Óttastu Guð og haltu boðorð hans, því að það á hver maður að gera. Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt. (12. 13-14)

Viskan er góð, því þó hún sé sem slík sami hégóminn og annað veraldarvafstur þá leiðir hún hinn spaka allavega til Guðs. Fánýtið er í brölti okkar mannanna, en dómur Guðs er ekki hégómi. Þess vegna hefur réttlæti gildi þrátt fyrir allt.

Þessa útgönguleið Predikarans úr óþolandi niðurstöðu hafa heimspekingar löngum nýtt sér.

Ég er ekki frá því mér þyki Predikarinn dálítið frábær bók. Sagan segir að Guðrún frá Lundi hafi sagt Njálu góða bók en ljóta og eitthvað svipað má kannski segja um þessa. Hún er svolítið ljót í sínum fýlulega bölmóði, mögulega pínu óholl viðkvæmu fólki sem tekur bókstaflegt mark á bókum úr þessari áttinni - en góð. Það er einhver galdur þarna.



* Af rælni kíkti ég á hvernig þetta vers er í eldri þýðingunni. Það er svona: 

Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.

Fyrir utan að þetta er á mörkum þess að bera merkingu. þá staldrar samanburðarlesandinn aðallega við þetta „of“ í nýju þýðingunni – sem umturnar boðskapnum. Gerir versið vissulega kýrskýrt (og nokkuð spaklegt) en samt: má þetta? Eða voru hinir fyrri útleggjarar bara svona vitlausir?






7.10.2013

Orðskviðirnir


Bannað að vera með vesen



Orðskviðirnir fara ekkert sérlega vel af stað:

Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns
og hafna eigi viðvörun móður þinnar,
því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér
og men um háls þinn.
Son minn, þegar skálkar ginna þig,
þá gegn þeim eigi.
Þegar þeir segja: "Kom með oss!
Leggjumst í launsátur til manndrápa,
sitjum án saka um saklausan mann,
gleypum þá lifandi eins og Hel -
með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima. (1. 8–12)

Sem sagt: hlustaðu á foreldra þína svo þú verðir ekki þjóðvegaræningi. Gildir væntanlega ekki um börn þjóðvegaræningja. Reyndar má staldra við síðustu línurnar þarna. Það eru af einhverjum ástæðum óvenju margar vísanir í lífið eftir dauðann í þessum textum, nokkuð sem sér varla stað í Gamla Testamentinu fram að þessu. 

Fræðin segja að hugmyndir um framhaldslíf og umbun/refsingu þar hafi síast inn í Gyðingdóm í útlegðinni í Babýlon, og sumir þessara spakmæla munu ættuð þaðan og annarsstaðar frá nágrannaþjóðunum.

Fljótlega fellur textinn í mjög skipulagt og mikið til einsleitt far. Langmest eru þetta tveggja línu spakmæli sem stilla upp andstæðum, góðri og vondri. Réttlæti/ranglæti, visku/speki, hógværð/hroka.

Þau eru mis-spakleg, vissulega. Stór hluti þeirra, sérstaklega framanaf, eru dálítið innihaldslaus, frekar klifunarkennd:

Réttlátir hyggja á réttlæti
en ranglátir hafa svik í huga. (12. 5)

eða:

Sannorður vottur lýgur ekki
en falsvottur fer með lygar (14. 3)

Þórbergur hefði sennilega og réttilega kallað þetta „selvfölgeligheðer“.

Smám saman birtast samt meginlínur. Fólk á að vera iðið, koma vel fram hvert við annað, hlusta meira en það talar, vera hógvært og réttlátt. Slíkt líf verðlaunar Guð með velsæld.

Sterkasti þráðurinn er samt um spekina sjálfa. Um mikilvægi þess að hlusta á sér vitrara (eldra) fólk, tileinka sér það sem það segir og taka mark á umvöndunum. Það er erfitt að lesa sig í gegnum þessa vegsömun þekkingarleitarinnar án þess að hugsa um alla Nóbelsverðlaunahafana af gyðingaættum. Ást á visku er djúpstæð í þjóðarsálinni.

Með grófri einföldun mætti segja að viska hafi álíka þungt vægi í Orðskviðunum og vinátta hefur í Hávamálum.

Inn á milli detta inn alþekkt spakmæli – þó ekkert rosalega mörg:

Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn (13. 24)

Dramb er falli næst (16. 18)

Kapp er best með forsjá (19.2)

Það er svo sem ekkert mikið meira um þetta ágæta viskusafn að segja. Almennt er þó hægt að segja að góður orðskviður þarf að miðla einhverju sem manni finnst vera satt og mikilvægt á óvæntan, skýran og hnyttinn hátt. Það er líka kostur ef hann beinir augum manns að sannindum sem maður hafði ekki hugsað út í áður.

Hér eru að lokum tíu uppáhaldsorðskviðirnir mínir úr safninu eftir eina yfirferð - speki sem uppfyllir amk eitthvað af þessum skilyrðum:

Sex hluti hatar Drottinn 
og sjö eru sálu hans andstyggð:
hrokafullt augnaráð, lygin tunga
og hendur sem úthella saklausu blóði,
hjarta sem bruggar fjörráð,
fætur sem fráir eru til illverka
og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra. (6. 16–19)

Í munni heimskingjans býr vöndur gegn hroka hans
en varir hinna vitru varðveita þá (14. 3)

Ávítur fá meira á hygginn mann
en hundrað högg á heimskingjann. (17. 10)

Sá sem gerir þröskuld sinn háan hnýtur um hann (17. 19)

Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina
en nennir ekki að bera hana upp að munni sér. (19. 24)

Stærðu þig ekki frammi fyrir konunginum
og ætlaðu þér ekki stað stórmenna
því að betra er að menn segi við þig:
„færðu þig hingað upp,“
en að menn niðurlægi þig frammi fyrir tignarmanni. (25. 7)

Svaraðu ekki heimskingjanum eftir fíflsku hans
svo að þú verðir honum jafn.
Svaraðu heimskingjanum eftir fíflsku hans,
annars heldur hann að hann sé vitur. (26. 4–5)

Eins og fótleggir hins lamaða hanga máttlausir,
svo fer spakmælum í munni heimskingjanna (26. 7)

Sá sem blandar sér í annarra deilu
er eins og sá sem grípur í eyrun á hundi sem fram hjá hleypur. (26. 17)

Andlit horfir við andliti i vatni,
svo er hjarta eins manns gagnvart öðrum. (27. 19)

Vel mælt!

7.03.2013

Sálmarnir


Þrettán tilraunir til sálmgreiningar

Textinn Ath. eldri þýðing
Samanburður
Kynning

Það er best að skipta þessari umfjöllun í nokkra búta – enda enginn efnisþráður að rekja.

I
Sálmarnir hafa svo sannarlega skilið eftir sig spor í bókmenntum og listum - eiginlega í allri tjáningu. Þeir enduróma allsstaðar. Lesandinn hnýtur stöðugt um kunnuglegt orðalag og línur sem hafa birst óbreyttar í öðrum textum, eða eru notaðar sem spakmæli í máli manna. Þar að auki hafa þeir verið tónsettir af allskyns meisturum - fyrir utan þá klassísku verðum við að nefna Pat Metheny (121), U2 (40) og auðvitað Boney M (137 – og já, ég veit að það var coverútgáfa!).


II
Enginn virðist velkjast í vafa um að sálmarnir séu „bundið mál“. Séu ljóð. Kannski jafnvel söngtextar. Varla hægt að kalla þetta annað en atómljóð samt. Frjálst form að mestu. Línulengd með ýmsu móti, ekkert rím eða stuðlasetning. Varla hægt að fá tilfinningu fyrir reglu í hrynjandi, og í fljótu bragði finn ég ekkert um það að svoleiðis sé til staðar í frumtextanum.

Merkilegt að menn hafi froðufellt í nútímanum yfir ljóðum í frjálsu formi, hafandi þessi háklassísku og mikilsvirtu dæmi um nákvæmlega það. Sennilega (og nú tala fordómarnir) sömu menn og höfðu þessa texta í hávegum.

Reyndar er eitt nefnt til sögunnar sem bragfræðilegt trikk. „Hliðstæðurím“ - kallað „Parallelism“ á ensku. Sem felst í því að grunnhugmynd eða lykilorð einnar línu er endurtekið í þeirri næstu. Eða andstæða þess.

Þetta þykir okkur neftóbaksköllunum nú andskotann ekki vera rím – meira svona stílbragð sem heitir alveg örugglega eitthvað í klassískri mælskufræði en ég nenni allsekki að fletta upp.

En ef Hliðstæðurím er rím þá gerði hann sér sennilega ekki grein fyrir því, menntaskólaskáldið, að eftirfarandi vísa væri ort undir áhrifum frá Davíðssálmum:

Eitt sinn stakk ég afa minn
í efri góm með heykvísl.
Í bræði drap hann bróður sinn
og barði mig með skóflu.

Fyrir utan þetta trikk eru sálmarnir frekar lausbeislaðir. Svo mjög að ljóðkerinn í manni hrekkur við þegar viðlag gerir vart við sig í sálmi 107 – tvær línur endurteknar nokkrum sinnum - reyndar með mismiklu millibil.:

Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn.

Annars bara álíka háttvíst og Jaques Prévert eða Jón úr Vör.


III
Viðfangsefni sálmanna eru ekkert sérlega mörg. Ætli þetta séu ekki þau helstu.

  • Óskir um hjálp frá Drottni við að stúta útlendingum
  • Bænir um hjálp frá honum við vernd gegn ranglátum
  • Lýsingar á hvað  hann er mikilfenglegur
  • Miskunnarbænir og syndajátningar
  • Gleðióp yfir því að vera með honum í liði
  • Hvatningar til lýðsins að sýna honum verðskuldaða virðingu

Óneitanlega verður þetta nú svolítið einhæft þegar efnið er innbyrt svona í heilu lagi. Ekki ósvipað því að hlusta t.d. á allar plötur Motörhead hverja á fætur annarri. Maður hættir að sjá trén fyrir skóginum. Fyrir vikið beinist athygli manns dálítið að „kynlegu kvistunum“.


IV
Rosalega eru „óþýðanlegu orðin“ í yfirskriftum sumra sálmanna spennandi:

Á gittít
Sela
Almút labben
Miktam
Maskíl
Makalat

Og svo framvegis

Flest þessi orð eru talin vísa í tónlistina sem öll er glötuð og engin veit hvernig var. Tónfræði? Hljóðfæri? Lagboða? Takt? Enginn veit. Merkilegt hvernig þess orð án merkingar vekja jafnvel sterkari hugboð um týndan heim en þau sem liggja í augum uppi.


V
Stór hluti sálmanna er kenndur við Davíð konung. Það að þeir eru það ekki allir styrkir mann í trúnni á að hann sé höfundur a.m.k einhverra/flestra sálmanna sem eru honum eignaðir.

Það er svolítið forvitnilegt að hugsa um hvað hann hefur við Guð sinn að segja. Ekkert skrítið þó konungur sem á í sífelldu stríði við nágranna og jafnvel uppreisnarmenn meðal eigin þjóðar eigi það erindi við Guð að biðja um hjálp í þessum verkum. Og jafn breyskur maður og Davíð þarf vissulega að biðja um náð og fyrirgefningu. Hitt vekur athygli manns hvað margir sálmanna sem við hann eru kenndir snúast um illa og óguðlega einstaklinga sem þrengja að tilveru hinna trúuðu með yfirgangi og ofsóknum. Þar þykir manni ljóðmælandi vera hversdagsmaður, jafnvel minnihlutamaður þar sem hann á heima.

Allir eru sálmarnir e-k 1. persónutexti, stundum talar Guð, en oftast að því er virðist skáldið sjálft. Svo annaðhvort var konungurinn ekki höfundur þessara sálma eða hann var merkilega góður í empatíu. Vonum að svo hafi verið, það er góður eiginleiki valdsmanna.

En svo má auðvitað líka segja (og er oft sagt): Valdsmaður sem skælir utan í Guði vegna fólks sem talar illa um hann og yrkir um hann níðkvæði ætti kannski bara að snúa sér að einhverju öðru.


VI
Það er gegnumgangandi tvennskonar sýn á réttlæti og umbun Guðs fyrir réttláta breytni í sálmunum – og víðar reyndar, t.d. í Jobsbók.

Annarsvegar er hinn réttláti fátækur en hinn rangláti/óguðlegi ríkur og drambsamur (og ríkur af því að hann er óguðlegur). Kveinstafir yfir illri meðferð hinna voldugu óguðlegu hrokagikkja á hinum trúuðu er gegnumgangandi stef.

En hinsvegar er skýrt að Guð launar trúfesti með velgengni. Á vígvelli að sjálfsögðu, en líka í persónulegri velgengni, eins og hinir réttrúuðu í Jobsbók hamra á.

Það er eins og það sé ekkert sérlega erfitt almennt séð að lifa við þessar andstæður. Að trúa á réttlátan almáttugan guð, en kveina yfir óréttlæti heimsins sem Guð hefur allskostar í hendi sér að breyta til betri vegar, með refsingum ef ekki vill betur.

í 37. sálmi  birtist þetta tvísæi fallega.

Ver eigi of bráður þeim sem  illt vinna,
öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
því að þeir fölna skjótt sem grasið,
visna sem grænar jurtir.
Treyst Drottni og ger gott,
þá muntu óhultur búa í landinu.
Njót gleði í Drottni,
þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir. (2–3)

Ekki öfunda hinn rangláta þó hann njóti velgengni – Treystu Guði og gjör gott og þá fer allt vel.


VII
Frá því ég las Mósebækurnar hef ég verið forvitinn um fórnarathafnir Ísraelsþjóðar. Þær eru á köflum nokkuð yfirgengilegar í textanum og ég hef stundum haft orð á því. Því stoppaði ég við 50. sálm:

Ég er Guð, Guð þinn!
Ég álasa þér ekki fyrir sláturfórnir þínar
brennifórnir þínar eru stöðugt frammi fyrir mér.
Ég þarf ekki að taka naut úr fjósi þínu
né geithafra úr stíu þinni,
því að öll skógardýrin eru mín
og skepnurnar á fjöllunum þúsund.
Ég þekki alla fugla á fjöllunum,
og það sem á mörkinni hrærist er mitt.
Væri ég svangur segði ég þér ekki frá því
því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
Et ég nautakjöt,
eða drekk ég hafrablóð?
(7–13)

Ég er svo aldeilis – er Guð ekki að afþakka dýrafórnirnar? Segja „neitakk, var að borða“?


VIII
Ég fór af rælni að bera saman nýju og gömlu þýðinguna þegar ég var að skrifa um ofangreindan sálm. Hér eru þrjú dæmi um muninn:

Gamla
brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.

Nýja
brennifórnir þínar eru stöðugt frammi fyrir mér.

„stöðuglega“? Hvers vegna í ósköpunum? Það kemur oft fyrir að orðaval í eldri þýðingunni slær mann eins og vísvitandi annkanalegt. Sérstaklega þegar það virðist ekkert standa í þýðendum nútímans að nota bara hversdagsleg orð sem gera sama – nei, mun meira – gagn.

Gamla
því að mín eru öll skógardýrin
og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.

Nýja
því að öll skógardýrin eru mín
og skepnurnar á fjöllunum þúsund.

„fjöllum þúsundanna“? Hvað þýðir það? Er það tæk íslenska?

Stundum er hreinlega allt önnur merking:

Gamla
Ég þekki alla fugla á fjöllunum,
og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.

Nýja
Ég þekki alla fugla á fjöllunum,
og það sem á mörkinni hrærist er mitt.

Þetta er ekki eina dæmið um gerólíka merkingu milli þýðinganna, ég rakst á eitt og annað slíkt í Jobsbók, sem varð ásamt öðru til þess að ég skipti um texta. En óneitanlega vekur þetta spurningar um gagnsemi þess að smásmyglislesa textann í leit að merkingu, leiðsögn um lífið og hinstu rökum.


IX
Talandi um orð. Af einhverjum ástæðum stoppaði ég við orðið „hærusekkur“ í sálmi 30. Orðið kemur reyndar oft fyrir í Góðu bókinni, fyrst í 1. Mósebók. Þar er talað um að Jakob vefji „hærusekk um lendar sínar“ þegar hann fær lygafréttirnar um lát Jósefs.

Hlutverk þessa klæðnaðar er alveg skýrt sumsé. Þetta er sorgarklæðnaður. En hvað er eiginlega Hærusekkur, annað en poki sem ræningjarnir í Kardemommubænum taka með sér í bæjarferð? Það var löngu tímabært að kanna málið.

Orðabókin segir „poki úr hrosshári“

Jakobsbiblían (og enskar biblíur almennt) nota orðið „Sackcloth“. Gefum Wikipediu orðið:

Sackcloth (Hebrew שַׂק saḳ) is a term originally denoting a coarsely woven fabric, usually made of goat's hair. It later came to mean also a garment made from such cloth, which was chiefly worn as a token of mourning by the Israelites.

Það  hljómar eins og síðari tíma tilbúningur að tengja þetta hebreska „sak“ við „sack“, þ.e. poka, og gera flíkina að þessháttar múnderingu sem útihátíðargestir búa sér til í rigningu úr svörtum ruslasekkjum. En það er ein grunnmerkinga orðsins í almennri ensku í dag, sýnist mér.

Smá rannsóknarleiðangur á Bible Gateway leiddi í ljós að á málum sem ég ræð við að skilja vísar þýðingin jafnan í notkunina en ekki efni eða snið:

„Sørgeklær“ (norska), „Syrgibúnanum“ (færeyska), „Sorgens dräkt“ (sænska), „Sørgedragt“ (danska), „Habits de deuil“ (franska) og „Trauergewand“ (þýska)

Lúter lætur sér hinsvegar nægja „Sack“ í sinni þýðingu.

Íslenska þýðingin sker sig nokkuð úr - á skemmtilegan hátt. „Hærusekkur“ vísar bæði í snið og óþægindi. Alltaf er ljóst af samhenginu að þetta eru föt til að klæðast í sorg eða vegna yfirbótar og sjálfsauðmýkingar gagnvart Guði. Óþarfi að taka það fram í orðinu sjálfu.

Hærusekkur. Vel gert, íslenska!


X
72. sálmur er sá eini sem kenndur er Salómoni, og sá er nú aldeilis ekki með það á hreinu hver er Guð og hver Salómon:

Guð, fel konungi dóma þína
og konungssyni réttlæti þitt,
svo að hann [konungur?] dæmi lýð þinn í réttlæti
og þína þjáðu með sanngirni.
Fjöllin beri þjóðinni frið
og hæðirnar réttlæti.
Hann [konungur?] láti hina þjáðu meðal þjóðarinnar ná rétti sínum,
og veiti hinum snauðu hjálp
og kremji kúgarann.
Þá mun hann (konungur?!) lifa meðan sólin skín 
og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
Hann [konungur?] falli sem regn á slægjuland,



Megi hann lifa og hljóti hann gull frá Saba,
sífellt biðji menn fyrir honum [konunginum, væntanlega, ekki þarf að biðja fyrir</> Guði?]

Þessi óreiða gerir textann bæði mjög nútímalegan og „skáldlegan“, þó hann fái mann líka til að efast um sálarheill Salómons og jafnvel (hverju Guð forði) vitsmuni.



XI
Í sálmi 44 er Guð látinn heyra það. Hann er stílaður nánast eins og sendibréf til Guðs – bænaskjal, ef vill.

Fyrst er Guði sagt frá því að bréfritarar hafi heyrt hvað hann gerði vel við forfeðurna:

… Þú stökktir burt þjóðum,
en gróðursettir feðurna,
þú lékst lýði harðlega,
en lést þá breiða úr sér
Ekki unnu þeir landið með sverðum sínum,
og eigi hjálpaði armur þeirra þeim,
heldur hægri hönd þín og armur.  (3–4)

Af Guði hrósum vér oss ætíð
og lofum nafn þitt að eilífu. (9)

En nú er öldin önnur:

…En nú hefir þú hafnað oss og niðurlægt
þú  fórst eigi út með hersveitum vorum.
Þú lést oss hörfa undan óvinum
og hatursmenn vorir taka herfang. … (10–11)

Þetta „Þú lést oss hörfa...“ finnst mér snilld: „Sjáðu hvað þú lést mig gera!“

En allavega, bréfritarar lýsa sig ekkert hafa til sakar unnið:

… Allt þetta er yfir oss komið,
þó höfðum vér ekki gleymt þér
og ekki rofið sáttmála þinn. … (18)

Það veit Guð náttúrulega best sjálfur:

… Hefðum vér gleymt nafni Guðs vors
og hafið upp hendur  til framandi guðs,
hefði Guð þá ekki orðið þess áskynja,
hann sem þekkir leyndarmál hjartans? (21–22)

Svo það er ræs:

Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? (24)

Hér er sko ekkert verið að krjúpa í auðmýkt! Dramatískt og skemmtilegt.


XII
Ég minnist þess ekki að hafa séð það áður í þessum textum, en hér kemur alloft fyrir stefið að Guð búi á/í fjalli. Oftast er það Síon (fjall skammt frá Jerúsalem) en í 68. sálmi býr hann reyndar á Basansfjalli austan við Jórdan. Vel má vera að þarna sé verið að tala eitthvað skrítið líkingamál, eða vísa í staðsetninu Sáttmálsarkarinnar, en ég fer samt að hugsa um leifar af fornum átrúnaði.

Svona frávik frá „réttrúnaðinum“ finnast mér alltaf dýpka innsýnina í heim bókarinnar, hvað sem allri guðfræði áhærir.


XIII
Það þarf ekki alltaf mikið til að gleðja mann. Hér er Guð að tala um hina ýmsu sigra yfir nágrönnum Ísraels í 60. sálmi:

… ég fleygi skóm mínum á Edóm …

Þessi skemmtilega tjáning fyrirlitningar sem við þekkjum úr austurlöndum nær (eða reyndar sjónvarpinu) á sér sumsé djúpar rætur. Hvað höfðingjarnir hafast að  …

Hvaða númer ætli hann noti?