7.30.2013

Jesaja


Þetta verður ekkert sárt

Textinn
Samanburður
Kynning

Með Jesaja hefst nýr kafli í Gamla testamentinu – síðasti hluti þess er að mestu helgaður spámönnunum og spádómum þeirra. Fyrst og mest er Jesajabók.


Við höfum reyndar hitt hann aðeins áður – hann kemur við sögu í Konunga- og Króníkubókum hinum síðari, og er sú saga sem þar er sögð af honum endurflutt í þessari bók. Þar ber hann Hiskía Júdakonungi skilaboð frá Guði og hefur milligöngu um smá kraftaverk. Að öðru leyti er Jesajabók ekki ævisöglegt rit um titilpersónuna heldur safn predikana og ræðna sem honum eru eignaðar. Það gengur ekki á með jarteiknum og stórvirkjum eins og hjá Elía og Elísa, og engum sögum fer um að hann hafi verið uppnuminn í eldvagni til himna eins og sá fyrrnefndi. En þeir skilja heldur ekki eftir sig neina spádóma sem jafnast á við þetta mergjaða rit.

Það er mikill kraftur í þessum textum og að minnsta kosti jafn mikil óreiða. Sjónarhornið flakkar milli Guðs að tjá sig í beinni ræðu, 3. persónuendursögn á því sem Guð hefur við sitt fólk að tala, frásögnum af Jesaja og texta þar sem Jesaja tjáir sig í eigin nafni – sem eru réttnefndir spádómar.

Í dag yrði sá sem talar eins og Jesaja samt sennilega tekinn úr umferð og gefin „Truntusól og -tungl“ eins og skáldið sagði. Sama skáld benti reyndar á að „Jesaja spámaður spáir eins og galinn“.

Forsendur þessa lestrar er hinsvegar ekki að rannsaka trúverðugleika vitnanna. Hér eru menn teknir á orðinu – ef menn segja að Guð hafi sagt eitthvað verður það ekki dregið í efa.

Og þeim gamla liggur svo sannarlega eitt og annað á hjarta.

Það hljómar auðvitað þversagnarkennt, en Jesajabók er kannski fyrsta bók Biblíunnar sem er hreinræktað „trúarrit“. Ekki sagnfræði, ekki þjóðsögur, ekki alþýðlegt heilræðasafn, ekki smásmyglisleg fyrirmæli um hegðun. Hér er ekkert nema útlistanir á fyrirætlunum Guðs í heiminum. Þær eru all-róttækar, eins og hans er von og vísa. Reyndar ekki boðað flóð að þessu sinni – meira svona tangarsókn gegn vonsku heimsins:



a) Nota nágrannaþjóðir hinna útvöldu til að refsa þeim fyrir skúrgoðadýrkun og almennan djöfulgang.

b) Leggja síðan sömu nágrannaþjóðir í rúst.

Það  er ekki víst að það sé tilviljun, en er þetta ekki nokkurnvegin strategía Bandaríkjamanna í Afganistan – að styðjaTalibana til að berja á rússunum og reyna síðan að koma þeim fyrir kattarnef? Vandinn er náttúrulega sá að Guð er almáttugur en hin sjálfskipaða guðseiginþjóð ekki.

Reyndar er Guð í svo miklum vígahug í upphafi bókarinnar að hann kærir sig eiginlega ekki um iðrun lýðs síns – sennilega langþreyttur á sviknum loforðum. Það er engu líkara en jafnvel óguðlegheitin séu á hans vegum:

Þá heyrði ég rödd Drottins. sem spurði:
„Hvern skal ég senda? Hver vill reka erindi vort?“
Ég svaraði: „Hér er ég, send þú mig!“
Hann sagði: „Far og seg þessu fólki:
Hlustið og hlustið en skiljið ekki.
Horfið og horfið en skynið ekki
Sljóvga hjarta þessa fólks
deyf eyru þess
og loka augum þess
svo það sjái ekki með augunum,
heyri ekki með eyrunum
og skilji ekki með hjartanu, 
svo það snúi ekki við og læknist. (6. 6-10)

Einungis örfáir eiga að verða eftir - almennilegt fólk sem byggjandi er á. Þetta er svo sem ekki ósvipað og þegar Nói og fjölskylda stóðu ein eftir, nema að þessu sinni er bara verið að laga til í ranni Ísraels og í stað vatns er það holskefla Assýringa sem hellist yfir lýðinn. 


Hrossalækningar eru líka lækningar.


Stór hluti textans eru lýsingar á þeim hörmungum sem bíða manna. Margt af því er ansi mergjað, annað kannski meira kostulegt, séð með nútimagleraugum hálfkæringsins:



Á þeim degi mun Drottinn raka bæði höfuð- og skapahár
með rakhníf sem hann leigði handan fljóts – með Assýríukonungi –  (7. 20)


Assýrískt vax?

Í framhaldinu hyggst Guð síðan tukta til nágrannaþjóðir síns fólks og lýsir því fyrir Jesaja af mikilli nákvæmni, þjóð fyrir þjóð. Það er nefnilega alveg ljóst í þessum texta – í fyrsta sinn í Biblíunni – að Guð er ekki bara guð Ísraelsmanna (þó þeir séu uppáhalds) heldur bæði eini guðinn og guð allra ef þeir eru til í að tilbiðja hann á tilskilinn hátt:

Á þeim degi verða Ísraelsmenn þriðja þjóðin sem ásamt Egyptum og Assýringum verða blessun á jörðinni miðri. Drottinn allsherjar mun blessa þær og segja: „blessuð sé þjóð mín, Egyptar og verk handa minna, Assýringar, og arfleifð mín Ísrael.“ (19. 24-25)

og síðar:

Útlendingur sem er genginn Drottni á hönd,
skal ekki segja:
„Drottinn skildi mig frá þjóð sinni“. (56. 3)

Allt rímar þetta ágætlega við kristinn skilning þessa texta –  hér er verið að tala til allra. Enda svo sem rökrétt í ljósi þess að Guð er skapari alls mannkyns þó hann hafi síðar farið að gera mannamun í barnahópnum.


Það er í kaflanum um tyftun Babýlóníumanna sem ein af höfuðpersónum dramans skýtur upp kollinum – eða ekki:

Nú ertu fallinn af himni
ljósberi, sonur morgunroðans. 
Nú ert þú að velli lagður,
sigurvegari þjóðríkja (14. 2)


Það þarf reyndar að fara í Jakobsbiblíu til að fá kennitöluna:

How art thou fallen from heaven, 
O Lucifer, son of the morning!
How art thou cut down to the ground, 
which didst weaken the nations!

Þessi sakleysislega vísun, þar sem verið er að hæðast að Babýlóníukóngi og líkja honum við hrapandi stjörnu (Venus nánar tiltekið) hefur víst blandast öðrum arfsögnum og orðið að hinu kosmíska drama um uppreisn á himnum og fallna erkiengilinn – og þær síðan blandast saman við freistarann Satan úr Jobsbók og jafnvel ávaxtasölusnákinn í Eden. Það þarf frjálsar túlkunarhendur til að ná þessu fram – en þær hafa löngum verið nokkuð djarftækar í meðferð þessara texta eins og við vitum.


En sá vondi er ekki sá eini sem hér er kynntur til sögunnar Hér er líka spáð fyrir um komu friðarhöfðingjans Immanúels með kafla sem jafnvel þeir þekkja sem fara bara í kirkju á aðfangadag eða hafa kveikt á útvarpsmessunni við sósugerðina, og byrjar svona:



Sú þjóð sem í myrkri gengur
sér mikið ljós … (9. 1)

Það eru öll litbrigði í þessari stóru og kraftmiklu bók. Ólýsanlegum hörmungum er lýst, ástæður þess að þær eru óumflýjanlegar eru útlistaðar og hamingjan sem mun ríkja þegar aðgerðin er yfirstaðin fær líka pláss. Niðurstaðan virðist haldast í hendur við endurkomu Júdamanna til Jerúsalem, en þó er eins og Jesaja skyggnist lengra:


Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð
og hins fyrra verður ekki minnst framar (65. 17)

Og:

Dýr merkurinnar munu tigna mig,
sjakalar og strútar (43. 20)


Kannski eiga spádómar Jesaja enn eftir að rætast. Kannski talaði Guð við hann og sagði honum jafnvel satt. En á hinn bóginn má vera að réttast hefði verið að „troða hann út með spes-stöðluðu smæli“ og vona að honum liði ögn skár. Það er alltaf spurningin.

Fyrra svarið er það sem við köllum “trú”.

Engin ummæli: