7.17.2013

Predikarinn


Um tilgangsleysi allra hluta

Textinn
Samanburður
Kynning

Predikarinn er ekki löng bók – og eitthvað er um endurtekið eða samhljóða efni úr Orðskviðunum. Inngangur ritstjórnarinnar talar um að erfitt sé að finna rauða þráðinn. Engu að síður hefur bókin frá mínum bæjardyrum séð yfirbragð gegnumskrifaðs – gegnumhugsaðs verks. Þó hún sé útúrdúrasöm og mótsagnarkennd þá talar í Predikaranum ein rödd.

Nánar tiltekið rödd Bísamrottunnar, sem virðist hafa verið konungur í Jerúsalem áður en hún settist í helgan stein í hengirúmi í Múmíndal.

Meginstefið er, eins og alkunnugt er:

Allt er hégómi. 

Ekkert skiptir máli, enda endum við öll jafn dauð, vitringar, heimskingjar, konungar og þrælar.

Frægasti textakafli Predikarans fyrir okkur poppaldarmenn  er sá sem hljómsveitin Byrds notaði í lag sitt Turn! Turn! Turn! – en inntaki bókarinnar er betur miðlað í annarri þrítekningu:

Þið munuð öll! Þið munuð öll! Þið munuð öll! Deyja!

Og eftir dauðann tekur við óvit – það gildir um alla jafnt. þessi sér-gyðingdómslegi skortur á lífi eftir dauðann er reyndar mjög forvitnilegur.

Það  er svolítið eins og höfundur Predikarans hafi ákveðið að fara út að röklegum endimörkum viskunnar og komist að því að þaðan frá séð skipti ekkert máli. Allt sé hégómi, ekki síst viskan.

Bókin er hinsvegar ekki rökleiðsla, meira eins og ferðasaga, hugmyndafræðileg ævintýraferð. Þar er margt spaklegt sagt í hefðbundnum stíl um mikilvægi viskunnar, og réttvísinnar, en svo lýkur flestum þeim köflum á að segja: „Ekki það að þetta býtti neinu, allt er nefnilega hégómi. Var ég nokkuð búinn að segja það?“

Strax í byrjun kemur þetta:

Ég hef séð öll verk sem unnin eru undir sólinni og öll eru þau hégómi og eftirsókn eftir vindi. (1. 14)

og

Því að mikilli speki fylgir mikið angur
og sá sem eykur þekkingu sína eykur kvöl sína (1. 18)

Leitin að viskunni getur nefnilega leitt menn að niðurstöðu sem tekur allan safa úr tilverunni, eins og leiðsögumaður okkar er gott dæmi um. Hér er sama stef:



Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað mennina rétt, en vangaveltur þeirra urðu of margar* (7. 29) Leturbreyting mín

Skilningstréð er enn að bera ávöxt. Það er okkar sök en ekki Guðs að við erum að þessu grúski.

Það virðist nú engu að síður vera einhvers virði að sjá í gegnum hégómann:



Betri er hryggð en hlátur
því þegar andlitið er dapurt
líður hjartanu vel. (7.3)

Enda getur bölsýnin haft jákvæðan tilgang:

Enginn maður ræður yfir vindinum, svo að hann geti stöðvað hann, og enginn maður hefir vald yfir dauðadeginum, enginn fær sig lausan úr bardaganum og óhæfan bjargar ekki þeim er hana fremur. (8. 8)

Því þrátt fyrir veraldlega tómhyggjuna hafnar Predikarinn nefnilega ekki því að til sé rétt og rangt, synd og réttlæti. Og hví þá fremja óhæfu þó hún virðist færa þér ávinning? Allt er nefnilega hégómi og eins gott að vera bara frómur. Það er jú það sem Guð vill, þó við skiljum ekki af hverju.

Og lokaorðin eru:

Vér skulum hlýða á niðurstöðu þessa alls: Óttastu Guð og haltu boðorð hans, því að það á hver maður að gera. Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt. (12. 13-14)

Viskan er góð, því þó hún sé sem slík sami hégóminn og annað veraldarvafstur þá leiðir hún hinn spaka allavega til Guðs. Fánýtið er í brölti okkar mannanna, en dómur Guðs er ekki hégómi. Þess vegna hefur réttlæti gildi þrátt fyrir allt.

Þessa útgönguleið Predikarans úr óþolandi niðurstöðu hafa heimspekingar löngum nýtt sér.

Ég er ekki frá því mér þyki Predikarinn dálítið frábær bók. Sagan segir að Guðrún frá Lundi hafi sagt Njálu góða bók en ljóta og eitthvað svipað má kannski segja um þessa. Hún er svolítið ljót í sínum fýlulega bölmóði, mögulega pínu óholl viðkvæmu fólki sem tekur bókstaflegt mark á bókum úr þessari áttinni - en góð. Það er einhver galdur þarna.



* Af rælni kíkti ég á hvernig þetta vers er í eldri þýðingunni. Það er svona: 

Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.

Fyrir utan að þetta er á mörkum þess að bera merkingu. þá staldrar samanburðarlesandinn aðallega við þetta „of“ í nýju þýðingunni – sem umturnar boðskapnum. Gerir versið vissulega kýrskýrt (og nokkuð spaklegt) en samt: má þetta? Eða voru hinir fyrri útleggjarar bara svona vitlausir?






Engin ummæli: