6.20.2014

Bæn Manasse


Sorry seems to be the ... word


Textinn (á ensku – apókrífu bækurnar eru ekki á netinu á íslensku)
Kynning

Síðasta bókin í Gamla testamentinu, séu apókrífubækurnar hafðar með, er þessi bæn. Varla bók, rúmlega  blaðsíða. Innihaldslega ekkert sem við höfum ekki séð oft áður.

Sem er viðeigandi. 

Það má alveg líta á Bæn Manasse sem samantekt efnisins, niðurstöðu þessarar löngu misþroskasögu þjóðar – og ekki síður guðs hennar.

Nafnið Manasse stendur líka á sinn hátt fyrir upphaf og endi sögunnar. Þetta nafn bar einn af sonum Jakobs og þar með einn af ættbálkafeðrunum tólf. Fékk úthlutað stórum skika í norðausturhluta fyrirheitna landsins. Seinna ríkti konungur með þessu nafni yfir suðurríkinu Júda. Bænin er hans, Manasse var einn af þeim sem sneri baki við Guði, rauf sáttmálann en iðraðist og sneri aftur. 

Bænin er um það: Guð er máttugur - ég brást honum - ég biðst fyrirgefningar.

Um þetta snýst Gamla testamentið.

Leyfum Manasse Júdakonungi að hafa lokaorðin í yfirferðinni um þetta stórkostlega ritsafn:

Drottinn, almáttugi guð feðra vorra,
Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs
og réttlátra niðja þeirra.
Með boði orðs þíns hlekkjaðir þú hafið, 
lokaðir undirdjúpunum og innsiglaðir þau
með óttalegu og undursamlegu nafni þínu.
Allt óttast þig
og skelfur frammi fyrir almætti þínu.
Enginn afber hátign dýrðar þinnar
og enginn syndari stenst ógn reiði þinnar.
En náð þín er ómælanleg
og fyrirheit þín órekjandi.
Því að þú ert Drottinn, Hinn æðsti,
samúðarríkur, seinn tll reiði
og mildur á miskunn.
Þegar menn líða fyrir syndir sínar
endurmetur þú viðhorf þitt.
Þú, Drottinn, hefur af gnægð mildi þinnar og gæsku
heitið þeim sem brotið hafa gegn þér
að þeir megi iðrast og fyrirgefningu hljóta.
Þú hefur afráðið af mikilli miskunn
að syndarar megi iðrast og hljóta hjálpræði.
Vissulega krafðist þú, sem ert Guð réttlátra,
ekki iðrunar af hinum réttlátu,
af Abraham, Ísak og Jakobi
sem syndguðu aldrei gegn þér.
En af mér krefst þú afturhvarfs
því að syndari er ég.
Syndir mínar eru fleiri en sandkorn á sjávarströnd.
Brot mín gegn lögmálinu, Drottinn, verða ekki talin,
þau eru óteljandi.
Ég er ekki þess verður að hefja upp augu
og horfa til himins
sakir alls ranglætis míns.
Ég er þjakaður af þungum járnfjötrum
svo að ég má eigi höfuð hefja sakir synda minna.
Ekkert léttir þeim af mér
því ég egndi þig til reiði
er ég gerði það sem illt er í augum þínum.
Ég reisti viðurstyggileg skurðgoð
og fjölgaði þeim stórum.
Nú beygi ég kné hjartans
og bið þig að auðsýna mér miskunn þína.
Ég hef syndgað, Drottinn, syndgað
og viðurkenni það sem ég hef af mér brotið.
Ég ákalla og bið þig:
fyrirgef mér, Drottinn fyrirgef,
lát mig eigi glatast vegna afbrota minna.
Minnstu ekki synda minna
og ver mér eigi að eilífu reiður.
Dæm mig ekki niður í undirdjúp jarðar
því að þú, Guð, ert Guð þeirra sem iðrast.
Þá munt þú sýna á mér alla gæsku þína
er þú bjargar mér af mikilli miskunn
þótt ég sé óverðugur.
Ég mun sífellt lofa þig svo lengi sem ég lifi,
allir herskarar himna syngja þér lof,
þín er dýrðin að eilífu. Amen.

Önnur Makkabeabók

More is More


Textinn (á ensku – apókrífu ritin eru ekki á íslensku á netinu)
Kynning

Hún er kölluð „Önnur Makkabeabók,“ ekki „Seinni“, þó aðeins tvær séu hafðar með hér. Það stafar af því að M3 og M4 eru til en eru svo apókrífar að þeim er nánast allsstaðar útskúfað úr kanónunni. Hér er lesanda frjálst að mynda hugrenningatengsl við Police Academy. Eða Highlander jafnvel. Að sjálfsögðu á eigin ábyrgð.


Eða kannski frekar við Saw-seríuna, því hér eru pyntingar og hrottaskapur í talsvert meiri forgrunni en í öðrum bókum Biblíunnar. Það er enn meira áberandi fyrir þá sök að hér er sögð nokkurnvegin sama saga og í fyrri hluta M1, af ofsóknum gegn Gyðingum á vegum Antíokkusar IV og uppreisn Júdasar Makkabeusar.


Stíllinn og frásagnarhátturinn er jafnvel enn „nútímalegri“ en í M1. Þetta er lipur og auðlesinn texti, en stærsta breytingin er samt sú hvað höfundur veifar gildisdómavopninu oft og mikið. Talar um „mannhunda“, „hrakmenni“ og fleira skrautlegt þegar þarf að mála óvini sterkum litum.


Það er heldur ekkert dregið úr þegar kemur að lýsingum á framferði þeirra. Það fer frá því að vera all-sakleysislegt frá okkur séð, eins og þegar hellenskt þenkjandi æðstiprestur:


… reyndist óðfús að reisa íþróttamannvirki undir sjálfri háborginni og fylkti um sig göfugustu æskumönnum, en þeim leyfðist nú að bera hatta … (4. 12)


yfir í grimmilegar kúgunar- og niðurlægingaraðgerðir á vegum Antíokkusar:


Einna virtastur af fræðimönnunum var Eleasar. Hann var aldraður maður maður og sviphreinn. Hann var þvingaður til að opna munninn og svínakjöti troðið upp í hann. (6. 18)


Hámarki ná svo þessar lýsingar í löngum kafla þar sem sjö bræður eru pyntaðir til dauða fyrir framan móður sína til að reyna að fá þau til að neyta hins forboðna svínakjöts. Öll sýna þau mikla trúfesti. Hér mælir móðirin til sonanna:




Ég veit ekki hvernig þið urðuð til í lífi mínu. Ekki var það ég sem gaf ykkur líf og anda og ekki kom ég skipan á frumefnin sem þið eruð úr. Það er skapari heimsins sem mótar manninn þegar hann verður til og ákvarðar tilurð allra hluta. Þess vegna mun hann í miskunn sinni gefa ykkur anda og líf að nýju fyrir það að fórna ykkur fyrir lögmál sitt. (7. 22–23)

Lýsingarnar á dauða drengjanna eru ekki falleg lesning. En trúarbragðanördinn hnýtur um að hér er talað um framhaldslíf, sem almennt er ekki á dagskrá í Gamla testamenntinu. Það lætur einnig á sér kræla í orðum sögumanns um framferði Júdasar eftir eina orrustuna þegar hann lætur:


... alla sína menn skjóta saman. Urðu það tvö þúsund drökmur silfurs sem Júdas sendi til Jerúsalem til að kosta syndafórn. Þetta gerði hann vel og skynsamlega því að hann hafði upprisuna í huga. Ef hann hefði eigi vænst þess að hinir föllnu risu upp hefði það verið óþarfi og heimska að biðja fyrir látnum. Auk þess leit hann svo á að dýrleg umbun biði þeirra sem sofna í trú. Heilög og fróm hugsun er það. Þess vegna lét hann færa sáttarfórn fyrir hina látnu til að þeir leystust frá syndum sínum. (12. 43–45)

Það er eftir þessa skelfingu með drengina sem uppreisn Júdasar Makkabeusar hefst fyrir alvöru. Atburðarásin er ekki mikið frábrugðin þeirri í M1, en lýsingarnar eru litríkari og Guð er óneitanlega sýnilegri. Hér birtist dularfullur riddari á hvítum hesti í fylkingarbrjósti hersins þegar minnst varir (11. 8). Veikindin sem draga Antíokkus IV til dauða eru líka mun skýrar skrifuð á reikning Drottins. Og lýst af umtalsvert meiri meinfýsni:

Dómur himinsins var sannarlega með í þeirri för. Konungur sagði nefnilega í drambi sínu: „Ég skal gera Jerúsalem að fjöldagröf Gyðinga um leið og ég kem þangað.“ En Guð Ísraels, sem er alskyggn Drottinn, laust hann ósýnilegri og ólæknandi meinsemd. Hafði konungur vart sleppt þessum orðum þegar hann gat tæpast af sér borið fyrir iðrakvölum og innantökum. … Þótt hann væri enn á lífi skriðu ormar úr augum hins óguðlega og holdið leystist af honum með mikilli þjáningu og kvöl. Fnykurinn sem lagði af rotnandi holdi hans varð hernum óbærilegur. Litlu fyrr hafði hann talið sig geta náð til stjarna himinsins. Nú gat enginn borið hann vegna daunsins sem af honum lagði. (9. 4–10)


Don’t mess with da God!


Gróteskar lýsingar eru ófáar. Hér er hetjudauði öldungsins Rasís:


… þar sem hersveitin var að ryðjast inn um dyrnar stökk hann óttalaus upp á virkismúrinn og varpaði sér djarfur ofan á mannfjöldann fyrir neðan … stóð hann upp og hljóp í gegnum mannþyrpinguna, þótt blóðið rynni í lækjum og sárin væru mikil, og nam staðar uppi á þverhníptum hamri. Þo að honum væri næstum blætt út dró hann sjálfur innyflin út, tvíhenti þau og varpaði þeim á mannfjöldann. Ákallaði hann Drottinn lífs og anda og bað hann að gefa sér það að nýju sem hann nú missti. Með þessum hætti lét hann lífið. (14. 43–46)


Bókinni lýkur með sigri Júdasar og borgina helgu í höndum Gyðinga. 


Þetta er að mörgu leyti dæmigerður „sequel“. Meira ofbeldi, hástemmdari tónn, en innihaldið a.m.k. ekki meira en í fyrirrennaranum.

Vel þess virði samt fyrir unnendur hasars.


6.18.2014

Fyrsta Makkabeabók


Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð

Textinn (á ensku – apókrífu ritin eru ekki á íslensku á netinu)
Kynning

Í þessari sögubók segir frá sjálfstæðis- og sjálfsmyndarbaráttu Gyðinga í selevkídaríkinu, sem varð til þegar heimsveldi Alexanders mikla liðaðist í sundur að honum látnum.

Þetta er kunnuglegur þráður sem hér er spunninn. Gyðingar í stríði við nágranna sína og stórveldi sem ráða þeim í raun. En ekki síður við undanvillinga úr eigin röðum. 

Eins og áður lyktar flestum bardaganna með frækilegum sigrum hinna útvöldu, enda heitið á heillakarlinn í himninum. Hvort sem það er Júdas Makkabeus eða bræður hans Jóhannes og Símon sem stýra liðinu, oftast gegn ofurefli heiðingja.

Ýmislegt hefur þó breyst í heiminum frá því fyrstu stríðin voru háð, svona 1400 f.kr, þangað til Júdas Makkabeus fær Guð með sér í lið til að stöðva menningarlega kúgun Selevkídakóngsins Antíokkusar fjórða á annarri öld f. kr.

Hér er til að mynda talað mikið um stríðsvélar, umsátursturna og allskyns stórvirk tól sem bronsaldarmenn réðu ekki við. Og í einni af lykilorrustunum koma fílar í fyrsta sinn við sögu í biblísku stríði. Svalt.

Það sem setur allt í bál og brand er síðan eithvert nútímalegasta deiluefni sem um getur.

Þetta var nefnilega ekki síst fjölmenningarstríð.

Þó Selevkídaveldið væri víðfeðmt var rótarstaða menningarinnar hellensk. Þannig voru grísk áhrif sífellt að verða meira áberandi og aðþrengjandi fyrir þá sem vildu lifa gyðinglegu lífi.

Margir Ísraelar höfðu ekkert við þetta að athuga, jafnvel ekki að spóka sig naktir í nýbyggðum íþróttamannvirkjum að hellenskum hætti. Verst hvað sáttmálinn við Guð var’ sýnilegur við svoleiðis kringumstæður:

Byggðu þeir íþróttaleikvang í Jerúsalem að heiðinni fyrirmynd, létu gera sér forhúð og gerðust fráhverfir sáttmálanum heilaga. (1.14–15)

Já, blessaður rasisminn getur verið driffjöður í fegrunarlækningum. 

Það sauð samt ekki upp úr fyrr en Antíokkus IV rændi musterið, setti setulið í Jerúsalem og bannaði trú, rit og siði Gyðinga, sem og allra annarra. Allir skyldu semja sig að sið hinna ríkjandi. 

Það er aldrei gott plan.

Hinn rétttrúaði Mattatias og hans fólk hefur andóf, í fyrstu aðallega gegn undanvillingum í eigin röðum, drepa þá sem tilbiðja aðra guði, umskera drengi sem þeir klófesta. En sonur hans, Júdas Makkabeus, tekur upp keflið og uppreisnin hefst fyrir alvöru. 

Allt eru þetta augljóslega hryðjuverkamenn.

Það er svo sem óþarfi að reka gang mála í þessum stríðum í smáatriðum. Þau eru æsileg og frækileg og skelfileg og ógeðsleg eins og öll stríð. Orustur og umsátur, borgir brenndar og rændar af miklu kappi. Auk þess er flækjan á köflum allflókin, enda eru samhliða þessu í gangi allskyns skærur milli Selevkída og Ptólemaja (egypta), fyrir utan öll innanflokksátökin. Og svo er kominn nýr krakki í bekkinn:

Orðstír Rómverja barst Júdasi til eyrna. Var mikill herstyrkur þeirra rómaður og af því látið hve góðgjarnir þeir væru öllum bandamönnum sínum, þeir veittu sérhverjum nauðleitarmanni vináttu sína ... (8. 1)

Það er nefnilega það. Júdas og félagar ákveða að gera samkomulag við þessa spennandi og góðgjörnu nýliða, og reyndar Spartverja líka. Og merkilegt nokk þá eru bæði þessi veldi meira en til í að vera vinir þessarar sérvitru smáþjóðar. 

Svona svara Rómverjar t.d. sendimanni Makkabea:

Vel vegni Rómverjum og þjóð Gyðinga til sjós og lands um aldur og ævi. Sverð og óvinir séu þeim fjarri. En beri ófrið fyrr að höndum Rómar eða einhvers bandamanns Rómverja ...einhversstaðar í ríki þeirra þá skal þjóð Gyðinga veita afdráttarlausan stuðning eftir því sem aðstæður krefja. ... Hið sama skal gilda ef ófrið ber fyrr að höndum þjóðar Gyðinga ... (8. 23–27)

En það eru ekki bara fjarlæg stórveldi sem vilja vera í bandalagi með okkar mönnum. Hinar stríðandi fylkingar í glímunni um eftirhreytur Alexandersveldisins eru líka æstar í að hafa þá í sínu liði. Stór hluti bókarinnar eru hinar ýmsu vinabeiðnir og svör við þeim. Hér er t.d. bréf til Jónatans frá Alexander, sonar hins hataða Antíokkusar IV:

„Vér höfum frétt að þú sért hinn mesti kappi og og þess verður að vera vinur vor. Vér höfum því í dag skipað þig æðsta prest þjóðar þinnar og veitt þér að kallast vinur konungs. Ætlum vér þér að annast málefni vor og varðveita vináttu vora.“

Einnig sendi hann Jónatan purpuraskikkju og gullkórónu. (10. 19–20)

Það er eins og Gyðingar hafi verið í einhverskonar lykilstöðu eftir frækilega sigra Júdasar M. Stríðsherrar beggja vegna allra víglína vilja vera vinir þeirra, bjóða þeim allskyns fríðindi, frelsi til sinnar sérvisku, skattfrelsi, jú neim it. Margt af þessu er reyndar svikið jafnharðan, en þó ekki loforð Rómar og Spörtu sem aldrei reynir reyndar á.

Bókinni lýkur snögglega á því að valdafíkinn Gyðingur drepur Símon og tvo sona hans, í tilraun til að hrifsa völdin í sínar hendur. Hin útvalda þjóð heldur áfram að vera eins og sjúk fjölskylda: sameinuð út á við en sjálfri sér sundurþykk.

Í gegnum þetta hegða Gyðingarnir sér eins og dæmigerð smáþjóð með ofvaxna trú á mikilvægi sitt. Þeir veita ýmsum, en er auðvitað fyrst og fremst umhugað að halda sinni menningu lifandi - sem reynslan kennir þeim að er ævinlega og alltaf tvísýnt um, þrátt fyrir hina himnesku forgjöf.