1.14.2015

Markúsarguðspjall

Særingamaðurinn

Textinn
Samanburður
Kynning

Í tónlistarbransanum er stundum talað um „erfiðu aðra plötuna“. Það er snúið að fylgja eftir vel heppnaðri frumraun. Ekki það að Markúsarguðspjall sé eftir sama mann og Mattheusar. Eða hafi verið skrifað á eftir því. Eiginlega bara alls ekki. En kanónan raðar þessu svona. Og Markús er klárlega minnst-ívitnaði guðspjallamaðurinn. Í þessu spjalli er fátt sem er ekki líka annarsstaðar. Fjarvera ýmiss efnis beinir svo athygli að öðrum hlutum.

Hér er nú hafist handa á jafnvel enn brattari hátt en hjá Matthíasi. Ekkert um fæðingu, Maríu eða heilagan anda. Ekkert um flótta til Egyptalands, vitringa eða fjárhirða.


Þess í stað byrjum við á hrópandanum í eyðimörkinni. Og svo:


Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu. Jóhannes skírði hann í Jórdan. (1, 10)


Hann viðar að sér lærisveinum með hefðbundnum hætti. Stillir sig reyndar um að segja brandarann um Símon Pétur, en gefur honum viðurnefnið serimóníulaust síðar.


Byrjar svo að predika – og lækna. Og það eru lækningarnar sem ljá orðum hans vigt – það er jafnvel enn skýrara hér en hjá Matthíasi. Sérgreinin er líka skýrari: að flæma út illa anda.


Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi. Menn urðu mjög snortnir af orðum hans því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.
Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti: „Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs.“
Jesús hastaði þá á hann og mælti: „Þegi þú, og far út af honum.“
Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum. Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: „Hvað er þetta? Hann kennir á nýjan hátt. Það er eins og hann búi yfir guðlegum mætti! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum.“ Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu. (1. 21–28)


Hann býr yfir mætti. Þessi máttur gerir orð hans trúanleg, þó hann „kenni á nýjan hátt“.


Já og svo er þetta svolítið snjöll frásögn í því hvernig hinn illi andi talar gegnum þann andsetna. Smá Exorcist-blær á þessu.


Þessar illraandasögur eru fjölmargar hér. Til dæmis þessi með andabandið Hersingu sem hann flæmir úr hýslinum í nærstadda svínahjörð. (5. 9–13).


Vafalaust hafa þetta verið villisvín - varla hafa menn haldið svo óhrein dýr óáreittir undir vökulu auga faríseanna.


Já og sjálf María Magdalena var heimili nokkurra slíkra.


Almennt séð: Krafturinn sem kraftaverk eru kennd við sanna að það sem hann kennir er sannleikurinn.


Kraftaverkasögur eru auðvitað ekki það sem við utantrúarmenn getum sótt til gagns í þessa bók. Fagurlega orðuð tilmæli um að elska náungann og annað þvíumlíkt er öllu hnýsilegra. Og þau eru hér nokkur. Þar á meðal kærleiksboðorðið. En óneitanlega staldrar maður við þegar Jesús beitir kraftaverkamættinum til ills - eða allavega í hefndarskyni:

Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi Jesús hungurs. Þá sá hann álengd laufgað fíkjutré og fór að gá hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því fann hann ekkert nema blöð enda var ekki fíknatíð. Jesús sagði þá við tréð: “Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!” (11. 12-14)

Mannlegur eftir allt saman, gæti einhver sagt. Like father, like son væri líka hægt að segja Dæmisögur eru hér nokkrar, og margar þeirra voru einnig hjá Mattheusi. Hér er jafnvel skýrara en áður að hann talar í dæmisögum við söfnuðinn en berum orðum við lærisveinana. Í mörgum slíkum dæmisögum flutti Jesús þeim orðið svo sem þeir gátu numið og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirr en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt þegar þeir voru einir. (4. 33–34) Það verður að segjast að myrkar eru sögurnar, og það sem umfram þær er í máli Krists við lærisveinanna snýst nánast eingöngu um hvað muni gerast þegar hann verði svikinn og drepinn. Já og svo eru reyndar nokkrar dæmisögur fyrir þá líka. Erfitt að skilja af hverju er svona brýnt að vera óljós þegar talað er við pupulinn samt. Smám saman koma í fókus hinir fjórir tjáningarhættir Krists:
  • Fyrir alla: Kraftaverk
  • Við almenning: Dæmisögur
  • Við lærisveina: Spásagnir um nánustu framtíð og efstu daga
  • Við fræðimenn og Farísea: Spælingar
Hinar síðastnefndu eru stundum býsna góðar. Þessi er t.d. bæði hjá Mat og Mark: Þeir koma aftur til jerúsalem og þegar hann var á gangi í helgidóminum koma til hans æðstu prestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir og segja við hann: „Með hvaða valdi gerir þu´þetta? Hver gaf þér það vald að þú gerir þetta?“ Jesús sagði við þá: „Ég vil leggja eina spurningu fyrir ykkur. Svarið henni og ég mun segja ykkur með hvaða valdi ég geri þetta. Hver fól Jóhannesi að skíra, var það Guð eða voru það menn? Svarið mér!“ Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: „Ef við svörum: það var Guð, spyr hann: Hví trúðuð þið honum þá ekki? Eða ættum við að svara: „Það voru menn?“ – Það þorðu þeir ekki fyrir fólkinu því allir töldu að Jóhannes hefði verið sannur spámaður. Þeir svöruðu Jesú: „Við vitum það ekki.“ Jesús sagði við þá: „Ég segi ykkur þá ekki heldur hver fól mér að gera þetta“. (11. 27–33) Frekar svalt. Enn er alveg ljóst að heimsendir er í nánd. Hann mun koma „í þessari kynslóð“. Þó hér sé ekkert um liljur vallarins eða hvatning um að taka sér fugla himinsins til fyrirmyndar um fyrirhyggju fyrir sig og sína eru fjölskyldugildi ekki hátt skrifuð hér. Kristur er reyndar alveg afdráttarlaust á móti hjónaskilnuðum, en annars er hann á því að vinnan komi fyrst: Nú koma móðir Jesú og bræður, standa úti og gera honum orð að koa. Mikill fjöldi sat í kringum hann og var honum sagt „Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér“ Jesús svarar þeim „ver er móðir mín og bræður?” Og hann leit á þau er kringum hann sáut og segir: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gerir vilja Guðs, sá er bróðir minn og móðir.“ (3. 31-35) Bræðralag allra manna trompar fjölskyldubönd. Talandi um fjölskyldur – Eitt af því sem Markús fer eilítið ítarlegar í en Mattheus er aðdragandi dauða Jóhannesar skírara. Báðir rekja Jesúsarótta Heródesar til trúar á að hann sé Jóhannes endurborinn. Hvorugur nefnir reyndar Salóme á nafn. Og báðir leggja áherslu á hve tregur Heródes er til að lífláta Jóhannes. Lokakaflinn er keimlíkur frásögn Mattheusar, að frátöldu því að engum sögum fer af sjálfsmorði Júdasar eða handþvotti Pílatusar. Aftur hangir dauðadómurinn á upploginni ásökun um að Jesús hafi sagst geta rifið og endurbyggt musterið á þremur dögum. Enn er jafn óskiljanlegt í hverju svik Júdasar ættu að vera fólgin. Reyndar er jafnvel enn meira áberandi hér hvað Kristur þráir að fara höldu höfði, en jafn ljóst að það hefur honum gersamlega mistekist. Mig langar að vita meira um þetta ljúgvitni. Er engin arfsögn um hver þetta gæti hafa verið? Svona eins og að einhverntíman fengu vitringarnir frá Austurlöndum ekki bara tölu heldur nöfn. Að ógleymdri henni Salóme. Hún er enn bara dóttir Heróídasar, bróðurdóttir Heródesar. Og María Magdalena andsetin - engum sögum hefur enn farið af atvinnu hennar. Markúsarguðspjall er meiri axjónsaga en Mattheus. Kaldari, en líka mildari. Læknirinn Jesús er í forgrunni og honum er minna í mun að koma fram sem arftaki spámannanna eða ítreka Lögmálið. Sem bókmenntir er hún lakari, ekki eins snjall sögumaður hér á ferð. Framhald í næsta spjalli.

1.04.2015

Mattheusarguðspjall

Heimsendir er í nánd!


Nú kom hún aftur – tilfinningin sem ég fékk við að lesa Fyrstu Mósebók. Þessi kunnugleiki en jafnframt framandleiki. Því hér er margt og mikið sem „allir“ þekkja þó þeir hafi aldrei lesið bókina og hvorki séð myndina né söngleikinn.
Hér er fjallræðan (meira af henni síðar) og flóttinn til Egyptalands. Hér mettar Jesús* mannfjöldann með sjö brauðum og fáeinum fiskum. Hér er borðum víxlaranna velt við. Hér er börnunum leyft að koma til. Og þetta:
Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir. (22. 37–39)
Nú er ég tiltölulega nýlega búinn að lesa lögmálið og spámennina og það þarf talsvert handafl – mér liggur við að segja kraftaverk – til að leiða það sem þar stendur af þessum skýru og fögru orðum. Enda láta skynsamir fylgismenn Krists þetta duga. Meira að segja óskynsamir fylgismenn hans vitna ekki í rit Gamla Testamentisins nema þá búta þess sem henta málflutningi þeirra.
Reyndar skilst mér á því sem ég hef lesið í kringum Matthías að sá guðspjallamaður sé einna uppteknastur þeirra fjórmenninga við að tengja Jesúm við Gyðingdóm, þjóðina útvöldu og hin fornu helgirit hennar. 
Samanburður verður að bíða þar til ég hef lesið hina af „the fab four“. Hitt er annað mál að þetta er nokkuð augljóst. Hér predikar gyðinglegur spámaður – rabbíi (hann er kallaður það nokkrum sinnum í bókinni). Hér ræðst mælskur kraftaverkalæknir gegn bæði hinni andlegu (farísear) og veraldlegu (saddúkear) elítu. Og það er alveg skýrt og ljóst að dauði hans er á þeirra vegum.
Tölum aðeins um form og stíl. Þetta er frábærlega skrifuð bók. Formið glæsilegt. Eftir ættartöluinngang sem vafalaust hefur fælt fleiri en unglinginn mig frá því að lesa meira hefst æsileg atburðarás. Getnaður, fæðing, flótti og eftirför. Höfundur Mattheusarguðspjalls er verulega flinkur sögumaður og fer aftur á það flug undir lokin þegar sjónarhornið verður aftur „frásagnarkennt“.
Meginhlutinn – ketið í hamborgaranum – er svo skýrslukennd mynd af því sem söguhetjan – Jesús – segir og gerir. Líka vel skrifuð.
Ef við byrjum á byrjuninni þá vekur strax athygli þegar Mat víkur frá Lúk. Hér er ekkert manntal, engin boð frá Ágústusi, ekkert fjárhús, engir fjárhirðar og reyndar ekkert sem bendir til að hinir ungu foreldrar (móðir og staðgöngufaðir) búi ekki einfaldlega í Betlehem. Eftir flóttann til Egyptalands sest fjölskyldan síðan að í Nasaret, að því er virðist af dramatískri nauðsyn:
Þar setist hann að í borg sem heitir Nasaret en það átti að rætast sem spámennirnir sögðu fyrir um: „Nasarei skal hann kallast“. (2, 23)
Verst að ekkert í spádómunum vísar í Nasaret, hvað þá að þetta tiltekna kvót sé þar að finna, þó Mattheus og þýðendur hans setji það innan gæsalappa.
Eftir að hafa skírst hjá Jóhannesi og ekki látið freistast í eyðimörkinni tekur Jesús að predika. Skilaboðin virðast bæði mjög einföld og fylgja spámannahefðinni:
Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: „Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd“. (4, 17)

Svo mörg voru þau orð. Kristur virkar stundum eins og einn spámannanna, eða allavega eins og aðeins minna klikkaður sporgöngumaður þeirra. Maður hugsar um frumblúsmennina dularfullu og það sem Led Zeppelin lærði af / fékk lánað hjá þeim, og gerði að aðgengilegri almenningseign.
Jesús byrjar líka að lækna sjúka. Stundum eru þeir sem læknaðir eru beðnir að halda því fyrir sig. Það fer nú svona og svona. Og ef maður er illa innrættur finnst manni nokkuð ljóst að það eru kraftaverkin sem hafa aðdráttaraflið og mannfjöldinn láti sig meira hafa ræðuhöldin til að eiga þess kost að fá bót meina sinna:
„Jesús fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, predikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hver kyns sjúkdóm og veikindi meðal fólksins. Orðstír hans barst um allt Sýrland og menn færðu til hans alla sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum … og hann læknaði þá.“ (4, 23–24)
Ekki það að það sé neitt upp á retóríkina að kvarta. En óneitanlega er kenningin hörð. Meginþemað er þetta ofangreinda um að himnaríki sé í nánd og öllu skipti að vera í góðu sambandi við Guð. Til þess má kosta öllu: fjölskyldu (vertu ekki að hafa fyrir því að grafa foreldrana, 8, 21-22, 10, 37-39), veraldlegri fyrirhyggju (hyggið að liljum vallarins, 6, 25-29), útlimum jafnvel (18, 8-9)
En nú erum við komin framúr okkur. Framhjá sjálfri Fjallræðunni. Sem er mun fyrr á dagskrá en ég hafði ímyndað mér – og það er ekki þar sem Jesús mettar mannfjöldann eins og ég hélt. Hann gerir það reyndar tvisvar í Mattheusarguðspjalli, fyrst með fimm brauðum og tveimur fiskum (14, 15-21) og síðan sjö fiskum og fáeinum smáfiskum (15 35-38). Bitamunur en ekki fjár.
Annað sem ég hafði ekki áttað mig á um Fjallræðuna: hún er prívatræða yfir lærisveinunum einum:
Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði: (5, 1–2)
Svolítið eins og hann sé að flýja múginn. Það er ekki fyrr en hann stígur niður af fjallinu aftur sem aftur sem talað er um að mannfjöldi fylgi honum (8, 1).
En hvað er hann þá að kenna lærisveinum sínum á fjallinu? 
Þarna eru auðvitað sæluboðin og faðirvorið og ýmislegt annað af kjarnaskilaboðum kristninnar og fegurstu textabrotum vestrænnar menningar. Þau eru reyndar víða í bókinni.
En Kristur fer líka yfir boðorðin tíu (sum þeirra) á ansi áhugaverðan hátt. Stundum þannig að hann vilji ganga lengra - stundum skemur. Förum aðeins yfir þetta:
Þú skalt ekki morð fremja

Gengur ekki nógu langt. Þeir sem reiðast eða hrakyrðir bróður sinn fer til helvítis. (5, 21-26)
Þú skalt ekki drýgja hór

Gengur ekki nógu langt. Þeir sem girnast konu, eða skilja við konu án þess að það sé vegna hórdómsbrots hennar, eru hórsekir. (5, 27-32)
Þú skalt ekki sverja rangan eið

Gengur alls ekki nógu langt. Þú skalt ekki vinna eið. Punktur. (5, 33-37)
Auga fyrir auga

Er afnumið. Bjóðið hina kinnina. (5, 38-39)
Elskið náungann en hatið óvinina

Er rangt. Elskið óvini yðar. „Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir hinum vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“ (5, 43-45)
Fallega sagt. Mig minnir reyndar að faðir okkar á himnum falli sjálfur ítrekað á þessu prófi á árum áður.
Almennt ítrekar Jesús að lögmálið - þ.e. Mósebækur - séu enn í fullu gildi. Hann er ákaflega spámannlegur á köflum - þ.e. minnir á dómsdagsþusara Gamla testamentisins. Skýrari samt og öllu mildari. Oftast.
Í bókinni er líka slatti af dæmisögum. Þeim virðist ætlað að skýra á hulinn hátt eðli himnaríkis og skilyrði fyrir aðgangi að því. Hefjast á orðunum „Líkt er um himnaríki og…“
Það verður að viðurkennast að þessar sögur eru nú oftast ekki til mikils skilningsauka. Frekar að þær séu til að réttlæta og sannfæra. Tökum söguna um vinnumennina í víngarðinum í 20. kafla. Þar greiðir víngarðseigandinn öllum verkamönnunum jafnmikil laun, óháð framlagi, við talsverða óánægju þeirra sem mest hafa lagt til verksins. Þetta er ágæt saga, en það hefði alveg eins verið hægt að segja: „Sko, það þýðir ekkert að vera fúll yfir að hafa eytt ævinni í dygðugt en leiðinlegt líf - Guð er góður og miskunnsamur, og því vís með að náða allskyns nautnabelgi og skúrka á síðustu stundu. Hann ræður, ok?“
Svo eru aðrar hreinlega óhugnanlegar í Gamlatestamenntislegri grimmd sinni. Ekki síst brúðkaupsveislan blóðidrifna í 22. kafla.
Um lokakaflann - handtöku og krossfestingu Jesú - hef ég aðeins tvennt að segja að sinni:
1Ég skil ekki í hverju svik Júdasar felast. Að bera kennsl á Jesúm? Víðfrægan/illræmdan predikara og kraftaverkalækni með þúsundir fylgismanna sem nokkrum dögum/vikum áður stóð í þrasi við fulltrúa elítunnar og velti við borðum í musterinu? Vissu ekki allir hver þetta var? Á hinn bóginn bera tveir nafnlausir menn vitni gegn honum fyrir Kaífasi og segja hann hafa sagst geta rifið musterið og endurreist á þremur dögum (26, 61) Það dugði til sakfellingar. Þetta man ég ekki eftir að hafa séð eða heyrt áður. Það væri fróðlegt að vita deili á þessum drullusokkum.
2Eins og sagt er frá málum hér er yfirstétt Gyðinga einni um að kenna hvernig fór. Hún notar miskunarlaust og vélgengt framkvæmdavald Rómverja til að koma fyrir kattarnef manni sem henni stóð stuggur af. Múgurinn kallar blóð hans yfir sig. Ekkert sýnilegt svigúm til að túlka það neitt, svo ég fái séð.
Kröftug bók. Full af fögrum lífsreglum, ströngum kröfum, skrítnum sögum, kraftaverkum og heimsendaspám. Hlakka til að lesa þá næstu og hefja samanburð.
* Nafnið beygist svona.


1.01.2015

Inngangur að nýjatestamentislestri

Nú hefst lokahluti Biblíulesturs og ritgerðasmíða um hann. Nýja testamentið. Guðspjöllin, Postulasagan, margt bréfið og Opinberunarbókin. Til grundvallar verður nýjasta útgáfan/þýðingin en ég er að hugsa um að lesa líka part og part í þýðingu Odds Gottskálkssonar. Eins og áður mun ég svo snuðra í erlendum þýðingum ef ég hnýt um eitthvað sem mér finnst málum blandið.

Það verður að viðurkennast: Glímuskjálftinn þegar ég hefst handa við þennan endasprett er bæði meiri og annars eðlis en þegar bókin var opnuð á fyrstu Mósebók.

Því ef þér hefur tekist að afhelga þessa sögu með öllu þá ertu komin(n) lengra út á vantrúarísinn en ég treysti mér, eða kæri mig um. Er ég þó ekki í Þjóðkirkjunni, hvað þá öðrum söfnuðum, og lít ekki á mig sem kristinn.

En samt.

Nýja testamentið er í mínum huga „heilagt“ á einhvern hátt sem það gamla er ekki. Reyndar voru öflugar hreyfingar í frumkristni á því að varpa helgiritum Gyðinga alfarið fyrir róða og láta fagnaðarerindin og pistla Páls og félaga nægja. Þær töpuðu.

Allavega líður mér þannig að það skipti meira máli að nálgast þessi rit með meiri, tjah, kurteisi/nærfærni, en hinar minna þekktu og á köflum súrrealískt hrottalegu bækur GT. Kallið mig pempíu, hræsnara, rasista jafnvel. Svona líður mér. Finnst sjálfsagt að fara úr skónum áður en gengið er hér inn.

Hitt er annað mál: Ég mun alveg örugglega ekki stilla mig um að skrifa um skrítna staði, sjaldséða kafla, veika bletti, kristilega blygðunarbletti ef svo má segja. Skárra væri það nú. Ég mun líka dást að því sem fallegt er og vel sagt og gert. Og ekki síst reyna að svipast um eftir því sem víðsýnn trúleysingi, eins og ég vil meina að ég sé, getur sótt til bókarinnar góðu.

Og hver veit nema ég komi auga á hin kristnu gildi sem svo mjög er hampað sem einstökum verðmætum, og líka dregið í efa að séu nokkuð annað en sjálfsagðir hlutir, heilbrigð skynsemi og góss úr alþýðuspeki og allskyns trúarhugmyndum héðan og þaðan úr tíma og rúmi.

Já og svo ætla ég að reyna að vera skemmtilegur. Og þokkafullur í þessum sjálfskipaða línudansi.

Ég segi nú bara eins og annar opinhuga maður, Heimir Schnitzel: Má maður vera með glímuskjálfta?!