1.04.2015

Mattheusarguðspjall

Heimsendir er í nánd!


Nú kom hún aftur – tilfinningin sem ég fékk við að lesa Fyrstu Mósebók. Þessi kunnugleiki en jafnframt framandleiki. Því hér er margt og mikið sem „allir“ þekkja þó þeir hafi aldrei lesið bókina og hvorki séð myndina né söngleikinn.
Hér er fjallræðan (meira af henni síðar) og flóttinn til Egyptalands. Hér mettar Jesús* mannfjöldann með sjö brauðum og fáeinum fiskum. Hér er borðum víxlaranna velt við. Hér er börnunum leyft að koma til. Og þetta:
Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir. (22. 37–39)
Nú er ég tiltölulega nýlega búinn að lesa lögmálið og spámennina og það þarf talsvert handafl – mér liggur við að segja kraftaverk – til að leiða það sem þar stendur af þessum skýru og fögru orðum. Enda láta skynsamir fylgismenn Krists þetta duga. Meira að segja óskynsamir fylgismenn hans vitna ekki í rit Gamla Testamentisins nema þá búta þess sem henta málflutningi þeirra.
Reyndar skilst mér á því sem ég hef lesið í kringum Matthías að sá guðspjallamaður sé einna uppteknastur þeirra fjórmenninga við að tengja Jesúm við Gyðingdóm, þjóðina útvöldu og hin fornu helgirit hennar. 
Samanburður verður að bíða þar til ég hef lesið hina af „the fab four“. Hitt er annað mál að þetta er nokkuð augljóst. Hér predikar gyðinglegur spámaður – rabbíi (hann er kallaður það nokkrum sinnum í bókinni). Hér ræðst mælskur kraftaverkalæknir gegn bæði hinni andlegu (farísear) og veraldlegu (saddúkear) elítu. Og það er alveg skýrt og ljóst að dauði hans er á þeirra vegum.
Tölum aðeins um form og stíl. Þetta er frábærlega skrifuð bók. Formið glæsilegt. Eftir ættartöluinngang sem vafalaust hefur fælt fleiri en unglinginn mig frá því að lesa meira hefst æsileg atburðarás. Getnaður, fæðing, flótti og eftirför. Höfundur Mattheusarguðspjalls er verulega flinkur sögumaður og fer aftur á það flug undir lokin þegar sjónarhornið verður aftur „frásagnarkennt“.
Meginhlutinn – ketið í hamborgaranum – er svo skýrslukennd mynd af því sem söguhetjan – Jesús – segir og gerir. Líka vel skrifuð.
Ef við byrjum á byrjuninni þá vekur strax athygli þegar Mat víkur frá Lúk. Hér er ekkert manntal, engin boð frá Ágústusi, ekkert fjárhús, engir fjárhirðar og reyndar ekkert sem bendir til að hinir ungu foreldrar (móðir og staðgöngufaðir) búi ekki einfaldlega í Betlehem. Eftir flóttann til Egyptalands sest fjölskyldan síðan að í Nasaret, að því er virðist af dramatískri nauðsyn:
Þar setist hann að í borg sem heitir Nasaret en það átti að rætast sem spámennirnir sögðu fyrir um: „Nasarei skal hann kallast“. (2, 23)
Verst að ekkert í spádómunum vísar í Nasaret, hvað þá að þetta tiltekna kvót sé þar að finna, þó Mattheus og þýðendur hans setji það innan gæsalappa.
Eftir að hafa skírst hjá Jóhannesi og ekki látið freistast í eyðimörkinni tekur Jesús að predika. Skilaboðin virðast bæði mjög einföld og fylgja spámannahefðinni:
Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: „Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd“. (4, 17)

Svo mörg voru þau orð. Kristur virkar stundum eins og einn spámannanna, eða allavega eins og aðeins minna klikkaður sporgöngumaður þeirra. Maður hugsar um frumblúsmennina dularfullu og það sem Led Zeppelin lærði af / fékk lánað hjá þeim, og gerði að aðgengilegri almenningseign.
Jesús byrjar líka að lækna sjúka. Stundum eru þeir sem læknaðir eru beðnir að halda því fyrir sig. Það fer nú svona og svona. Og ef maður er illa innrættur finnst manni nokkuð ljóst að það eru kraftaverkin sem hafa aðdráttaraflið og mannfjöldinn láti sig meira hafa ræðuhöldin til að eiga þess kost að fá bót meina sinna:
„Jesús fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, predikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hver kyns sjúkdóm og veikindi meðal fólksins. Orðstír hans barst um allt Sýrland og menn færðu til hans alla sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum … og hann læknaði þá.“ (4, 23–24)
Ekki það að það sé neitt upp á retóríkina að kvarta. En óneitanlega er kenningin hörð. Meginþemað er þetta ofangreinda um að himnaríki sé í nánd og öllu skipti að vera í góðu sambandi við Guð. Til þess má kosta öllu: fjölskyldu (vertu ekki að hafa fyrir því að grafa foreldrana, 8, 21-22, 10, 37-39), veraldlegri fyrirhyggju (hyggið að liljum vallarins, 6, 25-29), útlimum jafnvel (18, 8-9)
En nú erum við komin framúr okkur. Framhjá sjálfri Fjallræðunni. Sem er mun fyrr á dagskrá en ég hafði ímyndað mér – og það er ekki þar sem Jesús mettar mannfjöldann eins og ég hélt. Hann gerir það reyndar tvisvar í Mattheusarguðspjalli, fyrst með fimm brauðum og tveimur fiskum (14, 15-21) og síðan sjö fiskum og fáeinum smáfiskum (15 35-38). Bitamunur en ekki fjár.
Annað sem ég hafði ekki áttað mig á um Fjallræðuna: hún er prívatræða yfir lærisveinunum einum:
Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði: (5, 1–2)
Svolítið eins og hann sé að flýja múginn. Það er ekki fyrr en hann stígur niður af fjallinu aftur sem aftur sem talað er um að mannfjöldi fylgi honum (8, 1).
En hvað er hann þá að kenna lærisveinum sínum á fjallinu? 
Þarna eru auðvitað sæluboðin og faðirvorið og ýmislegt annað af kjarnaskilaboðum kristninnar og fegurstu textabrotum vestrænnar menningar. Þau eru reyndar víða í bókinni.
En Kristur fer líka yfir boðorðin tíu (sum þeirra) á ansi áhugaverðan hátt. Stundum þannig að hann vilji ganga lengra - stundum skemur. Förum aðeins yfir þetta:
Þú skalt ekki morð fremja

Gengur ekki nógu langt. Þeir sem reiðast eða hrakyrðir bróður sinn fer til helvítis. (5, 21-26)
Þú skalt ekki drýgja hór

Gengur ekki nógu langt. Þeir sem girnast konu, eða skilja við konu án þess að það sé vegna hórdómsbrots hennar, eru hórsekir. (5, 27-32)
Þú skalt ekki sverja rangan eið

Gengur alls ekki nógu langt. Þú skalt ekki vinna eið. Punktur. (5, 33-37)
Auga fyrir auga

Er afnumið. Bjóðið hina kinnina. (5, 38-39)
Elskið náungann en hatið óvinina

Er rangt. Elskið óvini yðar. „Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir hinum vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“ (5, 43-45)
Fallega sagt. Mig minnir reyndar að faðir okkar á himnum falli sjálfur ítrekað á þessu prófi á árum áður.
Almennt ítrekar Jesús að lögmálið - þ.e. Mósebækur - séu enn í fullu gildi. Hann er ákaflega spámannlegur á köflum - þ.e. minnir á dómsdagsþusara Gamla testamentisins. Skýrari samt og öllu mildari. Oftast.
Í bókinni er líka slatti af dæmisögum. Þeim virðist ætlað að skýra á hulinn hátt eðli himnaríkis og skilyrði fyrir aðgangi að því. Hefjast á orðunum „Líkt er um himnaríki og…“
Það verður að viðurkennast að þessar sögur eru nú oftast ekki til mikils skilningsauka. Frekar að þær séu til að réttlæta og sannfæra. Tökum söguna um vinnumennina í víngarðinum í 20. kafla. Þar greiðir víngarðseigandinn öllum verkamönnunum jafnmikil laun, óháð framlagi, við talsverða óánægju þeirra sem mest hafa lagt til verksins. Þetta er ágæt saga, en það hefði alveg eins verið hægt að segja: „Sko, það þýðir ekkert að vera fúll yfir að hafa eytt ævinni í dygðugt en leiðinlegt líf - Guð er góður og miskunnsamur, og því vís með að náða allskyns nautnabelgi og skúrka á síðustu stundu. Hann ræður, ok?“
Svo eru aðrar hreinlega óhugnanlegar í Gamlatestamenntislegri grimmd sinni. Ekki síst brúðkaupsveislan blóðidrifna í 22. kafla.
Um lokakaflann - handtöku og krossfestingu Jesú - hef ég aðeins tvennt að segja að sinni:
1Ég skil ekki í hverju svik Júdasar felast. Að bera kennsl á Jesúm? Víðfrægan/illræmdan predikara og kraftaverkalækni með þúsundir fylgismanna sem nokkrum dögum/vikum áður stóð í þrasi við fulltrúa elítunnar og velti við borðum í musterinu? Vissu ekki allir hver þetta var? Á hinn bóginn bera tveir nafnlausir menn vitni gegn honum fyrir Kaífasi og segja hann hafa sagst geta rifið musterið og endurreist á þremur dögum (26, 61) Það dugði til sakfellingar. Þetta man ég ekki eftir að hafa séð eða heyrt áður. Það væri fróðlegt að vita deili á þessum drullusokkum.
2Eins og sagt er frá málum hér er yfirstétt Gyðinga einni um að kenna hvernig fór. Hún notar miskunarlaust og vélgengt framkvæmdavald Rómverja til að koma fyrir kattarnef manni sem henni stóð stuggur af. Múgurinn kallar blóð hans yfir sig. Ekkert sýnilegt svigúm til að túlka það neitt, svo ég fái séð.
Kröftug bók. Full af fögrum lífsreglum, ströngum kröfum, skrítnum sögum, kraftaverkum og heimsendaspám. Hlakka til að lesa þá næstu og hefja samanburð.
* Nafnið beygist svona.


Engin ummæli: