10.13.2005

Viðtalsbil

Það hefur verið svolítið uppihald í þessum pistlum, og biðst ég afsökunar á því. Er kominn lengra með að lesa, en hef verið á kafi í öðrum skrifum og ekki tímt tíma í þetta verkefni. Það stendur hinsvegar ekki til að hætta og útlit fyrir að bráðum rofi til.

Hef bætt við nokkrum krækjum, tvær fúndametalistakirkjur, Krossinn og Kefas og svo álíka einstrengingslega og húmorslausa trúleysingja, Vantrú.is. Einnig Kaþólsku kirkjuna á Íslandi og síðu um gyðingdóm, að ógleymdu Deus Ex Cinema.

Einnig bætti ég inn þremur krækjum við hverja grein, til þægindaauka fyrir lesendur. Ein krækjan leiðir að texta viðkomandi bókar á Íslensku, önnur inn á Bible Gateway þar sem hægt er að bera saman ólíkar þýðingar. Síðast en ekki síst er krækja inn á síðu um viðkomandi bók á Wikipedia.

Ég er svoddan fróðleiksnörd að ég var ekki fyrr byrjaður en ég fór að viða að mér ítarefni. Keypti t.d. Apókrífu bækurnar og velti nú fyrir mér hvort ég geri þeim skil áður en ég ræðst á nýja testamentið, eða geymi þær þar til síðast. Um daginn fjárfesti ég svo í Nýjatestamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar og er að gæla við þá hugmynd að nota hana sem aðaltexta. Sennilega ekki samt.

Svo keypti ég mér tvær hækjur. Og hef þegar hent þeim báðum. Kraftaverk!

Isaac Asimov er mikil hamhleypa til skrifta og hefur farið yfir Biblíuna með ströngu auga staðreyndapostulans. Asimov's Guide to the Bible er mikill doðrantur og á köflum gagnlegur, en svolítið eins og að hafa Björn Margeir mínus húmorinn í höndunum.

The Bible for Dummies er eins og nafnið bendir til. Einstaka gagnlegir fróðleiksmolar, en pakkað inn í svo aumingjagóða froðu að manni verður illt. Svo er bókin dálítið upptekin af því að skýra burt allt sem er stuðandi í ritunum, og eins og nærri má geta á sú nálgun lítt upp á pallborð þess sem hér skrifar.

Eitt sem ég lærði af þeirri bók er ágætt dæmi um hvernig hægt er að lesa hluti í texta í stað þess að lesa þá úr honum.

Þið munið eftir setningunni góðu "þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar". Sérkennileg skilaboð kannski, en engu að síður nokkuð afdráttarlaus og auðvelt að hlýða þeim. Kemur svo ekki á daginn að það er þessi lífsregla sem liggur til grundvallar því að gyðingar borða ekki saman kjötafurðir og mjólkurafurðir af neinu tagi.

Hvernig þeir láta þá túlkun ganga upp er mér óskiljanlegt. Sumir textar eru greinilega til þess fallnir að álykta vítt útfrá þeim. Dæmisögur eru til dæmis svoleiðis. En kannski ekki fullkomlega konkret lagagreinar. Og þó svo það sé svigrúm til að gefa sér að þessi regla gefi vísbendingu um fleira en kiðlinga og geitamjólk, þá virðist mér þessi útfærsla bannsins vera algerlega fráleit.

Reyndar er það það kannski uppsúmmeringin af lestri þessara fyrstu bóka. Það er erfitt að sjá í þeim lærdóma sem hægt er að nýta sér, eða lífsreglur sem eftirsóknarvert er að fara eftir. Þeim mun meira af blóði, mannhatri, kvenfyrirlitningu og reglum sem jafnvel kristnasta fólki dytti aldrei í hug að fara eftir. Vissulega magnaðar sögur, en það sem þó er í samræmi við það sem við teljum gott eru það sem Þórbergur kallaði "Tómar selvfölgeligheðer".

Enn er slatti eftir af þeim hluta gamlatestamentisins sem rekur söguna. Það er líklega ekki fyrr en með spámönnunum sem annað hljóð fer að færast í strokkinn.

10.10.2005

Jósúabók


Textinn
Samanburður
Kynning


Örlítið meiri diskant

Í Jósúabók ráðast ættkvíslirnar tólf inn í fyrirheitna landið með öllu því sjálfstrausti sem einn Guð getur innblásið einni þjóð. Forystumaðurinn er mikill kappi, tónelskur en vekur ógn og skelfingu engu að síður. Jósúa er einhverskonar Benni Helga* þeirra Ísraela.

Brífið er alveg skýrt: ekkert má taka sem herfang af villutrúarmönnunum og engu lífi má eira. Á þessu verða reyndar áhugaverðar undantekningar. Fyrst í njósnaferðinni í 2 kafla þar sem Jeríkóska gleðikonan Rahab felur spæjarana uppi á þaki hjá sér gegn loforði um að henni og hennar fólki verði þyrmt. þetta er æsispennandi saga og ég hafði þungar áhyggjur af því að Ísraelsmenn gerðust eiðrofar þar sem loforðið við Guð um algera eyðileggingu teldist hinu æðra. En svo reyndist ekki vera og fjölskylda vændiskonunnar fékk að fara.

Önnur skemmtileg saga um fólk sem slapp undan útrýmingunni eru Gíbeonbúar, sem dulbjuggu sig sem ferðalanga og féllu því ekki undir kríteríuna fyrir, afsakið orðbragðið, helförina. Fengu að gerast þrælar í staðinn og undu allir glaðir við sitt. Reyndar kemur síðan í ljós að fleiri sluppu og "landnámið" var ekki eins snyrtilegt og til hafði staðið. Enda eru illsakir Guðs við sitt fólk upp frá þessu þær helstar að lýðurinn er sífellt að laumast til að tilbiðja aðra guði sem nágrannarnir koma þeim uppá.

Engu að síður er þessi engu-má-eira-stefna atriði sem erfitt er að kyngja, hvað þá að samhæfa við guð fermingarfræðslunnar. Fyrir utan hvað er óþægilegt að lesa um þessa útvöldu landtökumenn og þá blessun sem hvílir yfir illvirkjum þeirra, svona í ljósi ástandsins í fyrirheitna landinu í dag. En þetta er vitaskuld ein afleiðing þess að lesa bókina frá upphafi og gera grein fyrir áhrifum hvers kafla fyrir sig. Mér skilst að þetta gangi allt saman upp að lokum, en eins og segir í söngnum góða um Roy Rogers:

"Mér þætti gaman að sjá það!"

Hápunktur bókarinnar í Hollywoodskilningi er vitaskuld fall Jeríkó fyrir hátækniárás karlakórs Ísraelska hersins. En eins og með slíka punkta í bíó þá er hann hálfgert antiklæmax miðað við hinar mannlegu smásögur í kring. Svolítið eins og síðasta Matrix-myndin, sem þrátt fyrir gengdarlausrar brellur, mannfall og djöfulgang er algerlega misheppnuð við hliðina á hugmyndagnóttinni og persónulegu sálarstríði fyrstu myndarinnar. Örlög Rahab eru áhugaverð, herskarar að kljást er hávaði.

Síðari hluti bókarinnar er síðan tilbrigði við listasmíðina í fyrri bókum. Að þessu sinni er gerð grein fyrir "landnámi" hverrar kynslóðar, hvaða borgir prestaætt Leví fær fyrir sig og hvaða borgir eru griðastaðir, en það mál fær merkilega mikið vægi hér og í bókunum á undan. Griðaborgir eru fyrir þá sem óvart drepa menn, svo þeir geti komist undan hefndarþyrstum ættmennum þess sem fyrir slysaspjótinu varð. Góð hugmynd, en eins og ég segi, fyrirferðin á málinu er athyglisverð, svo og fjöldi borga sem hýstu svona ógæfumenn. Kannski voru þeir svona klaufskir og ómannglöggir, nema þá að systemið hafi verið misnotað...

Að lokum ein skemmtileg saga um GM**.
Nú kemur nefnilega á daginn að á þeim fjörutíu árum sem fólkið hafði flakkað um eyðimörkina hafði þeim haldist uppi að efna ekki sáttmála Abrahams. Hvernig á því stendur er ekki ljóst, en nú kemur Guð með bakreikning og felur Jósúa að smíða sér steinhníf og byrja að kútta. Sem hann og gerir. Allir halaklipptir áður en vaðið var útí og slátrunin hefst fyrir alvöru.

Á austurbakkanum bíða konur, börn og 601.730 forhúðir.


*Referens aðeins fyrir Húsvíkinga. Sorrí.
**Genital Mutilation