10.10.2005

Jósúabók


Textinn
Samanburður
Kynning


Örlítið meiri diskant

Í Jósúabók ráðast ættkvíslirnar tólf inn í fyrirheitna landið með öllu því sjálfstrausti sem einn Guð getur innblásið einni þjóð. Forystumaðurinn er mikill kappi, tónelskur en vekur ógn og skelfingu engu að síður. Jósúa er einhverskonar Benni Helga* þeirra Ísraela.

Brífið er alveg skýrt: ekkert má taka sem herfang af villutrúarmönnunum og engu lífi má eira. Á þessu verða reyndar áhugaverðar undantekningar. Fyrst í njósnaferðinni í 2 kafla þar sem Jeríkóska gleðikonan Rahab felur spæjarana uppi á þaki hjá sér gegn loforði um að henni og hennar fólki verði þyrmt. þetta er æsispennandi saga og ég hafði þungar áhyggjur af því að Ísraelsmenn gerðust eiðrofar þar sem loforðið við Guð um algera eyðileggingu teldist hinu æðra. En svo reyndist ekki vera og fjölskylda vændiskonunnar fékk að fara.

Önnur skemmtileg saga um fólk sem slapp undan útrýmingunni eru Gíbeonbúar, sem dulbjuggu sig sem ferðalanga og féllu því ekki undir kríteríuna fyrir, afsakið orðbragðið, helförina. Fengu að gerast þrælar í staðinn og undu allir glaðir við sitt. Reyndar kemur síðan í ljós að fleiri sluppu og "landnámið" var ekki eins snyrtilegt og til hafði staðið. Enda eru illsakir Guðs við sitt fólk upp frá þessu þær helstar að lýðurinn er sífellt að laumast til að tilbiðja aðra guði sem nágrannarnir koma þeim uppá.

Engu að síður er þessi engu-má-eira-stefna atriði sem erfitt er að kyngja, hvað þá að samhæfa við guð fermingarfræðslunnar. Fyrir utan hvað er óþægilegt að lesa um þessa útvöldu landtökumenn og þá blessun sem hvílir yfir illvirkjum þeirra, svona í ljósi ástandsins í fyrirheitna landinu í dag. En þetta er vitaskuld ein afleiðing þess að lesa bókina frá upphafi og gera grein fyrir áhrifum hvers kafla fyrir sig. Mér skilst að þetta gangi allt saman upp að lokum, en eins og segir í söngnum góða um Roy Rogers:

"Mér þætti gaman að sjá það!"

Hápunktur bókarinnar í Hollywoodskilningi er vitaskuld fall Jeríkó fyrir hátækniárás karlakórs Ísraelska hersins. En eins og með slíka punkta í bíó þá er hann hálfgert antiklæmax miðað við hinar mannlegu smásögur í kring. Svolítið eins og síðasta Matrix-myndin, sem þrátt fyrir gengdarlausrar brellur, mannfall og djöfulgang er algerlega misheppnuð við hliðina á hugmyndagnóttinni og persónulegu sálarstríði fyrstu myndarinnar. Örlög Rahab eru áhugaverð, herskarar að kljást er hávaði.

Síðari hluti bókarinnar er síðan tilbrigði við listasmíðina í fyrri bókum. Að þessu sinni er gerð grein fyrir "landnámi" hverrar kynslóðar, hvaða borgir prestaætt Leví fær fyrir sig og hvaða borgir eru griðastaðir, en það mál fær merkilega mikið vægi hér og í bókunum á undan. Griðaborgir eru fyrir þá sem óvart drepa menn, svo þeir geti komist undan hefndarþyrstum ættmennum þess sem fyrir slysaspjótinu varð. Góð hugmynd, en eins og ég segi, fyrirferðin á málinu er athyglisverð, svo og fjöldi borga sem hýstu svona ógæfumenn. Kannski voru þeir svona klaufskir og ómannglöggir, nema þá að systemið hafi verið misnotað...

Að lokum ein skemmtileg saga um GM**.
Nú kemur nefnilega á daginn að á þeim fjörutíu árum sem fólkið hafði flakkað um eyðimörkina hafði þeim haldist uppi að efna ekki sáttmála Abrahams. Hvernig á því stendur er ekki ljóst, en nú kemur Guð með bakreikning og felur Jósúa að smíða sér steinhníf og byrja að kútta. Sem hann og gerir. Allir halaklipptir áður en vaðið var útí og slátrunin hefst fyrir alvöru.

Á austurbakkanum bíða konur, börn og 601.730 forhúðir.


*Referens aðeins fyrir Húsvíkinga. Sorrí.
**Genital Mutilation

4 ummæli:

fangor sagði...

og gjörði hann af þeim súpu....

Nafnlaus sagði...

Ég var viss um að fótnótan við Benna Helga væri „Faðir Jónínu Ben“. Sem er staðreynd og það athyglisverð, þó hún komi Biflíunni ekkert við. En til útskýringa fyrir utanbæjarmenn var hann stjórnandi lúðrasveitar Tónlistarskóla Húsavíkur um áratugabil.

Nafnlaus sagði...

Þetta er einhver fyndnasti texti sem ég hef lesið. Dásamlegt. Þú ættir að íhuga að vinna aðeins meira í þessum textum þegar þú ert búinn með bókina og gefa svo skrif þín út.

Gaman að sjá að þú ert ekki búinn að gefast upp. Ég bíð spenntur eftir næstu grein.

Nafnlaus sagði...

Tek undir það með Þork...eli/atli ... og verð reyndar að viðurkenna að það fyrsta sem ég hugsaði þegar verkefnið fór í gang var þetta: Aha – tala strax við útgefendur – hér munu örugglega verða nokkuð stór tíðindi, jafnt skoðanalega sem ritsnilldarlega.