6.22.2013

Jobsbók


„Vér erum guðunum sem flugur strákum“
Lér Konungur

Textinn
Samanburður
Kynning

Jobsbók er sú fyrsta í safninu sem hefur óumdeildan status sem heimsbókmenntir. Það orðspor er verðskuldað. Það er þvílíkt flug á hverjum þeim sem hefur haldið á pennanum/meitlinum. Ræðan sem lögð er Guði í munn og hefst í 38. kafla er með glæsilegri textum sem ég hef lesið, og 28. kaflinn er líka aldeilis frábær leikur með líkingar og náttúrumyndir. Megnið af bókinni stendur þessum hápunktum aðeins skammt að baki.

Það voru sennilega óraunhæfar væntingar að ætlast til að bókin svaraði í eitt skipti fyrir öll spurningunni sem hún snýst þó um - en er vissulega sú snúnasta sem guðfræðin glímir við:

Bölsvandinn. Ef guð er góður og réttlátur, af hverju þjást þá góðir og réttlátir menn?

Því það gerir hún ekki. Eiginlega bara alls ekki.

Eitt er nú að bókin reynir að svara þessari spurningu með mælskunni einni. Verra er að við vitum frá upphafi af hverju hinn góði og réttláti Job þjáist: Af því Guð ákvað að sanna fyrir Satani að mótlæti af verstu gerð myndi ekki ganga frá trúfesti Jobs. þegar Satan bendir á að það sé auðvelt fyrir Job að vera guðrækinn meðan allt leikur í lyndi hjá honum felur Guð andstæðingi sínum að taka allt frá honum: eignir, fjölskyldu og heilsu. Og sjá svo hvað gerist.

Guð er með öðrum orðum að leika sér. Til að njóta rökræðna Jobs við andmælendur sína fyrir annað en mælskuna þarf maður eiginlega að reyna að gleyma þessu atriði. Þær deilur snúast algerlega um það hvort hann eigi þjáningarnar skilið, sem við vitum að kemur málinu ekkert við.

Annars minnir framvinda deilunnar sterklega á íslenska rökræðuhefð í því að deilurnar þokast ekkert áfram, heldur halda deilendur bara áfram að segja það sem þeir hafa að segja með nýjum (eða bara sömu gömlu) rökum og orðum og áður:

Job: Hvernig stendur á því svona er komið fyrir mér, réttlátum manninum? Hvað er Guð að spá?

Andmælendur: Hvernig dirfist þú?! Guð er almáttugur og refsar hinum óréttlátu.

Ef þeir væru ekki allir svona helvíti mælskir þá væri þetta lítið skárra en að hlusta á Útvarp Sögu. Skemmtilegastur er sá síðasti, Elíhú, sem byrjar hverja ræðu sína á að tala um hvað hann sé klár og frábær og með munninn fullan af orðum. Kannski meira eins og rappari í stuði heldur en langdrukkinn Söguspekingur.

Í lokin birtist svo Guð sjálfur. Hin stórbrotna ræða hans er varla innlegg í rökræðuna, svo mjög sem hún byggir á því að telja upp allt það sem hann skapaði og stýrir í náttúrunni. Svona „Þegiðu, ég er osom“ röksemdir.

Enda svarar Job ekki öðru en:



Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? (40.4)

og:


Ég þekkti þig af afspurn,  
en nú hefir auga mitt litið þig!
Fyrir því tek ég orð mín aftur
og iðrast í dufti og ösku. (42. 5–6)

Þetta reynist líka vera rétta svarið – Guð kætist, setur ofan í við andstæðinga hans og líf Jobs snýst allt til betri vegar. Lifði hann hamingjusamur til æviloka sem urðu 140 árum eftir að þessir atburðir gerðust (en þá átti hann þegar uppkomin börn).

Á þessu er nú ekki mikið að græða annað en að ástæða þess að Job þjáðist var að Guð ákvað að láta hann þjást. Andmælum hans svarar Guð með því að segja: „Hvernig dettur þér í hug að efast um það sem ég geri? Getur þú kannski látið koma stórhríð eða búið til flóðhest?“

Job gefst upp og allt verður gott aftur.

Þessi bók vefst svolítið fyrir mér af þeirri skrítnu ástæðu að mér þykir hún ekki torskilin, bara frekar grunn. Fyrir vikið finnst mér hún varla standa undir mikilvægi sínu, fyrir utan að vera stórkostlegur skáldskapur. Mér finnst mér hljóti að vera að yfirsjást eitthvað mikilvægt, en finn engar vísbendingar um að svo sé.

Það torskildasta við hana eru eiginlega þessi orð, sem standa í kynningartexta um hana:



Lausnina finnur Job í guðssamfélaginu

Ég bara kem þessu ekki heim og saman við textann sjálfan. Reyndar sýnist mér ritstjórar nýju biblíuþýðingarinnar ekki alveg jafn sannfærðir og fyrirrennarar þeirra:



Guð gefur ekki svör við þeim spurningum sem Job ber fram en sýnir hins vegar fram á sköpunarmátt sinn og vísdóm. Lausnina virðist Job finna í guðssamfélaginu (42.5). leturbreyting mín

Ef það er fimmta vers 42. kapítula sem þessi skilningur byggir á þá kemur það nú þessum lesanda fyrir sjónir sem nokkuð hraustleg túlkun.

Talandi samt um nýju þýðinguna. Einhversstaðar í lestrinum hnaut ég um eitthvað orðalag og ákvað af rælni að skoða hvernig það væri í þeirri nýju. Komst þá að því að bæði er þýðingin gjörólík, og sú nýja í öllum skilningi betri. Hér er búturinn – Job hefur orðið og talar um hvernig lítilsiglt fólk telur sig nú geta komið fram við hann af geðþótta sínum:

Og nú er ég orðinn þeim að háðkvæði
og orðinn umtalsefni þeirra.
Þeir hafa andstyggð á mér, koma ekki nærri mér
og hlífast jafnvel ekki við að hrækja framan í mig.
Þar sem Guð hefir leyst streng sinn og beygt mig,
þá sleppa þeir og beislinu fram af sér gagnvart mér.
Mér til hægri handar vex hyski þeirra upp,
fótum mínum hrinda þeir frá sér
og leggja glötunarbrautir sínar gegn mér.
Þeir hafa rifið upp stig minn,
að falli mínu styðja þeir, sem engan hjálparmann eiga.
Þeir koma sem inn um vítt múrskarð,
velta sér áfram innan um rústir. (30. 9–14)

Nýja þýðingin

En nú kveður það um mig níðvísur
og fleiprar um mig.
Það hefur óbeit á mér, forðast mig,
hikar ekki við að hrækja framan í mig,
þar sem Guð losaði bogastreng minn og niðurlægði mig
sleppti það fram af sér beislinu frammi fyrir mér.
Frá hægri reis skari gegn mér,
kippti undan mér fótunum og lagði gegn mér óheillabrautir sínar.
Þeir rufu stíg minn, unnu að falli mínu
og enginn aftraði þeim,
þeir komu eins og gegnum breitt múrskarð
og byltust sem öldur innan um rústirnar.

Ég tek ofan fyrir þýðendum nýju útgáfunnar. Þetta er bæði skiljanlegra og svipmeira. Bara t.d. munurinn á persónufornöfnunum „þeir“ og „það“. Íhaldssamir kristsmenn hafa kvartað hátt yfir að í nýju þýðingunni sé karlkyni skipt út fyrir hvorugkyn, en hér eykur það t.d. á áhrifin. Eða þá furðuorðasambandið: „fótum mínum hrinda þeir frá sér“ í þeirri gömlu (sem mér finnst á mörkunum að vera íslenska) og hið kýrskíra „kippti undan mér fótunum“ í þeirri nýju.

Það kom mér á óvart hvað munurinn er mikill. Ég hef því tekið ákvörðun um að breyta fyrri ákvörðun um að halda mig við gömlu þýðinguna og mun hér eftir lesa þá nýju. Framundan eru enda bækur þar sem orðsnilld skiptir meginmáli (Sálmarnir, orðskviðirnir) og torskildustu kaflarnir (Spámennirnir).

Þetta mun væntanlega hægja aðeins á framvindunni, þar sem nýja þýðingin er ekki til á Kindilformi og ég mun auk þess þurfa að slá inn allar tilvitnanir. Það stendur engu að síður ekkert annað til en að klára dæmið.

6.03.2013

Esterarbók

Hatursglæpir

Textinn
Samanburður
Kynning

Esterarbók er stutt og einkennileg saga. Hefur á sér ævintýrablæ en er jafnframt heldur ógeðfelld. Sem er vissulega ekkert einsdæmi, hvorki með biblíusögur eða ævintýri. Nett kaótísk í framvindu, en spennandi samt og þegar upp er staðið nokkuð mögnuð.

Við erum stödd í Persíu á dögum Ahasverusar konungs, sem ku vera betur þekktur undir nafninu Xerxes. Sem þýðir að Gyðingar hafa fengið heimferðaleyfi fyrir nokkru og eru í óða önn að endurbyggja musterið í Jerúsalem og þrasa við nágranna sína um deiliskipulag þegar hér er komið sögu.

Ekki hafa allir snúið heim. Titilpersónan býr til að mynda hjá Mordekai frænda sínum í borginni Súsa sem í suðvesturhorni Írans á landakorti nútímans.

Persaveldi er á þessum tíma eins stórt og það varð – náði „frá Indlandi til Blálands“ segir í fyrstu setningu bókarinnar. Hið ágæta orð „Bláland“ kemur nokkrum sinnum fyrir í þessum sögum og nú rak mig forvitni á að vita við hvað væri átt. BibleGateway sýndi að það mundi vera Eþíópía - og viti menn: pempíurnar sem gerðu nýju þýðinguna hafa tekið það orð upp. Hálf sakna ég nú „landsins bláa“ þó það sé ekki sérlega PC.

Það er reyndar ekkert pólitískt rétthugsað í þessari grimmilegu frásögn. Hún hefst á því að eftir sjö daga fyllerí skipar Ahasverus konungur Vashtí drottningu sinni að koma í partíið og sýna sig drykkjufélögum hans. Hún neitar og það fýkur í kallinn. Hann skilur snarlega við hana, enda sjá hans bestu menn hættulegt fordæmi í þessu framferði:

Því að athæfi drottningar mun berast út til allra kvenna og gjöra eiginmenn þeirra fyrirlitlega í augum þeirra (1. 17)

og svo bara tilskipun:

hann sendi bréf til allra skattlanda konungs, í sérhvert land eftir skrift þess lands og til sérhverrar þjóðar á hennar tungu, að hver maður skyldi vera húsbóndi á sínu heimili og mæla allt það, er honum líkaði. (1. 22)

Þá var bara að finna sér þægari konu. Hann lætur safna fallegum stelpum saman í Súsaborg og undirbúa þær fyrir skoðun. Við erum að tala um alvöru meikóver:

Og er röðin kom að hverri stúlku um sig, að hún skyldi ganga inn fyrir Ahasverus konung, eftir tólf mánaða undirbúningsfrest samkvæmt kvennalögunum – því að svo langur tími gekk til hreinsunarundirbúnings þeirra: sex mánuðir með myrruolíu og sex mánuðir með ilmsmyrslum og öðru því, er til undirbúnings kvenna heyrir … (2. 12)

Engin appelsínuhúð mun hneyksla Persakóng!

Að sjálfsögðu verður okkar kona hlutskörpust í þessari persnesku Bachelor-keppni.

Meðan verið er að marínera Ester situr Mordekai fóstri hennar sko ekki auðum höndum, heldur kemur upp um valdaránsplott og sú þjónusta hans færð til bókar „í viðurvist konungs“.

Kannski stígur það og mægðirnar við Ahasverus honum til höfuðs, því það næsta sem gerist er að Mordekai neitar að krjúpa og beygja höfuð sitt fyrir Hamani Hamdatasyni næstráðanda konungs. Sá er greinilega lítið blóm með lágt sjálfsmat og þetta virðingarleysi leggst svo þungt á hann að hann leggur eftirfarandi tillögu fyrir kóng:

Ein er sú þjóð, sem lifir dreifð og fráskilin meðal þjóðanna í öllum skattlöndum ríkis þíns. Og lög þeirra eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, og lög konungs halda þeir ekki, og hlýðir eigi að konungur láti þá afskiptalausa. Ef konungi þóknast svo, þá verði skriflega fyrirskipað að afmá þá. (3. 8–9)

Hér eru sem sé komið til sögunnar Gyðingahatur eins og við þekkjum það. Hingað til hafa Gyðingar fyrst og fremst átt óvini sem hafa haft fullan rétt á – eiginlega þörf fyrir – að hata þá. En núna er kominn tónn sem við könnumst allt of vel við. Og meira að segja lokalausn. Allt af því að einn forframaður kall vildi ekki bugta sig. Eða kannski frekar af því að annar forframaður kall móðgaðist út yfir allan þjófabálk.

Allavega, Ahasverus segir bara já og amen.

Þegar áform Hamans verða lýðnum ljós sjá Gyðingar sér vitaskuld þann leik á borði að biðja Esteri að biðja þeim griða. Hún er heldur treg til, enda virðist nú samband þeirra hjóna ekki ýkja náið. Athygli vekur eftirfarandi röksemd Mordekais þegar hún hefur færst undan:

Hver veit nema þú sért til ríkis komin einmitt vegna þessara tíma!' (4. 14)

Guð er hvergi nefndur á nafn í þessari bók, en hér er farið einna næst því að gefa í skyn að hans vilji stýri atburðum, á svolítið nútímalegan hátt finnst mér. Guð er fjarri og menn reyna að giska á hvernig þeir geti gert honum til geðs.

Að lokum gengur Ester í málið með talsvert flóknu ráðabruggi, býður konungi og Haman að borða með sér í tvígang, þó hún hafi þá þegar fengið loforð frá spúsa sínum um að hann muni uppfylla allar hennar óskir.

Í millitíðinni gerist svo þetta:

En þessa nótt gat konungur ekki sofið. Bauð hann þá að koma með Annálabókina, og var hún lesin fyrir konungi. Þá fannst þar skrifað, hversu Mordekai hefði komið upp um þá Bigtan og Teres, tvo geldinga konungs, af þeim er geymdu dyranna, sem höfðu leitast við að leggja hönd á Ahasverus konung. (6. 1–2)

Það er svolítið eins og kóngur hafi aldrei frétt af þessu fyrr, sem þó var fært til bókar í viðurvist hans. Allavega er hann til í að hygla og heiðra Mordekai af fullum krafti, og eftir smá snúninga er Haman hengdur og eignir hans gefnar Mordekai og Ester.

Þá byrjar ballið:

Og hann [Mordekai] skrifaði í nafni Ahasverusar konungs og innsiglaði með innsiglishring konungs, og hann sendi bréf með ríðandi hraðboðum, sem riðu fyrirmannagæðingum úr stóði konungs, 11þar sem konungur leyfði Gyðingum í öllum borgum að safnast saman og verja líf sitt og að eyða, deyða og tortíma öllum liðsafla þeirrar þjóðar og lands, er sýndi þeim fjandskap, jafnvel börnum og konum, og ræna fjármunum þeirra … (8. 10–11)

Upphefst nú mikið morðæði, þar sem Gyðingar um gervallt Persaveldi fá frítt spil og nýta sér það. Sjötíu og fimm þúsund manns liggja í valnum, „hatursmenn Gyðinga”. Ekkert í bókinni styður það að Gyðingahatur sé útbreytt í Persneska heimsveldinu. Þvert á móti, Haman hefur persónulega ástæðu til að fyrirskipa útrýmingu þeirra, ef ástæðu skyldi kalla, og það er sérstaklega tekið fram að:

…honum þótti einskis vert að leggja hendur á Mordekai einan, því að menn höfðu sagt honum frá, hverrar þjóðar Mordekai var, og leitaðist Haman því við að gjöreyða öllum Gyðingum, sem voru í öllu ríki Ahasverusar, samlöndum Mordekai. (3. 6)

Ég finn ekkert sem styður þann skilning útgefenda íslensku Biblíunnar að Esterarbók fjalli um „ofsóknir gegn Gyðingum í persneska heimsveldinu“. Þegar sagan gerist hafa þeir einmitt fengið leyfi til að snúa heim úr útlegðinni sem annað heimsveldi dæmdi þá til og þeir njóta stuðnings ráðamanna ríkisins til að endurreisa bæði musterið og borgarmúra Jerúsalem.

En einn valdamikill psykópati ákveður að útrýma þeim. Því er afstýrt og það blóðbað sem verður er allt á hinn veginn. Allt sem úrskeiðis fer í bókinni má annars skrifa á reikning hinnar vanhæfu fyllibyttu Ahasverusar.

En semsagt: Gyðingar ganga berserksgang og halda svo hátíð að honum afstöðnum. Þá hátíð halda þeir enn þann dag í dag og lesa þessa hugljúfu sögu sem lýkur einmitt á lögfestingu hátíðarhaldanna, Púrím.

Það er mjög erfitt að skilja hvað þessi saga er að gera í kristna kanóninum. Helgi hennar fyrir Gyðinga er hægt að skilja, þó ekki hún sé sérlega „flatterandi“ fyrir þá utan frá séð. En hvaða þýðingu hefur hún fyrir okkur?

Ég næ því ekki alveg. En sagan er eins og Njála: ljót, en góð.



Viðauki: Viðaukar


Í apókrífubókunum er grísk útgáfa Esterarbókar, hvar í eru nokkrir „viðaukar“, þ.e. kaflar sem ekki eru í hinni kanóníseruðu útgáfu. Þetta eru t.d. draumfarir Mordekais (sem heitir reyndar Mardokaí hér), bænir þeirra Esterar, svo og texti tilskipana um að útrýma gyðingum og önnur tilskipun sem ógildir þá tilskipun.

Ekki er nú mikið gagn eða gaman að þessu aukaefni. Formsins vegna langar mig samt að tilfæra örlítinn bút úr bæn Esterar, þar sem hún er að biðja Guð liðsinnis gegn áformum skurðgoðadýrkendanna:



Drottinn, lát þú veldissprota þinn ekki af hendi við þá sem ekki eru til. (4. 22 viðauki C)

Þetta finnst mér vel mælt. Ég hef annarsstaðar talað um þá skemmtilegu óreiðu sem er á því hvort talað er um aðra guði sem tilbúning eða bara lélegri en „okkar“. Þarna vinnur Ester snyrtilega með hinn verufræðilegu usla.

6.01.2013

Nehemíabók


Another Brick ...

Textinn
Samanburður
Kynning

Nehemíabók heldur áfram frásögn Esrabókar af endurreisn samfélags og fasteigna gyðinga í Júda.

Titilpersónan – og sögumaðurinn – heyrir af bágu ástandi í Landinu helga og þá ekki síst af niðurníðslu borgarmúra Jerúsalem. Nehemía er í góðri stöðu sem byrlari konungs en afræður að biðjast lausnar og reyna að gera eitthvað í málinu.

Hann fær leyfið og heldur til landsins „hinumegin fljóts“, sem er mikið notað orðalag í þessum frásögnum af endurkomunni til gamla landsins. Það eru fjörutíu ár síðan Esra fór sömu leið, og því um öld síðan gyðingarnir hófust handa við að endurreisa samfélag sitt, musteri, og nú borgarmúra.

Það er enn pínu nýr tónn í þessari bók. Eins og síðari hluti Esrabókar er hann skrifaður í 1. persónu sem hefur mikil áhrif á upplifun lesandans. Einkum á þann veg að textinn gefur ekki bara mynd af því sem sagt er frá heldur gerir mann meðvitaðan um sögumanninn. Það er ekki sérlega heppilegt fyrir Nehemía, sem virkar eins og frekar leiðinlegur maður og sjálfhælinn. Einkum eru þreytandi áminningar hans til Guðs um að halda til haga öllu því sem hann (Nehemía) hefur gert.

Hér er hann t.d. búinn að hrósa sér af að hafa ekki þegið landstjóralaun:

Virstu, Guð minn, að muna mér til góðs allt það, sem ég hefi gjört fyrir þennan lýð (5. 19)

Ekki það að hann eigi ekki til húmor:

...fór ég á fætur um nótt og fáeinir menn með mér, án þess að hafa sagt nokkrum manni frá því, er Guð minn blés mér í brjóst að gjöra fyrir Jerúsalem, og án þess að nokkur skepna væri með mér, nema skepnan, sem ég reið. (2. 12)

Þarna er hann að fara að kanna múrana sem hann síðar stendur fyrir að verði endurreistir. Því fylgja hefðbundnar upptalningar á hverjir unnu verkið, og síðar kemur allur heili listinn úr Esrabókum um þá sem sneru aftur í fyrstu bylgjunni. Nehemia enginn eftirbátur forvera sinna í listasmíðinni.

Forystumenn annarraþjóðakvikinda á svæðinu mögla eitthvað út af múrsmíðinni og fá þetta skorinorða svar:

Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja. En þér eigið enga hlutdeild né rétt né minning í Jerúsalem.(2. 20)

Auðvitað ekki - hafa bara búið þar í svosem eins og mannsaldur eða þrjá.

Svolítið eins og sagt er um íslensk sjávarþorp. Þú ert aðfluttur fram í svona 3. kynslóð.

og svo fylgja frekari lýsingar á bæði áhyggjum af og viðbrögðum við viðhorfum nágrannanna. Gyðingarnir vopnbúast og skipuleggja varðstöðu. Ekkert gerist samt. Engu blóði er óthellt í þessari bók og þó Nehemía telji að forystumenn Samverja hafi haft illt í hyggju þegar þeir bjóða honum til fundar við sig í einhverju nágrannaþorpanna, þá höfum við svo sem ekkert nema hans orð fyrir því.

Reyndar tekur þýðandi/útgefandi íslensku útgáfunnar þetta hrátt upp og setur yfirskriftina “vélabrögð gegn Nehemía” á kafla sem byrjar svona:

Þegar þeir Sanballat, Tobía og Gesem hinn arabíski og aðrir óvinir vorir spurðu það, að ég hefði byggt upp múrinn og að ekkert skarð væri framar í hann, þótt ég þá hefði eigi enn sett hurðir í hliðin, þá sendu þeir Sanballat og Gesem til mín og létu segja mér: "Kom þú, svo að vér megum eiga fund með oss í einhverju af þorpunum í Ónódalnum." En þeir höfðu í hyggju að gjöra mér illt. (6. 1-2)

Er það nú víst? Hvernig veit hann það? Dæmi hver fyrir sig.

Þegar byggingunni lýkur er komið að því að siða lýðinn. Lögmálið er lesið yfir þeim, helstu atriði sérstaklega tíunduð (tíund, hvíldardagur, að halda sig frá utanþjóðflokkskonum ofl.) og stórhátíðir innleiddar.

Allt virðist fallið í ljúfa löð og Nehemía skreppur í frí heim til Babýlon. En þegar hann snýr aftur er allt fallið í gamla farið aftur, sem kemur lesendum þessara pistla sennilega minna á óvart en honum.

Um þær mundir sá ég og Gyðinga, sem gengið höfðu að eiga konur frá Asdód eða ammónítískar eða móabítískar konur. Og börn þeirra töluðu að hálfu leyti asdódsku eða tungu sinnar þjóðar, en kunnu ekki að tala Júda-tungu. Og ég taldi á þá og bað þeim bölbæna, já, barði nokkra af þeim og hárreytti þá, og ég særði þá við Guð: "Þér skuluð ekki gifta dætur yðar sonum þeirra, né taka nokkra af dætrum þeirra til handa sonum yðar eða sjálfum yður. Syndgaði ekki Salómon, konungur Ísraels, í þessu? (13. 22–26)

Hér kætir mann tvennt: að hann hárreiti brotamennina, og að Salómon sé tilgreindur sem syndari að þessu tilliti – nokkuð sem skautað er yfir bæði í Króníkunni og Esrabók.

Gott hjá Nehemía – þó hann geti vissulega ekki stillt sig um að berja sér á brjóst í lokaorðum bókarinnar:

Mundu mér það, Guð minn, til góðs.

Með Nehemíabók verða kaflaskil að því ég best fæ séð. Samfelld, krónólógísk rakning sögu Gyðingaríkisins í Kanaanslandi sem hófst í Jósúabók með falli múra Jeríkóborgar lýkur hér í reisugilli endurbyggingar Jerúsalemveggja. Við taka textar af öðru tagi; sálmar, speki, og spádómar.

Þetta er viðburðarík saga, full af blóði og hryllingi, en einnig hetjuskap og trúfesti. Það hefur gengið á ýmsu í sambúð Guðs og manns. Sennilega eru nú svikin fyrirferðarmeiri en trúin, hvort sem það segir meira um mannkosti þessa fólks, kröfuhörku Drottins eða hitt, að breyskleiki er það sem umfram annað er í frásögur færandi.