6.18.2014

Fyrsta Makkabeabók


Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð

Textinn (á ensku – apókrífu ritin eru ekki á íslensku á netinu)
Kynning

Í þessari sögubók segir frá sjálfstæðis- og sjálfsmyndarbaráttu Gyðinga í selevkídaríkinu, sem varð til þegar heimsveldi Alexanders mikla liðaðist í sundur að honum látnum.

Þetta er kunnuglegur þráður sem hér er spunninn. Gyðingar í stríði við nágranna sína og stórveldi sem ráða þeim í raun. En ekki síður við undanvillinga úr eigin röðum. 

Eins og áður lyktar flestum bardaganna með frækilegum sigrum hinna útvöldu, enda heitið á heillakarlinn í himninum. Hvort sem það er Júdas Makkabeus eða bræður hans Jóhannes og Símon sem stýra liðinu, oftast gegn ofurefli heiðingja.

Ýmislegt hefur þó breyst í heiminum frá því fyrstu stríðin voru háð, svona 1400 f.kr, þangað til Júdas Makkabeus fær Guð með sér í lið til að stöðva menningarlega kúgun Selevkídakóngsins Antíokkusar fjórða á annarri öld f. kr.

Hér er til að mynda talað mikið um stríðsvélar, umsátursturna og allskyns stórvirk tól sem bronsaldarmenn réðu ekki við. Og í einni af lykilorrustunum koma fílar í fyrsta sinn við sögu í biblísku stríði. Svalt.

Það sem setur allt í bál og brand er síðan eithvert nútímalegasta deiluefni sem um getur.

Þetta var nefnilega ekki síst fjölmenningarstríð.

Þó Selevkídaveldið væri víðfeðmt var rótarstaða menningarinnar hellensk. Þannig voru grísk áhrif sífellt að verða meira áberandi og aðþrengjandi fyrir þá sem vildu lifa gyðinglegu lífi.

Margir Ísraelar höfðu ekkert við þetta að athuga, jafnvel ekki að spóka sig naktir í nýbyggðum íþróttamannvirkjum að hellenskum hætti. Verst hvað sáttmálinn við Guð var’ sýnilegur við svoleiðis kringumstæður:

Byggðu þeir íþróttaleikvang í Jerúsalem að heiðinni fyrirmynd, létu gera sér forhúð og gerðust fráhverfir sáttmálanum heilaga. (1.14–15)

Já, blessaður rasisminn getur verið driffjöður í fegrunarlækningum. 

Það sauð samt ekki upp úr fyrr en Antíokkus IV rændi musterið, setti setulið í Jerúsalem og bannaði trú, rit og siði Gyðinga, sem og allra annarra. Allir skyldu semja sig að sið hinna ríkjandi. 

Það er aldrei gott plan.

Hinn rétttrúaði Mattatias og hans fólk hefur andóf, í fyrstu aðallega gegn undanvillingum í eigin röðum, drepa þá sem tilbiðja aðra guði, umskera drengi sem þeir klófesta. En sonur hans, Júdas Makkabeus, tekur upp keflið og uppreisnin hefst fyrir alvöru. 

Allt eru þetta augljóslega hryðjuverkamenn.

Það er svo sem óþarfi að reka gang mála í þessum stríðum í smáatriðum. Þau eru æsileg og frækileg og skelfileg og ógeðsleg eins og öll stríð. Orustur og umsátur, borgir brenndar og rændar af miklu kappi. Auk þess er flækjan á köflum allflókin, enda eru samhliða þessu í gangi allskyns skærur milli Selevkída og Ptólemaja (egypta), fyrir utan öll innanflokksátökin. Og svo er kominn nýr krakki í bekkinn:

Orðstír Rómverja barst Júdasi til eyrna. Var mikill herstyrkur þeirra rómaður og af því látið hve góðgjarnir þeir væru öllum bandamönnum sínum, þeir veittu sérhverjum nauðleitarmanni vináttu sína ... (8. 1)

Það er nefnilega það. Júdas og félagar ákveða að gera samkomulag við þessa spennandi og góðgjörnu nýliða, og reyndar Spartverja líka. Og merkilegt nokk þá eru bæði þessi veldi meira en til í að vera vinir þessarar sérvitru smáþjóðar. 

Svona svara Rómverjar t.d. sendimanni Makkabea:

Vel vegni Rómverjum og þjóð Gyðinga til sjós og lands um aldur og ævi. Sverð og óvinir séu þeim fjarri. En beri ófrið fyrr að höndum Rómar eða einhvers bandamanns Rómverja ...einhversstaðar í ríki þeirra þá skal þjóð Gyðinga veita afdráttarlausan stuðning eftir því sem aðstæður krefja. ... Hið sama skal gilda ef ófrið ber fyrr að höndum þjóðar Gyðinga ... (8. 23–27)

En það eru ekki bara fjarlæg stórveldi sem vilja vera í bandalagi með okkar mönnum. Hinar stríðandi fylkingar í glímunni um eftirhreytur Alexandersveldisins eru líka æstar í að hafa þá í sínu liði. Stór hluti bókarinnar eru hinar ýmsu vinabeiðnir og svör við þeim. Hér er t.d. bréf til Jónatans frá Alexander, sonar hins hataða Antíokkusar IV:

„Vér höfum frétt að þú sért hinn mesti kappi og og þess verður að vera vinur vor. Vér höfum því í dag skipað þig æðsta prest þjóðar þinnar og veitt þér að kallast vinur konungs. Ætlum vér þér að annast málefni vor og varðveita vináttu vora.“

Einnig sendi hann Jónatan purpuraskikkju og gullkórónu. (10. 19–20)

Það er eins og Gyðingar hafi verið í einhverskonar lykilstöðu eftir frækilega sigra Júdasar M. Stríðsherrar beggja vegna allra víglína vilja vera vinir þeirra, bjóða þeim allskyns fríðindi, frelsi til sinnar sérvisku, skattfrelsi, jú neim it. Margt af þessu er reyndar svikið jafnharðan, en þó ekki loforð Rómar og Spörtu sem aldrei reynir reyndar á.

Bókinni lýkur snögglega á því að valdafíkinn Gyðingur drepur Símon og tvo sona hans, í tilraun til að hrifsa völdin í sínar hendur. Hin útvalda þjóð heldur áfram að vera eins og sjúk fjölskylda: sameinuð út á við en sjálfri sér sundurþykk.

Í gegnum þetta hegða Gyðingarnir sér eins og dæmigerð smáþjóð með ofvaxna trú á mikilvægi sitt. Þeir veita ýmsum, en er auðvitað fyrst og fremst umhugað að halda sinni menningu lifandi - sem reynslan kennir þeim að er ævinlega og alltaf tvísýnt um, þrátt fyrir hina himnesku forgjöf.

Engin ummæli: