5.24.2014

Síraksbók


Ekki gera hitt og ekki þetta

Textinn (á ensku – apókrífuritin eru ekki á netinu á íslensku)
Kynning

Eins og ég hef áður sagt er lögð á það höfuðáhersla í svokölluðum „spekiritum“ að lofsyngja nefnda speki. Hún er hin æðstu gæði, upphaf og endir alls og það sem mest má prýða einn mann. Gott ef hún er ekki sjálft „logosið“ sem var í upphafi hjá Guði – og var Guð.

Í Síraksbók er haldið áfram á þessari braut. En að auki er boðið upp á vænan skammt af raunverulegri speki saman við söluræður um mikilvægi hennar.

Og vandast þá málið.

Ekki það að það eru alveg gagnleg og skynsamlegt hollráð í spakmælasafni Jesús Sírakssonar (eins og heimildarmaðurinn er kallaður). Mörg þeirra eiga sér skýrar rætur í boðorðunum. Ekki ljúga, ekki stela, ekki girnast, vertu prúður við pabba og mömmu (já prúðUR - þessu er alfarið bein til karlmanna).

Og svo slatti af algerlega almennum mannasiðaráðum. Um hógværð, orðheldni, þagmælsku. Um að varast geip og mont.

Og svo að vera duglegur að berja þrælana sína og börnin. 

Já og vera hræddur við konur. 

Og ríkt fólk. 

Og ókunnuga.

Sæmilega siðað fólk getur auðveldlega sigtað góðu ráðin frá hinum „ógeðslegu“. En spurningin vaknar, eins og svo oft í lestri á þessum textum: hvaðan kemur manni viskan til að velja það gagnlega umfram hið glórulausa? Ekki er hægt að sækja þá „speki“ í textana sjálfa, svo mikið er víst.

Það er erfitt að samþykkja að þessi hversdagslegu og heimóttarlegu hollráð um hvernig þú getir varðveitt og eflt (en þó aðallega varðveitt) orðspor þitt í heimi fullum af svindlurum, hræsnurum og illmennum, séu þessi djúpa viska sem hamrað er á að sé hin umrædda „speki“.

Og það er eitt skírt þema í þessum textum að umbun Guðs fyrir rétta breytni birtist alls ekki í veraldlegri velgengni – öðru nær liggur manni við að segja stundum. Svo mjög er hamrað á því hvað hinir ríku og voldugu er vondir og varasamir.

Mannskilningur Síraksbókar er vægast sagt dapurlegur. Samfélagið sem hér er lýst 
 fyrirgefur ekki yfirsjónir. Eða það finnst höfundinum allavega. Hvaðan ætli það – og hann – hafi þá speki …?

Það er auðvitað skemmtilegt að rekast á skýrar hliðstæður við hin hundheiðnum hávamál:

Margt veit sá maður er víða fór,
viturlegar eru reynds manns rætur.
Lítið veit sá er reyndi fátt,
víðförull maður safnar hyggindum.
Fjölmargt sá ég á ferðum mínum,
ég veit fleira en ég greini frá. (34. 9–12)

Og ráðleggingarnar eru þannig séð ekkert glórulausar (allavega ekki allar). En maður sér t.d. enduróm af þeim í einni frægustu/illræmdustu hollráðaþulu heimsbókmenntanna, þar sem realpólitíkusinn siðlausi, Pólóníus, sendir son sinn út í heim með þetta veganesti.

Vel meint (mögulega), en munum samt að Pólóníus er ekki fyrr búinn að gefa þessi ráð en hann ræður mann til að njósna um son sinn. Hvað heldur hann að hann sé? Guð?

Þetta fullkomna fólk er svo skrítið ...

Engin ummæli: