7.10.2013

Orðskviðirnir


Bannað að vera með vesen



Orðskviðirnir fara ekkert sérlega vel af stað:

Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns
og hafna eigi viðvörun móður þinnar,
því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér
og men um háls þinn.
Son minn, þegar skálkar ginna þig,
þá gegn þeim eigi.
Þegar þeir segja: "Kom með oss!
Leggjumst í launsátur til manndrápa,
sitjum án saka um saklausan mann,
gleypum þá lifandi eins og Hel -
með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima. (1. 8–12)

Sem sagt: hlustaðu á foreldra þína svo þú verðir ekki þjóðvegaræningi. Gildir væntanlega ekki um börn þjóðvegaræningja. Reyndar má staldra við síðustu línurnar þarna. Það eru af einhverjum ástæðum óvenju margar vísanir í lífið eftir dauðann í þessum textum, nokkuð sem sér varla stað í Gamla Testamentinu fram að þessu. 

Fræðin segja að hugmyndir um framhaldslíf og umbun/refsingu þar hafi síast inn í Gyðingdóm í útlegðinni í Babýlon, og sumir þessara spakmæla munu ættuð þaðan og annarsstaðar frá nágrannaþjóðunum.

Fljótlega fellur textinn í mjög skipulagt og mikið til einsleitt far. Langmest eru þetta tveggja línu spakmæli sem stilla upp andstæðum, góðri og vondri. Réttlæti/ranglæti, visku/speki, hógværð/hroka.

Þau eru mis-spakleg, vissulega. Stór hluti þeirra, sérstaklega framanaf, eru dálítið innihaldslaus, frekar klifunarkennd:

Réttlátir hyggja á réttlæti
en ranglátir hafa svik í huga. (12. 5)

eða:

Sannorður vottur lýgur ekki
en falsvottur fer með lygar (14. 3)

Þórbergur hefði sennilega og réttilega kallað þetta „selvfölgeligheðer“.

Smám saman birtast samt meginlínur. Fólk á að vera iðið, koma vel fram hvert við annað, hlusta meira en það talar, vera hógvært og réttlátt. Slíkt líf verðlaunar Guð með velsæld.

Sterkasti þráðurinn er samt um spekina sjálfa. Um mikilvægi þess að hlusta á sér vitrara (eldra) fólk, tileinka sér það sem það segir og taka mark á umvöndunum. Það er erfitt að lesa sig í gegnum þessa vegsömun þekkingarleitarinnar án þess að hugsa um alla Nóbelsverðlaunahafana af gyðingaættum. Ást á visku er djúpstæð í þjóðarsálinni.

Með grófri einföldun mætti segja að viska hafi álíka þungt vægi í Orðskviðunum og vinátta hefur í Hávamálum.

Inn á milli detta inn alþekkt spakmæli – þó ekkert rosalega mörg:

Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn (13. 24)

Dramb er falli næst (16. 18)

Kapp er best með forsjá (19.2)

Það er svo sem ekkert mikið meira um þetta ágæta viskusafn að segja. Almennt er þó hægt að segja að góður orðskviður þarf að miðla einhverju sem manni finnst vera satt og mikilvægt á óvæntan, skýran og hnyttinn hátt. Það er líka kostur ef hann beinir augum manns að sannindum sem maður hafði ekki hugsað út í áður.

Hér eru að lokum tíu uppáhaldsorðskviðirnir mínir úr safninu eftir eina yfirferð - speki sem uppfyllir amk eitthvað af þessum skilyrðum:

Sex hluti hatar Drottinn 
og sjö eru sálu hans andstyggð:
hrokafullt augnaráð, lygin tunga
og hendur sem úthella saklausu blóði,
hjarta sem bruggar fjörráð,
fætur sem fráir eru til illverka
og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra. (6. 16–19)

Í munni heimskingjans býr vöndur gegn hroka hans
en varir hinna vitru varðveita þá (14. 3)

Ávítur fá meira á hygginn mann
en hundrað högg á heimskingjann. (17. 10)

Sá sem gerir þröskuld sinn háan hnýtur um hann (17. 19)

Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina
en nennir ekki að bera hana upp að munni sér. (19. 24)

Stærðu þig ekki frammi fyrir konunginum
og ætlaðu þér ekki stað stórmenna
því að betra er að menn segi við þig:
„færðu þig hingað upp,“
en að menn niðurlægi þig frammi fyrir tignarmanni. (25. 7)

Svaraðu ekki heimskingjanum eftir fíflsku hans
svo að þú verðir honum jafn.
Svaraðu heimskingjanum eftir fíflsku hans,
annars heldur hann að hann sé vitur. (26. 4–5)

Eins og fótleggir hins lamaða hanga máttlausir,
svo fer spakmælum í munni heimskingjanna (26. 7)

Sá sem blandar sér í annarra deilu
er eins og sá sem grípur í eyrun á hundi sem fram hjá hleypur. (26. 17)

Andlit horfir við andliti i vatni,
svo er hjarta eins manns gagnvart öðrum. (27. 19)

Vel mælt!

Engin ummæli: