8.05.2013

Jeremía – Barúksbók – Bréf Jeremía*


Spámannsvandinn



textinn
Samanburður
Kynning


Í fyrri hluta spádómsbókar Jeremía er að mestu það sama uppi á teningnum eins og hjá forvera hans. Í gegnum hann kemur Guð þeim skilaboðum til lýðsins að sakir illsku hans og framhjátöku með öðrum guðum muni dauði og drepsóttir hellast yfir. Að þessu sinni er það Babýlon/Kaldea en ekki Assyría og eins og við vitum lagðist Júdaríki af um tíma eftir sigur heimsveldisins og herleiðingu Gyðinga.

Það er fyrst og fremst blæbrigðamunur á stórum hluta Jeremía og Jesaja. Erindi þeirra er það sama og formið svipað, þó óreiðan sé ekki á eins háu stigi hér og hjá Jesaja.

Tónninn er svolítið annar. Sem, ef maður er í því stuðinu, gæti vakið spurninguna: Hvernig stendur á því að rödd Guðs er önnur þegar hann talar við þennan en þegar hann talar við hinn? Nærtæk skýring skynsemishyggjunnar er auðvitað að enginn Guð sé að tala – bækurnar höfundaverk manna á mismunandi tímum með ólíkan stíl, ólík tilefni.

En svo er líka hægt að sjá þetta sem sjaldséðan vitnisburð um empatíu Guðs – vilja hans til að mæta hverjum og einum eins og best hentar viðkomandi. 


Hvað er það þá sem greinir að þessar tvær raddir Guðs?

Eitt er nú að Guði er tamara að tala við Jeremía með „konkret“ sýnum, þannig að mögulega hefur Jeremía haft meiri myndgreind en Jesaja:



Orð Drottins kom til mín öðru sinni:
„Hvað sérðu“?
Ég svaraði:
„Ég sé rjúkandi pott sem hallast úr norðri“.
Þá sagði Drottinn við mig:
„Úr norðri verður böli hellt yfir alla íbúa landsins“. (1. 13-14)

Við getum líka til dæmis staldrað við þá staðreynd að orðið „hór“ og afleiður þess koma átján sinnum fyrir hjá Jeremía en þrisvar í Jesaja.

Nú eru boðorðin nokkuð skýr hvað hórerí varðar. Engu að síður hafa menn, allavega konungar, haldið hjákonur átölulaust – nema náttúrulega þegar þær útlensku hafa tælt þá til fylgilags við guði sína.

Enda rennir mann í grun að hér sé Guð með hugann við framhjátökur við sig – nefnilega hve Júdamönnum er mikið mál að míga utan í aðra guði og líkneskjur. Það er sem fyrr rót óánægju hans með sitt fólk.

Meira að segja fórnirnar eru orðnar ólystugar, enda boðnar hvaða guðlíki sem á vegi manna verður:


Hvað á ég að gera með reykelsi frá Saba, eða góðan ilmreyr frá fjarlægu landi? Brennifórnir yðar eru mér ekki þóknanlegar og sláturfórnir yðar geðjast mér ekki. (6. 20)

Jesaja hafði líka orð á þessu – og hugsunin skotið upp kollinum áður. Eftir hinar grótesku lýsingar á fórnum og smásmyglina um fyrirkomulag þeirra er greinilega komið nóg.

Þið getið átt ykkar ógeðslega mör sem þið slettið hvort sem er líka í Baal, Mólok og Astarte um leið og ég lít af ykkur! Reyniði frekar að haga ykkur almennilega einu sinni!

Hér er svo gagnorð og skilmerkileg útlistun á hvað er að hegða sér „almennilega“:

Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði ykkur til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda. (7. 5-7)

Mest plássið fær að venju síðasta syndin – brot á fyrsta og öðru boðorðinu: Ekki aðra guði og engin líkneski, takk.


Guð hefur svo vissulega jafnlitla trú á að hebreum sé unnt að taka til hjá sér í nægilegum mæli til að það hann þurfi að efna ofangreint fyrirheit, hvort sem hann talar með Jesaja- eða Jeremíaröddinni:



Getur Núbíumaður breytt hörundslit sínum
eða pardusdýr blettum sínum?
Þá getið þér líka gert gott
sem hafið vanist á að gera illt. (13. 23)

Reyndar fá spár, um að allt fari vel og þeir fáu sem lifa af hörmungar innrásar og herleiðingar Kaldea/Babýlóníumanna setjist að lokum að í landinu helga, minna pláss hér og aðeins ein stutt málsgrein talar um konunginn sem kemur:



Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga mun Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: Drottinn er réttlæti vort. (23. 5–6)

Þessu er ekkert sérstaklega flaggað af kristnum.

Eitt er svo áhugavert efni sem fær mikla athygli hér en enga í Jesaja. Falsspámenn:

Hlustið ekki á orð spámannanna.
Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum drottins.
Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins:
„Þér hljótið heill.“
Og við hvern þann sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir:
„Enginn ógæfa kemur yfir yður.“ (23. 16-17)

Sniðugt svolítið hjá falsspámönnunum að segja það sem fólkið vill heyra. Ekki bara sniðugt – klassískt.

Það er vandalaust fyrir Guð að vita hvaða spámenn tala raunverulega fyrir hann og hverjir gera það ekki. Verra er það fyrir pupulinn og ráðamenn og freistingin að trúa frekar jákvæðum fréttum er eins og allir vita nokkuð sterk. Um þetta fjallar bróðurpartur síðar hluta bókarinnar sem er verulega magnaður.

Þar skiptir úr beinni ljóðrænni ræðu, þar sem Jeremía vitnar um hvað Guð hefur að segja, yfir í frásagnarform. Höfundur er sagður Barúk nokkur, ritari og samstarfsmaður Jeremía.

Jeremía lendir fljótlega í því að hans bölsýnu viðvaranir falla ekki allsstaðar í kramið. Hann er húðstrýktur og settur í gapastokk og fer á tímabilum huldu höfði en Barúk sér um að koma erindi hans á framfæri. 


Einn daginn biðja háttsettir embættismenn um að fá að hlýða á Barúk lesa úr glósum sínum. Þeir verða skelfingu lostnir þegar þeir heyra boðskapinn, segja honum að fela sig og einn þeirra fer með hana til að lesa fyrir Jójakím konung. 


Kolaeldur logaði í eldstæðinu fyrir framan hann. Í hvert skipti sem Jahúdí hafði lesið þrjá eða fjóra dálka skar konungur þá af bókrullunni með pennahníf og fleygði í eldinn í eldstæðinu þar til öll bókin var brunnin. Hvorki varð konungurinn hræddur né þeir af þjónum hans sem heyrðu þessi orð. … Hins vegar skipaði konungur … að sækja Barúk skrifaða og Jeremía spámann. En Drottinn faldi þá. (36. 22–26)


Næsti konungur trúir heldur ekki á þessa hrunspádóma og heldur áfram að syndga. Hans menn hafa uppi á Jeremía og stinga honum inn. Höfðingjar þjóðarinnar vilja reyndar ganga lengra:



Það verður að taka þennan mann af lífi. Hann dregur úr hugrekki þeirra hermanna sem eftir eru í borginni (38. 4)

Ekkert verður þó af því þó það megi ekki tæpara standa.

Síðan rætast spádómar Jeremía. Jerúsalem fellur og bróðurpartur fólksins fluttur nauðugur austur á bóginn.

Sögulok.


Reyndar ekki.

Hópur andspyrnumanna drepa landstjóra Babýlóníukonungs og hyggjast flýja með alla sem það vilja til Egyptalands. Þeir fá Jeremía til að biðja Guð um gott ferðaveður og fá þau svör að fari þeir verði bæði þeir og Egyptaland lagt í rúst.


Ekki það sem þeir vildu heyra:

Það sem þú segir er lygi. Það var ekki Drottinn, Guð vor, sem sendi þig með þessi boð: Nei, það var Barúk Neríason sem æsir þig upp gegn oss til þess að selja oss Kaldeum á vald... (43. 2–3)


Reyndar ganga þeir lengra og hefja tilbeiðslu á skúrgoðum sínum. Þegar Jeremía/Guð gera athugasemdir stendur ekki á svari:



Vér hlustum ekki á þennan boðskap sem þú hefur flutt oss i nafni Drottins. … Vér munum kveikja fórnareld fyrir drottningu himinsins og færa henni dreypifórnir. Það gerðum bæði vér og forfeður vorir, konungar vorir og höfðingjar í borgum Júda og á strætum Jerúsalem. Þá höfðum vér nóg til matar, oss farnaðist vel og vér þurftum ekki að þola neina ógæfu. En síðan vér hættum að kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir hefur oss skort allt og vér höfum farist fyrir sverði og úr hungri. (44. 16–18)


Og fóru þeir síðan til Egyptalands, Jeremía líka eins og Guð leggur fyrir hann. Allt fór sem spáð var.

Eitthvað er nú formið á þessari atburðakeðju kunnuglegt. Einhver varar við aðsteðjandi ógn og útskýrir hvað þurfi til að afstýra henni. Hann er hæddur og útskúfaður, ógnin dynur yfir og þegar þeir sem eftir standa ákveða að endurtaka leikinn og gera nákvæmlega það sama og olli „hruninu“ er aftur varað við. Og svörin: Við höfðum það svo gott þegar við gerðum svona – við viljum fá það aftur. Þegiðu leiðindapúki.

Bókinni lýkur síðan á spádómum um hvernig fer fyrir óvinaþjóðum Gyðinga og stuttum viðauka um herleiðinguna. Spádómarnir eru öllu svipminni en þeir hjá Jesaja, eða kannski bara of keimlíkir þeim til að vekja sérstakar hugsanir að þessu sinni.

Meðal Apókrífu bókanna eru tveir viðaukar við Jeremías:


Stutt og efnisrýr er Barúksbók og lítið um hana að segja. Þar er eftirlifandi íbúum Jerúsalem skipað að biðja fyrir Nebúkadnesari Babýlonskonungi og Baltasar syni hans, játa syndir sínar og biðja um miskunn. Einnig er þar að finna heldur andlausa vegsömun spekinnar sem stenst engan samanburð við fyrri spekirit. Þessir tveir hlutar vinna heldur ekkert sérlega vel saman.

Öðru máli gegnir um Bréf Jeremía, sem er reyndar enn styttra en frábær texti. Í bréfinu brýnir Jeremía fyrir Gyðingum í Babýlon að falla ekki fyrir skúrgoðum heimamanna.

Eitt grunnstef er endurtekið og útfært á ýmsa vegu: Hve fáránlegt er að tilbiðja manngerð líkneski sem eru smíðuð af dauðlegum mönnum og seld undir allt það hrjáir dauðlega, náttúrulega hluti: Það fellur á gyllingarnar, mölur étur klæðin, þau sem prestarnir ekki stela til að borga musterisskækjum næturgreiðann, þjófar ræna þeim og svo eru þau háð umhyggju klausturþjónanna um að losna við ryk og meindýr.

Hvernig geta svona hlálegir hlutir bænheyrt nokkurn mann?

Þessir gull- og silfurbúnu tréguðir Kaldea verja ekkert fremur en fuglahræða í melónugarði. (69)

Það er dásamlega háðskur tónn í bréfinu - sennilega fengi það fúslega birtingu á Vantrúarvefnum. Þar væri reyndar líklega einhver fljótur að benda á að þó líkneskjadýrkunin sé fáránleg styrkja röksemdirnar gegn henni svo sem ekki trúna á ósýnilegan Guð heldur.

Skiljanlega hugsar spámaður í stöðugu persónulegu talsambandi við viðkomandi almætti ekki út í það, þó reynslan ætti að hafa kennt honum hvað þeir sem ekki eru í þeirri stöðu eiga með að taka mark á vondum fréttum úr jafn fjarlægum stað.


* Já - hér fá tvær apókrífar bækur að fljóta með. Ég er búinn að vera í og úr með hvort ég tæki hinar huldu bækur með í þessum lestri. Var eiginlega búinn að ákveða að gera nokkrum þeirra skil (Makkabeabókum, Júditarbók og Síraksbók ef ég man rétt) þegar ég skyndilega ákvað að skipta yfir í nýju þýðinguna. Um leið og ég fékk hana í hendur sá ég að þar var aprókífan öll með. Sennilega er það til merkis um að ég sé á einhverfu- eða þráhyggjurófinu en þá er mér lífsins ómögulegt að hoppa yfir þessar síður úr því þær eru nú einusinni komnar í mínar hendur. Ég mun því lesa þær að loknu hinu óhulda Gamla testamenti, nema eins og núna þegar eitthvað telst viðauki við eitthvað sem ég er að lesa – þá fær það yfirhalningu samhliða. 


Engin ummæli: