8.21.2013

Daníelsbók – Bæn Asarja – Lofsöngur unglinganna – Súsanna – Bel og drekinn


Ljónið, kóngurinn og eldofninn

Textinn
Samanburður
Kynning

Daníelsbók er ein þeirra sem er fræg út fyrir raðir þeirra sem hafa helgi á Biblíunni. Held samt að hún sé ekki mikið lesin, enda verðskuldar hún það varla, jafn tætingsleg og skrítin sem hún er.

En samt: ungum manni, „fylltum hetjumóð“ er kastað í ljónagryfju en er óétinn daginn eftir. Þessa sögu þekkja allir – hún er eitt af því sem gerir Biblíuna að menningarverðmætum langt út fyrir raðir hinna trúuðu. Svo er reyndar fleira sem á uppruna sinn í Daníelsbók og er á allra vörum.

Hvernig sagan um Daníel og ljónin er nákvæmlega er síðan áhugavert út af fyrir sig. Og líka hvað felst í hinum umsungna hetjumóð hans. En nú erum við komin fram úr okkur.

Bókin skiptist snyrtilega í tvo hluta. Í þeim fyrri er sagt frá fjórum ungum Gyðingum sem eru meðal þeirra sem Nebúkadnesar lætur flytja til Babýlon í fyrstu bylgjunni eftir að hann leggur undir sig Júda. Hugmynd konungs er að gera úr þessum hópi hirð- og menntamenn sem læri mál og siði heimamanna.

Fjórmenningarnir byrja strax að vera með vesen í konungsgarði og neita að borða það kjötmeti sem fyrir þá er sett, enda ekki „kosher“. Eftir tíu daga mótmælasvelti eru hinir fjórir fræknu í betra ásigkomulagi en landar þeirra sem hafa graðgað í sig hirðkrásirnar og eru upp frá því á grænmetisfæði.

Fljótlega þrengist fókus bókarinnar utan um einn úr hópnum, titilpersónuna Daníel. Konung dreymir draum og fær þá hugmynd að biðja vitringa sína ekki bara um ráðningu, heldur eiga þeir líka að segja honum hvað hann dreymdi! Og að sjálfsögðu að viðlagri dauðarefsingu.

Það fer aðeins eftir hvernig á það er litið hvort þetta sé gamla Turandot-minnið, illur konungur með óleysanlega þraut og „cruel and unusual“ refsingu, eða alveg sérlega áhrifarík leið til að fá úr því skorið hvort vitringarnir og spámennirnir viti í raun lengra nefi sínu. Að sjálfsögðu ræður enginn við verkefnið nema Daníel – enda birtir Guð honum svarið „í nætursýn“ (2. 19). Og hlýtur hann mikinn heiður fyrir, og ferningin öll vegtyllur miklar.

Þess má geta í framhjáhlaupi að í draumi Nebúkadnesars er að finna uppruna orðatiltækisins „feet of clay“, sem á sér íslensku hliðstæðuna „standa á brauðfótum“. Biblíuþýðendurnir hafa hins vegar stillt sig um að elta þessa skemmtilegu staðreynd og láta líkneskið í draumnum fá brauð í stað leirs til að standa á. Því miður, liggur mér við að segja.

Daníel ræður seinna annan draum fyrir kóng. Sá kafli er lagður í munn Nebúkadnesari sjálfum, enda fjallar hann um þegar hans hátign missir glóruna um skeið og leggst á beit með nautgripum, að því er virðist í refsingarskyni fyrir syndir sínar. Draumurinn segir fyrir um þetta, en ekki tekst konungi að bæta ráð sitt og allt rætist.

Síðasta ráðningarverkefni Daníels er fyrir Belassar, arftaka Nebúkadnesar. Sá heldur svallveislu mikla og notar ílát úr musterinu í Jerúsalem undir drykkjarföngin. Guð hefur engan húmor fyrir svona og í miðju partíi birtist hendi sem skrifar ógnvekjandi skilaboð á hallarvegginn. Enginn getur ráðið í orðin: „Mene, tekel, peres“ nema Daníel, sem sér þau sem spá um að ríki Kaldea líði undir lok sakir guðlausrar framkomu Belassars. Héðan höfum við orðatiltækið „The writing on the wall“, sem á sér að ég held enga hliðstæðu hér hjá okkur.

Þó enginn standi Daníel á sporði í ráðningum (fyrr en á vorum dögum þegar Robert Langdon leysir jafnvel snúnustu þrautir frá Da Vinci og öðrum snillingum á nótæm) þá gengur nú ekki allt þýðasta gang í samskiptum þeirra félaga við yfirvaldið. Til þess eru þeir of réttrúaðir, hirðmennirnir of öfundsjúkir og konungarnir of glórulausir. Af slíku veseni eru tvær sögur í bókinni.

Í þeirri fyrri neita þremenningarnir, félagar Daníels, að tilbiðja líkneski sem Nebúkadnesar hefur látið gera og er þeim varpað í eldsofn. Allt kemur fyrir ekki, þeir ganga þaðan út aftur og ekki einu sinni sviðalykt af þeim. Konungur fyrirskipar í framhaldinu að Guð Gyðinga njóti virðingar í ríki sínu.

Sú síðari er síðan hin fræga frásögn af ljónagryfjunni. Þá er reyndar búið að skipta um karl í Babýlonbrúnni, Persar búnir að leggja undir sig veldið. Daríus hefur mætur á Daníel eins og forveri hans, en hirðmenn narra konung til að krefjast tilbeiðslu af þegnum sínum. Þegar Daníel neitar er honum kastað fyrir ljónin eins og hirðmennirnir voru búnir að fá kóng til að lögleiða.

Daríusi er þetta þvert um geð, en vilji hans er ekki æðri lögum í hinu siðmenntaða Persaveldi og gryfjan gleypir Daníel. Daginn eftir gægist hinn vansvefta konungur í gryfjuna (hann hafði vakað og beðið Guð að bjarga Daníel) og þar er Daníel við góða heilsu:

„Guð sendi engil sinn og hann lokaði gini ljónanna svo þau unnu mér ekkert mein. Gagnvart honum hef ég reynst saklaus og í engu hef ég brotið gegn þér, konungur“ (6. 23)

Það er náttúrulega ekki alveg rétt – Daníel braut jú lögin. En hinn káti Daríus er ekkert að hefta sig við það lengur. Þvert á móti:

En konungur bauð að mennirnir, sem höfðu rægt Daníel, yrðu sóttir og þeim, börnum þeirra og konum kastað í ljónagryfjuna. Og áður en þau kenndu botns í gryfjunni hremmdu ljónin þau og bruddu öll bein þeirra. (6. 25)

Nice.

Fyrri hluta bókarinnar lýkur svo á tilskipun Daríusar að þegnar hans skuli óttast og virða „Guð Daníels“.

Þetta eru mikil ævintýri og Daníel og félagar hinir vönduðustu menn. Einhvernvegin finnst manni nú samt „hetjumóður“ ekki alveg rétta orðið yfir mann sem er jafn viss í sinni trú og Daníel er. Af hverju ætti hann að óttast nokkuð? Styrkur hans kemur utanfrá, úr æðstu stöðum og hann veit það.

Um síðari hlutann er svo ekki margt skemmtilegt að segja. Þar hefur Daníel sjálfur orðið, eða „ég, Daníel“ eins og hann orðar það gjarnan. Hann lýsir sýnum sem honum hafa birst um framtíðina, bæði nálæga (meðan Ptólemear og Selevkídar berjast um landið helga, sem er ca. ritunartími Daníelsbókar) og hina fjarlægu – heimsslitum og nýrri veröld.

Fyrri hluti sýnanna er líkur draumum, eða vondum sýrutrippum í lélegum bíómyndum – þar berjast allskyns furuverur, ljón með arnarvængi, bjarndýr, vængjaður ferhöfðaður hlébarði með fuglsvængi og óskilgreint dýr sem fær þessa glæsilegu lýsingu:

 … hræðilegt, ógnvekjandi og afar máttugt. Það hafði járntennur og hámaði í sig og bruddi og traðkaði undir fótum það sem það leifði. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og var með tíu horn. 
Þegar  ég virti fyrir mér hornin sá ég annað horn og smærra spretta fram meðal þeirra og voru þrjú af fyrri hornunum rifin upp til að rýma fyrir því. Á þessu horni voru augu, lík mannsaaugum, og munnur sem mælti gífuryrði. (7. 7–8)

Flott dýr. Verst að Daníel skyldi ekki punkta hjá sér gífuryrðin.

Síðar birtist honum yfirnáttúrulegur maður sem fer yfir framtíðarhorfurnar með honum, að mestu án torskilinna líkinga. Miklar hörmungar eru framundan og fer nokkrum sögum af því hvenær þeim linnir. Tímaásinn í þessu öllu er nokkuð snúinn - en skýringu á torræðninni má kannski lesa út úr þessum fallegu orðum undir bókarlok:

En leyndu þessum orðum, Daníel, og innsiglaðu bókina þar til dregur að endalokum. Menn munu leita víða og skilningur þeirra mun aukast. (12. 4)

Það er mannkyninu ekki hollt að fá þekkinguna tilreidda á silfurfati. Það að „leita“ hefur gildi í sjálfu sér – jafnvel þó hægt væri að spara sér sporin ef okkur væri sagt frá niðurstöðunni. En það þarf líka að leita „víða“. Ekki bara með nefið ofan í spádómum og torráðum sýnum. Skilningurinn eykst við að hafa gott útsýni.

Það er gott að vita – svörin og skilningurinn fæst af víðsýni, ekki með nefið ofan í bókinni sem þó geymir svörin.

Apókrífu bækurnar geyma síðan nokkra viðaukatexta við Daníelsbók


Í Bæn Asarja  og Lofsöng unglinganna erum við stödd í eldofninum með þeim þremenningum Asarja, Hananja og Mísael. Bænin er falleg og einlæg. Asarja játar syndir sínar og þjóðarinnar og biður um miskunn. Sem fæst eins og fram hefur komið. Það kallar á lofsönginn þar sem hin ýmsu fyrirbæri náttúru og yfirnáttúru eru hvött til að syngja Guði lof.

Sagan af Súsönnu er hinsvegar lítil, snotur og alveg óyfirnáttúruleg glæpasaga með Daníel í hlutverki spæjarans. Þegar hin fagra Súsanna neitar að láta að vilja tveggja gamalla saurlífisseggja saka þeir hana um að hafa tekið framhjá bónda sínum með ungum fola. Lýðurinn er að safna saman grjóti til aftökunnar þegar Daníel finnur upp á því snjallræði að yfirheyra hin gröðu gamalmenni hvorn í sínu lagi. Þeir verða tvísaga og allt fer vel.

Bel og drekinn er svolítið villandi yfirskrift, enda eru þetta algerlega aðgreindar smásögur. Í sögunni af Bel kemur Daníel upp um útsmogna hofpresta samnefnds skúrgoðs sem laumast inn í musteri hans á næturnar og éta fórnargjafirnar. Konungur (Persinn Kýrus að þessu sinni) hugðist sanna fyrir Daníel að Bel væri raunverulegur guð, enda hyrfi allur matur sem lagður væri inn til líkneskisins. En með því að strá ösku á gólf hofsins sýnir Daníel fram á hvernig i öllu liggur. Prestarnir eru teknir af lífi og allir glaðir. Flestir.

Viðaukunum líkur síðan á bráðskemmtilegu tilbrigði við ljónasöguna. Hún hefst á einni af flottustu byrjunarsetningu Biblíunnar að mínu mati:

Í borginni var einnig dreki mikill sem Babýloníumenn tilbáðu. (23)

Kýrus reynir að fá Daníel til að gera slíkt hið sama, en Daníel býðst til að drepa drekann án vopna og sanna þannig að hann sé ekki tilbeiðsluverður. Konungur fellst á það. Ekki veit ég hvaðan Daníel hefur þetta húsráð:

Þá tók Daníel tjöru, tólg og hár sem hann sauð hvað með öðru og gerði kökur af. Stakk hann þeim í gin drekans sem át þær og sprakk. „Sjáið nú hvað það er sem þið tilbiðjið“, sagði Daníel. (27)

Brilljant!

Babýlóníumenn eru ekki sammála því og þröngva konungi til að framselja þeim Daníel og kasta honum í ljónagryfjuna.

Eins og við munum var það „engill Guðs“ sem lokaði ginum ljónanna í fyrri útgáfu sögunnar. Hér er eru öllu meiri tilþrif á ferð:

Þá var spámaðurinn Habbakuk á dögum í Júdeu. Hafði hann soðð súpu og lagt brauðmola í … þá sagði engill Drottins við Habbakuk: „Taktu þennan mat sem þú ert með og færðu hann Daníel sem er í ljónagryfjunni í Babýlon.“ En Habbakuk svaraði: Herra! Ég hef aldrei séð Babýlon og veit ekkert um gryfjuna.“ Þá greip engill Drottins í hvirfil hans, hóf hann upp á hárinu og þaut með hann á einu andartaki til Babýlonar og setti hann niður við gryfjuna. (33–36)

Habbakuk kemur matnum til Daníels, sem matast. Hvernig það hjálpar honum í glímu við ljónin er látið liggja milli hluta. Kannski vilja ljón ekki fólk sem er nýbúið að borða súpu. Allavega endar þetta eins og fyrr – konungur finnur Daníel óskaddaðan meðal ljónanna, frelsar hann og fóðrar dýrin á óvinum hans.

Þetta eru skrautlegar og ævintýralegar frásagnir. Daníel er mikið ofurmenni, einhverskonar blanda af Indiana Jones, Nostradamusi, Karli Blómkvist og Sæmundi fróða.

Á sýru.

Engin ummæli: