8.12.2013

Esekíel


Voru guðirnir geimfarar?

Textinn
Samanburður
Kynning

Esekíel fylgir að miklu leyti formi stóru spámannsritanna þriggja. Þar er hamrað á syndum og siðleysi lýðsins, refsingarnar tíundaðar, nágrönnunum spáð öllu illu og framtíðinni björtu þegar hinum syndugu hefur verið refsað.

Bókin sker sig samt um margt á afgerandi hátt frá hinum tveimur, og meira afgerandi en þær hvor frá hinni.

Það er til að mynda mun meira flug á Guði hér en í fyrri ritunum, bæði í stíl og svo bókstaflega. Flugtakið er strax í fyrsta kafla, þegar Guð birtist spámanni sínum í fyrsta sinn:


Þá sá ég hvassviðri koma úr norðri, mikið ský og eldglæringar. Um það lék ljómi og úr honum miðjum leiftraði sem af hvítagulli. Úr ljómanum miðjum birtist eitthvað sem líktist fjórum lifandi verum  … verurnar voru á að líta sem blossandi kolaglóð og minntu á kyndla og gengu leiftur á milli veranna … þegar ég horfði á verurnar sá ég eitt hjól á jörðinni við hliðina á hverri af verunum fjórum. … þau voru þannig gerð að eitt virtist vera innan í öðru. Hjólin gátu snúist í allar fjórar áttir án þess að breyta um stefnu þegar þau snerust. Á þeim voru hjólgjarðir og sá ég að allar fjórar voru alsettar augum allt um kring. … Yfir höfðum veranna var eitthvað sem líktist hellu og ljómaði eins og ógnvekjandi kristall ...  (1. 4-18)

Annað hvort hafði Erich Von Däniken rétt fyrir sér og Guðirnir voru geimfarar, eða Spielberg og kó í Sæfæbransanum hafa verið duglegir að lesa Biblíuna sína.

Guð ávarpar Esekíel úr hásæti sínu í farkostinum flotta, með orði sem aðeins einu sinni áður hefur sést í Biblíunni, í Jobsbók og þar sem háðsyrði, lítilsvirðingarorð:



Mannssonur.

Þannig ávarpar Guð Esekíel bókina á enda. Hann virðist svo sem ekkert meina það honum til minnkunnar, en fyrst í stað eru samskipti þeirra nú engu að síður með sterku yfirbragði niðurlægingar:



„Mannssonur, et að sem að þér er rétt. Et þessa bók og farðu síðan og ávarpaðu Ísraelsmenn.“ Þá opnaði ég munninn og hann fékk mér bókina að eta og sagði við mig: „Mannssonur, et bók þessa og láttu hana fylla magann.“ Þá át ég hana og hún var sæt sem hunang í munni mér. (3. 1-3)

Næst:

Farðu heim og lokaðu þig inni í húsi þínu. Þú, mannssonur, verður lagður í bönd og bundinn svo þú komist ekki út til þeirra. (3. 24-25)

Þetta hefur auðvitað allt yfir sér smá S/M áru, en svo bætist annað element við:

Mannssonur, taktu tígulstein, teiknaðu á hann borg, Jerúsalemborg. Gerðu umsátur um hana, reistu víggirðingar gegn henni og gerðu virki til árása á hana. Settu herbúðir gegnt henni og komdu múrbrjótnum fyrir. Taktu síðan járnpönnu og komdu henni fyrir eins og járnvegg milli þín og borgarinnar og snúðu andlitinu að henni. Þá eru hún umsetin og þú skalt sitja um hana. (4.1-3)

Og skömmu síðar:


Mannssonur, taktu þér hárbeitt sverð, … og rakaðu af þér bæði hár og skegg. Takt síðan vog og vigtaðu hárið. Þriðjung skaltu brenna á báli inni í borginni þegar umsáturstímanum er lokið. Annan þriðjung skaltu taka og höggva allt í kringum hann með sverðinu og þriðjungi skaltu dreifa fyrir vindinum og ég mun elta hann með brugðnu sverði. En þú skalt taka fáein hár og vefja þau inn í skikkjulaf þitt, en loks skaltu taka nokkur þeirra, fleygja þeim á eld og brenna þau upp. Þannig mun eldurinn breiðast út um allan Ísrael. (5. 1–4)

Smá galdrabragð af þessu, er það ekki? Meira samt The Witches of Eastwick en Harry Potter.

Þriðja elementið er síðan næstum sjamaískt:

Leggstu á vinstri hliðina og taktu á þig sekt Ísraels … Ég legg á þig að bera sekt Ísraelsmanna jafnmarga daga og árin sem þeir hafa syndgað gegn mér, eða þrjú hundruð og níutíu.
Að þeim dögum liðnum skaltu síðan leggjast á hægri hliðina. Þá skaltu bera sekt Júdamanna í fjörutíu daga … Þú skalt snúa andlitinu að hinni umsetnu Jerúsalem … Ég legg á þig bönd svo þú getir ekki snúið þér af annarri hliðinni á hina fyrr en umsáturstímanum er lokið. (4. 4–8)

Síðan fylgir uppskrift af ströngum matarkúr sem Esekíel skal nærast á þetta rúma ár sem hann skal liggja fjötraður. Og:

Þú skalt baka brauðið við mannasaur fyrir allra augum og neyta þess sem væri það byggbrauð. (4. 12)

Esekíel kvartar og segist aldrei hafa verið óhreinn eða neytt forboðins/óhreins matar.  Mannaskítnum er því skipt út fyrir húsdýratað. Segið svo að Guð sé ekki miskunnsamur.

Að þessari manndómsvígslu Esekíels afstaðinni byrjar hann að meðtaka orðið, milli þess og meðfram að hann hann er fluttur í farkostinum flotta hingað og þangað í tíma og rúmi, og sennilega stundum út úr báðum.

Orð Guðs við Esekíel er ef eitthvað er kjarnmeira en þegar hann talaði við forvera hans. Hafi Jeremía fengið að heyra talað um hórerí þá fékk hann nú ekki svona harðkjarnalýsingar:

En hún (Síon/Jerúsalem/útvalda þjóðin) jók ólifnað sinn og minntist æskuára sinna þegar hún stundaði ólifnað í Egyptalandi. Og hún tók að girnast ástmenn sína sem voru jafn hreðjamiklir og asnar og stóð sæðisgusan úr þeim sem úr stóðhestum. Þú saknaðir ólifnaðar æsku þinnar þegar menn þukluðu brjóst þín í Egyptalandi og gældu við meyjarbarm þinn. (23. 19–21)

Fyrir utan kynlífslýsingar er Guð Esekíels dálítið upptekinn af því að koma því á hreint að sá uppsker sem sáir. Syndir fólks bitna á þeim persónulega en ekki hans nánustu:

Sá maður sem syndgar skal deyja. Hvorki skal sonur taka á sig sekt föður síns né faðir taka á sig sekt sonar síns. Rétlæti réttláts manns skal tilreiknað honum sjálfum og ranglæti guðlauss mans skal koma niður á honum sjálfum. En snúi guðlaus maður frá öllum sínum syndum, haldi hann öll mín lög …. skal hann sannarlega lifa … en snúi réttlátur maður frá réttlæti sínu og fremji ranglæti … skal hann deyja. (18. 20–24]

Eitthvað gæti manni fundist þessi afstaða stangast á við það sem á undan er gengið, bæði hvernig þjóðin geldur fyrir uppátæki konunga sinna, og hvernig þeir hafa stundum verið náðaðir, og refsingu frestað um einn ættlegg (en ekki aflýst) hafi þeir sýnt einhvern bótavilja.

Og svo má nú velta fyrir sér hvort önnur eins heildsöluhefnd og Guð hefur hugsað sér núna muni láta nokkurn ósnortinn.

Hann á samt sín góðu móment. Þó að falsspámenn séu ekki í forgrunni hér eins og hjá Jeremía þá er hér samt að finna þessa skilmerkilegu greiningu á “spámannsvandanum”:

Landar þínir ræðast við um þig, upp við veggi og í húsdyrum, og segja hver við annan, hver maður við bróður sinn: Komið og heyrið orðið sem komið er frá Drottni. … Þeir hlusta á orð þín en fara ekki eftir þeim. En þegar það kemur fram sem þú hefur sagt, og það mun koma fram, skilja þeir að spámaður hefur verið á meðal þeirra. (33. 30–33)

eða með orðum Þórarins Eldjárns:



Uns örugg við okkur blasir
eftiráviskan spök.

Þá verður núið um nasir
og nöguð handarbök.

Reyndar er skoðunarvert við hverja Esekíel er látinn tala – nefnilega útlagasöfnuðinn í Babýlon, og um hvað – nefnilega yfirvofandi eyðingu Jerúsalem vegna syndar þeirra sem þar búa enn, frekar en það sem útlagarnir sjálfir gætu látið sér detta í hug að gera af sér.

Guð reynir óneitanlega dálítið á þol manns gagnvart ósanngirni í þessari bók. En hann kemur því vissulega mjög reglulega að hvað hann sé reiður.

Upptalningin á nágrönnum sem þarf að refsa fyrir að hafa framkvæmt vilja Guðs og níðst á hinum syndugu gyðingum er af hefðbundnu tagi. Þó vekur áherslan á Týrus athygli. Sú föníkíska hafnarborg hafði ekki fengið mikla athygli í nágrannabölbænum fyrri bóka, en hér fær hún heila þrjá kafla. Þar á meðal er talað um hana eins hún og konungur hennar hafi notið sérstakrar velvildar Guðs:

Þú varst fullkomleikinn sjálfur
fullur visku og fullkominn að fegurð.
Þú varst í Eden, garði Guðs,
þakin alls kyns dýrum steinum

‘Eg gerði þig verndarkerúb,
þú varst á heilögu fjalli guðanna,

Breytni þín var flekklaus
frá skömunardegi þinum
… (28. 12-15)

Til Fönikíumanna er sumt af gróteskari hjáguðadýrkuninni rakið. Í Jeremíabók er t.d. talað um að börnum hafi verið fórnað í eldi og sá siður rakinn til áhrifa Föníka í neðanmálsgrein.

Skrítið.

Einn magnaðasti kafli bókarinnar er svo þegar Guð flýgur með Esekíel í beinadalinn og lætur hann boða beinunum orðið sem lætur þau lifna við. Tákn um að Ísrael muni rísa úr sinni eymd og lifa að nýju.

Ísrael í gömlu merkingunni meira að segja, ættbálkarnir tólf. Ekki bara hið skárra Suðurríki.

Bókinni lýkur á vitrunum um það þrennt sem þarf til að allt geti orðið gott aftur.

Ritúal
Það væri örugglega forvitnilegt að bera helgisiðalýsinguna og réttindaskrá Levíta/presta í Esekíel saman við þá í þriðju Mósebók, en það væri líka pínu skrítin, jafnvel röng, notkun á orðinu “forvitnileg”. Í fljótu bragði er hún að minnsta kosti sömu ættar. Myndi giska á nýi siðurinn sé straumlínulöguð útgáfa þess eldri. Athygli vekur að hér er fórnum aftur gert hátt undir höfði, eftir að hafa hlotið heldur slæmt rykti hjá Jesaja og Jeremía.

Skipting landsins helga
Mig skortir líka þolinmæði til að bera landskiptingarkaflann hér saman við Jósúabók, en aftur virðist hann að forminu til samskonar. Athygli vekur að hér er gert ráð fyrir öllum ættbálkunum, ekki bara Suðurríkisættbálkunum Benjamín og Júda.

Og þó einkum: nýtt musteri
Eirmenni með mælistiku í yfirstærð sýnir Esekíel nákvæmlega (og ég meina nákvæmlega) hvernig musteri á að reisa þegar allt er fallið í hina ljúfu löð. Mér skilst af netgrúski (sem ég ákvað að nota í stað þess að bera sjálfur teikningarnar saman við þær í Samúelsbók) að hið nýja musteri sé ekki eins og það sem hermenn Nebúkadnesar lögðu í rúst og, merkilegt nokk, ekki heldur eins og það musteri sem endurreist var í Esrabók.

Af þessu hafa trúaðir dregið hinar stórkallalegustu ályktanir sem ég treysti mér hvorki til að tíunda né taka undir. En hér er hægt að fara í skoðunarferð um hið óbyggða hof í boði Jútjúbs frænda.

Ekkert örlar á neinum Messíasi í spádómum Ezekíels, en talsvert talað um „Landshöfðingja“, sem er nýtt starfsheiti í þessum fræðum. Borgin sem (endur)reisa skal þar sem Jerúsalem stóð á að heita „Drottinn er hér“.

Hún mun óreist enn.


Esekíel er einhver magnaðasti og dularfyllsti texti sem ég hef enn komist í tæri við í Góðu bókinni og þar sem ég er vel ríflega hálfnaður þá geri ég ráð fyrir að hún haldist í toppsætunum. Guð kannski ekki að spila sitt besta mót og bókin sem því nemur áhugaverðari.  Stóru spámannsritin eru öll stórmerkileg en í augnablikinu er þetta í uppáhaldi. Lér konungur Gamla testamentisins.

Engin ummæli: