6.06.2015

Jakobsbréf og Péturs

Fyrir hönd aðstandenda

Textinn (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)
Samanburður (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)
Kynning (Jakobsbréf, fyrra Pétursbréf, síðara Pétursbréf)

Þrjú bréf, eignuð (með mismikilli vissu) tveimur mönnum sem stóðu Kristi nær en flestir eða allir. Ekki er hann nú heilt yfir í aðalhlutverki frekar en fyrri daginn. Páll er með fjarvistarsönnun, en bróðir og besti vinur?

Hið almenna bréf Jakobs

Jakobsbréfið er kannski merkilegast fyrir höfund sinn. Jakob þessi er nefnilega hvorki meira né minna en bróðir Jesú. Eða hálfbróðir, væntanlega. Kannski skýrir það veru bréfsins í kanónunni, því ekki bætir það miklu við. Reyndar er sterkur gamaltestamenntisblær á því. Spakmælasafn eins og nokkur sem þar er að finna.

Enn vekur athygli fjarvera Krists úr textanum. Eins og Páll þá er eins og og Jakob hafi ekkert um orð hans að segja, vitnar ekki í hann, leggur ekki út af orðum hans eða túlkar dæmisögur eða athafnir. Páll var vissulega með „fjarvistarsönnun“, en hvað veldur þögn Jakobs?

Annars er Jakob mun meira umhugað um að menn láti trúna stýra verkum sínum en Páll. Það blandast ágætlega saman við hið klassíska minni fornra spekirita að skamma ríka og upphefja þá fátæku:

Hvað stoðar það, bræður mínir og systur, þótt einhver segist hafa trú en sýnir það eigi i verki? Mun trúin geta frelsað hann? Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og eitthvert ykkar segði við þau: „Farið í friði, vermið ykkur og mettið!“ en þið gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin. (2. 14–17)

Og Jakob sækir rökstuðning fyrir því að verk trompi trú aftur í fornöldina, en minnist ekki á bróður sinn í því samhengi:

Réttlættist ekki Abraham faðir okkar af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið? Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum. (2. 21–22)

og:

Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið? (2. 25)

Semsagt: meira að segja verk án trúar teljast til réttlætingar.

Innanum eru síðan spakleg mæli og forvitnilegar líkingar:

Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. Því að hlýði einhver á orðið án þess að fara eftir því er hann líkur manni er skoðar andlit sitt í spegli. Hann skoðar andlit sitt, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig það var. (1. 22–24)

og þessi ágæta brýning um að hafa taumhald á tungu sinni, mikilvægi þess og vandkvæði:

Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum. Ef við leggjum hestunum beisli í munn til þess að þeir hlýði okkur, þá getum við stýrt öllum líkama þeirra. Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill. Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. (3. 2–5)

Vel mælt.

Annars hvarflar athygli og umhugsun lesandans óneitanlega að bréfritaranum sjálfum. Bróðir Jesú? Hvernig ætli það hafi verið? Allavega er ljóst að ef maður ætti þess kost að eiga orðastað við Jakob væru fyrstu spurningarnar ekki um hvort trú dugi til réttlætingar, eða hversu mikilvægt sé að hlú að fátækum. Meira svona: Segðu mér frá barnæskunni.


Hin almennu bréf Péturs

Jakob Jósefsson er kannski Carl Wilson eða Marlon Jackson, eða í versta falli Lýður Ægisson Biblíunnar, en það kemur hinsvegar nokkuð á óvart að Símon Pétur skuli vera Barbara Cartland góðu bókarinnar. Eða þannig skil ég lokaorð fyrra Pétursbréfs:

Ég hef látið Silvanus, sem er trúr bróðir í mínum augum, skrifa þetta stutta bréf til þess að hvetja ykkur og vitna hátíðlega að þetta er hin sanna náð Guðs. (1. bréf, 5. 12)

Er alls ekki til í að sjá þetta öðruvísi fyrir mér en Pétur makindalegan í bleikum kufli, liggjandi á legubekk og lesandi fyrir að hætti Barböru.Og Silvanus með pennann á lofti að fanga gullkornin.

Reyndar er síðar Pétursbréf víst ekki lengur eignað honum, ekki frekar en við vitum með vissu hversu mikið ritarar ástarsögudrottningarinnar eiga í hennar verkum.

Það kveður við nokkuð annan tón í þessu bréfi. Hér er ekki í forgrunni þyrrkingsleg guðfræði Páls, né heldur Gamaltestamentisbölbænir Hebreabréfs og Jakobs. Ást á Kristi gegnsýrir textann, jafnvel svo að manni þykir nóg um:

Segið þvi skilið við alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal. Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ómenguðu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis, enda „hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.“ (1. bréf 2. 1–3)

Hinsvegar er hann á sama máli og Páll hvað varðar undirgefni við valdhafa, sem jafnvel þó hundheiðnir séu virðast vera á vegum Guðs:


Verið Drottins vegna hlýðin allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel. Því að það er vilji Guðs að þið þaggið niður í vanþekkingu heimskra manna með því að breyta vel.  (1. bréf 2. 13–15)

Vissulega er saga af því að Pétur hagi seglum eftir vindi í samskiptum við utantrúarfólk. Þó er alveg ljóst, eins og þá, af hverju mikilvægt er að hinir Kristnu ruggi bátnum ekki um of. Lái þeim hver sem vill.

Ekki það að ef hinir Guðs útvöldu heiðingjar ákveða að typta hina Kristnu þá hefur svoleiðis líka gildi:

Kristur leið líkamlega. Því skuluð þið búast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega er skilinn við synd, hann lætur mannlegar fýsnir ekki ná tökum á sér heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs. (1. bréf 4. 1–2, leturbreyting mín)

Ætli sjálfstyptarar klaustra og annarsstaðar hafi ekki lesið þennan bút af athygli og með hrollkenndri sælu.

Annað bréfið – þetta sem er ekki eftir Pétur – er stutt og ekkert sérlega bitastætt. Þó geymir það þennan einstaka bút:

Ekki þyrmdi Guð englunum er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella þar sem þeir eru geymdir til dómsins (2. bréf 2. 4)

Þetta er semsagt það eina sem finnst í Biblíunni um synduga engla og fall þeirra. Augljóslega er samt gengið út frá því að lesendur viti um hvað er verið að tala. Sem er auðvitað hálfu forvitnilegra. Vissulega er talað um fall Satans annarsstaðar í Biblíunni þá er hann ekki kallaður engill. Enda enginn engill.

Svo eru hér hressilegar formælingar gegn guðlausu fólki – og frumlegur tónn í þeim:

Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur. Þeir láta klingja innantóm diguryrði og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá sem eru í þann vegin að sleppa frá þeim sem ganga í villu. [...] Ef þeir, sem sluppu frá saurgun heimsins af því þeir þekktu Drottinn vorn og frelsara Jesú Krist, flækja sig í heimi að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. [...] Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: „Hundur snýr aftur til spýju sinnar,“ og: „Þvegið svín veltir sér í sama saur.“ (2. bréf 2. 17–22) 

Og svo þessi kunnuglegi frasi, sem hér gegnir því hlutverki að róa þá sem eru orðnir óþreyjufullir eftir að heimurinn farist, sem er eitt helsta erindi bréfsins samkvæmt inngangi:

En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. (2. bréf, 3. 8)

Þjóðlegt maður, þjóðlegt. Merkilegt að þolinmæði skuli ekki vera höfuðdyggð Íslendinga þrátt fyrir þessa brýningu Sankti Péturs og séra Matthíasar.

Engin ummæli: