5.31.2015

Bréfið til Hebrea

Tveirfyrireinn

Textinn
Samanburður
Kynning

Í fyrsta lagi: hvernig getur það verið að fólk hafi öldum saman trúað því að þetta bréf væri eftir Pál? Allt annar stíll, sem getur allsekki bara skýrst af því að markhópurinn er annar.

Talandi um stílinn þá las ég einhversstaðar að Hebreabréfið þætti einhverskonar meistarastykki á frummálinu. Þess sjást nú ekki skýr merki á íslenskunni, verður að segjast. Fyrir nú utan það hvað þetta virkar „gamaltestamentislega“ allt saman. En þá er kannski innihaldið að stýra upplifun manns. Eins og innihöld eiga auðvitað að gera.

Eins og títt er um bréf þá stjórnast innihaldið af  viðtakendum og því erindi sem bréfritari, hver sem hann nú er, á við hann.

Og ólíkt Páli, sem eyðir sínum helstu bréfum í að útskýra fyrir heiðingjum að þeir þurfi ekki að gerast Gyðingar til að verða Kristnir, þá er höfundur Hebreabréfsins að láta Gyðinga sem tekið hafa Kristna trú vita að þeir megi – eiginlega skuli – hætta að vera Gyðingar.

Til að sýna fram á þetta fer hann yfir gervalla sögu Gyðinga og dregur fram hliðstæður og andstæður eftir þörfum til að rökstyðja mál sitt.

Það verður að segjast eins og er að þegar maður stendur jafn langt frá markphópnum í tíma, rúmi, trú og menningu og raun ber vitni, þá þykja manni röksemdirnar talsvert langsóttar og ögn fjarstæðukenndar. Þannig fer hinn fyrirferðarmikli hluti, þar sem prestkonungnum Melkísedek í Salem er stillt upp gegn Aroni og levítaprestunum til að sannfæra Gyðinga um að þeim sé óhætt að hætta fórnfæringum sínum, eilítið fyrir ofan garð og neðan hjá manni í minni stöðu.

En það er semsagt aðalerindi bréfsins. Fórnir skulu aflagðar. Útkoman úr rökfærslunni er eftirfarandi:

Slíks æðsta prests höfðum við þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri. Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gerði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér. Lögmálið skipar breyska menn æðstu presta en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar æðsta prest sem er sonur, fullkominn að eilífu.  (7. 26–28)

Jesús er hinn nýi æðstiprestur og syndafórn um leið. Rosalegt kombó. Og pínu gróteskt, ef „pínu“ er rétta orðið:



Vegna þess að Jesús úthellti blói sínu megum við nú, systkyn, með djörfung ganga inn í hið heilaga. Þangað vígði hann okkur veginn, nýjan veg lífsins inn í gegnum fortjaldið sem er líkami hans. (10. 19–20)

Það er vissulega gaman að endurlifa Gamlatestamenntið með þessum vinkli. Höfundur Hebreabréfsins er vel verseraður og vitnar í Sálmana og spámennina máli sínu til stuðnings. Ágætis upprifjun líka á miskunnarleysi og þverúð Guðs á þessum fyrstu árum:



Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain af því að hann treysti Guði, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. (11. 4)

og

Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur eins og Esaú sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn. (12. 16)

Ef heimhver heildarmynd hefur orðið til hjá mér af lestri Biblíunnar þá er henni best lýst sem „þroskasögu Guðs“. Þarna var hann klárlega á barnsaldri og ekki byrjaður að taka rítalínið.

Þetta endurlit inn í harðýðgisstemmingu frumbýlingsáranna í samlífi Guðs og manns gerir Hebreabréfið dálítið ógeðfelldan lestur. Ekki síst þegar kemur á daginn að það má alveg eins skilja hinn nýja tíma sem uppskrift að enn strangari refsimenningu, þegar hið notarlega fórnarréttlæti er fyrir bí:



Því að ef við syndgum af ásettu ráði, eftir að hafa öðlast þekkingu á sannleikanum, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, heldur er það óttaleg bið eftir dómi og heitum eldi, sem eyða mun andstæðingum Guðs. Sá er að engu hefur lögmál Móse verður vægðarlaust líflátinn ef tveir eða þrír vottar bera. Hve miklu þyngri hegning ætlið þið þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fyrirlítur son Guðs og metur einskis blóðið, sem sáttmálinn var grundvallaður á og smánar anda náðarinnar?  Við þekkjum þann er sagt hefur: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda.“ Og á öðrum stað: „Drottinn mun dæma lýð sinn.“ Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs. (10. 26–30, leturbreyting mín)

Þessi bréfritari veit hvar takkarnir eru á viðtakendunum eru og hikar ekki við að ýta. Fast.

Að sjálfsögðu eru hér líka fallegir kaflar. Þetta er til dæmis ágætisupptalning á grunnatriðum kristindómsins undir því yfirskini að hún sé óþörf:

Þess vegna skulum við sleppa byrjendafræðslunni um Krist og snúa okkur að fræðslunni fyrir lengra komna. Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og að trúa á Guð og hverfa frá breytni sem leiðir til dauða, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm. (6. 1–2, leturbreyting mín)

Og þessi oftívitnaða skilgreining á hvað trú er stendur alltaf fyrir sínu:



Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. (11. 1)

Stórkostlegt. Amen.

Engin ummæli: