5.11.2015

Rómverjabréfið

Til þeirra er málið varðar

Textinn
Samanburður
Fræði

Á háskólaárum mínum tíðkaðist að heimspeki- og guðfræðinemar héldu svokallaðar  „samdrykkjur“. Þá hittist fólk yfir bjór, flutt voru framsöguerindi og málin rædd, með minnkandi rökvísi en vaxandi hávaða og (þegar best lét) skemmtanagildi eftir því sem á leið.

Mér er ein þeirra minnisstæð fyrir það að einn úr „okkar“ röðum gerði „andstæðingana“ alveg brjálaða með því að kalla guðfræði „isma í heimspeki“. Eftir á að hyggja skil ég ekki alveg fjaðrafokið, fyrir utan móðgununa sem má með góðum vilja fá út úr því að finna sig undirskipaðan þegar maður finnst sín fræði þau æðstu. Ekki held ég samt að heimspekingum finnist sérstök lítilsvirðing þegar þeirra grein er kölluð „þerna vísindanna“.

Hitt er annað mál að Biblían minnir að langstærstum hluta ekki vitund á heimspekirit. Aðeins örfáar bækur hennar bera á borð eitthvað sem mætti kalla kenningu og/eða speki.

Rómverjabréfið er ein þeirra.

Reyndar segir í inngangi bréfsins í nýjustu biblíuútgáfunni að „Hvergi hefur Páll gert fyllri grein fyrir kenningu sinni …“ Sem má örugglega til sanns vegar færa. Og mér finnst jafnframt ljóst að hér er orðið „kenning“ best skilið heimspekilegum skilningi.

Það er best að taka strax fram að því fer fjarri að ein yfirferð yfir þessa bók geri lesandanum kleyft að gera grein fyrir boðskap hennar og innihaldi. Þetta er nefnilega teóría, ekki saga eða lögfræði, eða staglkennd “speki”. Það hjálpar reyndar ekki að hún er dálítið mótsagnakennd við fyrstu sýn. En hér má vafalaust lengi lesa og greina til að átta sig á hvað hangir á spýtu þessa mikilvægasta höfundar hinna kristnu trúarbragða. Hér eru allavega fyrstu viðbrögð.

Kenning Páls hér er fyrst og fremst, og rækilega áhömruð, að trú á Jesú og upprisuna frelsi mann frá synd. Reyndar fer amk tvennum sögum af þessu í bréfinu. Fyrst er það:

Ekki munu menn réttlætast fyrir Guði með því að hlýða á lögmálið heldur verða þeir réttlættir sem breyta eftir því. (1. 13)

en skömmu síðar heitir það:

Enginn maður réttlætist fyrir Guði með verkum í hlýðni við lögmálið en lögmálið kennir hvað sé synd. (3. 19)

og loks, níu versum síðar:

Ég álít að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka. (3. 28)

Það er samt ekki endilega sanngjarnt að afskrifa guðfræðinginn/heimspekinginn Pál fyrir þessa að því er virðist hróplegu ósamkvæmni. Svipað er upp á teningnum í því sem haft er eftir sjálfum Kristi, þ.e. tvíbent afstaða til Lömálsins, þ.e. grundvallarsiðareglna Gyðingdóms.

Og erindi Páls í bréfinu til Rómarsöfnuðarins er jú að reyna að koma því heim og saman hvernig óumskorin allra þjóða kvikindi geti verið Kristin án þess að gerast um leið Gyðingar, sem er ekki í boði.

Útkoman er kannski ekki skotheld heimspeki en prýðileg trú. Er það ekki annars?

Það býr allavega eitthvað gott að baki þegar menn skrifa svona brýningu um almennilega framkomu:

Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.

Blessið þá, er ofsækja ykkur, blessið en bölvið þeim ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.“ En „ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu. (12. 9–21)

Undir þetta taka auðvitað allir góðir menn. Öllu verra er að sætta sig við þessa útlistun á Páli þóknanlegri afstöðu fólks til yfirvalda:

Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum sem yfir hann eru sett. Því engin væru yfirvöld ef Guð gæfi þau ekki. Þau sem eru til hefur Guð skipað. Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu veitir skipan Guðs mótstöðu og hlýtur að fá sinn dóm. Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdhafa, heldur sá sem vinnur vond verk. Viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöld skaltu gera það sem gott er, og þá færðu þeirra lof. Því að þau þjóna Guði þér til góðs. (13. 1–4)

Þetta, kæru lesendur, er svokallað kjaftæði. Ég tala nú ekki um að segja svona við kristna íbúa Rómarborgar á tímum Nerós. Skipuð af Guði, my ass.

Og talandi um kjaftæði, þegar kristnir hommahatarar vita til ritningarinnar máli sínu til stuðnings veifa þeir stundum 2. Mósebók, og fá þá í hausinn reductio ad absurdum andmæli þegar bent er á hliðstæð fyrirmæli Lögmálsins sem allir (þeir líka) eru sammála um að séu bull. Og síðan vitna þau í Fyrra Kórintubréf 6.9, þar sem talið er að Páll eigi við kynlífsþræla í heiðnum hofum og viðskiptavini þeirra. Í nýjustu þýðingunni er meira að segja búið að setja orðalagið „karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar“ í stað hins afdráttarlausa „kynvillingar“ í þeirri eldri. En ég fæ ekki betur séð en fordæmingin í upphafi Rómverjabréfsins sé hafin yfir alla PC-túlkun:

Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar. (1. 26–27)

Ekki mikið svigrúm til að skýra þetta burt, sýnist mér.

Það er margt gott um nýju útgáfuna/þýðinguna á biblíunni að segja. Þegar kemur fram í nýja testamentið og sérstaklega útleggingarhlutann þá finnst mér samt sú ákvörðun að hafa ekki vísanir í ritningargreinar sem talað er um óheppileg. Þær voru kannski full-fyrirferðarmiklar í síðustu útgáfu, en einhver millivegur hefði komið sér vel. Rómverjabréfið er t.d. útatað í vísunum í spámannsritin þegar Páll er að morfa gyðingdóm og kristni þannig að allir geti unað glaðir við.

Ég hef áður skrifað um hina skiljanlegu en örlítið pempíulegu ákvörðun útgefenda að „tvíkynja“ texta biblíunnar, nota „systkini“ eða „bræður og systur“ og viðeigandi persónufornöfn í stað hins karllæga frumtexta, sem og að minnka notkun orðsins „gyðingar“ á viðkvæmum stöðum í guðspjöllunum. Hér er Páll því látinn ávarpa Rómarkonur til jafns við -karla. Þetta truflar mig satt að segja ekkert, og neðanmáls er orðréttri þýðingu haldið til haga.

Öllu dularfyllri finnst mér önnur ákvörðun sem hér skýtur upp kollinum.

Ég veit að ekki býr neitt gott í mér, það er í spilltu eðli mínu. (7. 18)

Og

Sjálfshyggjan er dauði en hyggja andans líf og friður. Sjálfshyggjan er fjandsamleg Guði og lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki. Þau sem lúta eigin hag geta ekki þóknast Guði. (8. 6–8)

Feitletrun mín, og vísar í að orðrétt væri þýðingin „í holdi mínu“, „hyggja holdsins“ og „holdinu“. Þannig er þetta í síðstu þýðingu, og þannig er þetta rétt þýtt, um það virðist ekki deilt.

Ég er eiginlega pínu gáttaður á þessari breytingu – því ég skil hana ekki. Bræðra- og systrabreytingin stafar augljóslega af löngun til að gera bókina aðgengilegri konum og að fækka klifunum guðspjallamannsins Jóhannesar á orðinu „gyðingar” helgast af tilraun til að tóna niður sekt þeirra, eins augljós og hún þó er. Skiljanlegar ákvarðanir. En af hverju þetta? Þetta er mun heimspekilegri, guðfræðilegri breyting. Og sem því nemur vafasamari.

Við vitum auðvitað að við lifum á holdlegum tímum og mörgum er illa við að fundið sé að því. En getur það réttlætt svona breytingu? Og hver ætlar að halda því fram að feitletruðu orðin séu nothæf í þessu samhengi til að miðla því sem Páll vill segja, og formálinn segir vera hina fyllstu útlistun kenninga hans? Allavega rústar hún hinni skýru andstæðu holds og anda sem kaflinn annars hverfist um.

Þetta er eiginlega alveg glórulaust, séð héðan úr leikmannastúkunni..

Og fyrst við erum á annað borð komin í orðhenglana þá felli ég mig mjög illa við orðalagið „að réttlætast“ í samhenginu að mennirnir „réttlætist“ af trú eða verkum sínum eða fylgispekt við lögmálið, eða hvað það er.

Hvað þýðir þetta eiginlega? Þetta er einhver sérbiblíuleg notkun á orðinu, sem þýðir að það er illgerlegt að átta sig á hvað er átt við. Af samhenginu virðist þó verið að tala um samfélag við Drottinn eftir dauðann, jafnvel að þeim einum sem „réttlætast“ sé ætlað framhaldslíf. En orðsifjatengslin við bæði „réttlæti“, sem og þá algengu notkun á „að réttlæta“ að breiða yfir óréttlæti með orðhengilshætti og því að ljúga að sjálfum sér þvælist hér mjög fyrir. Þetta er afleitt orðalag og erfitt að skilja hversvegna ekki er hægt að koma meiningunni skýrar til skila.

En nóg komið af tuði.

Lokakaflinn bréfsins er mjög krúttlegur, þar sem Páll biður fyrir kveðjur til allra sem hann þekkir í borginni eilífu. Þetta er bréf, muniði. Hann gæti sem best tekið undir með öðrum meistara:

Heilsaðu öllum heima
sem þú heldur að gangist við mér.
Barnatrúnni er ég víst búinn að gleyma
en það bíður jú hver loks eftir sjálfum sér.

Engin ummæli: