5.21.2015

Bréf Páls til Galata-, Efesus-, Filippí- og Kólossumanna

I am the way!

Textinn: (Galata, Efesus, Filippí, Kólossu)
Samanburður (Galata, Efesus, Filippí, Kólossu)
Fræði (Galata, Efesus, Filippí, Kólossu)


Textar þeir sem við höfum og eignaðir eru Páli frá Tarsus eru allir af sama taginu: Bréf til tiltekinna söfnuða eða einstaklinga. Þeir eru ætlaðir fólki sem hann þekkir og/eða hann veit að eru vel heima í hugmyndum hans um merkingu lífs og dauða Krists og þýðingu þeirra fyrir mannkynið, ekki síst þá sem aðhylltust þessar hugmyndir.

Við heyrum Pál því aðeins „predika yfir kórnum“, ef svo má segja. Fyrir vikið er hér hvergi skýr og kerfisbundin framsetning hugmyndanna – útlistun þeirra fyrir þá sem eru ekki þegar sannfærðir.

Reyndar er einn sterkasti þráðurinn sá að „endursannfæra“ þá sem Páll hefur frétt að séu á villigötum, en því miður að mestu án þess að hann geri grein fyrir í hverju villurnar séu fólgnar, og án þess að hans eigin hugmyndir séu ítrekaðar nema í algerum grundvallaratriðum.

Mest er þetta á forminu: „Ég hef heyrt að þið séuð að hlusta á einhverja vitleysinga. Hættiði því og munið hvað ég sagð ykkur. Það er allt rétt, Jesú birtist mér og sagði mér það sjálfur.“

Annar fyrirferðarmikill þráður, bæði í þeim bréfum sem ég þef þegar skrifað um og þeim sem hér eru til umræðu er réttlæting þess að heiðingjar, ekki-gyðingar, óumskornir, geti og eigi að gerast kristnir, en þurfi samt sem áður ekki að gerast gyðingar – þurfi hvorki að leggjast undir lögmálið né hnífinn.

Sá þriðji er síðan brýningar um skikkanlega hegðun og að temja sér hina ýmsu mannkosti. Þessir kaflar eru gjarnan aftarlega í bréfunum og þarna fer mælskumaðurinn Páll oft á miklum kostum. Það er líka þessi Páll sem helst fer fram með eitthvað sem okkur þykir hæpið í dag.

Stundum tekur hann reyndar fram að hann hafi svo sem ekkert guðlegt kennivald um veraldlega hluti.

Almennt verður þetta nú smám saman kunnuglegt eftir því sem fleiri bréf eru lesin. Þá staldrar lesandinn kannski helst við það sem er óvenjulegt, eða sýnir nýjan vinkil.


Galata

Hér er umskurnarþráhyggjan í nokkrum forgrunni, sem og aðrar hliðar á stöðu kristinna manna af heiðnum uppruna, og hvernig trúin er komin í stað lögmálsins. Og Páll er svo sannarlega viss í sinni sök:

En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það sem ég hef boðað ykkur, þá sé hann bölvaður. Eins og ég hef áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar ykkur annað fagnaðarerindi en það, sem það hafið numið þá sé hann bölvaður. (1.8–9)

Það fer minna fyrir rökstuðningi fyrir hinu eina sanna fagnaðarerindi. Enda kannski ekki sérlega rökstyðjanleg hugmynd, þessi með að trú á að Kristur sé Guðs sonur og trú á hann muni frelsa þann sem hana játar. Maður verður einfaldlega bara að taka hana trúanlega, ef svo má segja. Nema maður sé til í að líta á svona glæsilega bókmenntagreiningu sem röksemdafærslu:



Segið mér, þið sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þið ekki hvað lögmálið segir? Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni. Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti. Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar; en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum. En Jerúsalem,  sem er í hæðum, er frjáls og hún er móðir vor, því að ritað er:

Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! 
Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! 
Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri 
en hinnar, sem manninn á. 

En þér, bræður mínir og systur, eruð börn Guðs eins og Ísak af því að hann gaf fyrirheit um ykkur. En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú. En hvað segir ritningin? 
„Rek burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar.“ Þess vegna, bræður mínr og systur, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.  (4. 21–31)

Flott. Og allir kannast við hvað það er kitlandi tilfinning að sjá sig sem (mikilvægan) þátttakanda í stóru drama.

Gaman hefði samt verið að fá aðeins meiri útlistun á hverjar hinar hættulegu rangtúlkanir eru.


Efesus

Ekki veit ég hvort það skiptir miklu máli um innihald bréfsins, en það skrifar Páll úr fangelsi, eða kannski öllu heldur varðhaldi, sem hann var hnepptur í að undirlagi sinna fyrrum bandamanna í Faríseaflokknum.

Einhvernvegin virðist Páli takast að hafa eitthvað í hverri bók sem gersamlega gengur fram af manni. Í bréfinu til Efesusmanna er það þetta:



Hugsun þeirra [heiðingjanna, innskot mitt] er allslaus, skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í og síns harða hjarta.  Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi. (4. 17–19, mínar leturbreytingar)

Það dugar ekkert minna. þeir sem ekki eru á bandi Páls eru ófærir um að hugsa, skilja ekki neitt og hafa ekki tilfinningar. Sennilega alveg á mörkum þess að teljast hryggdýr.

Já og svo þetta:



Þrælar, hlýðið jarðneskum húsbændum ykkar með lotningu og ótta af einlægni hjartans, eins og það væri Kristur. (6. 5)

Páll beinir nokkrum sinnum orðum sínum til þræla og þá einatt í þessum tón. Hef ekki heyrt neinn af þeim sem sækja visku um almenna hegðun og viðhorf til veraldlegra mála í bréfin halda þessari speki á lofti.

Ég reyni almennt að hafa lesaugun opin þegar talað er um yfirnáttúrulegar verur aðrar en heilaga þrenningu. Um þetta eru merkilega fá dæmi í bókinni góðu. Stundum er reyndar óljóst hvort aðrir guðir en Guð séu til eða ekki, og svo loftið þykkt af illum öndum í guðspjöllunum. En hér er nýr fýr kynntur til sögunnar – eða kannski gamall undir nýju tignarheiti:



Þið voruð dauð vegna afbrota ykkar og synda, sem þið lifðuð í áður samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú verkar í þeim, sem ekki trúa. Eins lifðum við öll fyrrum, lutum  jarðbundnum girndum, gerðum að sem okkur lysti og refsidómur Guðs vofði yfir okkur eins og öðrum mönnum (2. 1–3, leturbreytingar mínar)

og aftur



Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem vér eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. (6. 10–12, leturbreytingar mínar)

Hér er mjög sterk sannfæring fyrir að djöfullinn sé raunverulegur, og raunverulegur mótherji Guðs og Krists og kristinna, birtist í öllu atferli heiðingjanna og búi á himnum.

Að lokum skulum við gleðjast yfir þessari skrautlegu grein:



Sérhver okkar þáði af Kristi sína náðargjöf. Því segir ritningin: „Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir.“ En „steig upp“, hvað merkir það annað en að hann hafi einnig stigið niður í undirdjúp jarðarinnar? Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fullna allt. (4. 7–10)

Það er ekki mjög oft sem Páll vitnar í ritninguna, og stundum finnast þeir staðir sem hann vitnar í hvergi. Hér er hann hinsvegar með 68. Davíðssálm í huga, en þar segir í 19. versi:



Þú steigst upp til hæða
hafðir á burtu bandingja
tókst við gjöfum frá mönnum
jafnvel uppreisnarmönnum.

Close enough, þó Páll víxli reyndar gefanda og þiggjanda. Sælir eru báðir. En átt- og rökvísinni í seinni hlutanum geta allir dáðst að.


Filippí

„Bréf gleðinnar“ segir inngangur útgefanda að Filippíbréfið sé kallað. Ég er að hugsa um að kalla það „biskupsbréfið“ eða þá „djáknabréfið“, en hér koma þessi tvö starfsheiti fyrir í fyrsta sinn að því ég best fæ séð. Það er sumsé komin kirkja í Filippíuborg. Sem auðvitað er gleðiefni.

Verra samt að hún virðist vera á villigötum. Allavega segir inngangurinn að bréfið snúist um að leiðrétta „villukenningar“, m.a. um „fortilveru Krists“. Nú er alveg vitað og viðurkennt að hugmyndir um þetta mál voru mjög á reiki og liðu aldir þar til einhverskonar almenn sátt myndaðist í málinu. En gott að það sé á hreinu frá sjónarhóli útgefanda að þetta sé svona klippt og skorið.

Páll leggur sumsstaðar áherslu á að kristnir menn eigi að sjá fyrirmynd í Kristi. Að mörgu leyti geta fleiri en kristnir tekið undir það – jafnvel guðlausir húmanistar geta ýmislegt sótt til bæði orða og gerða meistarans. Það þarf samt að passa sig á á eigna honum ekki allar dygðir:

Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. 

Hann var í Guðs mynd. 
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. 
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd 
og varð mönnum líkur. 
Hann kom fram sem maður, 
lægði sjálfan sig 
og varð hlýðinn allt til dauða, 
já, dauðans á krossi. (2. 5–8, leturbreyting mín)

Mikið er setningin „hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur“ falleg. En „hlýðinn“?! Really? Talandi um villukenningar.

Að lokum skulum við, eins og Páll, minnast þeirra Evódíu og Sýntýke.

Ég áminni Evodíu og Sýntýke að vera samlyndar vegna Drottins. Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins, ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, og standa nöfn þeirra í lífsins bók. (4. 2–3)

Gaman að vitnisburði um að konur hafi a.m.k. í upphafi mátt láta í sér heyra. Verst að þær virðast komnar í hár saman. En gott að þeirra gamla vopnabróður skuli þykja ómaksins vert að segja þeim að hætta þessu veseni þar sem hann situr í fangaklefa sínum og heimurinn um það bil að líða undir lok.


Kólossu


Svosem ekki mikið um þetta bréf að segja sem ekki hefur þegar verið sagt um önnur. Sama uppbygging, sami boðskapur og áþekkt orðalag.

Hér er þó gaman að sjá að Páll sér ekkert að því að hinir kristnu létti sér lífið svona stundum og skelli skollaeyrum við vandlæturum úr eigin röðum:



Enginn skyldi því dæma ykkur fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. Slíkt er aðeins skuggi þess, sem koma átti. Veruleikinn er Kristur. Látið þá ekki taka af ykkur hnossið sem stærast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í sjálfshyggju í stað þess að halda sér við hann sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og tengir hann saman með taugum og böndum, svo að hann vex eins og Guð vill.
Fyrst þið dóuð með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þið ykkur þá eins og þið lifðuð lífi þessa heims og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi: „Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á“? – Allt mun þetta þó eyðast við notkun! – mannaboðorð og mannasetningar! Þó hefur þetta að sönnu orð á sér sem speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann. En gildi hefur það ekkert, fullnægir aðeins eigin hvötum. (2. 16–23)

Púrítanar og sjálfstyptarar allra tíma hafa líklega hoppað yfir þessi orð frjálslynda postulans.





Engin ummæli: