5.27.2015

Títusar- og Fílemonsbréf


Páll gamli allur

Textinn (Títus, Fílemon)
Samanburður (Títus, Fílemon)
Kynning (Títus, Fílemon)

Tvö síðustu bréf Páls eru örstutt. Ekki það að þetta séu síðustu bréfin sem hann skrifaði, heldur bréfin sem kanónustjórar Nýja testamentisins hafa sett aftast, mögulega einmitt af því að þau eru svona stutt.

Þó grunnerindi Páls sé yfirleitt það sama þá er alltaf eitthvað sem fangar auga hins nýjungagjarna og gleður þann sem er að lesa þetta í einni beit, sem eðli máls samkvæmt var aldrei ætlun höfundar.

Títusarbréfið

Tvennt finnst mér umtalsvert í þessu stutta stálstöppunarbréfi til Títusar Krítarbiskups. Annað tengist skrítlu úr heimspekináminu, nefnilega hinni frægu „Lygaraþverstæðu“ sem gjarnan er rakin til krítverska sjáandans Epímendeasar og staðhæfingar hans um að „allir Krítverjar séu lygarar“. Það er vafalaust hann sem Páll er að tala um hér og færir mögulega í stílinn:



Einn landi þeirra, þeirra eigin spámaður, sagði: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar.“
Þarna er þeim rétt lýst. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir hljóti heilbrigða trú og gefi sig ekki að bábiljum Gyðinga og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum. (1. 12–13)

Mikið var gaman að rekast á tilvísun í þessa sögu hér. Nú er bara að koma hinu stórkostlega skammaryrði „letimagi“ í almenna umferð og þá hefur þessi þeysireið um Ritninguna ekki verið til einskis.

Svo þarf líka að veifa hinum flottu skrauthvörfum „fráhverfur sannleikanum“, t.d. í hinu pólitíska argaþrasi, eða þegar einhver heldur því fram að Stóns séu betri en Bítlarnir.

Og aftur kemur bullið úr Gyðingum við sögu, hér kallað „bábiljur“, en var áður „ævintýri“, líkt og í fyrra Tímóteusarbréfi 1.4. Páll er mögulega verið að tala um, eins og svo oft áður, „villu“kenningar um að hin nýja trú sé einfaldlega tilbrigði við Gyðingdóm og hinir nýkristnu þurfi að gangast undir sáttmálann með tilheyrandi mataræðisþrengingum og typpasnippi. En þetta orðalag, sérstaklega orðin „ævintýri“ og „ættartölur“ (1Tim 1.4) vekur vangaveltur um að eitthvað annað/fleira hangi á spýtunni. En hvað? Vitum það ekki.

Hitt sem ég stoppaði við var enn ein upptalningin, að þessu sinni þessar ágætu siðareglur fyrir aldraða:



En tala þú það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu. Aldraðir karlmenn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu. 
Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttum sínum eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur vera öðrum til fyrirmyndar  til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum eftirlátar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt. (2. 1–5)

Lítið stuð á DAL (Dvalarheimili aldraðra letimaga) í Heraklion. Ekkert bús, ekkert sex og engar kjaftasögur.

Samt: skírlífar OG eiginmönnum sínum eftirlátar? Reyndar stóð þarna „undirgefnar“ í eldri þýðingu, sem í samhenginu væri kannski betra, – PC-deildin í þýðendateyminu aðeins að fara fram úr sér hérna.


Fílemonsbréfið

Bréfið til Fílemons Kólossubiskups er bæði stutt og óvenjulegt. Í því er bara eitt erindi. Að biðja biskupinn að fara vel með bréfberann.

Það er nefnilega þannig að pósturinn Onesímus er eigu Fílemons, en er búinn að vera með Páli um hríð og er þeim greinilega mjög hugþekkur. Og nú langar Páli að Fílemon gefi honum frelsi. Býðst meira að segja til að borga ef Fílemon telur þess þurfa.

Reyndar er allt bréfið gegnstílað af orðum um ánauð, bandingja, fanga og þræla. Enda er Páll í tukhúsinu þegar það er skrifað, fyrir utan að vera „bandingi Krists Jesú“ eins og hann orðar það í upphafi bréfsins. Flott og gegnumfært stílbragð.

En allavega, hann langar til að Onesímus fái frelsi. Það er nú fallega hugsað af Páli. Ekki finnst mér textinn þó styðja á óyggjandi hátt þá skoðun inngangsritara að Onesímus sé strokuþræll. Enn síður þykir mér hægt að fullyrða neitt um að hér komi eitthvað meira fram um safnaðarlíf en annarsstaðar í bréfum þessum. Þvert á móti, mætti segja, svo mjög sem öll önnur bréf eru undirlögð af fyrirmælum um hegðun safnaðarmeðlima og hvatningu til öldunga um að framfylgja þeim.

Þetta er þvert á móti prívatmál, þar sem tveir valdamiklir menn hlutast til um eign annars þeirra. Ekkert sérkristið við það. Eða er eitthvað sem bendir til að félagslegur hreyfanleiki þrældómsfólks sé meiri vegna Páls og Kristninnar en hann var í hinum heiðna heimi? Ekki á þessum vitnisburði.

Og varðandi þrælahald þá tekur Páll hvað eftir annað á sig krók til að hvetja þræla til að vera húsbændum sínum undirgefnir, líkir stöðu þeirra jafnvel við samband manns og guðs.

Það er auðvitað auðvelt að skilja hvað honum gengur til – áhugaleysi Páls um að rugga samfélagsbátnum stendur vafalaust í beinu sambandi við þá trú hans að endalokin væru í nánd.

Það virðist vera mat hans – vafalaust rétt – að mál Onesímusar eitt og sér hrófli þar ekki við neinu, og því óhætt að biðja honum frelsisgriða meðan öðrum skuli haldið haldið innan helsisins þar til frelsarinn mikli snýr aftur.


Að Páli lesnum 

Þarmeð er lokið yfirferð minni yfir bréf Páls. Næsta bréf, Hebreabréfið, var lengi talið hans verk, en flestir nú sammála um að svo sé ekki. Síðan koma þeir í beinni röð; Jakob, Pétur, Jóhannes og Júdas (no relation).

Allir geta hlýtt á og tekið mark á siðaboðandanum Páli. Líka þeir sem ekki skrifa undir grunnstoðir hugmynda hans; að trú á Krist og upprisuna frelsi menn og tryggi þeim eilífa sælu að heiminum loknum, og að heimsslitin séu á næsta leyti. Áhugaleysi hans um að bæta samfélag manna almennt er skiljanlegt í þessu samhengi, sem og hans helsta verkefnis – að afla liðsmanna í kristna söfnuði í löndunum norðan og austan Miðjarðarhafs.

Ég hef áður drepið á afleiðingar þess að þessir lykiltextar kristninnar eru bréf, skrifuð til tiltekins hóps í ákveðnum afmörkuðum tilgangi. Það þýðir bæði ákveðna endurtekningu, sem og að kerfisbundin framsetning kenninganna er ekki á dagskrá. Páll þarf bara að skerpa á kenningum sem allir þekkja þegar, einkum þegar hann grunar að menn séu að linast í trúnni.

Guðspjöllin eru ekki heldur neinir sérstakir skýrleikstextar, en þetta tvennt hefur gefið hinni kristnu menntastétt eitthvað að rífast um æ síðan.

Eitt finnst mér merkilegt og ætla að hafa lokaorð um Pálsbréfin. Í þeim örlar varla á útleggingum á orðum eða athöfnum aðalpersónu kristninnar. Páll vitnar sárasjaldan í orð Jesú, talar ekkert um athafnir hans, fæðingargoðsögnin virðist honum ókunnug. Hann túlkar ekki dæmisögurnar (sem þó væri engin vanþörf á) og virðist heilt yfir ekki hafa áhuga á neinu nema upprisunni. Samt var hann í sambandi við Pétur og fleiri lærisveina, sem fylgdu Jesú vissulega eftir allan hans feril, námu vísdóm af vörum hans og horfðu á kraftaverk stór og smá. Allt þetta virðist gleymt, eða í það minnsta ekki í frásögur færandi.

1 ummæli:

Hjalti sagði...

>Samt: skírlífar OG eiginmönnum sínum eftirlátar? Reyndar stóð þarna „undirgefnar“ í eldri þýðingu, sem í samhenginu væri kannski betra, – PC-deildin í þýðendateyminu aðeins að fara fram úr sér hérna.

Heldur betur. Nokkrum versum áður er nákvæmlega sama sögn notuð um þræla og eigenda þeirra. Þeir eru enn "undirgefnir" en ekki "eftirlátir" í nýju þýðingunni.