5.25.2015

Þessalóníku- og Tímóteusarbréf

I've got a little list ...

Textinn (Þessalóníka 1, Þessalóníka 2, Tímóteus 1, Tímóteus 2)
Samanburður (Þessalóníka 1, Þessalóníka 2, Tímóteus 1, Tímóteus 2)
Kynning (Þessalóníka 1, Þessalóníka 2, Tímóteus 1, Tímóteus 2)

Tvö bréfapör frá sitthvorum enda starfsævi Páls á hinum kristna akri. Þau bera þess auðvitað merki, og svo skiptir líka máli að þau síðari eru einkabréf, en hin fyrri ekki. Þar er reynt að svara guðfræðilegum spurningum, í þeim síðari er fyrst og fremst verið að stappa stáli í mikilvægan leiðtoga og fyrirmynd söfnuðar sem er í grundvallaraatriðum með teóríuna á hreinu.

Í upphafi fyrra Þessalóníkubréfs minnir Páll okkur enn á hvað hann getur verið góður í því sem hann gerir:

Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist. (1. 3, leturbreyting mín)

Þetta er alltsvo orðalagið á eldri þýðingu - endurskoðendurnir hafa því miður kreist allan safa úr þessum fögru orðum.

Þetta er hins vegar fallega gert, þó ég kunni vel við sjaldhafnarorðið “langlyndi” sem stóð í stað “þolinmæði” fyrir 2011:

Ég hvet ykkur systkin: Vandið um við iðjulausa, hughreystið ístöðulitla, takið að yður óstyrka, verið þolinmóð við alla. (5. 14, leturbreyting mín)

Páll fer almennt mjög vel með þetta upptalningastílbragð, og beitir því reyndar óspart og oft snilldarlega. Svolítið eins og AC/DC hugsar sinn stílsmáta, ef eitthvað virkar þá er um að gera að hamra á því og hætta aldrei.

Annars er erindi fyrra Þessalóníkubréfsins ekki síst að fyrirbyggja smá misskilning. Nefnilega þann að þeir sem hrökkva upp af áður en heimurinn ferst hafi mögulega keypt köttinn í sekknum með að gerast kristnir, og muni missa af hinni eilífu veislu. Kannast ekki allir við þessa tilfinningu? Ekki? Allavega, það er ekkert að óttast.

Ekki vil ég, systkyn, láta ykkur vera ókunnugt um þau, sem sofnuð eru, til þess að þið séuð ekki hrygg eins og hin, sem ekki eiga von. Því að ef við trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þau, sem sofnuð eru. 
Því að það segi ég ykkur, og það er orð Drottins, að við, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en þau sem sofnuð eru. Þegar Guð skipar fyrir, þegar raust erkiengilsins kveður við og básúna Guðs hljómar mun sjálfur Drottinn stíga niður af himni og þau sem dóu í trú á Krist munu fyrst upp rísa. Þá munum við sem eftir lifum verða hrifin burt ásamt þeim í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum við vera með Drottni alla tíma.  (4. 13–17)

Þá vitum við það. Það skiptir máli við lestur bréfa Páls, og reyndar guðspjallanna líka, að hin boðuðu endalok heimsins, uppgjörið og réttarhöldin, eru yfirvofandi – það er verið að tala við fólk sem mun lifa þessa atburði. Sú staðreynd að þetta hefur ekki gengið þannig fyrir sig hefur örugglega litað skilning fólks sem vill lifa eftir þessum kenningum, stýrt því hvað ber að taka bókstaflega, og átt sinn þátt í að búa til það svigrúm að ekki skuli taka allt bókstaflega.

Í síðara Þessalóníkubréfinu staldraði ég við annað þema sem lestur nýja testamenntisins kveikir:

Ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður lögleysisins, komi fram, sonur glötunarinnar, sem setur sig á móti Guði og hreykir sér yfir allt sem heitir Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði. 
Minnist þið ekki þess, að ég sagði ykkur þetta meðan ég var enn þá hjá ykkur? Þið vitið hvað aftrar honum nú. Hann á að bíða síns tíma. Því leyndardómur lögleysisins er þegar farið að starfa en fyrst verður að ryðja þeim burt sem stendur í vegi. Þá mun lögleysinginn opinberast en Drottinn Jesús mun koma og birtast, tortíma honum með anda munns síns og gera hann að engu. Þegar Lögleysinginn kemur er Satan að verki með alls kyns furðuverkum, lygatáknum, undrum og með alls konar ranglætisvélum sem blekkja þau sem eru á glötunarleið. Þau glatast af því að þau vildu ekki þiggja kærleikann til sannleikans svo að þau mættu verða hólpin. Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þau trúi lyginni. Þannig verða þau öll dæmd, sem trúðu ekki kærleikanum, en höfðu velþóknun á ranglætinu. (2. 3–12, leturbreyting mín)

Það er þessi hugsun um að hið illa sé í senn andstæðingur (sem er orðrétt þýðing hebreska orðsins “Satan”) og afl á vegum Guðs til að reyna hina veiklunduðu. Freistingarnar virðast stundum vera á hans vegum, og jafnvel nauðsynlegar til að vilji hans geti orðið. Ekki ósvipað skítverkinu sem Júdas, Pílatus og valdaklíka Gyðinga þurftu að vinna til að fórnardauði Krists gæti átt sér stað.

Það er þessi tvöfalda sýn sem upplifist utan frá eins og mótsögn og rökleysa. Ef saga mannkyns er drama samið af almáttugum skapara sem enn heldur í alla spotta, þá er bæði óréttlátt að refsa þeim sem hann kýs að hafa með svarta hatta, og þó sérstaklega þegar það er eins og svarthattagengið gegni mikilsverðu hlutverki í sögunni - hún óhugsandi (eða allavega óþolandi leiðinleg) án þess.

Og engar helvítis afætur takk:

Ég heyri, að nokkur meðal yðar slæpast og vasast í því sem þeim kemur ekki við. Slíkum mönnum býð ég og áminni vegna Drottins Jesú Krists að vinna kyrrlátlega og sjá fyrir sér sjálfir. (3. 11–12)

Þetta hefði Lóan hans Þorsteins Eggertssonar, afskiptakrákan sú, ekki orðað betur. Tökum samt eftir því að þarna sleppa endurskoðendurnir að hafa konurnar með í áminningarorðum Páls.

Já og svo eiga allir/öll að ganga í takt:

En þið, systkin, þreytist aldrei gott að gjöra. En ef einhver hlýðir ekki orðum mínum í bréfi þessu, þá takið eftir þeim manni [Í fyrri þýðingu: merkið yður þann mann, sem er flottara]. Slítið samneyti við hann, þá kann hann blygðast sín. En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður eða systur. (3. 11–13)


Tímóteus

Bréfin til Tímoóteusar eru fremst í stuttri röð einkabréfa Páls til nafngreindra samverkamanna sinna. Þau eru svo sem ekkert eðlisólík safnaðarbréfunum, svipað form og sami penni. Þó er örlítið léttari tónn í þeim og svo bregður fyrir svona skemmtilegum “mannlegum” smáatriðum sem einmitt rata einatt í prívatpóst:

Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar. (Seinna bréf 4. 13)

Annars er Páll eins og vant er með áhyggjur af hreinleika kenningarinnar:

Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með villukenningar og gefa sig ekki að kynjasögum og endalausum ættartölum er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs. (Fyrra bréf, 1. 3–4, leturbreyting mín)

Kynjasögur og endalausar ættartölur? Ágætis undirtitill á sumar bækur Gamlatestamentisins. Já og auðvitað Íslendingasögurnar. Í eldri þýðingu voru það reyndar „ævintýri“, sem er alls ekki síðra.

Páll er flinkur að vinna með eigin status í þessum textum. Sveiflast punkta á milli frá því að vera aumastur allra, ekkert nema auðmýktin og feimnin, yfir í að vera sá sem valdið hefur, í það minnsta tilvísunarvald:

Henni [trúnni, innskot mitt] hafa sumir hafnað og liðið skipbrot á trú sinni. Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.  (Fyrra bréf 1. 19–20, leturbreyting mín)

Og auðvitað eru upptalningar. Hér er t.d. ein úr þriðja kafla fyrra Tímóteusarbréfs þar sem tilgreindar eru hæfniskröfur fyrir biskupsembætti. Biskup þarf að vera:


  • Óaðfinnanlegur
  • Einkvæntur
  • Bindindissamur
  • Hóglátur
  • Háttprúður
  • Gestrisinn
  • Góður fræðari
  • Ekki drykkfelldur 
  • Ekki ofsafenginn
  • Gæfur
  • Ekki deilugjarn
  • Ekki fégjarn
  • Veitir góða forstöðu heimili sínu 
  • Halda börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði 
  • Ekki vera nýr í trúnni
  • Hafa góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan 


Ég skrifa og/eða editera stundum atvinnuauglýsingar. Þær eru flestar nákvæmlega svona, að viðbættum kröfum um að vera góður í ensku og Excel.

Og hér er önnur krassandi úr því seinna:

En það skalt þú vita að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Forðastu þá. (Síðara bréf 3. 1–5)

Svona pakk verður sko aldrei biskup!

Áherslan í síðara bréfinu er annars mest á að stappa stálinu í Tímóteus, já og leggja honum og söfnuðinum nokkrar lífsreglur í leiðinni.

Slúttum þessari lesskýrslu með kostulegum kafla úr því fyrra um hvernig á að koma fram við ekkjur, en þó einkum um hvernig á að greina þær frá öðrum konum:

Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur. En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er Guði þóknanlegt. 
Sú sem er ekkja í raun og veru og á engan að festir von sína á Guð og ákallar hann stöðugt og biður nótt og dag. En hin bílífa er lifandi dauð. 
Brýn þetta fyrir þeim til þess að þær sæti engu ámæli. 
En ef einhver sér ekki fyrir skylduliði sínu, sérstaklega sínum nánustu, þá hefur hún afneitað trúnni og er verri en vantrúuð. 
Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk. 
En tak ekki ungar ekkjur á skrá. Þegar þær hvatir véla þær frá Kristi vilja þær giftast og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit. Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala. 
Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi andstæðingnum ekkert tilefni til ills umtals. Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan. (Fyrra bréf, 5. 3–15, leturbreyting mín)

Dásamleg blanda af skynsemi, manngæsku og almennu glóruleysi. Ætli embættismenn ESB í Brüssel hefðu gert þetta öllu betur?

PS: Ú á trúvillinga!

1 ummæli:

Hjalti sagði...

Mér fyndist gaman að fá að heyra "krúttguðfræðinga" útskýra hvernig sú hugmynd að guðinn þeirra sé vísvitandi að blekkja fólk passi við hugmyndir þeirra um að hann sé góður og vilji vera vinur allra. :)

Man ekki hvort þú hafir minnst á það áður, en það náttúrulega talið afar ólíklegt að Páll hafi skrifað Tímóteusarbréfin, þannig að kannski ætti "Páll" að vera í gæsalöppum þegar þú talar um höfundinn. ;)