6.18.2015

Opinberunarbókin

Það bjargast ekki neitt ...

Textinn
Samanburður
Kynning

Biblían hefst á sköpun heimsins og lýkur á heimsendi. En ekki hvað? Opinberunarbókin greinir frá stórfenglegri skoðunarferð sem engill á vegum Guðs og Krists bjóða höfundi hennar í um fortíð, nútíð og þá nánustu framtíð sem markar endalok tímans og endursköpun heimsins eftir dóminn þar sem mannkynið verður flokkað í hina blessuðu og þá bölvuðu. Reyndar er stundum látið að því liggja að þessi flokkun sé fyrirfram ákveðin, en við skulum ekki hengja okkur í þá þrætubók alla, látum Votta Jehóva um það. Hér er margt að skoða og dást að.

Þetta er frábær texti. Vissulega mjög „biblískur“ en talsvert betri en mjög margt annað í bókinni góðu, sem ekki er nú öll sérlega rishá, verður að segjast. En þessi er flott. Líka upphafskaflinn sem efnislega greinir sig ekki nema í smáatriðum frá öðrum „eftirkriststextum“. Hér er trúarstálinu stappað í sjö asíska söfnuði og þeim gefin loforð. Eins og bréfritarar undangenginna kafla hafa keppst við að gera. Bara ekki eins vel.

Forvitni vekja tvö smáatriði – aðallega af því að á þeim finn ég ekki skýringar.

Annarsvegar aðvaranir vegna „Nikólíta“ sem bréfritari hatar og virðast herja á trúaða í Efesus og Pergamos. Ekki er vitað með vissu hvað þessi villutrúarsöfnuður vann sér til óhelgi, en síðari tíma spekingar töldu/giskuðu m.a. á sifjaspell og stóðlífi, en líka á torskilda trúvillu sem kallast „antinómíanismi“ og tengist afstöðu til róta siðlegrar breytni og mikilvægis hennar fyrir frelsun/réttlætingu. Og virðist í fljótu bragði vera nokkuð meinstrím ef hortft er með mínum leikmannsaugum. En postularnir eru reyndar svo margsaga um það mál að ég nenni ekki að opna þá þrætubók.

Hinsvegar þessar skrítnu samstofna setningar í orðsendingunum til Smyrnu og Fíladelfíu:


Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim sem segja sjálfa sig vera Gyðinga en eru það ekki, heldur samkunda Satans (2. 9)

og

Ég skal láta lygarana af samkundu Satans, sem segjast vera Gyðingar en eru það ekki,  koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig. (3. 9)

Í fyrsta lagi: Gyðingar? Þetta eru skilaboð til kristinna söfnuða í Litlu-Asíu, sem fæstir eru sennilega af gyðinglegum uppruna, heldur „sóknarbörn“ Páls úr heiðingjasamfélögunum. Og fólk sem þykist vera Gyðingar – „gervigyðingar“? Hvað skyldi það nú vera fyrir nokkuð? Allavega eitthvað ógurlega slæmt. „Samkunda Satans“, no less.

Reyndar þykir mér hin gyðinglega nálægð í bréfum þeirra sem ekki eru Páll vera mun meiri en ég hefði fyrirfram búist við. Skilin þarna á milli óskýrari, mótsagnarkenndari en þó um fram allt teygjanlegri en ég hafði talið eftir hinn afdráttarlitla andsemitisma guðspjallanna. En vissulega er svolítið eins og þeir textar séu fornkirkjufeðrunum ekki gjörkunnir, eins og ég hef áður minnst á..

Nóg um það.

Þó þessi upphafskafli sé flottur þá er það fyrst þegar sýnirnar byrja sem Jóhannes fer á flug. Við verðum samt að byrja á að skoða hver opinberar hverjum hvað. Hér er ættartala upplifunarinnar:



Opinberun Jesú Krists sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum, sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá. Sæll er sá er les þessi spádómsorð, og sælir eru þeir sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað því að tíminn er í nánd. (1. 1–3)

Sæll er sá sem hendir reiður á til hvers persónufornafnið „hann“ vísar í hvert sinn í þessum texta og hver sýnir hverjum hvað og á hvers vegum. Hvað þá hversvegna. En það skiptir samt minnstu máli. Myndin er að byrja.

Og sú er mögnuð. Og hefur orðið efni í ótal aðrar af öllu tagi og í öllum formum. Og, það verður að segjast, sækir óspart í Jesaja, Esekíel og Daníel í skrímslasmíð sinni.

Allskonar aðöðruleyti sæmilega útlítandi verur sitja uppi með sjö augu og/eða höfuð. Og/eða höfuðskraut. Allt í þágu tölspekinnar.

Ah, tölspekin.

Í lestri Opinberunarbókarinnar opinberast ekki síst þörf okkar fyrir merkingu. Tölur hafa merkingu, sjö og tólf sérstaklega, og margfeldi þeirra. Og svo erum við viss um að við séum ekki bara að skapa merkingu með lestri og túlkun, heldur sé hin dulda merking í alvörunni þarna, sett þar af höfundinum og/eða þeim sem sýndi honum sýnirnar.

Ég nenni ekki svona táknakjaftæði. Mér finnst alveg sniðugt að ef maður gefur bókstöfum tölugildi (væntanlega á grísku, eða þá hebresku) þá sé grískt nafn Nerós, „Neron Caesar“ samasem 666. En mér finnst líka sniðugt að 666 er fjarlægðin milli Vopnafjaðar og Borgarness, og Reykjahlíðar og Ísafjarðar. Í kílómetrum. Guð veit hvaða fjarlægðir eru 666 mílur. Eða þingmannaleiðir. Eða desilítrar. Eða hvað Judas Priest syngur afturábak. Og ég meina “Guð veit” alveg bókstaflega.

Mér finnst þetta ekki sérlega skemmtilegur samkvæmisleikur. Aðallega get ég ekki litið á þetta sem annað en samkvæmisleik.

Það leikur enginn vafi á því að Opinberunarbókin er dulsaga, en ekki bara spennanndi ævintýri með skrímslum og svoleiðis. Og það er vonlaust annað en að trúa því að „söguþráðurinn“ sé svona glórulaus, endurtekningarsamur og höktandi af því að allt sem sagt er frá stendur fyrir eitthvað sem þegar hefur gerst – misrökvís atburðarás sem þarf að fylgja svona nokkurnvegin með tilheyrandi kenjum. Ef við skiljum þetta ekki þannig er framvindan bara of skrítin, og ekki samboðin jafn flinkum sögumanni og Jóhannes hefur augljóslega verið.

Og þegar klárlega er horft fram í tímann – eftir að Satan, Gog og Magog hefja sína lokaorrustu við hin góðu öfl – verður framvindan alveg rökvís, skýr og vel fram sett.

En bætir hún einhverju við? Er ekki löngu ljóst í guðspjöllum og bréfum, Gamlatestamenntisspádómunum þess vegna, að Messías mun snúa aftur – fólki kynslóðanna verður skipt í hina verðugu og óverðugu og dæmt eftir því? Hefur nokkur málsmetandi umboðsmaður Guðs legið á þeim fréttum að svona verður þetta? Þeim mun skrítnara að það þurfi að pakka öllu inn í svona mikið dulmál, þar sem menn giftast borgum sem kannski eru konur og öðrum verður eytt af því að þær eru of graðar og nota of mikið ilmvatn.


Ef hinir almáttugu eru að sýna einhverjum útvöldum mannkynssöguna í nútíð og framtíð þá á ég mjög erfitt með að skilja af hverju er ekki hægt að gera það bara, án milligöngu básúna, rauðra dreka og Babýlonshóra sem kannski eru Rómaborg.

Allavega hefur þetta gefið upp boltann fyrir rugludalla síðustu 2000 ára eða svo, sem og búið til nokkur þúsund ára skekkjumörk á hvenær hinir boðuðu atburðir verða.

En mögnuð bók.

Eins og skáldið sagði: „Full of Sound and Fury.“

2 ummæli:

Hjalti sagði...

>Og það er vonlaust annað en að trúa því að „söguþráðurinn“ sé svona glórulaus, endurtekningarsamur og höktandi af því að allt sem sagt er frá stendur fyrir eitthvað sem þegar hefur gerst....

Ég skil þetta ekki alveg hjá þér. Opinberunarbókin fjallar að miklu leyti um væntanlegan heimsendi og þær ævintýralegu hörmungar sem eiga að gerast þá. Það er ekki eitthvað sem "þegar hefur gerst".

Varríus sagði...

Neinei, en samkvæmt þeirri túlkun sem ég kíkti í þá vísar megnið af sýnunum í það sem áður hefur gerst. Og þó það sé kannski ekki hin eina rétta túlkun þá finnst mér hún ganga best upp í þessum skrítilegheitum.