9.06.2005

1. Mósebók


Textinn
Samanburður
Kynning


Þetta er engin smá bók! Hún er reyndar ekki ýkja löng, en það gerist hinsvegar eitt og annað. Sköpun heimsins. Syndafallið. Kain og Abel. Nóaflóðið. Babelsturninn. Eyðing Sódómu og Gómórru. Abraham og Ísak. Jakob og Esaú. Jakob glímir við Guð. Jósep og draumar Faraós.

Þetta er móðir allra sögubóka.

Eins og oft með fornar svoleiðis bækur þá er gjarnan farið hratt yfir sögu þegar merkustu atburðirnir gerast, en staldrað við og greint í löngu máli frá smáatriðum og hlutum sem síðari tíma fólki finnst kannski ekki skipta miklu máli. Svolítið eins og Íslendingasögurnar, með sínum fáorðu lýsingum af stórviðburðum og lotulöngu ættartölum og lagaþrætum. Þó auðvitað séu það Sögurnar sem eru mótaðar eftir Biblíunni en ekki öfugt.

Og það þarf engan að undra að ýmislegt er mótsagnarkennt, ruglingslegt og útúrdúrasamt. Þetta er gömul bók og hefur vitaskuld ratað í ýmsar raunir á ferð sinni inn í prentsmiðjur nútímans.

Í bókinni sjáum við menningu verða til. Eða réttara sagt, sjáum það ekki. Nói fórnar brennifórn þegar flóðið sjatnar. Aldrei fáum við að vita hvernig sá siður komst á. Við fáum líka smámsaman innsýn í siðferði þessa fólks, hvað því finnst skipta máli. Við fáum að vita að frumburðir hafa rétt umfram aðra, konur eru keyptar og seldar, þrælar sömuleiðis. Þetta er fjölkvænissamfélag þar sem börnum er bölvað fyrir að koma að föður sínum nöktum og brennivínsdauðum.

Hvernig þetta skipulag hefur komist á kemur ekki fram, það er svolítið eins og náttúrulögmál. Sem það er ekki. Á hinn bóginn eru vissar siðvenjur raktar beint til Guðs, til sáttmála sem hann gerir við mennina. Fyrst við Nóa, um að ekki skuli etið ket sem blóð er í, síðan við Abraham um að karlmenn skuli umskornir. Þetta er auðvitað frekar dularfullt fyrir okkur.

Samband söguhetjanna við Guð skipar stóran sess í bókinni. Guð er mjög nálægur, talar við fólkið, gerir samninga, leiðir menn áfram. Hann setur ekki lög í þessari bók, það kemur síðar. Jú, eina reglu setur hann snemma í bókinni, en hún er umsvifalaust brotin. Síðan reynir hann aðrar leiðir til að ala mannkynið upp. Í Nóaflóðinu er eins og hann langi að byrja upp á nýtt, út frá einu vel heppnuðu eintaki innan um allan lýðinn. Svolítið erfðafræðileg nálgun. En fljótlega eftir það fer hann að fara samningaleiðina. Lofar landi, ríkidæmi og langlífi ættar Abrahams gegn því að mennirnir gjöri vilja hans. Ýmsar sögur fara af því hvernig fer fyrir þeim sem ekki fara að þeim vilja. Sögur eru hinsvegar sérlega varasamar til að draga almennar ályktanir af. Sérstaklega jafn gamlar og skrítnar sögur og hér eru á ferðinni.

En það er svo sannarlega gert. Áhugasamir gætu t.d. kíkt á þessar útleggingar á hverjum kafla Biblíunnar. Heldur þykir mér hér langt seilst stundum í að lesa lærdóma í orðin. Eins og ég sagði í innganginum í gær þá eru menn fljótir að missa sjónar af því hvað þeir sjá í textanum og hvað þeir koma með sjálfir.

1. Mósebók er mögnuð bók. Dularfull, framandi, en samt svo stútfull af viðburðum, persónum, minnum og lærdómum sem eru í stöðugri endurvinnslu hjá okkur. Því vekur það sérstaka ánægju að rekast á mergjaða kafla sem ekki er haldið á lofti. Eins og til dæmis 34. kafli, þar sem synir Jakobs semja um það við íbúa Síkemborgar að þeir láti umskerast svo þjóðirnar geti sameinast og sótt sér kvonfang úr röðum hvorrar annarar. En meðan hinir nýskornu liggja og jafna sig eftir aðgerðina fara tveir af Jakobssonum um borgina með sverð sín og drepa þá alla, en hneppa konur og börn í þrældóm. Engum sögum fer af því hvað Guði þótti um þær aðfarir, nema að það urðu engin eftirmál. Förum samt varlega í að draga almennar ályktanir af því og vaða um ganga sjúkrahúsanna með eggvopn.

En sagan er góð. Hryllileg en samt pínulítið fyndin (Biblían með Tarantino-augum).

Og þó hér sé sagt frá miklum tíðindum, sköpun heimsins og tilurð þjóðar, þá eru líka unaðslegar litlar myndir sem gera þessar fjarlægu ofurhetjur svo mannlegar:
Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons. Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.
IM 26 35-35
Eiginkonur hafa greinilega lengi farið í taugarnar á tengdaforeldrum sínum, ekki síst þegar kolbítar eins og Esaú ganga loxins út.

Látum það verða lokaorð í þessum fyrsta biblíupistli Varríusar.

ATH. Þessi pistill birtist einnig á Varríusi sjálfum Þar eru einnig komment við hann.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er stórskemmtilegur texti hjá þér. Sjálfur er ég guðfræðimenntaður og þekki því nokkuð vel til Biblíunnar. Af öllum bókum hennar er fyrsta Mósebók mitt uppáhald. Eins og þú segir er hún svo mikill grunnur menningar okkar. Þarna er nánast allt sem listamenn hafa verið að fást við í gegnum aldirnar. Ég vona bara að þú gefist ekki upp í 3-4 Mósebók. Þær eru frekar leiðinlegar. Ef þér finnst þú vera að gefast upp mæli ég með því að þú verðir þér út um upplestur á bókunum og hlustir á þær meðan þú tekur til. Þannig komst ég í gegnum þær. :-)

Varríus sagði...

Takk fyrir það. Það sem er svo magnað við texta eins og 3. mósebók er að velta fyrir sér af hverju einhverjum þótti ómaksins vert að skrifa þetta niður og hafa á því helgi. Svolítið eins og að gefa gæðahandbók Sláturfélags Suðurlands út fólki til upplýsingar og innblásturs.

En ég mun ekki gefast upp!

Nafnlaus sagði...

23.9. 2005. Sæll, Þorgeir Varríus. Já, þetta er bara með nokkuð fersku yfirbragði hjá þér, léttur texti og liðugur, þó sennilega mótaður af ýmsum fyrirframforsendum nútíma-veraldarhyggju. En gangi þér vel í glímunni. Ég er guðfræðingur eins og Þorkell og ætla að líta á hina Mósebókarpistlana þína, þegar tími verður til. Gæti sagt sitthvað um þennan, en verð að láta eitt nægja: Frásögn þín úr 34. kaflanum, af meðferð Jakobssona á íbúum Síkemborgar, geldur þess að sönnu, að þú setur lesandann ekki inn í aðdraganda þeirra blóðugu atburða. Dóttir Jakobs, Dana, hafði verið verið svívirt (fengin til legorðs) af manni, sem hét Síkem, og það litu bæður hennar á sem “óhæfuverk í Ísrael”. Hvernig sem við lítum á það, þá voru þeir a.m.k. bálreiðir, jafnvel þótt faðir Síkems byði miklar bætur, friðarbandalag og umskurð eigin manna. En grimmilegar hefndir og svik af hálfu Jakobssona (sem Jakob sjálfur harmaði, I. Mós. 34.30) er alls ekki eitthvað, sem Biblían boði sem eðlilegan hlut eða til eftirbreytni fyrir aðra. Þetta virðist bara eitthvað, sem gerðist, og “óguðfræðilegur” tilgangur kaflans – m.ö.o. að hann þjóni ekki sem siðakenning – sýnir bara betur, að þetta sé líklega sannferðugt sagnaminni: að svona hafi hlutirnir gerzt. Biblían er ekkert að fela það, að Guðs eigin lýður hafi margsinnis brotið gegn siðaboðum hans. Hún er ekki aðeins Guðs orð, heldur líka frásögn af mönnum með mannlega bresti. Þetta er þannig vitnisburður um það, hvað þessir menn hugsuðu og gerðu, hvað bar við í hjálpræðissögu Ísraels, sbr. það sem ég segi um annað síkt mál í hinu fyrsta af mörgum innleggjum mínum á vefsíðuna http://www.vantru.is/2005/09/19/00.00/ (sem fjallar einmitt um Biblíuna, túlkun hennar o.m.fl.). – Gangi þér allt til góðs, Varríus.

Gummi Erlings sagði...

Veit að þetta komment kemur nú fullseint (þó ekki sé meira sagt), en varð bara. Það fyrsta sem vakti athygli mína þegar ég gluggaði í 1. Mósebók er hversu mikill stíllegur (og efnislegur) munur er á 1. kafla og upphafi þess 2. og restinni. Þessi blábyrjun er einhver fallegasti texti sem sést hefur, nánast settur upp sem ljóð með hendingum og endurtekningum. Og óvenju jafnréttissinnaður, skrifarinn sá: "Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.". Næstu kaflar, um Adam og Evu, með sínu rifbeini og öllu því, eru allt annars eðlis, bæði stíllega og efnislega. Eins og seinni skrifarar hafi fundist þetta of næs eitthvað og fundið sig knúna til að leiðrétta og bæta við þessa sögu.

Gummi Erlings sagði...

Veit að þetta komment kemur nú fullseint (þó ekki sé meira sagt), en varð bara. Það fyrsta sem vakti athygli mína þegar ég gluggaði í 1. Mósebók er hversu mikill stíllegur (og efnislegur) munur er á 1. kafla og upphafi þess 2. og restinni. Þessi blábyrjun er einhver fallegasti texti sem sést hefur, nánast settur upp sem ljóð með hendingum og endurtekningum. Og óvenju jafnréttissinnaður, skrifarinn sá: "Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.". Næstu kaflar, um Adam og Evu, með sínu rifbeini og öllu því, eru allt annars eðlis, bæði stíllega og efnislega. Eins og seinni skrifarar hafi fundist þetta of næs eitthvað og fundið sig knúna til að leiðrétta og bæta við þessa sögu.

Gummi Erlings sagði...

Veit að þetta komment kemur nú fullseint (þó ekki sé meira sagt), en varð bara. Það fyrsta sem vakti athygli mína þegar ég gluggaði í 1. Mósebók er hversu mikill stíllegur (og efnislegur) munur er á 1. kafla og upphafi þess 2. og restinni. Þessi blábyrjun er einhver fallegasti texti sem sést hefur, nánast settur upp sem ljóð með hendingum og endurtekningum. Og óvenju jafnréttissinnaður, skrifarinn sá: "Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.". Næstu kaflar, um Adam og Evu, með sínu rifbeini og öllu því, eru allt annars eðlis, bæði stíllega og efnislega. Eins og seinni skrifarar hafi fundist þetta of næs eitthvað og fundið sig knúna til að leiðrétta og bæta við þessa sögu.